Sunnudagur 11.08.2013 - 14:23 - FB ummæli ()

Hvar á arabinn að pissa?

Setjum sem svo að einhver opni veitingastað og merki salernin með þessum myndum.

hvítur         svartur

Mig grunar að það myndi ekki vekja almennan fögnuð. Flestir myndu spyrja hvaða tilgangi það ætti að þjóna að beina fólki á sitthvorn básinn eftir kynþætti og margir myndu einnig spyrja hvar fólk sem hefur útlitseinkenni asíubúa eigi þá að pissa og hvort arabar flokkist sem hvítir eða lilaðir.

Það er svo augljóslega eitthvað rangt við það að flokka fólk eftir kynþáttum þegar þjónusta og aðgengi að tilteknum svæðum er annarsvegar að ég efast um að nokkur kæmist upp með það en af hverju heldur meirihluti fyrirtækja og stofnana þeirri reglu að bjóða upp á kynjaskipt klósett?

 

Þrjár vondar röksemdir fyrir kynjaskiptum klósettum

 

11970901111592959888kaeso_Toilet_sign.svg.hi1. Karlar pissa út fyrir og það á ekki að bjóða konum upp á slíkan sóðaskap.

Þessi röksemd er gegnsýrð af kynhyggju. Ég veit ekki hversu hátt hlutfall karla pissar út fyrir. Það má vel vera að það sé hærra en hlutfall þeirra kvenna sem skilja eftir hlandfruss undir setunni.  Það er þó langt frá því að allir karlar skilji eftir hlandtauma niður með klósettinu og hversvegna ætti frekar að bjóða snyrtilegum körlum en konum upp á sóðaleg almenningssalerni?

2.  Af því að pissuskálar eru hagkvæmar og það er ekki boðlegt að karlar flaggi djásninu framan í konur.

Ef út í það er farið væri vel hægt að spara með því að setja ekki milliveggi milli klósetta. Af hverju ættu hagkvæmnisrök frekar að eiga við þvagskálar?

3.  Af því að það myndi auka hættuna á nauðgunum ef karlar og konur notuðu sömu klósett.

Ef þetta er rétt (sem ég er alls ekki viss um) þá á það sennilega fyrst og fremst við um fjölmenna staði þar sem ölvun er áberandi. Kynjaskipt klósett eru hinsvegar allsstaðar. Heldur einhver í alvöru að nauðgari sem sér árennilegt fórnarlamb á gangi stofnunar eða fyrirtækis þar sem umferð er lítil, láti mynd af manneskju í kjól stoppa sig?

 

Hvaða máli skiptir þetta?

wc_286175Ég lít svosem ekki á kynjaskipt klósett sem stórt vandamál en mér finnst allt í lagi að við höfum í huga að þótt manneskjur skiptist mjög greinilega í þessa hópa, karla og konur, þá er ekkert hægt að beita tölfræði á einstaklinga. Við getum skipt fólki í hópa 1000 karla og 1000 kvenna og pikkað út einn einstakling úr hvorum hópi. Góðar líkur eru á því að við fáum gagnkynhneigða konu sem notar stundum andlitsfarða og kýs starfsvettvang í grein þar sem konur eru í meirihluta og gagnkynhneigðan karl sem aldrei klæðist kjól og getur borið þyngri byrði en konan. En við gætum líka fengið manneskju sem er að ganga í gegnum kynskiptaaðferð eða manneskju með typpi sem gengur í kjól og skilgreinir sig ekki út frá þessum tveimur hópum.

Transfólk og klæðskiptingar eiga á hættu að fá á sig ásökun um kynferðislega áreitni ef þeir ganga inn á kvennaklósett og hættu á að verða fyrir líkamlegu ofbeldi ef þeir fara á karlaklósett. Ég er ekki að segja að eingöngu vegna þessara fáu einstaklinga sé nauðsynlegt að breyta þessu kynjaklósettafyrirkomulagi. Það væru jafn slæm rök og þau að segja að kynjaskipt klósett fyrirbyggi nauðganir. Þessi reynsla fólks sem ekki fellur að norminu vekur þó spurningu um það til hvaða tilgangi þetta fyrirkomulag þjóni og það er ágæt spurning. Líklega á þessi mikla áhersla á kyn, sem endurspeglast m.a. í kynskiptum klósettum, sinn þátt í því að viðhalda fordómum, bæði kynjafordómum og fordómum gagnvart þeim sem ekki falla að stöðluðum kynjaímyndum.

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics