Þriðjudagur 30.4.2013 - 10:50 - FB ummæli ()

Öll þessi litbrigði grámans

______________________________________________________________________________________

Síðasta haust ætlaði ég að kaupa mér nýjan kjól fyrir veturinn. Það var reyndar ekki nóg fyrir mig að fá nýjan kjól, ég vildi hlýjan vetrarkjól með löngum ermum.  Ég fór í margar búðir en satt að segja mátaði ég ekki marga kjóla. Ekki af því að það væri neinn skortur á kjólum, heldur af því að hlýju kjólarnir voru allir gráir og grár er bara ekki minn litur. Þeir voru ekkert allir eins. Þeir voru missíðir og með misjöfnu sniði. Sumir voru dökkgráir, aðrir ljósgráir, fölgráir, yrjóttir eða köflóttir. En þeir voru allir í  einhverjum litbrigðum grámans. Ég er nokkuð viss um að einhversstaðar í einhverri búð í Glasgow var til rauður kjóll eða grænn sem hefði hentað mér en ég vildi ekki verja mörgum dögum í þessa leit og á endanum fór ég bara heim.

 

grar6 grar7 grar3grar4grar1

 

Þótt kjörsókn á Íslandi sé meiri en víðast annarsstaðar er samt alltaf nokkuð stór hópur sem situr heima á kjördag eða skilar auðu. Þeir eru auðvitað til sem hafa bara engan áhuga á stjórnmálum en mun oftar heyri ég fólk skýra ákvörðun sína með því að það sé bara ekkert í boði sem það geti hugsað sér að kjósa. Maður hefði kannski haldið að þegar ellefu nýir valkostir koma til greina ætti kjörsókn að aukast en fleiri framboð virðast ekki hafa þau áhrif.

Málið er að þegar fólk vill „eitthvað nýtt“ í stjórnmálum á það ekki við að það vilji geta valið úr mörgum nýjum Framsóknarflokkum. Það vill ekki fleiri litbrigði grámans heldur eitthvað sem er allt öðruvísi.

 

trefotur

Ég gæti frekar hugsað mér þennan kjól en fóturinn er kannski aðeins tú möts

 

Í þetta sinn var eitthvað nýtt í boði. Eitthvað sem hefur ekki verið reynt áður. Mér hefði þótt ánægjulegt ef allt þetta fólk sem vill eitthvað nýtt, en sat heima, hefði splæst í einn nýjan fyrir næsta kjörtímabil. Á hinn bóginn get ég ekki láð nokkrum manni það að nenna ekki að verja tíma sínum og orku í að kynna sér stefnu, mannval og vinnulag fimmtán framboða. Það eru takmörk fyrir því hversu margar búðir maður nennir að þræða til að finna þennan eina sem er ekki grár. Ef hann er þá til.

Við vitum að minnsta kosti núna að trixið til að fá fólk á kjörstað er ekki það að bjóða upp á fleiri valkosti. Við viljum ekki fleiri gráa kjóla heldur klæðskera sem er til í að vinna með þau efni, snið og liti sem við veljum sjálf.

______________________________________________________________________________________

 

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin

Mánudagur 29.4.2013 - 17:28 - FB ummæli ()

Ingó

____________________________________________________________________________________

Ef þú fengir fimm ár í viðbót við fulla heilsu, hvernig myndirðu nota þau? spurði ég. Ingó yppti öxlum. Ég myndi bara gera það sama og hingað til, sagði hann. Vera meira með fjölskyldunni. Taka myndir. Spila. Keyra mótorhjól. Vinna öll þessi verkefni sem ég hef talað um með þér og fleiri vinum. Og ferðast, ég væri virkilega til í að fá tækifæri til að ferðast meira. Já einmitt, bara meira af því sama. Þetta er gott líf.

Ingó lifði ekkert fullkomnu lífi en þetta var hans afstaða; lífið er gott. Hann ætlaðist ekki til þess að það væri fullkomið heldur naut þess sem hann átti kost á. Það var sjaldan dauð stund í lífi hans og þá sjaldan að hann tók sér nokkurra mínútna pásu í einrúmi las hann. Hann var hraðlæs og fannst flest lesefni áhugavert. Hann átti ekki langa ævi en ég held að hann hafi verið sáttur við það hvernig hann nýtti tímann sinn.

Ég á eingöngu góðar minningar um Ingó. Það var svo gaman að umgangast hann. Hann var glaður að eðlisfari, hafði ríka kímnigáfu og hafði óskaplega gaman af því sem hann var að fást við hverju sinni. Hann tók nýjum hugmyndum af fordómaleysi og gat jafnvel orðið spenntur fyrir mjög vondum hugmyndum áður en hann afskrifaði þær. Áhugi hans og léttlyndi smitaði út frá sér og þegar hann komst í flæði voru afköst hans með ólíkindum. Hann vann best á næturnar, kannski spilaði það inn í að hann taldi sig sjaldan svo upptekinn að hann gæti ekki svarað símanum og haldið uppi netspjalli við tvo eða þrjá félaga á meðan hann vann. Upp úr miðnætti hægðist um og þá vann hann með ævintýralegum hraða.

Ingó var jafnan með mörg járn í eldinum og vann vel undir álagi. Einu sinni fór ég með honum þegar hann ætlaði rétt að skjótast niður á Austurvöll og taka eina mynd. Ferðin tók rúma tvo tíma því hann þurfti aðeins að sinna erindum á tveimur stöðum. Eftir það þurfti hann aðeins að koma stelpunum sínum á milli staða og að lokum þurfti hann aðeins að koma við í bílskúrnum og skipta um bremsuborða. Auk þessa stoppaði hann tvisvar til að reykja eina sígarettu með kunningjum sem við hittum af tilviljun á leiðinni. Eftir ferðina var hann svo ánægður með að hafa komið nokkrum smámálum frá að hann vann þrisvar sinnum hraðar en vænta mátti og lenti alls ekki í því tímahraki sem ég þóttist hafa séð fyrir enda þótt ég hefði gert ráð fyrir að erindið tæki í mesta lagi hálftíma.

Eitt var dálítið truflandi við að vinna með Ingó. Á skrifstofuna hans lá stöðugur straumur af fólki sem ýmist var bara að heilsa upp á hann eða þurfti að láta „redda“ einhverju en Ingó var með fádæmum greiðvikinn. Altaf fús til þess að gera fólki greiða og oft bauð hann fram aðstoð sína ef hann vissi af einhverjum vanda sem hann gat leyst. Iðulega lofaði hann upp í báðar ermarnar og hálsmálið í þokkabót og þegar hann var undir miklu álagi átti hann það til að ofmeta eigin afkastagetu, sem var þó töluverð fyrir. Það er hægt að fá einhvern annan til að setja upp skjal en það er ekki hægt að láta einhvern annan sjá um að sofa fyrir þig. Dettur þér aldrei í hug að segja; nei því miður, ég hef ekki tíma núna? sagði ég þegar hann hafði boðað mig á staðinn til að hjálpa mér við uppsetningu á skjali og kom í ljós að hann hefði verið að vinna alla nóttina áður. Jújú, mér dettur það alveg í hug en mig langar að vinna með þér og þú verður svo stutt á landinu, sagði hann. Hann féllst á að láta einhvern annan um verkið en þegar hann hafði samband við mig seinni partinn var hann enn ekki farinn að sofa. Hann var í tímahraki og hafði ekkert verið á leiðinni í rúmið heldur ætlað að gera mér greiða og halda svo áfram.

Þannig var Ingó. Hann langaði að gera allt fyrir vini sína og hann átti engan smáræðis helling af vinum. Hann var skemmtilegur og raungóður og þessvegna vinsæll en hann lagði sig líka eftir vináttu. Skömmu eftir að ég kynntist Einari fékk hann tölvupóst frá Ingó. Einar varð hissa, því þeir höfðu aðeins einu sinni talað saman. Ég var hinsvegar ekkert hissa. Ingó líkaði almennt vel við fólk og þegar hann hafði einu sinni átt skemmtilega stund með einhverjum leit hann á hann sem vin. Það skipti hann miklu máli að eiga ánægjuleg samskipti og þessvegna forðaðist hann deilur. Hann benti mér stundum á ummæli á netinu með þeim orðum að sér yrði illt í sálinni af því að verða vitni að öðru eins. Hann svaraði samt ekki þótt gengi fram af honum því hann var hræddur um að særa fólk og hafði ekki tíma til að standa í þrasi.

Ingó reiddist ekki oft en einu sinni varð hann samt þokkalega brjálaður og fólkið sem hann reiddist við var forhert. Hann vissi ekki hvernig hann ætti að bregðast við og ég, sem hef mikla reynslu af því að vera reið og gera eitthvað í því, gat að sjálfsögðu gefið honum góð ráð. Ef þú æsir þig við fólk sem kann ekki að skammast sín þá sér það ekki sína eigin skömm heldur bara geðshræringuna í þér. Sýndu þeim frekar fyrirlitningu, sagði ég. Þetta þótti Ingó snjallræði en hann gat bara ekki sýnt neinum fyrirlitningu. Ég held í alvöru að hann hafi aldrei litið niður á neinn, hann gat fordæmt hegðunina en ekki manneskjuna svo hann fór ekki eftir þessum ráðum mínum frekar en öðrum. Ingó tókst oft á við sárindi og árekstra með því að spyrja fólk ráða og sjá fyrir sér frábæra útkomu en ekki veit ég neitt dæmi þess að hann hafi farið eftir þeim ráðum sem hann bað um. Það var eins og tilhugsunin um uppgjör dygði honum alveg.

Þegar Ingó furðaði sig fyrst á sárum sem virtust bara ekkert ætla að gróa taldi ég að hann væri með exem eða annan húðsjúkdóm sem oftast er hægt að halda nógu vel niðri til þess að maður geti lifað eðlilegu lífi. Það hvarflaði ekki að mér að setja sárin í samband við lasleikann sem einnig fór að gera vart við sig. Mér fannst ekkert dularfullt þótt maður sem var undir stöðugu álagi, svaf lítið og óreglulega og notaði þær frístundir sem hann þó átti til þess að spila pönk, berjast við Einherja og þeysa um á mótorhjóli, væri þreyttur. Þetta eru ekki beinlínis afslappandi áhugamál og jafnvel þegar hann skar út gripi og las bækur gerði hann það í nokkurra mínútna lotum á milli verkefna. Banvænn sjúkdómur er það síðasta sem mér hefði dottið í hug.

Ingó tók fréttunum af stöku æðruleysi. Nei, ég er ekki hræddur eða reiður, sagði hann þegar sjúkdómurinn greindist og það endurtók hann þegar hann sagði mér að síðasta chemomeðferðin hefði ekki borið árangur. Hann sagðist líta sjúkdóminn sömu augum og eldgos. Ef ég kemst í gegnum þetta þá er það frábært, ef ekki þá finnst mér það leitt barnanna vegna en það þjónar engum tilgangi að vera ósáttur við það sem maður ræður ekki við.

Það var skrýtið fyrir Ingó að liggja á sjúkrahúsi og hafa ekkert fyrir stafni. Hann sagði að internetið hefði margsinnis bjargað geðheilsu sinni og hann bjó vel að vinsældum sínum því hann fékk margar heimsóknir. Hann mat það mikils að fá félagsskap á meðan hann lá inni og hann var mjög hrærður yfir þeim stuðningi sem hann fékk. Innilega þakklátur fyrir  greiðasemi annarra við sig og fjölskylduna og fjárhagsstuðninginn sem þau þurftu sárlega á að halda. Þótt það skipti hann miklu máli að hafa internetið hvarf hann stundum af spjallinu í tvo eða þrjá daga. Fyrst hélt ég að ástæðan væri geðlægðir en þegar ég kom til Íslands og hitti hann rétt fyrir jól sagðist hann vilja komast hjá því að ræða ástand sitt þegar hann hafði eingöngu vondar fréttir. Mig langar ekki að missa mig í væl eða taka pirringinn út á öðrum, sagði hann. Ég held að hann hafi aldrei orðið beinlínis þunglyndur og kannski hjálpaði það honum að forðast að tala mikið um erfiðleikana.

Þrátt fyrir banvænan sjúkdóm og erfiðar meðferðir fann Ingó jákvæðar hliðar á veikindum sínum. Þegar við Einar heimsóttum hann á spítalann í fyrsta sinn var hann að koma úr myndatöku. Hann var svo slappur að hann gat varla talað, en hann svipti ofan af sér sænginni til þess að sýna okkur með mikilli ánægju hvað hann hefði grennst mikið. Talaði svo um að þegar hann næði heilsu ætlaði hann að fara í líkamsrækt. Og þá get ég sagt „Darri feiti“ þegar ég hitti þig næst, sagði hann síðar við Darra son minn sem er álíka gildvaxinn og spaghetty. Ingó þótti svolítið erfitt að missa hárið en hann gat líka grínast með það. Sumarið áður hafði hann sagt mér af mikilli sannfæringu að hann ætlaði ekki að láta klippa það stutt aftur, að minnsta kosti ekki á meðan hann héldi rauða litnum. Nú tók hann þann pól í hæðina að það yrði bara spennandi að sjá hvernig hárið yrði þegar það yxi aftur. Honum fannst fyndin hugmynd að fá kannski ljósar krullur því hann hafði líka misst allt líkamshár og sagðist bara vanta ljósan hrokkinkoll til þess að verða alveg eins og englabarn.

Hann komst aldrei að því. Hvort hárið hans hefði orðið hrokkið, liðað eða slétt á ég við. Það var bara rétt byrjað að vaxa þegar hann dó. Því Ingó dó eins og hann lifði;  aðeins hraðar en maður áttar sig á. Ég hafði satt að segja verið vongóð um að hann myndi lifa út árið og taldi jafnvel hugsanlegt að hann myndi læknast. Hann bar sig svo vel. Þann 1. mars spilaði hann á tónleikum. Um miðjan mars hafði hann farið á bardagaæfingu. Að vísu ekki barist en hann fór í víkingabúning og sat og spjallaði við félaga sína. Hann var svo ánægður eftir þann dag.  Og laugardagskvöldið, rúmum sólarhring áður en hann dó, fór hann með vinum sínum á kaffihús. Allir vissu að hann var dauðvona en andlát hans var samt óvænt, að minnsta kosti fyrir okkur sem fylgdumst aðallega með honum í gegnum netið síðustu vikurnar.

Þeir eru margir sem munu sakna þess að umgangast Ingó og þau eru allt of mörg verkefnin sem hann náði ekki að ljúka. Eitt af því sem hann langaði að gera var að koma upp minningavefsetri, netsvæði þar sem fólk gæti safnað saman myndum, tónlist og öðru efni sem tengist látnum ástvinum, skrifað  minningargreinar og sent samúðarkveðjur. Mér þykir miður að þessi hugmynd skuli ekki hafa komist í framkvæmd því þeir eru svo margir sem eiga skemmtilegar og fallegar sögur af Ingó. Mér finnst gott að lesa þær og að sjá myndböndin sem Lára Hanna hefur sett inn á youtube. Það væri gaman að geta séð þetta efni, ljósmyndir og fleira á einum stað.

Ingó var hæfileikaríkur, skemmtilegur, atorkusamur, hjálpsamur, æðrulaus og alveg sérstakt ljúfmenni. Ég er hnuggin yfir andláti hans og ég verð mjög sorgmædd þegar ég hugsa til Monicu og litlu telpnanna þeirra; Hrafnhildar og Söru, systkina Ingólfs og annarra sem voru honum nánir. Ef til vill er það nokkur huggun að sjá myndirnar sem Ásgeir Ásgeirsson tók af honum síðasta laugardagskvöldið í lífi hans, myndir sem sýna glaðan mann í góðra vina hópi. Hann dó alltof ungur en hann var þó allavega fótafær fram í dauðann og hann tapaði aldrei gleðinni. Ég kann engin almennileg huggunarorð en fjölskyldu hans og öðrum ástvinum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

—–

Að lokum leyfi ég mér að birta þessa tilkynningu sem ég sá á facebook. Ég veit ekki hver tók myndina en hún er með betri myndum sem ég hef séð af Ingó. Svona, einmitt svona sá ég hann.

420714_10151439905132099_1366267220_n
Útför Ingólfs Júlíussonar fer fram í Silfurbergi í tónlistarhúsinu Hörpu laugardaginn 4. maí. Þann dag hefði Ingólfur orðið 43 ára. Athöfnin verður auglýst í fjölmiðlum á næstu dögum. Blóm og kransar verða vinsamlegast afþökkuð en þeim sem vildu minnast Ingólfs er bent á menntunarsjóð dætra hans, Hrafnhildar og Söru: 0301-18-988356 – kt 030901-2820
_________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni

Sunnudagur 21.4.2013 - 15:58 - FB ummæli ()

Betl

____________________________________________________________________________________

Það er áreiðanlega erfið vinna að vera betlari.  Sitja aðgerðalaus tímunum saman.  Augnaráð vegfarenda lýsa vorkunnsemi og þó oftar fyrirlitningu, þ.e.a.s. augnaráð þeirra sem á annað borð líta í átt til betlarans því flestir forðast að horfa á eymdina.  Og oftast lítið upp úr því að hafa.

Ég gef betlurum smápeninga ef ég á annað borð er með klink í vasanum þegar ég á leið fram hjá þeim.  Ég efast um að ég væri rík í dag þótt ég hefði aldrei gert það og þótt eitt pund til eða frá breyti engu um afkomu betlarans þá held ég að þeim líði ofurlítið betur í sálinni ef betliskálin eða húfan er ekki galtóm.
 

Betl í stað velferðarkerfis

IMG_20130413_111114Í Úganda er betl algengt.  Enda ekki við öðru að búast þar sem ekkert velferðarkerfi er til staðar.  HIV smit er algengt, kólera og berklar herja á fátækrahverfin og jafnvel yersinia pestis; sýkillinn sem olli plágunni sem við köllum svarta dauða, kemur upp af og til.  Heilbrigðisþjónusta hefur batnað mikið á undanförnum árum og Úgandamenn hafa náð tökum á farsóttum þegar þær koma upp en fólk hefur engar tekjur á meðan það er veikt.

Staða fatlaðra er afar slæm, ekki síst staða fatlaðra barna.  Þau eru ekki send í skóla, eru oft misnotuð á ýmsa vegu og foreldrarnir eiga það til að fela þau.  Örorkubætur eru ekki í boði frekar en sjúkradagpeningar og fatlaðir hafa ekki aðgang að hjálpartækjum.  Tvisvar sinnum sá ég fótalausa menn á götunni hífa sig áfram á höndunum.  Þessi fallegi piltur sem stillti sér upp fyrir myndavélina er með annan fótinn miklu styttri en hinn.  Hann á ekki hjólastól, ekki upphækkaða skó, og ekki einu sinni hækjur, bara þennan staf til að styðjast við.

Í Úganda er heldur ekkert atvinnutryggingakerfi.  Fjölskyldan er eina öryggisnetið og þegar hún er blásnauð liggur beinast við fyrir þá veiku, fötluðu og atvinnulausu að betla á götunum.  Víða má sjá börn, gamlar konur og konur með ungbörn sitja á götunni með betliskál og ferðamenn geta átt von á nokkurri ágengni.  Kynjahlutföllin eru áberandi, betl er greinilega ekki álitið karlastarf. Það kom mér dálítið á óvart að sjá hvað karlar eru í áberandi minnihluta betlara því ekki hafa karlar aðgang að neinu velferðarkerfi frekar en konur. En ég fékk skýringu. Kannski eru til fleiri skýringar en þessi eina.
 

Betl og glæpir

Við lentum í umferðarhnút og meðan við biðum kom kona með ungt barn á handleggnum að bílnum. Litla telpu, á bilinu 12-18 mánaða. Barnið var sljótt til augnanna og ég hugsaði að litla telpan væri kannski veik. Konan bað um „money for baby“. Við Einar vorum ekki með neitt klink og bílstjórinn harðneitaði að láta hana fá peninga. Það kom mér á óvart þar sem ég veit að hann er góðmenni og það kom satt að segja dálítið illa við mig að sjá hvað hann var ákveðinn. En hann útskýrði afstöðu sína.

Ég gef ekki betlurum peninga nema sé augljóslega um neyð að ræða. Málið er að betl er stundum hluti af skipulagðri glæpastarfsemi. Sáuð þið barnið? Svona pollrólegt. Það er mjög ólíklegt að þetta sé hennar barn. Börn eru leigð út til betlara og maður sér þau ekki gráta eða hlæja eins og önnur börn því þau eru dópuð upp svo þau trufli ekki starfsemina.

Skipulögð glæpastarfsemi. Skúrkar sem gera konur og börn út og taka sinn skerf af gróðanum. Nei ég er ekki að segja að allar konurnar séu endilega fórnarlömb eða að allir  karlar sem taka hluta af gróðanum séu glæpamenn. Konur og þó einkum börn eru líklegri til að vekja samúð svo það þykir sjálfsagt hagkvæmara að senda þau út á göturnar og margir betlarar, bæði þeir sem betla sjálfir og þeir sem hafa tekjur af betli annarra, ólust sjálfir upp við það að vera gerðir út til betls og þekkja kannski ekkert annað líf. Ég held reyndar að það gildi um skipulagða glæpastarfsemi af ýmsum toga að glæponarnir eigi sér langa  sögu fátæktar, ofbeldis og misneytingar. Slæm félagsleg staða gengur í erfðir og sjálfsagt eiga sumir þeirra sem standa á bak við þennan viðbjóð fárra kosta völ.

Menn hafa svosem reynt að grípa til aðgerða til að draga úr misnotkun á betlurum. Innan lögreglunnar er starfandi fjölskyldudeild en vandamálin eru alltof mörg og umfangsmikil til þess að hægt sé að búast við viðunandi árangri. Betlandi mæðrum hafa verið boðin störf við götuhreinsun en það er meira upp úr betlinu að hafa svo þær sjá sér lítinn hag í því.  Auk þess er bæði barnavinna og betl félagslega viðurkennt, ríkið fátækt, valdamenn spilltir og kannski eru það frekar einstaklingar en samfélagið sem heild sem sjá betl sem vandamál frekar en lausn á vandamáli.

 

Í eigin barm

Ekkert réttlætir það að dópa smábörn upp eða gera lítil börn að þrælum en það er auðvelt að segja það þegar maður þarf ekki að benda á neinar raunhæfari lausnir.  Og það er svo helvíti sárt að vita engar lausnir.  Kannski er það alltaf í einhverjum skilningi sjálfsþæging að styrkja fátæka.  Maður kann engin ráð og reynir að bæta fyrir það með brauðmylsnu sem engu breytir.

Á maður að gefa betlurum peninga, vitandi að hugsanlega hirði einhverjir hákarlar megnið af innkomunni?  Sjálfsagt ætti maður ekki að gera það.  En maður ætti heldur ekki að kaupa vörur sem hugsanlegt er séu framleiddar af þrælum.  Maður ætti eiginlega ekki að taka þátt í hagkerfi sem er svívirðilega óréttlátt gagnvart þeim sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér og hin huggulegu vestrænu samfélög eru ekkert saklaus af því.  Þegar allt kemur til alls er skipulögð glæpastarfsemi stundum dulbúin sem betl.  Stundum sem kapítalismi.

Við getum fordæmt þá sem gera annað fólk út til að betla á götum Úganda og já, við eigum að fordæma verk þeirra.  Ofbeldi og misnotkun eru ekki menningarþættir sem við ættum að sýna virðingu, ekki frekar en við ættum að reyna að vernda plágusýkilinn frá útrýmingu. En kannski ættum við að líta í eigin barm líka.  Kannski oftar og kannski lengur í senn.

 IMG_20130403_165636

 Þessi gamla kona var alveg til í að láta mynda sig
og varð ægilega kát þegar hún fékk smápening að launum

____________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 18.4.2013 - 20:52 - FB ummæli ()

Umferð í Úganda

____________________________________________________________________________________

Gatnakerfið í Kampala ber ekki umferðina. Á álagstímum tekur óratíma að komast á milli staða. Í Kampala  virðast engar umferðarreglur gilda og víða eru hvorki umferðarmerki né götuljós. Hér ekki lestakerfi. Það eru leigumótorhjól og skutlur sem halda uppi almenningssamgöngum.

Skutlurnar eru bílar sem taka 10-14 manns í sæti. Þær aka ekki eftir ákveðinni áætlun og gjaldskrá fyrir hvern og einn heldur skipta farþegar kostnaðinum á milli sín. Bíllinn fer ekki af stað nema hann sé nánast fullur þannig að farþegar vita aldrei hversu lengi þeir þurfa að bíða.

taxi

Ég veit ekki hvort mér finnst óskiljanlegra að fólk geti fundið rétta bílinn í þessu kraðaki eða að bílarnir komist yfirhöfuð út á vegina en þeir eru víst með kerfi sem sagt er að virki. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

taxi2Á mörgum þessara bíla eru límborðar með einhverskonar skilaboðum þvert yfir framrúðuna. Maður hefði nú kannski haldið að það væri hentugt að merkja bílana með áfangastaðnum en þetta eru oft skilaboð sem eiga ekkert skylt við samgöngur. Skilaboðin eru gjarnan trúarlegs eðlis en í Úganda er mikið trúarlíf.

Ef maður ætlar bara að fara stutta vegalengd innanbæjar og er ekki lífhræddur er „boda-boda“ hentugur ferðamáti. Boda-boda eru skellinöðrur en nafnið kemur til af því að upphaflega voru hjól, fyrst reiðhjól en síðar vélhjól, notuð til þess að smygla varningi milli landamæra. „Border to border“ hljómaði í eyrum heimamanna sem „boda-boda“ og orðin sem í fyrstu voru notuð um smygl festust við farartækið.

Skellinöðrur eru ekki einungis notaðar til fólksflutninga. Hér flytja menn ótrúlegustu byrðar á vélhjólum og reyndar einnig á reiðhjólum. Timburhlaða sem standa heilan metra út til hvorrar hliðar, með tilheyrandi slysahættu. Ávexti sem er hlaðið svo þétt utan á hjólið að maður sér varla ökumanninn og trúir því varla að hægt sé að halda jafnvægi með svo þungan og umfangsmikinn farm, hvað þá að fylgjast með umferðinni líka. Jafnvel húsgögn eru flutt á hjólum og aðrir vegfarendur sýna því mikið umburðarlyndi.  Ég sá mann á reiðhjóli sem hafði komið um 80 cm breiðri grind fyrir á bögglaberanum og á henni var svo hár hlaði af eggjum að aftan frá rétt grillti í svartan kollinn á honum.  Eggin voru ekki einu sinni í lokuðum öskjum, heldur bara raðað á opna eggjabakka. Einar sá m.a.s. lík flutt á mótorhjóli en ég missti af því.

hjol

Þessi er að flytja vatnsbrúsa. Vonandi tóma. Kranavatnið í Kampala er drykkjarhæft (ég lagði reyndar ekki í að prófa það sjálf) en margir hafa ekki aðgang að vatnsveitu. Sumt fólk sem hefur aðgang að vatnsveitu selur kranavatn á brúsum. Ætli þeir séu nokkurntíma sótthreinsaðir?

Það er fljótlegast að komast um borgina á boda-boda og það hentar prýðilega ef maður er gefinn fyrir áhættusport. Ökumennirnir hika ekki við að smeygja sér milli bílaraða á miklum hraða og þeir útvega ekki hjálma svo ef maður á ekki hjálm er maður bara óvarinn. Úgandamenn virðast reyndar langt frá því að vera slysahræddir. Fáir nota hjálma og eitt sinn sáum við megaskvísu í netsokkabuxum og snípstuttu pilsi standa á öðrum fæti á farþegasætinu og halla sér fram, með hinn fótinn beint upp í loftið. Hún uppskar lófaklapp og blístur ungra töffara sem fylgdust með afrekinu.

kyrflutningar

Þessi mynd af gripaflutningabíl er tekin út um bílglugga. Inni í borginni silast umferðin áfram en þessi var úti á landi á góðum hraða. Maður bara Jesúsar sig og gleymir því alveg að það eru ekki nema 40 ár síðan börnum á Íslandi var leyft að sitja óvarin á vörubílapöllum.

Okkur er sagt að hér sé mikið um ölvunarakstur en árið 2011 var ákveðið að gera átak í þeim málum. Sett lög um hámarks áfengismagn í blóði og löggunni útveguð öndunarpróf. Vinir okkar hér segja að í barnslegri gleði sinni yfir nýju dóti hafi löggan farið offari í stútabösti og auk þess túlki laganna verðir lögin á þann veg að þeim beri að kæra hvern þann sem áfengi mælist í, jafnvel þótt það sé langt frá hámarkinu. Ég fann mig knúna til að leita staðfestingar og það tók ekki langan tíma, þetta er víst svona. Ekki nóg með það, heldur hafa þeir víst gefið það út að þeir áskilji sér rétt til að handtaka fólk fyrir ölvunargöngu þar sem drukknir gangandi vegfarendur valdi einnig slysahættu. En ég veit ekki hvort hefur nokkurntíma reynt á það.

Eins og gefur að skilja er slysatíðni há við þessar aðstæður. Samkvæmt opinberum tölum verða um 17000 umferðarslys í landinu á hverju ári. Ég er samt ekki viss um að það væri hægt að spara mikið í heilbrigðiskerfinu með því að bæta vegakerfið og gera strangari öryggiskröfur. Það er ekki eins og ríkissjóður þurfi að punga út örorkubótum eða dagpeningum þegar fólk slasast.

____________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Menning og listir
Efnisorð:

Miðvikudagur 17.4.2013 - 17:42 - FB ummæli ()

Vestræn klæði

___________________________________________________________________________________

Úganda er land undarlegrar þversagnar. Hér er paradís á jörð. Fullkomið veðurfar; hitastigið á bilinu 20-27 gráður árið um kring. Hér er nóg vatn og frjósamur jarðvegur, góðar koparnámur, olía, m.a.s. heitt vatn. Engu að síður býr þorri Úgandafólks við sára fátækt. Hér rignir reglulega en samt búa um 40% Úgandamanna við ófullnægjandi aðgegni að drykkjarvatni. Viktoruvatn fullt af fiski, ræktarskilyrði frábær og meira en 80% þjóðarinnar eru bændur en samt sem áður þjáist stór hluti þjóðarinnar af næringarskorti. Um 40% barnadauða má rekja beinlínis til vannæringar og 38% barna undir 5 ára aldri eru vannærð. Þetta er Úganda. Landið er auðugt, þjóðin snauð.

 

gata

 

Ég reiknaði með að sjá fátækt í Úganda. Ég vissi að til eru stórir hópar fólks sem búa í moldarkofum og öðrum hreysum. En ég vissi ekki að byggingar sem standa undir nafninu „hús“ í mínum huga teldust beinlínis lúxus. Ég hélt að fréttamyndir segðu aðeins hluta af sannleikanum og að fátækrahverfi væru hverfi en ekki normið sjálft. Ég reiknaði með að meirihlutinn byggi við þröngan kost, kannski svona eins og Palestínumenn og að stórir hópar væru blásnauðir. En ég gerði mér enga grein fyrir því hvað fátæktin en mikil og almenn.

Koman til Kampala

Það fyrsta sem við sjáum þegar við lendum í Kampala er kýr á beit í útjaðri flugvallarins. Andrúmsloftið hér minnir meira á Ísland fyrir 40 árum en alþjóðlegan flugvöll og engum virðist liggja neitt á. Gestgjafi okkar bíður fyrir utan flugstöðvarbygginguna og við höfum á orði að ef ekki væru öll þessi pálmatré gæti þessi flugvöllur allt eins verið á Egilsstöðum. Hann jánkar því. „Svona er þetta líka í Kampala, eini munurinn á Egilsstöðum og Kampala er allt þetta svarta fólk“, segir hann. Fljótlega komumst við að því að það er hin mesta lygi.

Ég átti ekki von á hraðbraut inn í vestræna borg en ekkert af því sem ég sé á leiðinni er í neinni líkingu við það sem ég hafði ímyndað mér. Hér gengur búfénaður um götur, ekki bara í þorpunum heldur líka inni í miðri borg. Við ökum til Kampala eftir rauðum leirvegum og sjáum hvert kofatildrið á fætur öðru. Þetta eru mestmegnis fyrirtæki, skýli sem menn hafa hróflað upp úr spýtnabraki, greinum og bárujárni og skreytt með marglitum auglýsingaskiltum. Við sjáum líka heimili og þau eru ekkert veglegri en fyrirtækin en gestgjafinn segir mér að oft sé heimili fólks í sama „húsnæði“ og fyrirtækið.

CnMVZiIMnR3wT4PTxbWoZQr3Kd1DJxWbgM2BieI_UTM

 

Í borginni ægir saman andstæðum ríkidæmis og fátæktar. Hér standa hlið við hlið hrófatildur á borð við þau sem sjást á myndinni hér að ofan og veitingahús og verslunarmiðstöðvar að vestrænni fyrirmynd.

 

IMG_20130415_123603

 Byggingin sem sést hér í bakgrunni er ítalski markaðurinn. Aðeins ríka fólkið verslar þar.

 

 IMG_20130403_170206

Veitingastaðir almúgans eru meira í þessa veru

 

turistabud

Túristabúðir eru í þokkalegum húsum með snyrtilegu umhverfi

 

bud

Húsgagnaverslun í Kampala

 

Vestræn klæði

Svo margt sem vekur athygli okkar þennan fyrsta dag okkar í Kampala. Karlar flyytja ótrúlegustu byrðar á reiðhjólum og vélhjólum. Konur bera stórar ávaxtakörfur á höfðinu. Börn leika sér að ónýtum reiðhjóladekkjum í drullunni en hér er lítið um malbik eða steypar gangstéttar og flísar, allsstaðar þessi rauði, fíngerði leir sem verður að leðju í rigningu.

Það sem kemur okkur þó mest á óvart er tvennt: Annarsvegar það að að þrátt fyrir alla drulluna og þrátt fyrir að við vitum að margir hafi ekki aðgang að rafmagni og því síður þvottavél, virðast allir svo hreinlega til fara. Hvernig í ósköpunum tekst fólki að halda sér hreinu við þessar aðstæður? Hinsvegar kemur okkur það verulega á óvart að þrátt fyrir fátæktina sjáum varla nokkra hræðu í afrískum fatnaði. Hér eru allir klæddir að vestrænum sið, bæði konur og karlar og einnig þau börn sem á annað borð eru í fötum.
IMG_20130404_173459

Þessi hreinu og snyrtilegu börn

 

IMG_20130404_172622

búa hér

 

Eins og svo margar aðrar þversagnir Úganda skýrist klæðaburðurinn að nokkru leyti af vestrænum kapítalisma. Vestræn fyrirtæki hasla sér völl í þriðja heiminum. Ráða ódýrt vinnuafl til að fjöldaframleiða fatnað (gjarnan úr bómull sem þrælar hafa tínt) fyrir Vesturlönd. Við kaupum svo 10 sinnum fleiri flíkur en við komumst yfir að nota og samt sem áður sitja framleiðendur og verslanir uppi með miklar birgðir af óseljanlegum fatnaði og annarri vefnaðarvöru. Umframbirgðir eru sendar til Afríku auk óendanlegs magns af notuðum fatnaði sem við losum okkur við af því að við nennum ekki að gera við saumsprettu eða festa tölu. Nú eða bara af því að flíkin er ekki lengur í tísku. Hjálpin kemur sér vel. Fátæklingar fá fatnað og geta jafnvel opnað eigin verslanir. En þessi góðmennska okkar hefur samt sem áður óæskilega aukaverkun. Hjálparstarf hefur nánast gengið af innlendum fataiðnaði dauðum. Nýr fjöldaframleiddur kjóll úr dýrustu túristabúð kostar aðeins þriðjung af því sem klæðskerinn þarf að taka til að standa undir sér.

Fátæklingar þurfa fatnað en það síðasta sem Úganda þarf er atvinnuleysi heillar stéttar og það á við um fleiri Afríkuríki. Ég hef velt því fyrir mér hvort væri kannski réttast að leggja þróunarhjálp niður og láta Afríku bara í friði. Leiðtogar Afríkuríkja hafa haldið því fram að ef Vesturlönd borguðu sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindum, og gæfu þriðja heims löndum aðgang að mörkuðum, gætu þeir ráðið við sínar þróunaráætlanir á eigin spýtur. Ég held að það sé rétt hjá þeim; þeir gætu vel ráðið við það. Hvort leiðtogar Afríku myndu skyndilega afspillast og taka upp sérstaka umhyggju fyrir sínum minnstu bræðrum, það efast ég aftur á móti um. En á hinn bóginn efast ég líka um að allt þetta fólk, sem svíður í nískupúkann vegna þeirra smáaura sem við verjum til neyðarhjálpar og þróunarsamvinnu, væri tilbúið til að afsala sér þeim gæðum sem ódýrt vinnuafl og auðlindarányrkja Vesturlanda hefur fært okkur.

_____________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál
Efnisorð: , ,

Laugardagur 30.3.2013 - 18:01 - FB ummæli ()

Því miður, þú býrð í útlöndum svo þér kemur þetta ekki við

___________________________________________________________________________________

Mig langaði til þess að mæla með tilteknu framboði en komst þá að því að þar sem ég á lögheimili erlendis má ég ekki skrifa undir meðmælalista.

Ég þekki þess líka dæmi að fólk sem er búsett erlendis hefur mætt á kjörstað og áttað sig þá á því að það er dottið út af kjörskrá vegna þess að það hefur búið svo lengi erlendis. Nú er hægt að kæra sig inn á kjörskrá aftur svo það er í raun enginn augljós tilgangur með því að taka fólk út af kjörskrá. Þetta hefur bara meiri skriffinnsku í för með sér.

Hvaða rök eru annars fyrir því að svipta íslenska ríkisborgara borgaralegum réttindum sínum ef þeir flytja til útlanda? Ef rökin eru þau að fólk sem ekki býr á landinu eigi ekki að hafa sömu tækifæri til áhrifa, væri þá ekki eðlilegast að svipta fólk ríkisborgararétti ef það flytur?

___________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Föstudagur 29.3.2013 - 10:37 - FB ummæli ()

Súkkulaði, þrælahald og Fair Trade vottun

 

Drissa_bodyÞá er það staðfest sem allir vissu en fáir töluðu um; páskaeggin okkar eru unnin úr þrælabaunum. Reiknað með að taki tíu ár að leggja niður viðskipti við þrælahaldara. Eftirfarandi pistil skrifaði ég árið 2011.

————————————————

 

Súkkulaði er gott. Svo gott að mér skilst að flestar konur taki það fram yfir kynlíf. Það dregur samt dálítið úr ánægjunni að vera meðvitaður um það að flestir kakóframleiðendur eru sekir um þrælahald. Og ekki bara þrælahald heldur barnaþrælkun.Við erum ekki að tala um fullorðið fólk sem tekur upplýsta ákvörðun um að vinna erfitt starf fyrir lág laun og má hætta hvenær sem því hentar þótt það hafi kannski ekki „raunverulegt“ val þegar tillit er tekið til aðstæðna, heldur börn sem eru barin til vinnu á daginn, læst inni á næturnar og misþyrmt ef þau reyna að flýja.

 

Við komumst ekki hjá því að styðja þrælahald

Einhverju sinni fór ég með 14 ára frænda mínum í matvörubúð. Við ætluðum að kaupa kókómalt en þegar hann setti Nesquick í körfuna bað ég hann að taka frekar aðra tegund. Ég vildi ekki versla við þetta fyrirtæki og útskýrði hversvegna.

Drengnum fannst þetta áhugavert og bað hann mig að skrifa fyrir sig lista yfir öll vond fyrirtæki svo hann gæti sniðgengið þau. Ég sagði honum að það eina sem hann gæti gert væri að kaupa ekkert sem hann vantaði ekki nauðsynlega. Á hálfri mínútu eyðilagði ég hugsjón hans um að verða góður neytandi.

Kapítalískt hagkerfi býður ekki beinlínis upp á mannúðarhyggju og hófsemi. Þegar við kaupum algengar neysluvörur styðjum við stundum þrælahald og langoftast aðra óhæfu og yfirgang gagnvart fólki sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Við getum sniðgengið eitt og eitt fyrirtæki en jafnvel þótt við værum í fullri vinnu við að skoða feril þeirra fyrirtækja sem eru á markaðnum kæmumst við ekki hjá því að styðja eitthvað sem orkar tvímælis.

Við verðum ekki siðlegir neytendur á meðan við búum við kapítalisma. Þrælahald mun tíðkast og stóriðjufyrirtæki munu stunda landtöku, spilla vatnsbólum og hrekja fólk á vergang. Við breytum því ekki með því að kaupa ekki álpappír eða versla ekki við Nestle, ekki á meðan við neyðumst til að nota bíla (öll áfyrirtækin eru ógeð) og meðan flestir súkkulaðiframleiðendur skipta við þrælahaldara.

 

Fólk sniðgengur fyrirtæki aðeins ef það á kost á sambærilegri vöru

Sniðganga væri gífurlega öflug baráttuaðferð ef almenn þátttaka fengist en það er ekki að fara að gerast. Við getum tekið Palestínu sem dæmi.

Ísraelsmenn hafa sölsað undir sig öll helstu appelsínuræktarsvæði Palestínu. Palestínskt fyrirtæki gerði fyrir nokkrum árum tilraun til að framleiða appelsínusafa en var refsað með svo háum tollum að varan varð allt of dýr til að vera samkeppnishæf. Ég veit ekki hvort fyrirtækið hangir á horriminni enn eða hvort það fór á hausinn en árið 2009 var allt útlit fyrir að eigendurnir gæfust upp. Kaupmenn treystu sér ekki til að versla við fyrirtækið því þeir gátu ekki selt vöruna  með sanngjarnri álagningu. Flestir Palestínumenn keyptu frekar ísraelska safann af því að hann var aðgengilegur og miklu ódýrari.

Sniðganga er góð hugmynd en það er ekki einu sinni hægt að fá nema örlítið brot Palestínumanna til að sniðganga ísraelskan appelsínusafa. Ekki af því að þeir viti ekki hversu miklu máli það skiptir, heldur af því að mannveran er nautnaseggur, og sá sem vill appelsínusafa mun ekki bíða í 30 ár þar til búið er að koma á réttlæti. Því síður er von til þess að Íslendingar hætti að kaupa páskaegg. Til þess að fólk fáist til að sniðganga fyrirtæki þarf það að eiga kost á jafn góðri vöru á samkeppnishæfu verði.

 

Er Fair Trade vottun svarið?

kitkatKannski er Fair Trade vottun svarið fyrir fólk eins og hinn unga frænda minn því hún getur allavega verið leiðbeinandi um það hvaða fyrirtæki maður þarf ekki að sniðganga.

Mér líður pínulítið betur í hjartanu þegar ég kaupi Fair Trade súkkulaði en satt að segja er Fair Trade vottunin ekkert hafin yfir gagnrýni. Efasemdamenn spyrja t.d. hvort hægt sé að treysta samtökum sem leggja blessun sína yfir vöru frá jafn ógeðfelldu fyrirtæki og Nestle en Kit Kat súkkulaðið hefur fengið Fair Trade vottun. Er virkilega nóg að tiltekin grein fyrirtækis noti ekki þrælavörur þótt móðurfyrirtækið sjálft sé blóðsekt?

Ég held að Fair Trade vottun geti unnið gegn þrælahaldi en það má áreiðanlega bæta staðlana. Ég hef enga trú á því að fólk hætti að kaupa súkkulaði en ég held að ef það verður norm að sniðganga þau fyrirtæki sem ekki eru með stimpil af þessu tagi, muni fyrirtækin sjá sér hag í því að ráða fullorðið fólk og greiða því mannsæmandi laun. Það er nefnilega ekki nóg að uppræta þrælahald og skilja fólk svo eftir afkomulaust.

 

Hver á að niðurgreiða súkkulaðið okkar?

Sem stendur eru það þrælar, aðallega börn og unglingar, sem niðurgreiða súkkulaðið okkar með nauðungarvinnu sinni. Það er ekki við því að búast að margir velji dýrasta kostinn en ef hið opinbera niðurgreiddi Fair Trade vörur myndi líklega draga úr eftirspurn eftir þrælavörum. Það mætti líka vel skikka verslanir til að bjóða upp á vörur með Fair Trade vottun. Lágvöruverðsverslanir kunna að vera tregar til þess þar sem er ekki hægt að bjóða þessar vörur á fáránlega lágu verði en margir þeirra sem versla í Bónus, væru alveg tilbúnir til að greiða dálítið hærra verð (ekki miklu hærra) fyrir einstaka vörur ef þeir þyrftu ekki að fara í aðrar búðir til þess. Fair Trade vörur þurfa að vera nógu aðgengilegar og nógu ódýrar til að neytendur líti á þær sem góðan valkost, því þá fyrst getum við búist við að fólk fari að líta þær vörur hornauga sem ekki hafa slíkan stimpil.

 

Eða bara refsa súkkulaðikaupendum

 Cocoa-Child-Laborer

En svo má auðvitað fara valdboðsleiðina og gera súkkulaðikaup refsiverð

 

07089

Og banna fólki að kaupa kaffi

 

Og vefnaðarvörur

 

xin_44210061712308283132256

Og múrsteina

 

eldsp

Og eldspýtur

 

Já og gler, málma, korn, krydd, skó og auðvitað flugelda. Það hlýtur að vera raunhæfara að banna bara allt draslið en að greiða fyrir Fair Trade vottun.

 

Við getum þó huggað okkur við að kynlífskaup eru nú þegar bönnuð, hvort heldur er af frjálsum konum eða ánauðugum börnum. Þetta kúgaða fórnarlamb mansals, sem af ótta við hina undirokandi fulltrúa feðraveldisins þorir ekki annað en að hegða sér eins og ýlandi dræsa, á því betri daga í vændum, ólíkt smábörnum sem þræla við að bera múrsteina og sprengja af sér útlimi við flugeldagerð.

8765432Anticriminalizationofprostitution

Flokkar: Allt efni · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð: , , , ,

Fimmtudagur 28.3.2013 - 11:19 - FB ummæli ()

Þetta eina sem þingheimur náði samstöðu um

Í dag eru margir reiðir.

Út af þessu með auðlindaákvæðið og kvótann og vatnalögin og allskonar og æjá svo var eitthvað um stjórnarskrá. Dálítið verið daðrað við einkavæðingu bankanna líka. Var ég búin að nefna meiri stóriðju? Ríkisstyrkta?

Það er ósköp skiljanlegt að þeir sem kusu Samfylkinguna og VG séu í sárum en í allri þessari reiði yfirsést mönnum nokkuð stórkostlegt og undursamlegt; það að þrátt fyrir allt lauk störfum þingins í samhug og einingu sem á sér varla fordæmi í Íslandssögunni. Að þingmönnum Hreyfingarinnar undanskildum, sameinuðust þingmenn allra flokka loks í verkum sínum, og eins og til að undirstrika það viðhorf að ríkisstjórn eigi að hlusta á mótherja sína á Alþingi, sáu stjórnarflokkarnir sjálfir um að eyða stjórnarskrármálinu á meðan þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.

Aldrei frá því að ég fór að fylgjast með fréttum hef ég séð skapast á Alþingi jafn skýra, þverpólitíska afstöðu um eitt mál: Það að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að ráða.

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin

Miðvikudagur 27.3.2013 - 02:35 - FB ummæli ()

Við vildum eitthvað annað

___________________________________________________________________________________

Búsáhaldabyltingin var engin bylting. Hún var röð uppþota sem hröktu vanhæfa ríkisstjórn frá völdum. Enginn dó og það er á mörkunum að hægt sé að tala um óeirðir en fólk óhlýðnaðist lögreglunni og það var svo brjálæðislega róttækt að í huga þjóðar sem þekkir hvorki sverð né blóð (enda þótt hún styðji hvorttveggja með hundslegri tryggð sinni við Nató) var það nánast stríðsástand sem ríkti frá miðjum nóvember 2008 og út janúar 2009.

 

Þið sem viljið „bara eitthvað annað“

Raddir fólksins héldu fundi. Allir skildu hvað sú hreyfing vildi. Koma ríkisstjórninni frá og þá væntanlega annarri að.

Anarkistar vildu ekki nýja ríkisstjórn heldur enga ríkisstjórn. Við vildum beint lýðræði. Við vildum „eitthvað annað“ en fulltrúa sem marka stefnu og svíkja hana svo um leið og þeir komast til valda. Við vorum krafin skýringa á því hvað ætti að gera í efnahagsmálum, hvernig ætti að reka heilbrigðiskerfið o.s.frv. og við svöruðum: „Örfáar hræður geta ekki ákveðið það fyrir fjöldann. Allir sem hafa áhuga á þessum málum eiga að ákveða það með samráði.“ Þetta hljómaði eins og kínverska í eyrum þeirra sem skildu bara ekkert í því að til væri fólk sem vildi hvorki ráðskast með aðra né láta aðra ráðskast með sig. Við vorum í hugum þeirra ekki fólkið sem vildi beint lýðræði heldur bjánar sem vildu „bara eitthvað annað“.

 

Þetta er bara ekki rétta skotmarkið

Yfir aðgerðasinna rigndi lofi og svívirðingum, stuðningsyfirlýsingum og ógnunum. Þegar við trufluðum ríkisstjórnarfund var okkur úthúðað fyrir að ráðast ekki frekar á bankana, þegar við bauluðum á bankana urðum við fyrir heilagri vandlætingu fyrir að ráðast ekki frekar gegn útrásarvíkingum og þegar við híuðum á Baug átti fólk ekki orð yfir hneykslun sína á því að við værum að spilla verslunargleði bláfátækra landsmanna og það á sjálfum jólunum!

 

Þetta er bara ekki rétta aðferðin

Það voru þó fyrst og fremst aðferðir aðgerðasinna sem fóru fyrir brjóst góðborgara. Fólk, sem áleit að lýðurinn sem skyndilega skuldaði tólffalda þjóðarframleiðslu sína ætti bara að anda með nefinu, froðufelldi af heilagri reiði yfir því að þurfa að bera kostnaðinn af þrifum á Alþingishúsinu. Ofbeldi var endurskilgreint. Skemmd hurð var „ofbeldisverk“ og tók steininn úr þegar jólatréð, sjálft Oslóartréð, var brennt þann 21. janúar en ekki jarðað frá Dómkirkjunni svo sem venjan var.

Sófaherforingjar leiðbeindu okkur um það hvernig fremja skal byltingu, gáfu út tilmæli um það hvaða byggingar skyldu sprengdar og hverra bílar skyldu brenndir, en gripu sjálfir ekki til svo róttækra aðgerða að draga það að borga af lánunum sínum eða beina viðskiptum sínum til annarra en útrásarvíkinga. Fleiri voru þeir þó sem útskýrðu fyrir okkur, af yfirlætislegri góðvild, að allt þetta eggjakast, gjörningar og árásir á stofnanir hefði ekkert upp á sig, að mótmælin væru að „snúast gegn sjálfum sér“ og að við myndum „missa allt fylgi“ (enda þótt enginn hópur aðgerðasinna hefði lýst áhuga á framboði) ef við héldum áfram. Það var alveg sjálfsagt að mótmæla en mótmælin áttu að fara fram í kyrrþey.

 

Og ný stjórn tók við

Fleiri skandalar komu upp á yfirborðið og þvert á allar hrakspár fjölgaði þeim stöðugt sem tóku þátt í beinum aðgerðum og studdu þær. Eldar brunnu á Austurvelli og dró þar margur kústskaftið úr eigin rassgati og kastaði á bálið. Það kostaði piparúða og táragas en ríkisstjórnin fór, stjórn Seðlabankans fór og stjórn Fjármálaeftirlitsins lét af störfum.

Ný ríkisstjórn tók við völdum. Samskonar valdaklíkustjórn og hægri stjórnin sem sat á undan henni. Í veigamestu málunum hefur hún brugðist. Baktjaldamakk viðgengst enn og er á köflum nánast óskiljanlegt hvaða hugsun liggur að baki. Hvað í ósköpunum græða hinir svokölluðu vinstri flokkar t.d. á þessu helvítis fokking fokki?

 

3583451620_3228eb54f2

 

Af Samfylkingunni var einskis að vænta, enda var hún annar hrunflokkanna, en VG hefðu átt að sýna lit. Það er ömurlegt að eftir fjögurra ára valdatíð skuli helstu afrek stjórnmálaflokks sem kennir sig við umhverfis- og mannúðarstefnu, og var kosinn fyrst og fremst út á það að hafa ekki (ennþá) sýnt af sér verulega spillingu, vera svik í stjórnarskrármálinu, meiri stóriðja, barátta fyrir njósnaheimildum lögreglu og eftirliti með internetnotkun landsmanna auk þess að hafa bjargað bönkunum en brugðist heimilunum.

 

Var það ekki þetta sem þið vilduð?

Þegar ég gagnrýni sitjandi ríkisstjórn er ég stundum spurð, all snúðiglega; „nú var það ekki þetta sem þið vilduð?“ En anarkistar báðu aldrei um vinstri stjórn. Á meðan 7000 manns hrópuðu „vanhæf ríkisstjórn“ hrópuðu 70 manns „enga ríkisstjórn“. Við vildum ekki hægri eða vinstri heldur kerfisbreytingu. Við vildum skapa nýjar og lýðræðislegri aðferðir við ákvarðanatöku. Við vildum aflétta leyndarhyggjunni og auka tjáningarfrelsið. Ég trúði því aldrei að spillingin væri bundin við einstaklinga eða flokka en ég hélt nú samt að Vinstri græn yrðu heiðarlegri en Sjálfstæðisflokkurinn. Hrossakaup í umhverfis- og lýðræðismálum var sannarlega ekki það sem ég vildi. Ekki heldur allir hinir sem áttu ekki skýrari orð yfir hugsanir sínar en helvítis, fokking, fokk!

Ég og fjölmargir aðrir töldu þá og telja enn að eina leiðin til að draga úr spillingu sé gagnsæ stjórnsýsla og litlir möguleikar til að safna völdum á fáar hendur. Það álit er ekki bundið við þá sem eru á móti ríkisvaldi. Á dögum búsáhaldabyltingarinnar varð til hreyfing sem kallaði sig „lýðveldisbyltinguna“ og gerði áhugaverða tilraun með rafrænt lýðræði. Sú tilraun tengdist hvorki anarkistum né tilteknum stjórnmálaflokki.

 

Og samt bar hún árangur

Lengi hélt ég að eini árangur búsáhaldabyltingarinnar (sem þó skiptir vissulega máli) væri breytt viðhorf fjöldans til beinna aðgerða. En fleira breyttist. Inn á þing komst fólk sem hefur meiri áhuga á að bylta valdakerfinu en að koma sjálfu sér að kjötkötlunum. Sú hugmynd að hægt sé að taka ákvarðanir með samráði fjöldans varð að stjórnmálaafli sem hefur nýtt sér sömu hugmynd og lýðveldisbyltingin byggði á og þróar nú stefnu sína í umræðuhópum á netinu.

Yfirvaldslaust samfélag verður ekki að veruleika á næstu fjórum árum en hið rafræna lýðræði sem Píratar standa fyrir er  framhald af þeirri byltingartilraun sem hófst með uppþotum aðgerðasinna veturinn 2008-2009. Hún er „eitthvað annað“ og þessvegna ætla ég að kjósa Píratana í komandi Alþingiskosningum.

Ég vona að Píratar komist á þing. Og Dögun. Og að Framsóknarflokkarnir fjórir gjaldi verðskuldað afhroð.

_______________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Þriðjudagur 26.3.2013 - 15:56 - FB ummæli ()

Kartöfluhýði Brynjars Níelssonar

_________________________________________________________________________________

Sama dag og skýrsla starfshóps um Guðmundar og Geirfinnsmál kemur út, taka menn til við að dreifa tveggja ára gamalli grein Brynjars Níelssonar um Guðmundar og Geirfinnsmálin á netinu. Grein sem virðist eiga að vera einhverskonar varnarskjal fyrir lögreglu og dómstóla. Bendir hann á nokkrar staðreyndir sem lágu til grundvallar dómum yfir sakborningum í þessum málum auk þess sem hann fullyrðir:

Við höfum enga ástæðu til að ætla að rannsakendur hafi viljað koma sök á saklaust fólk í máli þessu og sætir furðu að það skuli hvarfla að nokkrum manni.

Það sem Brynjar tekur ekki fram

Brynjar sleppir því alveg að geta þess að Geirfinnsmálið varð að pólitísku máli. Þáverandi dómsmálaráðherra var ásakaður um að hafa haft afskipti af rannsókninni og þetta varð hitamál í þinginu. Rannsakendur höfðu kannski ekki sérstaka ástæðu til þess að vilja koma sök á saklaust fólk en þjóðin vildi blóð og dómsmálaráðherra heimtaði niðurstöðu. Rannsakendur höfðu því ærna ástæðu til þess að vilja finna sökudólg, einhvern sem mætti dæma og refsa. Sekt eða sakleysi varð aukaatriði og eins og settur saksóknari, Ragnar Hall, orðaði það, þá voru sakborningar í þessum málum „engir kórdrengir, sóttir inn í fermingarveislu“. Þeir voru glæponar, Vítisenglar sinnar kynslóðar og bara fínt að losna við þá af götunni. Það sætir því hreint engri furðu þótt margir telji meðferð Guðmundar- og Geirfinnsmála dómsmorð.

Brynjar veit auðvitað að það sem skiptir mestu máli er ekki hversu langur tími líður þar til játningar koma fram, heldur það hversu trúverðugar þær eru. Hann getur þess ekki að ýmsar játningar komu fram sem auk þess að vera samhljóða geta enganveginn staðist og má merkilegt teljast að fólk sem situr í einangrunarvist hafi fengið sömu hugmyndir að sömu ósannindunum á sama tíma. Að mati starfshópsins eru játningar allra sakborninga ótrúverðugar, það er bara þannig.

 

dee0ae4639ae5166

Sönnunargögnin sem Brynjar nefnir sanna ekki neitt

Auk hinna vafasömu játninga nefnir Brynjar nokkrar aðrar sannanir sem lágu til grundvallar dómunum. Engin þeirra heldur vatni.

Það er engin sönnun fyrir manndrápi þótt maður sem tveimur árum síðar staðfestir að hafa séð mann í húsi (sem gat þó ekki lýst fyrr en eftir að hafa farið þangað í vettvangsferð) tiltekið kvöld, sem „geti vel verið“ að hafi verið hinn látni, maður sem auk þess var undir áhrifum ofskynjunarlyfja í umrætt sinn.

Það er engin sönnun fyrir manndrápi þótt maður sem veit ekki einu sinni á hvernig bíl hann var staðfesti að hafa tekið upp puttaferðalang og því síður þegar hann gjörbreytir sögu sinni til samræmis við tilgátu lögreglunnar.

Það er heldur engin sönnun fyrir manndrápi þótt sakborningur hafi ekki fjarvistarsönnun og Brynjari mun einnig kunnugt um að hinar röngu sakargiftir á hendur fjórmenningunum stóðu í sambandi við það að Sævari hafði verið talin trú um að Erla óttaðist um líf sitt. Rangfærslur sem bornar eru fram af slíkri örvæntingu sanna hvorki manndráp né ásetning um að koma sök á aðra auk þess sem margt bendir til þess að lögreglunni hafi verið í mun að bendla Klúbbsmenn við hvarf Geirfinns.

Engin hnotskurn

Reifun Brynjars á málinu er ekki nein „hnotskurn“ heldur í besta falli næfurþunnt kartöfluhýði sem flettist nánast sjálfkrafa af um leið og maður snertir við því. Brynjar Níelsson hefur margsinnis bent á mikilvægi þess að dómstólar virði þá grundvallarreglu réttarríkisins að maður skuli teljast saklaus nema sekt hans sé hafin yfir skynsamlegan vafa. Það er þyngra en tárum taki að sjá lögmann, sem svo oft hefur verið í forsvari fyrir mannréttindi sakborninga taka til varna fyrir réttarfar sem svo augljóslega brást í þessum umdeildustu sakamálum Íslandssögunnar. Brynjar Níelsson er e.t.v. verðandi innanríkisráðherra. Vonandi endurskoðar hann afstöðu sína áður en hann tekur við embætti.

—-

Á þessari slóð er að finna auk hæstaréttardómsins, öll gögn Guðmundar- og Geirfinnsmála sem gerð hafa verið opinber.
Hér er svo skýrsla starfshópsins.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Lögregla og dómsmál · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð:

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics