Fimmtudagur 13.03.2014 - 10:30 - FB ummæli ()

Á hvaða leið eru Píratar?

piratarÉg kaus Píratapartýið í síðustu Alþingiskosningum. Ég þekkti grunnstefnu Pírata og treysti frambjóðendum – og ég greiddi þeim atkvæði mitt án þess að lesa stefnuskrána gaumgæfilega.

Ég sé ekki eftir því að hafa kosið Pírata. Þingmenn okkar hafa staðið sig prýðilega og ég treysti þeim ennþá, en ég væri ánægðari með sjálfa mig ef ég hefði sýnt meiri ábyrgð.

Það er góð tilfinning að treysta öðrum en það hefur líka í för með sér hættu á að maður verði værukær og það hef ég verið. Ég hef aðeins fylgst lauslega með Pírataumræðunni á netinu og lítið sem ekkert blandað mér í hana, bara verið ósköp ánægð með mitt fólk á þingi.

Það var ekki fyrr en nú í aðdraganda sveitastjórnakosninga sem ég fór að skoða stefnuskrána almennilega og ég verð að segja að hluti hennar kom mér verulega á óvart. Einkum jafnréttisstefnan en hluti hennar stríðir beinlínis gegn yfirlýstri grunnstefnu Pírata.

Viðbrögðin við gagnrýni á þessa stefnu eru að mestu leyti jákvæð. Sumir bregðast auðvitað ókvæða við og reyna að þagga niður í mér en blessunarlega hefur það fólk sem ég treysti fyrir þingsetu og ýmsir aðrir úr röðum Pírata, lýst yfir einlægum vilja til stöðugrar endurskoðunar. Það gleður mig og ég tel á móti rétt að gera grein fyrir því hversvegna ég álít nauðsynlegt að Píratar endurskoði jafnréttisstefnu sína.

Hæpnar forsendur og skilningsleysi á grunnhugtökum

Píratar gefa sig út fyrir að vera öðrum stjórnmálasamtökum frjálslyndari. Markmið þeirra að auka lýðræði, einkum með áherslu á borgaraleg réttindi aukið gagnsæi og valddreifingu og bætt aðgengi almennings að upplýsingum.

piratar*

Ýmislegt í jafnréttisstefnu Pírata er í beinni mótsögn við þessa grunnstefnu. Ég læt nægja að fara yfir þann kafla jafnréttisstefnunnar sem lýtur að staðalmyndum.

Í fyrsta lagi eru forsendur staðalmyndastefnunnar vafasamar. Vísað er í borgaraleg réttindi en ekki verður séð að þessi staðalmyndastefna komi borgaralegum réttindum neitt við.

Í öðru lagi eru gögnin sem lögð eru til grundvallar vafasöm, annarsvegar ein Wikipedíugrein um þriðja kynið og hinsvegar ein BA ritgerð um áhrif kláms á unglinga. Ég hefði búist við því að Píratar byggðu hugmyndir sínar um áhrif kláms á traustari grunni, ekki síst í ljósi þeirrar ritskoðunarumræðu sem hefur farið fram hin síðustu ár, ekki bara í netheimum heldur hafa umræður um sérstakan „klámskjöld“ farið fram inni í ráðuneytum og á þingi.

Í þriðja lagi virðist stefnan vera byggð á misskilningi á hugtakinu „borgaraleg réttindi“. Borgaraleg réttindi eru náskyld mannréttindum og lúta að rétti almennra borgara gagnvart yfirvöldum. Borgaraleg réttindi eru ekki hvaðeina sem okkur finnst réttlátt og gott, heldur tiltekin réttindi sem stjórnvöldum ber að tryggja. Borgaraleg réttindi geta ekki náð yfir eitthvað sem stjórnvöld eiga enga möguleika á að ráða við.

Tökum sláandi dæmi um mannréttindahugtakið. Rétturinn til fæðu hefur ennþá ekki verið skilgreindur sem mannréttindi.  Það er ekki hægt að sækja yfirvöld til saka fyrir mannréttindabrot þótt stórir hópar fólks svelti. Það er ekki vegna þess að mannréttindasinnum um víða veröld finnist hungursneyð viðunandi ástand, heldur vegna þess að það er ekki hægt að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau komi í veg fyrir náttúruhamfarir og uppskerubrest. Fólki er því ekki tryggð nein vernd gegn hungursneyð í samningum sem hafa lagagildi.*

Á sama hátt takmarkast borgaraleg réttindi af því sem mögulegt er að tryggja með lögum. Tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífs og kynfrelsi falla undir borgaraleg réttindi. Það merkir að við eigum að geta leitað til dómstóla ef brotið er gegn þessum réttindum.

Í fjórða lagi ber ályktunin merki feminisma. Það er áhyggjuefni vegna þess að sá feminismi sem hefur verið ríkjandi á Íslandi síðustu áratugi er afar stjórnlyndur, hallur undir ritskoðun og samræmist grunnstefnu Pírata engan veginn.

Staðalmyndastefnan er í anda stjórnlyndis

Auk þess að bera vott um misskilning á hugtakinu borgaraleg réttindi, stríðir staðalmyndakafli jafnréttisstefnunnar gegn frjálslyndishugmyndum Pírata. Skoðum aðeins hvert atriði fyrir sig.

1.  Að samhliða því að nám verði einstaklingsmiðaðra (sbr. menntastefnu Pírata) verði einnig markvisst unnið að því að draga úr kynbundnum hindrunum við val á námi og starfssviði.

Hvaða kynbundnu hindranir er átt við? Engar fomlegar hindranir eru til staðar. Kynin hafa þegar jafnan rétt til náms, námslána og styrkja. Reyndar eru dæmi um kynbundna styrki til nýsköpunar í atvinnulífinu en þeir styrkir eru ætlaðir konum og væntanlega er þessari staðalmyndastefnu ekki ætlað að afnema þau forréttindi kvenna.

Þær kynbundnu hindranir sem við mætum í námi og atvinnulífi felast í viðhorfum. Staðalmyndir geta vissulega verið hamlandi og það er sjálfsagt að benda á það. En afnám staðalmynda fellur ekki undir borgaraleg réttindi. Ríkið á að tryggja okkur rétt til að leita til dómstóla ef við verðum fyrir ofsóknum eða mismunun, hvort sem það er vegna staðalmynda eða einhvers annars. Það er hinsvegar ekki hægt gera þá kröfu til ríkisins að það verndi fólk gegn þeim staðalmyndum og fordómum sem valda því að stúlkur sækja í aðrar námsgreinar en piltar.

2.  Að komið verði á fót jafnréttisfræðslu innan grunnskóla samhliða kynfræðslu þar sem áhersla verði lögð á fjölbreytileika, umburðarlyndi og virðingu. Fræðsluefni taki einnig mið af því að vinna á móti fordómum og staðalímyndum almennt.

Það flokkast síður en svo sem borgaraleg réttindi og er á skjön við það frjálslyndi sem Píratar kenna sig við, að ætla ríkisvaldinu að stjórna því með svo sértækum hætti hverskonar námsefni grunnskólarnir bjóða upp á.

Einnig er vert að hafa í huga að Kynungabók, jafnréttisnámsefni fyrir framhaldsskóla, sem menntamálaráðuneytið gaf út fyrir nokkrum árum, og rætt er um að gera að skyldunámsefni í grunnskólum, boðar þá skoðun að gervöll mannkynssagan sem og okkar vestræna nútímasamfélag, einkennist á einn eða annan hátt af kvennakúgun.  Ég efast um að meðal Pírata ríki víðtæk sátt um innrætingu slíkra hugmynda.

3. Spornað skuli við neikvæðum áhrifum kláms á kynhegðun og kynjaímyndir, ekki síst á börn og unglinga. Stuðlað skuli að öflugri fræðslu og þjóðfélagsumræðu sem miðar að því að vekja fólk til umhugsunar um eðli kláms og áhrif þess.

Hér er gengið út frá neikvæðum áhrifum kláms sem staðreynd. Sú ályktun verður að teljast vafasöm, en þar að auki samræmist það hvorki borgaralegum réttindum né frjálslyndi að ætla yfirvöldum að stýra samfélagsumræðu og móta smekk almennings á listum eða annarri menningu. Þvert á móti bendir þessi liður til forræðishyggju og forræðishyggja getur af sér hugmyndir um ritskoðun og eftirlit með netnotkun.

4.  Að Ríkisútvarpinu verði gert að marka sér stefnu um innkaup á barna- og unglingaefni með áhugaverðum og skemmtilegum söguhetjum af ýmsum kynjum.

Píratar eru síðasta stjórnmálaaflið sem mér hefði dottið í hug að vildi meiri ríkisafskipti af fjölmiðlum. Það hljómar fallega að bjóða börnum upp á fjölbreyttar söguhetjur en ef við ætlum að setja Ríkisútvarpinu reglur um innkaup á barnaefni sem hugnast tilteknum stjórnmálaöflum, hvar drögum við þá mörkin? Myndum við umbera stjórnmálaflokk sem vildi skikka RÚV til að kaupa skemmtilegt barnaefni sem boðar hollustu við föðurlandið og opnar augu barna fyrir áhugaverðum stóriðjumöguleikum af ýmsu tagi?

5. Að viðurkennt verði lögformlega „þriðja“ kynið í opinberum skráningum svo sem í vegabréfum og hugtakið innleitt í öðru opinberu starfi. Með vísan til Indlands, Pakistan, Nepal, Ástralíu og Nýja Sjálands.

Það er sannarlega í anda Pírata að losa fólk undan kynjastimplum. Þó má spyrja hvort það sé í raun róttæk breyting að hafa kynin þrjú í stað tveggja og hvort allir þeir sem ekki eru hrifnir af því að vera flokkaðir eftir kynfærum sínum séu sáttir við að vera „þriðja kynið“ eða yfirhöfuð eitthvert kyn. Einnig má spyrja hvort ástæða sé til að ríkið skrái kyn og hvort sé nauðsynlegt að kyn sé skáð í vegabréf.

Ég tel fimmta liðinn alls ekki andstæðan grunnstefnu Pírata en er ekki þörf á meiri ígrundun um þetta mál áður en við sláum því föstu að „þriðja kynið“ sé gott svar við staðalmyndum?

Umræðan

Ég varð mjög slegin þegar sá þessa jafnréttisstefnu og einkum staðalmyndakaflann. Fyrstu viðbrögð mín voru þau að skrifa einkar fýlulega Facebookfærslu þar sem ég sagði Pírötum að fara í rass og rófu. Í framhaldinu spunnust umræður og kom þá í ljós að það er síður en svo nein eining um jafnréttisstefnuna meðal Pírata. Þingmenn Pírata hafa ekki gert neina tilraun til að framfylgja henni og Birgitta lýsti því yfir í útvarpsþættinum Harmageddon að hún teldi þessa stefnu þarfnast endurskoðunar. Er það vel.

Í umræðunni tóku einnig þátt harðir fylgismenn þessarar jafnréttisstefnu og verður að segjast að sumir þeirra virðast fremur frábitnir opinni samræðu og gagnrýni á eigin flokk. Þannig fékk ég þegar í stað ákúrur frá einum þátttakenda, ekki fyrst og fremst fyrir snúðuglega yfirlýsingu mína um að fara í rass og rófu, heldur beinlíns fyrir að vera að tjá mig um þessa hluti á minni eigin Facebook síðu. Ákúrnum fylgdu kurteislega orðuð tilmæli um að hypja mig með mína gagnrýni inn í sérpíratalegan málefnahóp.  Rétt eins og þetta séu mál sem þoli ekki dagsljósið. Mér finnst það einkar ópírataleg afstaða sem ég vona að viðkomandi taki til endurskoðunar.

Annar þátttakandi tekur í sama steng og telur umræður um stefnu Pírata ekki eiga heima í „afkimum internetsins“ (en þar er átt við mitt netsvæði) auk þess að saka mig um tröllskap og mannhatur fyrir það að telja feminiska forræðishyggju ekki samræmast stefnu Pírata. Sami netverji sakar mig vera að reyna að stjórna Pírötum með „trúboði“. Það mun víst flokkast sem trúarbrögð að telja þá klámfóbíu og fórnarlambsvæðingu kvenna sem einkennir málflutning femnista, eiga litla samleið með því frjálslyndi sem Píratar boða.

Sem betur fer eru þeir þó fleiri sem lýsa þeirri skoðun að hver sem er megi tjá sig um stefnu Pírata að vild.

Til hvers er ég að ræða þetta?

Ég hef hvorki trú á þvi að ég geti stjórnað Pírötum né minnsta áhuga á því heldur. Mér þótti mikill fengur að Pírataframboðinu, ég aðhyllist grunnstefnuna og ég vona að áfram verði á þingi sterkir fulltrúar þeirra sjónarmiða. En ég tek hugsjónir mínar fram yfir vörumerkið og stend fullkomlega við það að Píratapartýið má mín vegna fara í rass og rófu ef það reynist ekkert annað en farvegur fyrir nýja eða gamla stjórnlyndisstrauma.

Ég hef þó góða von um að það sé aðeins lítill en duglegur hópur sem kennir sig við Pírata sem raunverulega hefur þá skoðun að pólitískar hreyfingar megi nota grunnskólana og Ríkisútvarpið til þess að koma hugmyndafræði á framfæri við börn. Ég hef einnig góða von um að samþykkt jafnréttisstefnunnar sé fyrst og fremst merki um að fleiri en ég hafi gerst sekir um sofandahátt í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga.

En á meðan stefnuskráin er óbreytt er það aðeins von, og nú þegar líður að sveitarstjórnarkosningum væri æskilegt að fá það á hreint hvort Píratar standa við þær hugmyndir sem birtast í opinberri jafnréttisstefnu þeirra.

Ef ekki, þá væri kannski lag að endurskoða hana. Svona áður en þeir sem aðhyllast þá grunnstefnu sem Píratar lögðu upp með, nota kjörseðilinn sinn en ekki Facebook vegginn til þess að segja Pírötum að fara í rass og rófu.

 

—–

* Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um að allir eigi rétt til lífsviðurværis. Yfirlýsingin hefur ekkert lagagildi og réttindi eru marklaus á meðan enginn er ábyrgur fyrir því að tryggja að þeim rétti sé framfylgt. Vonandi kemur að því að alþjóðasamfélagið, fremur en yfirvöld í hverju landi, verður tilbúið til að gangast við þeirri ábyrgð að sjá öllum fyrir fæðu.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics