Sunnudagur 12.4.2015 - 19:24 - FB ummæli ()

Reykjavíkurflugvöllur-lokaútkall

Nú má segja að það líði að lokaútkalli varðandi Reykjavíkurflugvelli því á morgun hefjast framkvæmdir við Hlíðarendasvæðinu.  Ég er afar hrygg yfir því að að þetta þýðingarmikla mál er komið í þessa stöðu sem mun þýða m.a að neyðarbrautin þarf að víkja. Þetta eru afskaplega rangar áherslur í íslensku þjóðfélagi sem verður að leiðrétta. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja og taka upp þetta stóra mál á Alþingi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.4.2015 - 21:46 - FB ummæli ()

Fullveldisgjöfin

Árið 2018 fagnar íslenska þjóðin 100 ára afmæli eins mikilvægasta atburðar í sögu lands og þjóðar, fullveldisins, sem við hlutum loks 1. desember 1918. Fullveldið er okkur afar dýrmætt og mikilvægt að minnast þess að í kjölfarið tókum við stökk fram á við í átt til betri lífskjara sem er saga 20. aldarinnar fyrir okkur Íslendinga. Og sér ekki fyrir endann á. Ein forsenda þessara miklu framfara er án vafa sú staðreynd að við Íslendingar urðum fullvalda þjóð og gátum ráðið okkar málum sjálf, ekki síst þeim sem mestu skiptu hvað varðar verðmætasköpun og lífskjör.

Nú styttist í 100 ára fullveldisafmælið og hugmyndir eru uppi um að þjóðin gefi sér rausnarlega gjöf á þessum merku tímamótum. Rætt hefur verið um Hús íslenskra fræða sem heppilega gjöf en með því húsi kæmust handritin okkar í sómasamlegt athvarf. Það er góð hugmynd. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru handritin einstök menningarleg verðmæti á heimsmælikvarða og öruggt er að þessi ótrúlegu skinnblöð munu verða eftirsótt af erlendum ferðamönnum en ekki síður okkur Íslendingum. Nú liggja handritin „fjarri“ okkur í lokuðum hirslum. Aðrar framkomnar hugmyndir eru síðri, svo sem viðbygging við Alþingi og hótelbygging á Þingvöllum. Hugsanlega þarfar framkvæmdir í framtíðinni, en núna er ekki tíminn.

Langbesta gjöfin sem þjóðin getur gefið sér í tilefni fullveldisafmælisins er hinn nýi hátæknispítali sem reisa á við Hringbraut. Ég get ekki hugsað mér gjöf sem væri meiri þjóðargjöf og mun koma hverri einustu fjölskyldu í landinu til góða. Öll eigum við börn, foreldra, systkini, vini, frændur eða vinnufélaga sem þurfa og munu þurfa á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á þegar eitthvað bjátar á með heilsuna. Það þekkir hver maður hvernig allt annað hverfur í skuggann og verður hjóm þegar veikindi koma upp.
Sjúkrahús sem þjóðargjöf á fullveldisafmælinu árið 2018 myndi auk þess vera glæsilegur minnisvarði um þau gildi sem við Íslendingar höfum í hávegum í okkar samfélagi og hvernig samfélag við höfum náð að byggja upp á fullveldistímanum. Stökkið úr fátækt til bjargálna var stórt á tuttugustu öldinni. Þjóðarsjúkrahús er verðugt stórt skref fram á við inn í 21. öldina.

Grein í Fréttablaðinu 10. apríl 2015.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.3.2015 - 10:50 - FB ummæli ()

Hálendið er auðlind

Ferðaþjónusta á Íslandi er orðinn stærsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur landsins. Um 80 prósent erlendra ferðamanna segjast koma til Íslands vegna einstæðrar náttúru landsins. Þar trónir efst ósnortið hálendið. Hálendi Íslands er því eitt og sér orðið ein af mikilvægustu tekjuskapandi auðlindum landsins, ásamt fiskistofnum og náttúrulegum orkugjöfum. Það segir sig sjálft að háspennumöstur og þjóðvegir passa illa inn í þessa hálendismynd og myndu rýra þá auðlind sem hálendið er.

Hvað snertir virkjanir á hálendinu verðum við að vanda valið með tilliti til þeirra gríðarlegu hagsmuni sem eru í húfi. Möguleikarnir eru sem betur fer margir og fjölbreyttir og því ætti að vera hægt að komast að góðri niðurstöðu í þeim efnum án þess að því fylgi stöðugt römm pólitísk átök sem sundra þjóðinni. Slík átök eru sóun á tíma og orku sem annars gæti farið í skynsamlega umræðu.
Stjórnvöldum á hverjum tíma ber skylda til að setja þessi mál í forgang í samræmi við mikilvægi þeirra. Því miður höfum við alls ekki staðið okkur sem skyldi, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi haft forgöngu um að verja 400 milljónum króna til þessara mála í fyrra.

Hvernig stendur á því að við horfum upp á vinsælustu ferðamannastaði drabbast smá saman niður vegna þess að uppbyggingu innviða og nauðsynlegu viðhaldi er ekki sinnt nógu vel? Auðvitað munu vinsældir Íslands sem ferðamannalands dvína hratt ef ekki verður tekið fast í taumana hér.

Ég bið menn um að hafa í huga að fjármagnið til þessara verkefna verður að koma einhvers staðar frá. Frá ferðamönnum beint og rukkað inn á hverjum stað, með einum ferðamannapassa sem allir greiða, gistináttagjaldi, komugjöldum ferðamanna eða beint af skattfé sem í sjálfu sér má réttlæta í ljósi hversu tekjusköpunin er mikil í greininni. Virkjanakostir, vegir, raflínur og uppbygging innviða á ferðamannastöðum; öll eru þessi mál hjá Alþingi einmitt nú og ég hvet okkur sem þar starfa til að rísa undir okkar ábyrgð. Við megum lítinn tíma missa.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 11. mars 2015

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.2.2015 - 19:39 - FB ummæli ()

Skattagögnin, meir

 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra styður skattrannsóknarstjóra til að kaupa gögn um eignarhald Íslendinga erlendis ef embættið telur þau nýtast. Hann segir að engin grið verði gefin þeim sem borga ekki skatta.  

 

Vísa í þessu samhengi í grein sem ég

skrifaði í Fréttablaðið 7. október 2014, undir fyrirsögninni

Kaupum skattagögnin

Skattrannsóknarstjóri hefur nýlega sent fjármálaráðuneytinu sýnishorn af erlendum skattaupplýsingum með nöfnum fjölda Íslendinga sem eiga fjármuni í svokölluðum skattaskjólum. Að sögn skattrannsóknarstjóra gefa þau vísbendingar um skattaundanskot. Nú er það í höndum skattrannsóknarstjóra og fjármálaráðuneytisins að ákveða hvort kaupa eigi þessi gögn.
Skattaskjól finnast víða um heim, og má þar nefna staði eins og Bresku Jómfrúreyjar og Cayman-eyjar. Vísbendingar eru um að skipulögð skattsvik í svokölluðum skattaparadísum hafi aukist mjög á undanförnum árum. Skattsvik eru refsiverð afbrot og valda skaða í mörgu tilliti. Skattbyrðin leggst þyngra á aðra, samkeppnisstaða fyrirtækja skekkist og minna svigrúm er til almennra skattalækkana. Það eru því brýnir almannahagsmunir að ráðast gegn skattsvikum og má taka undir þá skoðun fjármálaráðherra að nota eigi öll tiltæk ráð til þess að uppræta skattsvik.

Því getur það verið nauðsynlegt að beita aðferðum eins og að kaupa gögn af þeim toga sem skattrannsóknarstjóri og fjármálaráðuneytið hafa nú til skoðunar. Önnur lönd eins og Þýskaland og Bandaríkin hafa farið svipaðar leiðir, en reynsla þeirra sýnir að fjárfesting í þessum gögnum skilar sér margfalt til baka í endurheimtum sköttum. Fylgi íslensk stjórnvöld því fordæmi mun það virka sem hvatning á þá sem geyma fé í skattskjólum til að gefa sig fram og greiða sína skatta, vitandi að þeir muni ella sæta rannsókn skattyfirvalda og hugsanlega þungum refsiviðurlögum í kjölfarið.

Fjármálaráðherra telur sterklega koma til greina að kaupa þessi gögn og tek ég heilshugar undir það mat hans. Ég myndi reyndar taka enn dýpra í árinni. Gefi þessi gögn vísbendingar um skattaundanskot Íslendinga, eins og skattrannsóknarstjóri telur, hvílir sú skylda á íslenskum yfirvöldum að útvega þessi gögn eftir öllum tiltækum leiðum. Fjármálaráðherra hefur til dæmis bent á að kaup á gögnunum gætu krafist sérstakrar lagasetningar. Ég er viss um að breið samstaða verður á Alþingi um þá afgreiðslu, enda gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir ríkissjóð og þjóðarhag.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.1.2015 - 13:31 - FB ummæli ()

Norrænar þingkonur snúa saman bökum

ELÍN HIRST alþingismaður, ANNICKA ENGBLOM þingmaður á sænska þinginu og ANNETTE LIND þingmaður á danska þinginu skrifa sameiginlega grein:
Lögfestum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á öllum Norðurlöndum!

Nýverið var því fagnað á Norðurlöndum og víðar um heim að 25 ár eru liðin frá því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, eða Barnasáttmálinn eins og hann er oftast nefndur í daglegu tali, var undirritaður 20. nóvember árið 1989. Vegna þessara merku tímamóta gefst kjörið tækifæri til að ígrunda hvernig við tryggjum sem best að börn og ungmenni í nútíma samfélagi geti látið til sín taka og haft áhrif á það umhverfi sem þau búa við. Liður í því er að tryggja að Barnasáttmálanum verði veitt formlegt lagagildi í öllum Norðurlandaríkjunum en Danmörk og Svíþjóð eru einar Norðurlandaþjóða sem eiga enn eftir að lögfesta sáttmálann.

Velferð barna baráttumál
Norðurlönd eru af mörgum talin fyrirmynd innan alþjóðasamfélagsins í mörgum skilningi, þar á meðal á sviði málefna barna og ungmenna. Samt sem áður sýna rannsóknir að tvö af hverjum tíu börnum á Norðurlöndum finna til vanlíðanar. Við viljum því gera enn betur í að hlúa að börnum og ungmennum.

Eitt það mikilvægasta við að tryggja velferð og vernd barna og ungmenna er að hlusta á raddir þeirra og fræða þau um réttindi sín. Skýrslur Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sýna glögglega að börn sem þekkja rétt sinn eru mun atorkumeiri en ella og geta sett hnefann í borðið ef þau eru beitt ofbeldi, misþyrmingum eða alvarlegri vanrækslu. Þau bregðast betur við aðstæðum sínum og leita ásjár fullorðinna ef þau verða fyrir yfirgangi, misnotkun eða öðrum alvarlegum vanda.

Ráðamenn, ríkisstjórnir og þjóðþing á Norðurlöndum verða einnig að íhuga alvarlega hvaða aðgerðir eru vænlegar til að virkja betur lýðræðishefðir okkar gagnvart ungu fólki og hvetja það til þátttöku. Það er mikið áhyggjuefni að kosningaþátttaka ungs fólks á Norðurlöndunum hefur dregist saman á síðustu árum og jafnframt skrá færri ungmenni sig í stjórnmálaflokka en áður. Það er okkar skoðun að ef ungmennum gefst kostur á að hafa áhrif á eigið samfélag, ef á þau er hlustað og þau fá að njóta hæfileika sinna næst miklu betri árangur en ella.

Lögfesti sáttmálann sem fyrst
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem nýverið fagnaði aldarfjórðungsafmæli sínu, markaði mikil tímamót í baráttunni fyrir réttindum barna. Sáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi, óháð réttindum fullorðinna. Hann hefur að geyma ýmis grundvallarréttindi og tryggir öllum börnum upp að 18 ára aldri sérstaka vernd og umönnun. Sömuleiðis endurspeglar sáttmálinn nýja sýn á hlutverk og stöðu barna og þar er tekið fram að öll börn eigi rétt á því að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu.

Finnar voru fyrstir til að lögfesta Barnasáttmálann, hann hefur einnig verið lögfestur í Noregi og á Íslandi. Danir og Svíar eiga eftir að lögfesta sáttmálann, eins og áður segir, og við viljum beita okkur fyrir því sem þingmenn og fulltrúar í Norðurlandaráði að þessi lönd geri það sem fyrst til þess að hægt sé að beita ákvæðum Barnasáttmálans fyrir dómstólum og settum lögum og réttindum barna þannig gefið aukið vægi.

(Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 22. janúar 2014)

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.1.2015 - 23:31 - FB ummæli ()

Je suis Charlie

 

Afar öflug skilaboð eru nú send til umheimsins vegna hinna hroðalegu morða á ritstjórnarskrifstofu skoptímaritsins Charlie Hebdo. Skilaboðin eru einfaldlega „Ég er Charlie“ eða „Je suis Charlie“. Hundruð þúsunda manna hafa safnast saman á götum og torgum í Frakklandi og öðrum löndum og halda á skiltum með þessari áletrun.

Skilaboðin sem beint er til hryðjuverkamanna um allan heim eru hárbeitt og hitta beint í mark, en jafnframt eru þau margslungin. Í fyrsta lagi lýsa þau yfir stuðningi og samúð við fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar, en 12 starfsmenn á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París létu lífið þegar hryðjuverkamenn réðust þar til atlögu. Í öðru lagi lýsa þau yfir stuðningi við tjáningarfrelsið sem er einn helsti grundvöllur vestrænna lýðræðissamfélaga.

Fréttamenn Charlie Hebdo eru þekktir fyrir vægðarlaust háð og ósvífni og eru íslömsk öfgaöfl meðal þeirra fjölmörgu sem hafa verið skotspónn blaðsins. Þetta geta öfgasamtök eða hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Múhameð spámann ekki sætt sig við og því eru skilaboðin „Ég er Charlie“ þau að þetta sé atlaga að tjáningarfrelsinu, og almenningur á Vesturlöndum hyggst standa dyggan vörð um þau grundvallargildi.

„Ég er Charlie“ eru einnig skilaboð um að menn hyggist ekki gefast upp gegn þeirri óþolandi ógn sem hryðjuverkasamtök eru um allan heim heldur standa þétt saman. Nú er hins vegar Vesturlandabúa að sýna að þeir hafi visku og dómgreind til að greina á milli saklauss fólks sem er íslamstrúar og öfgamanna sem fara um og dreifa blóði í nafni trúarinnar. Í fréttum í gær var rætt við íslenska konu sem einmitt óttast að kynþáttahatur aukist enn í kjölfar atburðanna, en það sem hún sagði kom beint frá hjartanu og er ofurskiljanlegt: „Ég neita því ekki að ég er fegin að vera ljóshærð kona, hér í París í dag, en ekki dökk á hörund.“

Slagorðin „Ég er Charlie“ eða „Je suis Charlie“ eru afar öflugt sameiningartákn ásamt því að vera skýr skilaboð til hryðjuverkasamtaka um heim allan, eins og áður segir, en látum þau líka vera áminningu til okkar sjálfra um hvernig við viljum koma fram við annað saklaust og heiðarlegt fólk sama hvar í heiminum það er upprunnið eða hverrar trúar það er.

Grein sem birtist í Fréttablaðinu 9.1. 2015

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.1.2015 - 20:04 - FB ummæli ()

Markmiðið að auka kaupmátt!


 

Nú hafa breytingar á virðisaukaskatti og vörugjöldum tekið gildi sem munu hafa áhrif á verðlag á mjög mörgum sviðum. Hér er um að ræða þarfar skattkerfisbreytingar sem ég studdi sem hluta af breyttri efnahagsstjórn með það að markmiði að allir landsmenn njóti betra lífskjara. Breytingarnar munu hafa áhrif á vísitölu neysluverðs, bæði til hækkunar og lækkunar, en útgangspunkturinn er sá að vísitala neysluverðs lækkar um allt að 0,4%, að því gefnu að breytingarnar skili sér að fullu. Því er gríðarlega mikilvægt að neytendur fylgist vel með áætluðum áhrifum breytinganna og hvernig þær skila sér út í verðlag. Ég skora á neytendasamtök, ASÍ og síðast en ekki síst hinn almenna neytanda fylgjast vel með og láta í sér heyra ef ekki er staðið rétt að málum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.11.2014 - 20:17 - FB ummæli ()

Verjum Reykjavíkurflugvöll

Framtíð Reykjavíkurflugvallar er stórmál sem varðar alla þjóðina og getur aldrei orðið einkamál borgaryfirvalda. Þess vegna á ég afar erfitt með að skilja þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar að gefa út framkvæmdaleyfi til verktaka á Hlíðarendasvæðinu. Með þeirri ákvörðun er borgin í raun að gera svokallaða neyðarbraut ónothæfa. Þrátt fyrir að hin nýja byggð nái ekki inn á umrædda flugbraut mun hún hindra bæði aðflug og brottflug. Það segir sig sjálft að við megum alls ekki missa þessa braut, því þrátt fyrir að hún sé sjaldan notuð skiptir hún miklu máli í verstu veðrum og allar áætlanir í farþega- og sjúkraflugi gera ráð fyrir því að hún sé til staðar.
Ein veigamestu rökin fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni eru þau að í höfuðborginni er eina hátæknisjúkrahús landsins og því lífsnauðsynlegt að koma fólki sem veikist alvarlega fljótt og örugglega til höfuðborgarinnar. Það er því mikið öryggismál að hafa flugvöllinn svo skammt frá aðalsjúkrahúsi landsins. Ég er því ekki reiðubúin sem alþingismaður og borgari þessa lands að sætta mig við það að þessi öryggis- og lífsgæðamál fólksins í landinu verði skert með þeim hætti sem nú er verið að gera.

Og það er þrengt að flugvallarstarfseminni á Reykjavíkurflugvelli víðar, því gert er ráð fyrir að svokallaðir Fluggarðar hverfi af flugvallarsvæðinu á næstu tveimur árum. Vel má kalla Fluggarða grasrót flugsins. Garðarnir eru byggingar upp á um 8.000 fermetra og þar eru geymdar og gerðar út um 80 flugvélar. Í Fluggörðum hafa aðstöðu ýmis félög, fyrirtæki, flugskólar, verkstæði og fleira. Það er því augljóst mál að flugvallarstarfsemin mun skerðast til muna ef þessi áform ná fram að ganga.

Það eru engin önnur flugvallarstæði sem geta leyst Reykjavíkurflugvöll af hólmi að svo komnu máli, auk þess sem flutningur flugvallarins myndi kosta þjóðina milljarðatugi. Ef Reykjavíkurflugvöllur verður molaður niður með þessum hætti þá verður hann auðvitað að endingu ónothæfur. Getur verið að það sé einmitt það sem borgaryfirvöld stefna að leynt og ljóst?

(grein sem birtist í Fréttablaðinu 1o. nóvember sl.)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.5.2014 - 19:50 - FB ummæli ()

Árbæjarsafn flutt í miðbæinn

Gamla bæjarmynd Reykjavíkur er eitt af því sem sem mun laða að erlenda ferðamenn í framtíðinni. Þar að auki mundi slík söguleg ásjóna, innan um nýbyggingar auðvitað, auka á góðan borgarbrag. Það er fátt fallegra en gömul hús sem er vel við haldið. Hvernig væri að flytja Árbæjarsafn eða hluta þess niður í bæ, etv. í Hljómskálagarðinn? Ég tel að það gæti verið frábært að hafa safnið niðri í bæ, en reyndar er sú hugmynd ekki ný af nálinni.  

Sem kunnugt er hef ég tekið heilshugar undir þá skoðun forsætisráðherra að ekki komi til greina að Landsbankinn byggi nýjar höfuðstöðvar við höfnina, sem yrði háreist glerbygging og myndi skyggja verulega á Hörpu.  Gagnrýni á þessa ráðagerð er ekki síður  sprottin af því að það er út í hött að bankinn sem er í stórum hluta í eigu ríkisins, og varð gjaldþrota fyrir fáeinum árum,  byggi stórhýsi með tilheyrandi kostnaði á meðan ekki eru til peningar til að endurnýja Landspítala Íslands. 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.4.2014 - 21:07 - FB ummæli ()

Rússar fá á baukinn á Akureyri

Þing Norðurlandaráðs sem haldið var í Hofi á Akureyri samþykkti nú undir kvöld harðorða yfirlýsingu vegna framgöngu Rússa í Úkraínu og stjórnmálaástandsins sem skapast hefur vegna þessa.  Þetta er í fyrsta sinn sem Norðurlandaráð ályktar með þessum hætti um utanríkismál, segja mér fróðari menn. Ég flutti ræðu til stuðnings þessari ályktun í dag og birti hana hér:

Fundarstjóri, ágætu fundarmenn.

Mig langar til að byrja á því að lýsa ánægju minni með að Norðurlandaráð skuli taka þetta mál á dagskrá.  Framferði Rússa og það sem er að gerast í Úkraínu og það sem menn óttast að kunni að gerast í framtíðinni er okkur svo sannarlega viðkomandi, en norðurlönd hafa búið við þau gæði að hjá okkur hefur verið hægt að mynda tengsl yfir landamæri, mikil samskipti og samstarf eru á öllum sviðum og það ríkir traust og tiltrú.  Þetta eru mikilvæg skilaboð frá okkur með tilliti til þeirrar lýðræðismyndar sem við viljum horfa til og breiða út sem víðast.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra Íslands hefur látið sig þessi mál miklu varða sem og ríkisstjórn Íslands og Alþingi.  Þann 3. mars síðastliðinn var sendiherra Rússa á Íslandi kallaður á fund ráðherra þar sem ráðherran áréttaði þau sjónarmiði sem fram höfðu kmið hjá NATO, en fastaráð Atlantshafsbandalagsins fordæmi framferði Rússa, daginn áður.

Ég tel að Norðurlönd eigi að standa þétt saman í þessu máli og nota hvert tækifæri sem gefst til að koma mótmælum sínum á framfæri vegna hinnar ólöglegu innlimun Krímskaga í Rússland eftir hina ólöglegu þjóðaratkvæðagreiðslu á Krím.

Persónulega vildi ég gjarnan taka enn sterkar til orðar í ályktun eða yfirlýsingu þeirri sem hér er til umræðu á þemaþingi Norðurlandaráðs á Akureyri í dag, en get hins vegar vel sæst á það að yfirlýsingin verði orðuð eins og hér liggur fyrir.

Stóra spurningin, sem allir velta fyrir sér er láta Rússar staðar numið hér eða muni þeir halda áfram á sömu braut.  Viðbrögð alþjóðasamfélagsins eru afar mikilvæg til þess að koma í veg fyrir það, en að sama skapi veldur það miklum áhyggjum hve spenna fer vaxandi í eystri  Úkraínu.  Ekki er heldur útilokað að þessir atburðir geti leitt til flóttamannastraums til annarra Evrópuríkja.

Ég legg því til að yfirlýsingin verði samþykkt.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur