Mánudagur 28.10.2013 - 16:13 - FB ummæli ()

Verður kartöflurækt einokuð?

Í gær benti ég á þvæluna í þeim sem flokka hvern þann sem marxista, sem telur kapítalismann vinna gegn lýðræði og frelsi.

Í þessu viðtali er fjallað um fyrirhugaða plöntulöggjöf Evrópusambandsins; reglur sem hætta er á að hefti frelsi almennings til þess að stunda jafn áhættulausa og sakleysislega iðju og matjurtarækt. Þetta er einmitt dæmi um það hvernig kapítalisminn snýst beinlínis gegn viðskiptafrelsi og maður þarf ekki að vera sérstakur aðdáandi „samsæriskenninga“ til að gruna að slíkar reglur séu settar með hagsmuni stórfyrirtækja að leiðarljósi.

Við trúum því varla að sé hægt að banna fólki að rækta sínar eigin kartöflur. Staðreyndin er samt sú að stórfyrirtæki hafa öðlast einkaleyfi á tilteknum fræjum og öðru útsæði. Einkaleyfi Monsantó á útsæði hafa t.d. þau áhrif að smábændur sem vilja rækta þau afbrigði þurfa að kaupa útsæði árlega og aðrir geta átt á hættu lögsókn ef fræ berast inn á lönd þeirra. Kúgunin sem Monsanto stendur fyrir hefur þó ekki fengið þá athygli sem maður hefði búist við, kannski vegna þess að umræður um erfðabreytt matvæli fara yfirleitt fljótlega að snúast um hvort þau séu skaðleg heilsu manna eða ekki.

Nú er fyrirhugaðri plöntulöggjöf Evrópusambandsins að sögn ætlað að vernda almenning gegn skaðlegum jurtum. Ekkert liggur þó fyrir um að sú fæða sem við ræktum sjálf í görðunum okkar sé skaðleg og slík löggjöf býður beinlínis upp á einokun stórfyrirtækja.

Fram til ársins 2009 hafði Evrópusambandið strangar reglur um stærð og lögun ávaxta og grænmetis. Til þess að geta flutt ávexti og grænmeti á Evrópumarkað þurfti að rækta sérstaklega afbrigði sem stóðustu kröfur um stærð og útlit. Og hverjir höfðu bolmagn til þess? Varla smábændur. Nú hefur þessum klikkuðu reglum verið aflétt en þau fyrirtæki sem stóðu undir kröfunum eru búin að hasla sér völl og neytendur eru orðnir vanir því að gúrkur séu beinar og að blómkál sé af tiltekinni stærð. Það er ekkert einfalt fyrir smábændur að ganga inn í þetta undarlega afbrigði af markaðsfrelsi. Það verður heldur ekkert einfalt fyrir garðyrkjubændur í Biskupstungum að selja tómatana sína ef  þeir þurfa blessun Evrópusambandsins til þess. Við búum þegar við einokun nokkurra auðmanna á rétti til fiskveiða. Hverjir ætli eigi mesta möguleika á að kaupa sér einkaleyfi til kartöfluræktar?

Og nú er ég ekki að fullyrða að fyrirhuguð plöntulöggjöf sé ástæða til þess að hafna Evrópusambandinu, heldur er ég að benda á að „viðskiptafrelsið“sem kapítalisminn boðar er alls ekki frelsi fyrir alla. Fyrir þá ríku og voldugu jú, en ekki fyrir einyrkja og lítil fjölskyldufyrirtæki.

 

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

Sunnudagur 27.10.2013 - 13:10 - FB ummæli ()

Eððú sért ekki með okkars í liði…

Lýðræði, eins og það er ástundað í okkar samfélagi, merkir að fjöldinn felur stjórnmálaflokkum að setja lög. Lögin eru svo mótuð eftir hagsmunum flokkseigenda sem einnig hafa umtalsverð áhrif á það hverjir veljast í valdastöður.  Mikið lifa þeir í litlum og þröngum heimi sem álíta að hver sá sem ekki er hrifinn af þessu fyrirkomulagi vilji endilega koma á marxisma. Ég þekki persónulega einn mann sem hefur áhuga á að koma á samfélagi sem mótað er eftir marxískri fyrirmynd. Einn. Og vinir hans hía á hann.

Það þarf engan marxisma til að vilja koma í veg fyrir söfnun auðs og þar með valda á fáar hendur. Ég þarf ekki að vera marxisti til að vera mótfallin því að fólk í valdastöðum geti stjórnað stjórnmálaflokkum, fjölmiðlum, vísindastofnunum og menningarlífinu, ásamt því að úthluta vinum og vandamönnum embættum og einkarétti á nýtingu auðlinda. Ég þarf ekkert að vera marxisti til þess að sjá eitthvað rangt og hættulegt við stórfelldar persónunjósnir, misneytingu lögregluvalds og ofsóknir gegn minnihlutahópum.

Gagnrýnin á kapítalismann, eða öllu heldur það hvernig markaðsfrjálshyggjan er í framkvæmd, hefur lítið með marxisma að gera. Hún er miklu fremur sprottin af hneykslun á því hvernig kapítalstar hafa svikið hugsjónina um frelsi. Það er ekki í anda markaðsfrjálshyggju að hefta aðgengi þriðjaheimsríkja að mörkuðum og hefta flæði fólks milli heimshluta. Ómerkileg er sú frelsishugsjón sem lætur það viðgangast að fólk sé ráðið í stöður á grundvelli hagsmunatengsla fremur en verðleika og hverskonar frjálsræði ríkir þar sem menn hafa sitt fram með hernaði og fólk er handtekið fyrir að standa uppi í hárinu á stórfyrirtækjum og stjórnvöldum? Kapítalismi eins og hann er praktíseraður á nefnilega jafn lítið skylt við frelsi og stalínismi við jöfnuð og réttlæti. Sumir eru frjálsari en aðrir, klárlega.

Kannski væri reynandi að ræða stjórnmál út frá einhverju öðru sjónarhorni en þessum tveimur pólum, hægri-vinstri.  Hugmyndin um valið á milli markaðsfrjálshyggju og marxisma er nefnilega að hálfu leyti ímyndun og hinn helmingurinn er ekkert annað en hrein og klár lygi.  Og ég sé ekki að við höfum grætt neitt á því hingað til að saka hvern þann sem talar gegn ríkissafskipum um þjónkun við auðvaldið og hvern sem talar gegn einkavæðingu auðlinda um stalínska framtíðarsýn.

 

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 24.10.2013 - 14:29 - FB ummæli ()

Lenti í Bellman

Ef á annað borð er hægt að hugsa sér fánýtari dægradvöl en ljóðagerð, þá eru ljóðaþýðingar það fyrsta sem mér kemur í hug. Og að velja í þokkabót meira en 200 ára gamlan kveðskap við tónlist sem fáir geta sungið, það er náttúrulega bilun.  Á hinn bóginn er skynsemi ofmetin. Og Bellman yndi. Sem ég elska þar til ég fer að reyna að þýða hann, þá hata ég hann í smástund. Elska hann svo aftur.

Hér fyrir neðan er þýðing mín á Glimmande nymf. Lagið er hér í flutningi hins stórkostlega Freds Åkerström. Glimmande nymf hefst á mínútu 05:54.

 

 

frenchgirlsmall

Litfríða mær, leiftrandi auga
þitt lofnarblóm grær, við tírunnar bauga.
Þar, bak við sparlök blá
sem bólstraskýin há
er breidd þín hvíta rekkjuvoð.
Brátt skal blóta svefnsins goð.

Hurðin er læst, hangir á nagla
hárkolla glæst, með fléttuðu tagli.
Nátthúfan fast er hnýtt
hún felur hárið sítt.
Og út er brunnið kertið hvítt.
Sofna vært við sönglag þýtt.

Miðóttan blá. Bíbí og blaka,
bókfinkan smá, hætt er að kvaka.
Sólin er hnigin,
hnaukar upp skýin.
Þagnar foldin; friðarstund.
Freyju vil ég halda á fund.

LouisMarinBonnetWithoutFrame1
Öskrandi gnýr, úrhelli og þundur
eldingin sker hvolfið í sundur.
En purpura hjúpuð
í himnanna djúpi,
er ljósbraut gylltu og grænu rennd.
Jörð var ár af Jöfri kennd.

Sofna þú dís, við draumanna gígju.
Dýrðleg uns rís, sólin að nýju.
Og hálsinn þú reigir
og hendurnar teygir
að vatnskrús minni og vinarhönd.
Vígð eru okkar ástarbönd.

Dauða ertu nær! Drottinn, hún bærist;
í dauðanum tær lífsorkan hrærist.
Vart bifast hjartað hljótt,
samt blundar augað rótt.
Gígjan þagnar, góða nótt!
Gígjan þegir, góða nótt!

Flokkar: Allt efni · Menning og listir
Efnisorð:

Sunnudagur 20.10.2013 - 14:42 - FB ummæli ()

Barnabull

Kannski er hugmyndin um áhrifamátt bundins máls á undanhaldi en hún hefur lengst af verið áberandi í íslenskri menningu. Hún birtist til að mynda í galdratrú þar sem ákvæðakveðskapur skipar stóran sess og eins hefur skáldskapur löngum þótt áhrifarík leið til að kveða niður drauga. „Meiðyrðamál“ Íslendingasagna voru gegn skáldum sem höfðu ort níð. Þar sem alþýðukveðskapur er jafn stór þáttur í menningunni og á Íslandi er kannski ekki að furða þótt níðvísa hafi þótt líklegri til að skaða æru manna en móðgun í óbundnu máli.

Barnamenning er einnig lituð af þeirri hugmynd að rím og stuðlar hafi sérstakan áhrifamátt. Klifanir af ýmsu tagi eru áberandi í leikjum barna og krökkum hefur löngum þótt sniðugt að svara fyrir sig með rími og stríða öðrum með því að gala á eftir þeim misvel rímaðar móðganir, með syngjandi hljómfalli. Klassískt að ríma Gunna við tunna en sérlega vel heppnuð stríðni er eilítið flóknari. Ef ekki vill betur má alltaf bæta við „rassgatarunna“ eða öðru rími með óljósa merkingu.  Og ef nafnið rímar ekki vel má alltaf nota stuðla í móðgunarskyni sbr. Bjössi bolla. Rassgöt og viðrekstrar, ásamt þeim sérstaka þef sem fylgir vindgangi þykja falla einkar vel að hverskyns móðgunum og bæta upp fyrir merkingarleysu.

Ég veit ekki hvort nokkur hefur tekið að sér að safna saman barnabulli sem hefur náð útbreiðslu en mér finnst áhugavert að skoða hverskonar rím og stuðlun hefur skotið rótum. Hér eru nokkur dæmi sem ég man eftir og sem aðrir hafa sagt mér frá, mér þætti gaman ef lesendur vildu bæta við.

Leikvallatilkynningar

Á leikvöllum virðast tímasetningar áhugaverðar bæði í leikjum og almennt.

 

Opin búð, klukkan þrjú!
Babú! klukkan þrjú.

Éttu snúð, klukkan þrjú!
Éttu kex, klukkan sex!
Allir inn, klukkan fimm!
Bless kex klukkan sex!
Klukkan átta, allir að hátta!

Ég man bara eina leikvallatilkynningu sem er almenns eðlis, hvorki hugsuð sem móðgun né tilsvar, þar sem tímasetning kemur ekki við sögu:

Allir frá, Fúsa liggur á, löggan stendur aftan á!

 

Tilsvör sem þykja hnyttin

Reyndar þykir almennt smellið að svara með rími en eftirfarandi línur þekkjast víða ef ekki um allt land.

Sjáð’etta hvíta!  – Karlinn er að skíta.
Sjáð’etta græna! – Karlinn er að spræna.

Hvað ert’að gera? – Taka lamb og skera.
Hvað ertu að gera? – Taka hund og skera, salta hann ofan í tunnu og færa henni Gunnu.
Hvert ert’að fara? – Að skera rabbarbara.

Hamar og spýta.  – Farðu að skíta.
Viltu veðja? -Kúkur og keðja.
Ertu alveg viss?…   – Ertu í félagi með kúk og piss?

Ég skal segja brandara. – Fáðu þér standara.
Á ég að segja brandara?  – Fáð’ér brjóstahaldara.

Hvað er klukkan? – Skítt’á puttann.
Hvað er klukkan?  – Málmur og gler, í rassgatinu á þér.
Hvað er klukkan? – Málmur og gler, sem gengur fyrir rafmagni úr rassgatinu á þér.
Hvað er klukkan? – Málmur og gler, sem gengur eins og vant er, í rassgatinu á þér.

Ha? -ni á priki, ertu að safna spiki?
Ha? -ni á priki, skeindu þig á ryki.

Ég líka. – Óli píka.
Mér finnst áhugavert að nafnið Óli skuli hafa fest svona rækilega við þetta rím því það er alls ekki nauðsynlegt að þekkja neinn með því nafni til þess að svarið virki. Ég hef sjaldan heyrt annað nafn en Óli notað í þessu samhengi.

 

Montbull

Liggaliggalá!  Sönglað í lok setningar til að gefa til kynna mont. Ef markmiðið er að gera viðmælandann öfundsjúkan er bætt við – ekki þú! T.d. Ég fæ líka nýja liti, liggaliggalá, og ekki þú!

Nanananabúbú! Svipað og liggaliggalá en þó áherslumunur. Nananabúbú er fyrst og fremst ætlað að svekkja viðmælandann þar sem liggaliggalá getur vel verið mont án spælingar.

Næstu tvær yfirlýsingar gefa til kynna að sönglandanum standi hjartanlega á sama um skoðanir annarra:

Iss, fliss, kúk og piss!

Iss, piss og pelamál
púðursykur og króna.
Þegar mér er mikið mál
þá míg ég bara í skóna.

 

Móðganir þar sem tiltekið nafn kemur fyrir:

Jói, spói spýturass
rekur við og segir pass.

Anna, panna, pottur og kanna.

Kata fata, alltaf að plata.

Jóa, fóa, feykiróa.
Jóa, tóa, litla lóa.

Gunna, tunna grautarvömb
étur eins og átján lömb.

Gunna tunna grautarvömb
gekk um allan daginn
áttatíu og átta lömb
át hún sama daginn.

 

Djarfmannlegt þykir að ögra tröllum

Grýla píla, appelsína!
Grýla píla, skítafýla!

Leppalúði, alger lúði!

Grýla píla, appelsína,
missti skóinn ofan í sjóinn,
þegar’ún kom að landi
var skórinn fullur af sandi.
Vaknaðu Grýla pissufýla!
(Þetta er leikjavísa, notuð í vegasaltsleik sem ég man ekki nógu vel til að lýsa honum.)

 

Stríðni og móðganir þar sem nöfnum þolenda er skipt út eftir þörfum

Jón og Gunna eru hjón
kyssast upp á títuprjón.

Siggi fór í fýlu á föstudaginn var
hitti hana Grýlu og gerði í buxurnar.
Grýla fór að verka en hafði varla við
því vesalings Siggi rak svo mikið við.

Bíbí og blaka
Bjarni skeit á klaka
fimmaura kaka
tí’aura til baka.
(Ekki þykir skipta máli að hafa höfuðstaf í annarri línu, það getur allt eins verið Valgerður sem skítur á klakann.)

Kata greyið rekur við
rífur gat á rassgatið.

Aðrar móðganir

Þú ert lítil, þú ert ljót
farðu bara að moka grjót.

Þú ert lítill, þú ert mjór
farðu bara að moka flór.

Ertu með störu?  Kysst’ana Klöru. Útí fjöru.
Á hvað ertu að glápa? Eins og eldgömul sápa.
Á hvað ertu að horfa? Eins og gömul torfa.

Haltu kjafti,
snúðu skafti
rektu við af fullum krafti.

Rektu við og slefaðu,
snúð’ér við og þefaðu.

Farðu upp í sveit, að elta gamla geit.

Fokk jú, gamla kú. (Þessa heyrði ég ekki fyrr en yngri sonur minn byrjaði í skóla)

Ást í poka
sem ekki má loka.  (Galað á eftir börnum sem eiga vin af gagnstæðu kyni.)

Farðu í rass og rófu
ríddu grárri tófu
(stundum bætt við:)
hafðu kött fyrir keyri
og keyrð’inn á Akureyri.

Apaköttur, apaspil, að þú skulir vera til. Eða; apaköttur, apaspil, ættir ekki að vera til.

 

Móðganir sem beinast líka að foreldrum

Í minni barnæsku var sannleiksgildið í eftirfarandi móðgunum ekki talið skipta máli. „Pabbi þinn er kokkur“ var í fullu gildi þótt faðir þolandans væri lögfræðingur eða sjómaður.

Haltu kjafti, éttu skít
mamma þín er kjaftatík.

Mamma þín er frekjuskass
og pabbi þinn er fituhlass.

Mamma þín er Kínverji
Pabbi þinn er Japani
og þú ert sjálfur aumingi.

Pabbi þinn er kokkur
og þú ert drullusokkur.

Mamma þín er hjúkka
og þú ert pissudúkka.

Margt af því sem hér hefur verið nefnt var mér gleymt en lesendur hafa rifjað það upp fyrir mér. Gaman væri að fá ábendingar um fleiri dæmi af þessu tagi. Við teljum þetta kannski ekki merkilegt í dag en það gæti vel orðið áhugavert að bera saman barnabull tuttugustu aldar og þeirrar tuttugustu og fyrstu.

Flokkar: Allt efni · Menning og listir
Efnisorð:

Fimmtudagur 17.10.2013 - 17:13 - FB ummæli ()

Meira um góða fólkið

Í síðasta pistli talaði ég um tengsl „góða fólksins“ við faríseisma. En það er fleira en siðavendni og pólitísk rétthugsun sem einkennir góða fólkið. Annað sterkt einkenni er forræðishyggja. Sú sannfæring að sauðheimskur almúginn kunni ekki fótum sínum forráð og því þurfi yfirvaldið að veita honum föðurlegt aðhald – eftir forskrift hinna réttlátu; þeirra sem vegna siðferðilegra yfirburða sinna vita, ekki bara muninn á réttu og röngu, heldur líka hvað hinum fávísu og ófullkomnu er fyrir bestu. Hægt væri að tína til margar sögulegar hliðstæður við góða fólkið en í dag ætla ég að tala um góðtemplarahreyfinguna.

 

Góðtemplarar voru (og eru) gott fólk

Góðtemplarareglan varð til á 19. öld. Hún sækir hugmyndafræði sína og uppbyggingu til Frímúrarareglunnar og svipaðra félaga sem kenna sig við musterisriddara. Frímúrarar hafa löngum verið tengdir vald- og auðmannsstéttum í huga almennings og hin mikla leynd sem ríkir yfir starfsemi þeirra, langvarandi kynþáttaaðskilnaður og útilokun kvenna frá reglunum, hefur getið af sér margar og mistrúlegar sögur af satansdýrkun, zíonisma og heimsyfiráðastefnu Frímúrarareglunnar. Hvort eitthvað er hæft í safaríkum svallsögum og hugmyndum um heimsvaldaóra leynireglna af þessu tagi skal ósagt látið en það sem við vitum fyrir víst er að þær hafa unnið mikið mannúðarstarf, ekki síst með stuðningi sínum við Rauða Krossinn. Þær hafa einnig getið af sér Lions-klúbba og fjölda annarra hreyfinga sem eru lítið í leynimakki en starfa fyrst og fremst að líknarmálum og mannrækt. Lítill vafi er á að flestir þeirra sem starfa með slíkum félögum vilja láta gott af sér leiða og sýna umhyggju fyrir lítilmagnanum í verki.

Góðtemplarareglan  er mannræktarhreyfing, upprunnin í Bandaríkjunum 1850.  Starfsemi góðtemplara er að miklu leyti opinber og snemma var tekin sú afstaða að meina ekki fólki þátttöku á grundvelli kyns eða kynþáttar. Sjálft nafn Góðtemplarareglunnar afhjúpar hugmyndafræðina; meðlimir vilja vera góðar manneskjur, og álíta að því markmiði verði best þjónað með hófsemi og helst algeru bindindi á áfengi og önnur nautnalyf.

 

Góðtemplarar voru bjargvættir

En góðtemplarar álitu ekki einungis að þeim sjálfum bæri að vera góðar og hófsamar manneskjur. Þeir töldu sér líka skylt að bæta heiminn með því að sjá til þess að aðrir hegðuðu sér jafn vel. Og þegar ekki dugði að breiða út fagnaðarerindið, þá var það talið merki þess að fávís almúginn skildi ekki nauðsyn þess að halda sig frá áfengi, og því væri nauðsynlegt að hafa vit fyrir honum. Árið 1859 setti góðtemplarahreyfingin sér formleg markmið.  Eitt þeirra var;

að stuðla að heilbrigðri afstöðu almennings til málefnisins, með því að útbreiða sannleikann, með öllum þeim ráðum sem upplýstar góðgerðahreyfingar hafa yfir að ráða.

(The creation of a healthy public opinion upon the subject by active dissemination of truth in all the modes known to an enlightened philanthropy.)

Önnur markmið snerust um að koma á almennu áfengisbanni, og velja til þess „góða menn og heiðarlega“ að koma slíkum lögum í framkvæmd.

Hugmyndin var í alvöru talað göfug. Hún var ekki sú að sölsa undir sig völd og auð, heldur að sýna lítilmagnanum umhyggju. Nota upplýsta visku sína og mannkærleik til að bjarga hinum fátæku, fávísu og veiku frá sjálfum sér. Engin ástæða þótti til að hlusta á þá sem sögðust ráða við að drekka hóflega, enda voru þeir drykkjumenn sem höfðu hvorki „heilbrigða afstöðu“ né vissu „sannleikann“ um áfengisdjöfulinn.

Áhrif góðtemplara á almenna afstöðu til drykkju urðu gríðarleg. Á Íslandi var áfengisbann t.d. samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1908. Lögin tóku gildi 1915 en illa gekk að framfylgja banninu. Á bannárunum í Bandaríkjunum dró úr áfengisneyslu, að því er talið er um helming. Hvort neyslan minnkaði meðal þeirra sem síst réðu við drykkju sína er svo allt annað mál. Hugsanlega voru áhrif templara fremur þau að herða afstöðu þeirra sem óttuðust áhrif áfengis en að draga úr drykkju hinna lausbeisluðu.

 

Upplýsa, bjarga og banna

Í hugum góðtemplara var alþýðan óupplýst barn sem þurfti föðurlega handleiðslu. Markmiðið var að hindra almúgamanninn í því að skaða sjálfan sig og fjölskyldu sína og samfélag í leiðinni. Því markmiði var þjónað annarsvegar með áróðri og, þegar það dugði ekki til, með því að virkja yfirvöld í þágu málstaðarins. Þessi afstaða er síður en svo bundin við templara. Á Íslandi í dag eru svipuð viðhorf ríkjandi á ýmsum sviðum en endurspeglast líklega skýrast í hugmyndum um að uppræta klám- og kynlífsiðnað.

Þessi forræðishyggja er eitt af því sem átt er við með umræðunni  um „góða fólkið“.  Góða fólkið telur sig vita „sannleikann“ um tiltekið svið og álítur sér skylt að útbreiða þann „sannleika“ og „koma á heilbrigðum viðhorfum“ meðal almennings. Góða fólkið er nógu sannfærandi og hefur nógu mikil ítök innan stjórnmálanna til þess að öðlast kennivald. Góða fólkið er, eins og templarar, sannfært um að alger óþarfi sé að hlusta á skoðanir þeirra sem telja markmið þess óraunhæf og jafnvel skaðleg, enda séu öll andmæli við boðskapinn skýr sönnun um annarlega hagsmuni, heimsku, geðveiki eða hreinræktaða illsku andmælendana. Góða fólkið telur einnig að yfirvöld eigi að ganga erinda þess, t.d. með lagasetningu, skólastefnu og styrkjum til verkefna sem handhafar kennivaldsins álíta þörf og góð.

Ég efast ekki um góðvilja flestra þeirra sem aðhyllast forræðishyggju. Hvort góður ásetningur hefur góðar afleiðingar er svo allt annað mál. Kannski ætti það góða fólk sem vill bjarga mér og öðrum óupplýstum og illa innrættum, hagsmunapotandi geðsjúklingum frá klámgrýlunni, fíkniefnadjöflinum og frelsinu til þess að ráða yfir eigin líkama, að velta því fyrir sér hvort það væri til í að láta góðtemplara 19. aldar ráða áfengislöggjöfinni.  Eða hvort það vildi láta Votta Jehóva ráða því hvaða tónlist er spiluð í útvarpi. Vottarnir eru nefnilega jafn sannfærðir um skaðsemi rangrar tónlistar, og texta sem þeir flokka sem guðlast, og góða fólkið um skaðsemi klámsins.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

Þriðjudagur 15.10.2013 - 19:54 - FB ummæli ()

Góða fólkið

Í netumræðu síðustu vikna hefur borið á kröfu um skýringar á því hvað átt er við með stimplinum „góða fólkið“.  Þeir sem undrast svo mjög þessa hugmynd eru oftar en ekki fólk sem gæti sem best tekið merkimiðann til sín.

Þar sem ekki er um að ræða sérstaka hugmyndafræði heldur ósköp mannlega eiginleika, sem ég er hreint ekki saklaus af sjálf, sé ég lítinn tilgang í því að hengja þennan merkimiða á tilteknar persónur. Ég gagnrýni þó oft þann pólitíska rétttrúnað sem einkennir orðræðu þeirra sem sumir kalla „góða fólkið“ og er að því leyti þátttakandi í þessari umræðu. Reyndar er hugmyndin svo gagnsæ að ég trúi því ekki að hún vefjist fyrir nokkrum manni en mér til skemmtunar ætla ég samt að skrifa dálitla hugleiðingu um góða fólkið og Faríseana.

 

Farísear voru gott fólk

„Góða fólkið“ er Farísear nútímans. Nú veit ég að einhver móðgast því í vestrænni nútímamenningu merkir orðið „farísei“ það sama og hrokafullur hræsnari. Ein af þekktustu sögum Nýja testamentisins er sagan af Faríseanum og tollheimtumanninum en þar ávítar Jesús Farísea fyrir að telja sjálfa sig siðferðislegt afbragð annarra manna. Hann bendir á að það sé hræsni að stæra sig af góðu siðferði en sýna um leið fyrirlitningu á syndurum, sem sumir hverjir amk, horfast þó í augu við breyskleika sinn.

En vitiði hvað; Farísear voru alls ekki slæmar manneskjur og kannski bara ögn skárri en aðrir hópar áhrifamanna. Trú og pólitík voru á þessum tíma samtvinnuð og stjórnmálaástandið var í stuttu máli þannig að Saddúkear höfðu nánast öll völd í landinu. Bæði hernaður og skattheimta voru á höndum Saddúkea og það voru þeir sem önnuðust samskiptin við Rómverja. Þeir voru hástétt sem réði yfir miklum auði. Vandlætarar voru annar áhrifahópur sem oft er nefndur. Þeir voru ofstækisfullir og herskáir en sennilega í miklum minnihluta. Meinlætamenn létu aðra að mestu í friði og höfðu sáralítil pólitísk áhrif. Hin pólitísku átök voru fyrst og fremst milli Saddúkea og Farísea.

Farísear voru ekki valdastétt, heldur talsmenn alþýðunnar. Þeir voru miklir móralistar og íhaldssamir í þeim skilningi að þeir álitu Saddúkea sýna allt of mikið umburðarlyndi gagnvart glæpamönnum. Pólitískar hugmyndir þeirra voru þó að mörgu leyti róttækar og þeir boðuðu hófsemd og heiðarleika sem átti ekki upp á pallborðið hjá yfirstéttinni.  Farísear höfðu áhrifavald meðal alþýðunnar og öðluðust með tímanum bæði kennivald og bein, pólitísk völd.

 

Farísear, syndararnir og Jesús

Farísear lögðu sig fram um að vera góðir menn og höfðu óbeit á bersyndugum. Það er ekki eins og ljótt og það hljómar. Við skulum athuga að það er munur á syndugum og bersyndugum. Farísear höfðu skilning á því að fólki gæti orðið á að syndga. Bersyndugir voru aftur á móti þeir sem kusu að lifa í syndinni. Tóku meðvitaða ákvörðun um að brjóta gegn siðaboðum Gvuðs. Og það var bara allt annað mál.

Þeir bersyndugu sem oftast eru nefndir í Bilblíunni eru óskírlífar konur og tollheimtumenn. Tollheimtumenn voru ekki bara gerspillt stétt, sem misnotaði aðstöðu sína til að kúga fé af blásnauðum almúganum, heldur voru þeir einnig starfsmenn Rómaveldis og þar með álitnir hálfgerðir föðurlandssvikarar. Það voru ekkert bara Farísear sem fyrirlitu þá, þeir voru einnig illa séðir meðal ómenntaðrar alþýðunnar.

Jesús var ekki óvinur Farísea. Páll postuli var ákafur Farísei en snerist til kristni, það gerðu fleir farisaer og reyndar er ekki annað að sjá en að kristni og faríseismi hafi að mörgu leyti átt samleið. Almennt virðist Jesús líka hafa átt ánægjuleg samskipti Farísea  þótt hann hafi gagnrýnt þá eins og aðra áhrifamenn og jafnvel hundskammað þá. Jesús greindi þó augljóslega á við Farísea í afstöðunni til syndarans. Farísear voru fylgjandi hörðum refsingum og  vildu helst úthýsa hinum bersyndugu úr samfélaginu. Jesús taldi aftur á móti að farsælla væri að reyna að snúa þeim til betri vegar með því að koma fram við þá af virðingu og mildi. Hann virðist líka hafa álitið að fylgispekt Farísea við reglur og siðalögmál (það sem í dag er kallað pólitísk rétthugsun) hafi stundum borið miskunnsemi og mannkærleika ofurliði.

 

Farísear nútímans

Ég get alveg séð sjálfa mig í Faríseanum. Ég hef óbeit á yfirvaldi. Mér finnst í lagi að ganga miklu lengra en að berja búsáhöld til þess að uppræta stjórnkerfi og fjármálakerfi sem býður beinlínis upp á misnoktun. Og mér finnst sá kapítalismi, sem álítur réttlætanlegt  að 1% samfélagsins ráði yfir 40% veraldlegra gæða, fullkomlega viðbjóðslegur.

Ég hefði áreiðanlega verið á móti Saddúkeum ef ég hefði búið í Júdeu fyrir 2000 árum. Mér hefði örugglega þótt misnotkun tollheimtumanna á aðstöðu sinni fyrirlitleg. Ég hef oft gert mig seka um að yfirfæra andúð mína á tiltekinni hegðun yfir á fólk og jafnvel dæmt manneskjur út frá félagslegri stöðu þeirra. En þótt ég sé ekki kristin finnst mér samt líklegt að mildi og mannúð skili betra samfélagi en refsigleði og fordæming. Þessvegna finnst mér vert að reyna að forðast þá miklu vandlætingu og þann pólitíska rétttrúnað sem einkenndi Farísea. Sérstaklega finnst mér það eiga við þegar fjallað er um einstaklinga sem eiga ekki skjól í valdaklíkum og hefur kannski orðið eitthvað á, fremur en að telja ósæmilega hegðun góða og gilda. Það þýðir ekki að samfélagið eigi að umbera glæpi eða láta vonda hegðun óátalda en það merkir að góðar manneskjur, eins og við, ættum kannski að prófa að tala við „hina bersyndugu“ í stað þess að tala aðeins til þeirra og þá yfirleitt niður til þeirra.

Og kannski ættum við að hafa í huga að það er svolítil hætta á því að það fari eins fyrir góða fólkinu í dag og Faríseunum, sem þrátt fyrir að berjast fyrir réttlátum málstað og þrátt fyrir að vera sennilega ögn skárri en meðalmaðurinn, eru í hugum nútímafólks holdtekja hræsninnar og hrokans.

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , ,

Þriðjudagur 15.10.2013 - 10:30 - FB ummæli ()

Sjálfbærar jafnréttiskjötbollur í lýðræðissamhengi

Mig langar að vita hvernig höfundar aðalnámskrár sjá fyrir sér heimilisfræðikennslu sem byggir á þessum grunnþáttum. Hvernig eldar maður t.d. sjálfbærar jafnréttiskjötbollur í lýðræðissamhengi?

Tenging heimilisfræðinnar við hreinlæti og hollustu er augljós. Að sjálfsögðu kennum við krökkunum að það sé óheppilegt að nærast eingöngu á sælgæti og frönskum kartöflum og við kennum þeim að fara ekki með áhöld beint úr hráu kjöti í grænmetið sem við ætlum að nota í salat. Sköpun á líka ágætlega heima í eldhúsinu, um að gera að hvetja ungt fólk til að prófa nýjar leiðir til að blanda saman hráefnum og finna skemmtilegar borðskreytingar. En hvað með sjálfbærni, jafnrétti,  mannréttindi og lýðræði?

Er börnum kennt  að hafa jafnrétti að leiðarljósi við kjötbollugerð með því að láta makann sjá um innkaupin og uppþvottinn? Eða eigum við að kaupa hakkið af slátrara sem er fatlaður eða svartur? Þurfum við að bjóða einhverjum samkynhneigðum í mat? Eða eigum við að gæta jafnréttis með því að nota svuntu í lit sem ekki er tengdur staðalmyndum kynjanna?

Og hvað með sjálfbærnina? Gæta skólaeldhús þess að kaupa eingöngu kjöt frá búum sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi við framleiðsluna? Er börnunum kennt að greina á milli sjálfbærrar og ósjálfbærrar kartöflu?

Hvernig koma mannréttindi inn í heimilsfræðikennslu? Er börnum kennt að nota eingöngu mjöl með „fair trade“ vottun í kjötbollurnar? Og hvernig í fjáranum setur maður matreiðslu, þrif og þvotta í samhengi við lýðræði?

Flokkar: Allt efni
Efnisorð: ,

Sunnudagur 13.10.2013 - 13:25 - FB ummæli ()

Fáránleg lög um trúfélög

Í framhaldi af þessum pistli:

Ég held því miður að Jón Daníelsson hafi rétt fyrir sér um Læknavísindakirkjuna. En fyrst ég er á annað borð að skoða lög um trúfélög má ég til að koma því að að mér finnst margt sérkennilegt í þessum lagabálki. Við getum byrjað á að skoða 1. milligrein 1 greinar.

Rétt eiga menn á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Eigi má þó fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði og allsherjarreglu.

Halló? Hvert er þetta „góða siðferði“ sem eigi má brjóta gegn og hver dæmir um það? Varla þarf að taka fram að trúfélög megi ekki frekar en aðrir brjóta lög svo varla er átt við það. Merkir þetta kannski að trúfélag megi ekki standa fyrir drykkjuveislum og kynsvalli?

Annað sem stingur mig er  2. milligrein 7. greinar.

Áður en forstöðumaður trúfélags [eða lífsskoðunarfélags]1) tekur til starfa skal hann senda [ráðuneytinu]2) skriflega yfirlýsingu um að hann muni vinna af samviskusemi þau störf sem honum eru í því starfi falin samkvæmt lögum.

Hvað í ósköpunum gefur tilefni til þess að setja lög um það að ein, tiltekin stétt manna þurfi að gefa ráðherra sérstaka yfirlýsingu um að viðkomandi hyggist fara að lögum? Maður myndi kannski skilja þetta ef hefð væri fyrir því að síbrotamenn gegndu formennsku í trúfélögum.

Áttunda greinin kveður á um að fólk skuli einungis tilheyra einu trúfélagi/lífsskoðunarfélagi. Ég tek undir þá skoðun sem fram kom í  einhverri grein nýlega (ég man ekki hvar eða eftir hvern hún er en þigg ábendingar) að það sé gerræði af hálfu yfirvaldsins að banna fólki að tilheyra fleiri en einu trúfélagi í senn.  Þetta á sérstaklega við um börn sem eiga foreldra sem tilheyra hvort sínu trúfélagi.

Þá er athugavert að í lögunum er gerður greinarmunur á þjóðkirkjunni og „skráðu trúfélagi“ enda þótt ekki verði betur séð en að þjóðkirkjan sé einmitt skráð trúfélag.

Það allra fáránlegasta við þessi lög er þó 4. milligrein 4. greinar:

  [Áður en leyfi er veitt til skráningar trúfélags eða lífsskoðunarfélags skal leita álits nefndar sem ráðherra skipar. Einn nefndarmaður er skipaður samkvæmt tilnefningu lagadeildar hér á landi á háskólastigi, og skal hann vera formaður nefndarinnar, annar tilnefndur af félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, sá þriðji tilnefndur af guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og sá fjórði tilnefndur af sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Falli atkvæði nefndarmanna jafnt skal atkvæði formanns nefndarinnar hafa tvöfalt vægi.]1)

Það er kannski skiljanlegt að lögfræðiálit þyki æskilegt en hvað kemur þetta tilteknum deildum tiltekins háskóla við? Af hverju ætti sagnfræðideild HÍ að hafa eitthvað um það að segja hvort satanistar, farísear eða einhverjir aðrir  fá að stofna trúfélag? Og hvernig dettur mönnum í hug að það sé góð hugmynd, réttlát eða siðleg að fulltrúi guðfræðideildar, sem er ekkert annað en prestaskóli þjóðkirkjunnar, fái að hafa bein áhrif á það hvort samkeppnisaðila þjóðkirkjunnar er hleypt inn á markaðinn? Í alvöru talað, finnst ykkur þetta í lagi?

—-

Uppfært:

Í fyrri gerð pistilsins nefndi ég Vantrú ranglega lífsskoðunarfélag. Tók þá vitleysu út eftir ábendingar og biðst velvirðingar á mistökunum.

Flokkar: Allt efni · Lög og réttur · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Laugardagur 12.10.2013 - 14:10 - FB ummæli ()

Verður læknavísindakirkjan að veruleika?

 

Loksins hillir undir stofnun trúfélags sem ég gæti hugsað mér að tilheyra. Ég trúi heilshugar á mátt læknavísindinna til að bæta heilsu og hamingju almennings og bjarga oss frá óþarfa þjáningu og ótímabærum dauða. Þessvegna ætla ég að ganga í læknavísindakirkjuna.

 

Hver eru skráningarskilyrðin?

Í netumræðunni hefur heyrst sú skoðun að læknavísindakirkjan uppfylli ekki skilyrði þess að kallast trúfélag. Ég fletti upp í lagasafni Alþingis til að skoða hverjar kröfurnar eru. Um almenn skilyrði er fjallað í 3. grein:

  • Skilyrði fyrir skráningu trúfélags er að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú.]1)
  • [Skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags er að um sé að ræða félag sem byggist á veraldlegum lífsskoðunum, miðar starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og mannrækt og fjallar um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti.]1)
  •  [Enn fremur er það skilyrði skráningar trúfélags eða lífsskoðunarfélags að félagið hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug, tilgangur þess stríði ekki gegn lögum, góðu siðferði eða allsherjarreglu og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem taka þátt í starfsemi þess og styðja lífsgildi félagsins í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. Þá er það skilyrði að félagið sjái um tilteknar athafnir, svo sem útfarir, giftingar, skírnir eða nafngjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir.]1)
  • [Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð tiltekinn lágmarksfjölda félagsmanna til þess að heimilt sé að skrá trúfélag eða lífsskoðunarfélag samkvæmt lögum þessum.]1)

 

Trú er ekki skilgreind í lögum

Ég sé ekki betur en að læknavísindakirkjan eigi samkvæmt þessu góða möguleika á að verða skráð sem trúfélag. Trú og átrúnaður eru ekki skilgreind í lögunum og því enginn sem getur haldið því fram að ég trúi ekki á læknavísindin.

Einnig kæmi til greina að skrá læknavísindakirkjuna sem lífsskoðunarfélag. Hún hefði þá að leiðarljósi þá siðferðislegu meginreglu að samfélagi beri að tryggja öllum borgurum bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Það þarf ekki mikla þekkingu eða hugarflug til að taka saman safn greina og rita um siðferðislegt gildi góðrar heilbrigðisþjónustu og skal ég með ánægju leggja hönd á plóginn. Læknavísindakirkjan mun að sjálfsögðu einnig fjalla um þekkingarfræði góðrar heilsu „með skilgreindum hætti“. Hvar er sá háttur annars skilgreindur? Er ekki bara hægt að benda á læknisfræðihillur Þjóðarbókhlöðunnar? Eða eru vísindarit ekki nógu „skilgreind“?

Læknavísindakirkjan er þegar starfandi þótt hún hafi ekki fengið nafn

Það er ekkert vafamál að starfsemi læknavísindakirkjunnar er virk og stöðug, þótt það nafn hafi ekki verið notað um hana fyrr en nú.  Meirihluti landsmanna sækir þjónustu lækna og hjúkrunarfólks í mun meira mæli en meðlimir þjóðkirkjunnar sækja þjónustu presta. Þótt trúarhreyfing hafi ekki verið miðstýrð eða átt sér sérstaka málsvara fyrr merkir það engan veginn að meðlimir hennar hafi ekki komið saman til að styrkja hver annan í trúnni og breiða út fagnaðarerindið.

imagesBent skal á að blóðbankinn á í fórum sínar góðar sannanir fyrir blóðfórnum almenning í þágu læknavísindanna. Líklegt er að þær séu umtalsvert meiri bæði að blóðmagni og fórnartíðni en blóðfórnir í þágu þeirra trúfélaga sem þegar eru skráð. Staðfest mun að mörg kraftaverk hafa verið framin fyrir tilstilli þeirra fórna.

Einnig ber að hafa í huga að miklu meiri sala er í lyfjum en oblátum og það þarf ekki margar rannsóknir til að staðfesta að trú alþýðu manna á lækningarmátt lyfja er mun meiri en trúin á lækningarmátt hins heilaga orðs Biblíunnar og annarra trúarrita. Margir læknar munu aukinheldur tilbúnir til að staðfesta að skjólstæðingar leiti iðulega til þeirra sem sálusorgara ellegar til þess að leita svara við því hversvegna almættið leggur á þá hinar ýmsu þjáningar.

 

Nauðsynlegt er að tilnefna einhvern til að annast athafnir

Það eina sem læknavísindakirkjan þarf óumdeilanlega að gera, til að uppfylla skilyrði til skráningar, er að útnefna fulltrúa til að annast athafnir. Það ætti ekki að vera vandamál, ég er tilbúin til að íhuga möguleikann á því að taka það að mér sjálf ef enginn annar sýnir áhuga.

 

Ráðamenn líta nú þegar á heilbrigðiskerfið sem kirkju 

wish

Heilbrigðiskerfið er nú þegar rekið með trúna á kraftaverk að leiðarljósi. Ja, nema stjórnvöldum sé hreinlega sama hvort sjúklingar fái þá þjónustu sem þeir þarfnast eður ei. En það getur varla verið, skýringin hlýtur frekar að vera sú að ráðamenn trúi því að læknavísindin séu svo öflug að þau geti læknað fólk án þess tæknibúnaðar og mannafla sem forsvarsmenn heilbrigðiskerfisins telja forsendu góðrar þjónustu.

Ríkisstjórnin trúir greinilega sjálf á kraftaverkamátt lækna og hjúkrunarfólks. Þetta er þó ekki svo einfalt því jafnvel Elín Hirst er búin að frétta af nauðsyn þess að bæta tækjakost Landspítalans. Það væri því í meira lagi ósiðleg ákvörðun að synja læknavísindakirkjunni um skráningu, sem er forsenda þess að hún geti innheimt sóknargjöld og bjargað þannig fjölda manns frá þjáningum og dauða.

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Þriðjudagur 8.10.2013 - 17:09 - FB ummæli ()

Moldarkofakenningin

Með því að smella á myndina og smella svo aftur er hægt að stækka hana.

Moldarkofakenningin

 

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics