Föstudagur 26.4.2013 - 11:30 - FB ummæli ()

Pennastrik og bólur „jafnaðarmanna“

Meintir jafnaðarmenn í öllum flokkum hafa nú loks orðið að fallast á það með Dögun (xT) o.fl. að mögulegt er að fjármagna réttlætiskröfur (þ.e. greiða bætur til) lántakenda í kjölfar forsendubrests – jafnvel tvöfalds – sem bankar og aðrir kröfuhafar tóku þátt í að hrinda af stað.

Jafnaðarmenn allra flokka…

Á lokametrum kosningabaráttunnar hafa jafnaðarmenn – sem kenna sig ýmist við vinstri, samfylkingu, lýðræði eða framtíð – hins vegar snúið frá þeirri röksemd að engir peningar séu til. Nú er loks viðurkennt að til er fé hjá skemmdarvörgunum – peningar, sem Dögun vill nota til þess að bæta fyrir það tjón sem vargarnir ollu. Jafnaðarmenn vilja hins vegar nota peningana í annað; jafnaðarmenn vilja frekar nota bætur fyrir jarðskjálftatjón í eitthvað annað en að bæta jarðskjálftatjónið – eitthvað sem samrýmist frekar hugsjónum þeirra sem jafnaðarmanna, hvað sem þeir kenna sig við.

… sameinast gegn réttlæti

Aðstoðarmaður formanns stærsta jafnaðarmannaflokksins ræðst nú á prófessor, sem löngum hefur stutt flokkinn dyggilega með umdeildum málflutningi í skattamálum, fyrir að taka undir með hinum flokknum, sem – auk Dögunar – vill leiðrétta ranglætið og færa niður skuldir heimilanna. Hinir jafnaðarmennirnir – bæði þeir sem einnig þykjast umhverfissinnaðir og þeir sem stofnað hafa nýja flokka um góða starfshætti og meira lýðræði – taka undir með „Jafnaðarmannaflokki Íslands“ um  að Dögun og aðrir standi fyrir „loforðaflaumi“ og óábyrgum áformum.

Þeir segjast ekki vilja lofa of miklu – heldur hafa þeir markmið.

Markmið Dögunar: réttlæti og sanngirni

Dögun hefur markmið – og leiðir. Eitt markmiðið er réttlæti til handa húsnæðiskaupendum; því markmiði verður ekki náð nema forsendubrestur húsnæðislána – líka þeirra sem tóku ríkisreiknuð, verðtryggð lán – sé leiðréttur og óraunhæft og óréttmætt nafnverð skulda verði fært niður.

Annað markmið Dögunar er sanngirni lántakendum til handa. Leiðin að sanngirni er umbætur í lánamálum og afnám verðtryggingar; þá skapast jafnvægi milli hagsmuna lántakenda og lánveitenda.

Verðtryggingin er krabbamein

Verðtryggingin er auk þess mein í hagkerfinu – eins og krabbamein sem gegnsýrir lánakerfi til neytenda og einnig þjónustusamninga, verksamninga og leigusamninga. Meðan meinið er ekki skorið burt getur Seðlabanki Íslands ekki beitt helsta stjórntæki sínu – stýrivöxtum – til þess sem það á að gera: kæla hagkerfið. Þess í stað veldur lækningin (stýrivextir) frekari verðbólgu – eins og verðtryggingin sjálf gerir.

Verðtryggingin er bóla – sem springur ef lofti er ekki hleypt úr henni

Verðtryggingin er hin eina sanna bóla – loforðaflaumur um eilífan hagvöxt og ávöxt kröfuhafa á kostnað neytenda og þeirra fyrirtækja sem framleiða raunveruleg verðmæti. Pennastrikin, sem jafnaðarmenn í þessum fjórum flokkum saka Dögun og aðra andstæðinga verðtryggingar um að vilja beita, eru einmitt hinum megin. Óraunhæf og ósjálfbær lífeyrisloforð verðtryggingarsinna eru rituð með sannkölluðum pennastrikum – þótt nútímapenninn Excel sé notaður til þess að skrifa þau og ríkisstofnun (Hagstofa Íslands) til þess að reikna þau.

Dögun vill hleypa lofti úr verðtryggingarbólunni – áður en hún springur í andlit lífeyrisþega og annarra sem treysta á hana.

Látið atkvæði ykkar í T.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.4.2013 - 00:07 - FB ummæli ()

Hverjir fá jarðskjálftabætur?

Jafnaðarmenn – í nokkrum flokkum – hafa deilt á réttlætiskröfur Dögunar o.fl. með því að kalla þær „bólur“ og „loforðaflaum.“ Þá hafa þeir hafnað því að bæta tjón fólks, sem varð fyrir forsendubresti, ef þess „þarf“ ekki.

Þarftu bætur?

Viðhorfið er eins og ef Viðlagatrygging Íslands myndi aðeins bæta tjón á húsum þeirra, sem skemmst hefðu í jarðskjálfta, ef þeir þyrftu þess. Þeir sem ættu aðrar eignir eða „nægar“ tekjur að mati „jafnaðarmanna“ (eða hefðu a.m.k. keypt sér ranga hluti, á röngum tíma eða á rangan hátt að mati norrænu velferðarstjórnarinnar) fengju engar bætur fyrir tjón af völdum jarðskjálfta. Þá myndu jafnaðarmenn væntanlega ræða mikið um hvaða (ó)réttlæti fælist í því að þeir, sem hefðu verið svo skynsamir að þeir hefðu ekki orðið fyrir neinu tjóni af völdum jarðskjálftans, fengju engar bætur.
Við í Dögun (xT) viljum af réttlætissjónarástæðum bæta tjón þeirra sem urðu fyrir forsendubresti – óháð því hvort þeir „þurfa“ þess eður ei, að mati „jafnaðarmana.“ Sjálfur tel ég koma til greina að koma frekar til móts við þá sem lentu í tvöföldum forsendubresti þar sem íbúðarhúsnæði lækkaði í verði sem keypt var á hátindi húsnæðisbólu bankanna á sama tíma og nafnverð húsnæðisskulda hefur stórhækkað.
Ekki láta gos í kjölfar jarðskjálfta slá ryki í augu ykkar; látið atkvæði ykkar í T.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.4.2013 - 00:14 - FB ummæli ()

Réttur atvinnulausra, eldri borgara, námsmanna og öryrkja

Dögun (xT) hefur ein stjórnmálaflokka á samþykktri stefnuskrá sinni að lögfesta skuli framfærsluviðmið fyrir þá hópa sem ekki hafa launatekjur. Strax á stofnfundi Dögunar í mars í fyrra var eftirfarandi samþykkt í kjarnastefnu – sem enn stendur og hefur verið útfærð nánar síðan:

Þá viljum við að lágmarks framfærsluviðmið verði lögfest og að vextir í landinu verði hóflegir.

Alþingi brýtur stjórnarskrá…

Atvinnuleitendur, eldri borgarar, námsmenn og öryrkjar eru háðir bótum eða lánum til þess að framfæra sig. Stjórnarskráin hefur lengi skyldað löggjafann til þess að setja reglur í lög – ekki í reglugerð, skýrslu eða skýrsludrög – um þessa þörf. Nánar má lesa um þessa skyldu hér í ræðu minni frá 26. október 2010 um málið.

Alþingi hefur heykst á þessu alla tíð.

Við í Dögun setjum þetta mál á oddinn auk umbótamálanna 3ja

 • umbóta í lánamálum og afnáms verðtryggingar;
 • umbóta á fiskveiðistjórn og frelsis til handfæraveiða; og
 • umbóta á stjórnarskrá sem m.a. eykur sjálfsstjórn landshluta í stað þess að senda þingmenn suður með betlistaf í hendi.

 

…. á þeim sem síst skyldi

Þeir sem þiggja lán eða laun úr almannasjóðum eiga sömuleiðis rétt á því – samkvæmt stjórnarskránni, bæði nýju og gömlu – að framfærsla þeirra sé metin og lágmarksframfærsluviðmið lögfest. Af því munu svo reglur í eftirfarandi kerfum taka mið

 • atvinnuleysisbætur,
 • ellilífeyrir,
 • lán úr Lánasjóði íslenskra námsmanna og
 • örorkubætur.

Sama gildir um þá sem þiggja félagsaðstoð sveitarfélaga. Ef stéttarfélög standa sig ekki betur í að semja um viðunandi lágmarkskjör tel ég koma til greina að lögfesta lágmarkslaun.

Hér má lesa ítarlegri stefnu Dögunar varðandi framfærsluviðmið þar sem bent er á að fara megi tvær leiðir að þessu marki, sem Alþingi ber að tryggja:

 • raunútgjaldaleið (mæld) og 
 • viðmiðunarleið (sérfræðinga).

Dögun (xT) mun vinna að því að tryggja þennan stjórnarskrárvarða rétt bótaþega og lánþega.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.4.2013 - 23:57 - FB ummæli ()

Kjarasamningur þjóðar og útgerðar

Á ferðum mínum um Norðausturkjördæmi fyrir Dögun (xT) ásamt öðrum frambjóðendum Dögunar í aðdraganda þingkosninga undanfarið hef ég rætt við alla aðila íslensks sjávarútvegs. Ég hef spurt spurninga og svarað spurningum og lært heilmikið.

Óvissa er slæm – fyrir alla

Í lok funda og samtala spyr ég gjarnan eitthvað á þessa leið:

Hvernig stendur á því að menn vilja búa við þessa óvissu?

Þá hef ég áður rætt óréttlætið, byggðaröskunina, brottkastið, umhverfisvandann – spillinguna o.s.frv. Þeir sem verja lítt breytt eða óbreytt kvótakerfi hafa þá einnig komið á framfæri sjónarmiðum sínum um framþróun íslensks sjávarútvegs, afhendingaröryggi, aukna nýtingu, bætta meðferð afla, sögulegan rétt útgerðarmanna, stríð stjórnmálamanna við greinina og skilvirkni og hagkvæmni kerfisins. En burt séð frá þessum mót- og meðrökum með kvótakerfinu er mér mest spurn:

Hvernig stendur á því að eigendur sjávarútvegsfyrirtækja, stjórnendur þeirra, endurskoðendur og starfsfólk sættir sig enn við þá óvissu sem verið hefur við lýði í 30 ár – síðan kvótakerfi var komið á – burt séð frá allri gagnrýni Dögunar o.fl. á kerfið?

Kvótakerfið var fest í sessi með lögum af þáverandi þingmeirihluta vinstristjórnarinnar 1990 með frjálsu framsali aflaheimilda. Um leið var sleginn sá varnagli, sem veldur því að útgerðarmenn eru aldrei í góðri trú með meint eignarhald sitt í krafti þess að þeir eru tímabundnir handhafar nýtingarréttarins. Augljóst er – nú síðast af 83% jáyrði kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október sl. við stjórnarskrárbreytingu um að auðlindir skuli vera í þjóðareigu en ekki þjóðlindir í auðareigu – að „þeir“ komast aldrei upp með þetta.

Friður er í boði…

Ég hvet útgerðarmenn til þess að láta af andspyrnu sinni; ég segi:

Viðurkennið nú þjóðareign á auðlindum. Leyfið pólitískum umboðsmönnum ykkar að hætta að reyna að veðsetja vilja þjóðarinnar eins og þið hafið veðsett auðlindir hennar. Segið umboðsmönnum útgerðarinnar á Alþingi að fallast á stjórnarskrárbreytingu. Í staðinn fáið þið frið; fyrr ekki.

„Kjarasamningur“ útgerðarmanna og fulltrúa þjóðarinnar yrði svo borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar; líkur eru á að enginn fulltrúi þjóðarinnar skrifi undir samning nema telja megi líklegt að hann fáist samþykktur.

… og fyrirmynd er fyrir hendi

Fyrirmyndin er vinnumarkaðurinn – þar sem gerður er, nú orðið gjarnan á um 3ja ára fresti, kjarasamningur þar sem atvinnurekendur semja yfirleitt um kjara- og réttarbætur til handa launafólki. Í staðinn semja stéttarfélög um friðarskyldu þannig að verkföll eru óheimil – og ágreiningur er borinn undir sérstakan vinnumarkaðsdómstól, Félagsdóm.

Við lok 19. aldar komst á hin stóra sátt á vinnumarkaði í Danmörku – sem fólst í því að atvinnurekendur viðurkenndu samningsumboð stéttarfélaga fyrir hönd starfsmanna, sem fram að því var ekki lögvarið; atvinnurekendur komust fram að því upp með að deila og drottna – eins og pólitískur armur þeirra nær enn meðan umbótaöflin eru sundruð. Í staðinn féllst launafólk á að bera réttarágreining undir sérstakan vinnumarkaðsdómstól – í stað þess að nota verkföll til þess að knýja á um lögvarðar kröfur.

Stefna Dögunar (xT) er að koma á umbótum á íslenskri fiskveiðistjórn og auknu frelsi til handfæraveiða eins og lesa má frekar um hér.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.4.2013 - 23:49 - FB ummæli ()

Heimastjórn í þágu atvinnulífs

Kjósendur vita hvað þeir vilja. Við í Dögun (xT.is) vitum hvað við viljum. Nú er spurningin hvort kjósendur velja það sem þeir vilja – eða hvort viljinn er veðsettur eins og fleira.

Umbætur í þágu atvinnulífs

Dögun var stofnuð fyrir rúm ári á góðum grunni umbótaafla og setur þrennar umbætur á oddinn:
a)      Lánamál: Umbætur í lánamálum, niðurfærslu skulda fyrirtækja og heimila vegna forsendubrests og afnám þess meins sem verðtryggingin er í hagkerfinu. Þessa stefnu Dögunar hafa fræðimenn nú tekið undir.
b)      Auðlindastjórn: Umbætur á stjórn fiskveiða og annarra auðlinda, þjóðareign á auðlindum og aukið afgjald til eigandans fyrir afnot af auðlindunum; eigandinn er þjóðin – en ekki handhafar afnotaréttar orku og annarra auðlinda til lands og sjávar. Auðlindagjaldið vill Dögun tengja við byggðirnar sem og fiskveiðiheimildir í því skyni að draga úr miðstýringu ríkisvaldsins og bæta fyrir byggðaröskun sem kvótakerfið hefur stuðlað að undanfarin 30 ár. Aukið frelsi til handfæraveiða er skjótvirkasta og ódýrasta innspýting fyrir hagkerfið – ekki síst landsbyggðarinnar þar sem viðgangur atvinnulífsins og vöxtur peningahagkerfisins hefur verið minni. Þá er frelsi í handfæraveiðum alveg útgjaldalaust fyrir ríkissjóð í þröngri stöðu og auk þess lang vistvænasta aflaleiðin fyrir sjávarbyggðir sem sumar eru við dauðans dyr. Um leið þarf að fá togarana af grunnslóð.
c)      Heimastjórn: Dögun hefur barist fyrir nýrri stjórnarskrá – ekki síst í því skyni að tryggja að dregið sé úr valdi miðstjórnar ríkisins í höfuðborginni. Þótt ég hefði viljað ganga lengra er ég sat í stjórnlagaráði með því að skipta skattlagningar- og fjárveitingarvaldi ríkisins á milli ríkis og landshluta varð niðurstaðan þar engu að síður mikil réttarbót fyrir landsbyggðina. Allt frá því að Íslendingar fengu heimastjórn fyrir rúmri öld hafa landshlutar þurft að treysta á bænaskrár til Reykjavíkurvaldsins með litlum árangri þrátt fyrir heldur meira atkvæðavægi. Í stað þess að þingmenn fari með betlistaf suður – og séu svo uppnefndir kjördæmapotarar ef þeir vilja jafna aðstöðumun vegna búsetu – eiga heimamenn að hafa völd og tekjur í sínum höndum. Þetta gerir nýja stjórnarskráin með þrennum úrbótum:
nálægðarreglu um að þjónustu og verkefnum sé sinnt í héraði nema þau eigi betur heima í borginni;
samráðsskyldu þannig að ríkið hafi virkt samráð frá upphafi við fulltrúa heimamanna um breyttar reglur eða skilyrði;
tekjureglu þess efnis að öllum lögbundnum verkefnum sveitarfélaga fylgi nægar tekjur og að stjórnsýslueiningar séu af þeirri stærð að þau hafi burði til þess að sinna þeim.

Nýtt millidómstig á Akureyri

Þá er sjálfsagt að fleiri opinber verkefni séu flutt til sýslumanna um allt land, sem eru óháð staðsetningu. Enn fremur telur Dögun að nýjar stofnanir eigi að vera utan höfuðborgarsvæðisins nema sýnt sé framá nauðsyn annars. Sem dæmi hef ég nefnt nýtt millidómstig sem lögfræðingasamfélagið er nú einhuga um að koma á; það tel ég að eigi að hafa höfuðstöðvar á Akureyri.

Frelsum bændur úr viðjum regluvalds

Þá þarf að bæta skilyrði fyrir sjálfbærum landbúnaði, ábyrgri beitarstjórnun, varna yfirskuldsetningu við framleiðslu á kjúklinga- og svínakjöti og síðast en ekki síst frelsa bændur úr viðjum ríkisafskipta; heimaslátrun og sala beint frá býli felur í sér mikil tækifæri. Nýlega ræddi ég við bónda á Austurlandi sem sagðist mega slátra hreindýri sem skotið væri á landi hans en ekki neinu af því sauðfé sem hann á í hundruðatali.

Skatt á skemmtiferðaskip

Hvað ferðaþjónustu varðar þarf að tryggja með gjaldtöku frekar en ofreglusetningu að álag á landgæði og innviði landsins sé sjálfbært og framlegð fjöldaferðamennsku aukin til þjóðarbúsins. Í sjónvarpsþætti RÚV með fulltrúum allra flokka í gær [18.4.’13] nefndi ég sem dæmi í þessu skyni sérstakan skatt á skemmtiferðaskip sem hafnir landsins lokka hingað í þágu hafnarsjóða en án þess að nægileg framlegð sé til þjóðarbúsins eða samfélagsins með verslun og gistingu svo dæmi séu tekin. Farmar ferðamanna eru fluttir í Mývatnssveit héðan frá Akureyri án mikillar viðkomu. Sveitarfélagið Þingeyjarsveit hefur ekki gjaldstofn til þess að koma upp salerni og annarri aðstöðu við Goðafoss þar sem umhverfið er að troðast niður. Skútustaðahreppur hefur engan gjaldstofn í því skyni að vernda og verja hinar viðkvæmu Dimmuborgir. Skattur á skemmtiferðaskip sem renni til héraðsins getur bætt úr þessu án þess að grafa undan mikilvægum flugsamgöngum eins og komugjald flugfarþega gerir; ráðstefnuhald með flugsamgöngum felur í sér mikinn virðisauka fyrir Ísland og tækifæri fyrir atvinnulíf í Norðausturkjördæmi. Hinn nýi skemmtiferðaskipaskattur hefur heldur ekki þá ókosti náttúrupassa að allir ferðamenn í minni hópum og á eigin vegum – innlendir sem erlendir – þurfi að greiða gjald fyrir að njóta náttúru Íslands.

Jafnræði landsbyggðar til styrkja og innviða

Auk þess þurfa handhafar ríkisvalds að tryggja að landsbyggðin sitji við sama borð þegar úthlutað er úr (samkeppnis)sjóðum til tækniþróunar, nýsköpunar og rannsókna. Þótt hrósa megi fráfarandi vinstristjórn fyrir að tvöfalda fjárframlög í sjóði sem styrkja slíka uppbyggingu og fjárfestingu í þekkingarsamfélagi. Fáar umsóknir frá landsbyggðinni sýna að úrbóta er þörf. Sama sýnir skammur meðallíftími íslenskra fyrirtækja.
Eins og ég vék að í þætti RÚV í gær  [18.4.’13] um atvinnumál er eitt mikilvægasta málið að leggja, virkja eða tengja öflug fjarskiptanet um land allt svo að ungir frumkvöðlar fái notið sín og starfsemi á borð við menntanetið frá Kópaskeri og dúkkulísufrumkvöðulinn á Ísafirði blómstrað. Tengja þarf landshluta og þéttbýli og dreifbýli innan landshluta.

Hreiður fyrir fjölskyldur – og atvinnulíf

Loks er það atvinnumál að skólar séu reknir um land allt og önnur grunnþjónusta; án þess vill engin fjölskylda byggja sér þar hreiður – og án heimila og blómlegs mannlífs er ekkert atvinnulíf.
Áður birt 19. apríl 2013 í vefriti Akureyrarstofu um atvinnulíf.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.3.2013 - 00:44 - FB ummæli ()

Afgreiðsla eða þjóðlindir í auðareigu! Ræða mín á Ingólfstorgi 9. mars 2013 um stjórnarskrármálið (auk hljóðupptöku).

Upptaka af ræðu GT á útifundi á Ingólfstorgi 9. mars 2013

Til hamingju, kæru félagar.

Meirihluti hefur nú náðst meðal alþingismanna (32) fyrir því að staðfesta – sem fulltrúar þjóðar sinnar – þann vilja kjósenda, sem fram kom með skýrum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október sl., að fá nýja stjórnarskrá. Þar er m.a. áréttað að allt vald sé runnið frá þjóðinni.

Ekki einungis hefur þjóðin verið með í þessu ferli frá upphafi – með þátttöku sinni í tveimur þjóðfundum, heldur var það í raun hún sem hrundi af stað atburðarrásinni. Búsáhaldabyltingin – bylting fólksins – þverpólitísk hreyfing fólks úr öllum lögum samfélagsins – vopnuð búsáhöldum frammi fyrir þingi og þjóð – í heilagri reiði og uppreisn gegn spillingu og vanhæfni.

Á þeirri stundu tók fólkið í landinu réttmætt vald sitt – sér í hendur.

Þess vegna er þessi hátíðarfundur haldinn – er það ekki?

Nú eru fjögur og hálft ár liðin frá búsáhaldabyltingunni – og við erum komin á lokastað í ferli umbóta.

Það á bara eftir að greiða atkvæði á Alþingi um tillögur stjórnlagaráðs eins og þær líta nú út eftir ítarlega þinglega meðferð og ýmsar betrumbætur.

Og takið eftir: Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur aldrei verið virt að vettugi á Íslandi. Það skal aldrei verða.

***

Mig langar að rifja upp valdarán sem reynt var hér á landi fyrir 9 árum. Þessi tilraun til valdaráns varð árið 2004 eftir að samþykkt voru svonefnd fjölmiðlalög, mjög umdeild, eins og við munum, og umdeilanleg, að mínu mati. Þegar til kom brást forseti Íslands við áskorunum og dreif sig heim frá fjarlægum löndum og synjaði lögunum staðfestingar. Ég var ánægður með það enda sýndi forsetinn þar mikilvægt mótvægi við þá hægristjórn sem þá réð ríkjum og veitti ekki af aðhaldi – sem hvorki kom innan frá né að utan. Aðhald og valdajafnvægi er mikilvægt í lýðræðisríki og meginstef í nýju stjórnarskránni – sem við fögnum hér í dag. Þáverandi forsætisráðherra hugðist virða synjun forseta að vettugi enda taldi hann forsetann ekkert eiga með að blanda sér í pólitík lengur og auk þess hefði synjunar- eða málskotsheimild forseta lengi legið ónotuð, í 50 ár. Forsætisráðherra gat að vísu vitnað í einn fræðimann, samflokksmann sinn, þessari niðurstöðu til stuðnings þótt hún gengi gegn bókstaf og skilningi allra á 26. gr. stjórnarskrárinnar. Sem betur fer setti samstarfsflokkur forsætisráðherra þá honum loks stólinn fyrir dyrnar í því máli – og því heyrðist ekki mikið af þessu valdaráni.

En áður en forsætisráðherra gafst upp og Alþingi afturkallaði fjölmiðlalögin svo að ekki kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu var reynt að rökstyðja að unnt væri með almennum lögum eftirá að búa til þröskulda um lágmarksþátttöku eða aukinn meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu; sem betur var líka fallið frá slíkum valdaránshugmyndum – sem hefðu jú farið í bága við almenna reglu stjórnarskrárinnar um að meirihluti þeirra sem mætir á kjörstað ráði úrslitum, nema annað sé tekið fram.

Nú er valdaránið verra; nú er ekki bara reynt – heldur er  búinn til þröskuldur – eftirá; talað er um að tæp 50% hafi ekki verið næg þátttaka. Þetta var ekki skilgreint fyrirfram. Að þessu sinni er það ekki dómsmálaarmur Sjálfstæðisflokksins sem ákveður að ógilda afstöðu kjósenda, eftirá. Nú eru það “umboðsmenn ógreiddra atkvæða” sem ákveða að þjóðaratkvæðagreiðslan sé að vettugi virðandi þrátt fyrir að þátttaka í henni sé nær 50%. Þessari óformlegu ályktun er ekki hægt að áfrýja neitt – ekki frekar en þegar löggjafararmur Sjálfstæðisflokksins fól dómsmálaarmi sínum að ógilda í fyrsta skipti niðurstöðu kjósenda á Íslandi án þess að þeirri niðurstöðu væri hægt að áfrýja.

Ekki gengur að draga fólk á kjörstað  í góðri trú – og setja síðan einhvern mælikvarða eftirá vegna þess að það hentar valdastéttunum betur að segja að fleiri hefðu átt að mæta. Eðlilegt er þegar ráðgefandi atkvæðagreiðsla er að þeir mæti helst sem hafa mestan áhuga á málinu. Viljinn er skýr. Hvað á að gera við þennan vilja?

Helmingsþátttaka er svipað og í ráðgefandi, svæðisbundnum atkvæðagreiðslum í Noregi (52%) og heldur meira en meðaltal slíkra atkvæðagreiðslna hér á landi (47%) og á þessari öld í Sviss (45%).

Það truflar ekki þessa síðbúnu þröskulda íhaldsins að niðurstaða þjóðaratkvæðisins er í samræmi við nokkuð stöðugan og yfirgnæfandi stuðning almennings í réttnefndum skoðanakönnunum.

Sumir ganga lengra en að búa til þröskulda, eftirá. Félagi minn úr stjórnlagaráði, Pawel Bartoszek, lætur í grein í Fréttablaðinu í gær hreinlega eins og engin þjóðaratkvæðagreiðsla hafi átt sér stað; hann minnist ekki á hana þegar hann sakar mig og aðra nafngreinda umbótasinna um að kalla það valdarán þegar alþingismenn “fylgja eigin sannfæringu en ekki því sem þjóðinni (þ.e. þeim sjálfum) finnst.” Nú er þjóðaratkvæðagreiðslan alveg horfin – ekki einu sinni nefnd “skoðanakönnun” eins og annars er línan úr Valhöll; á því er líklega sú skýring, sem fram kom ítrekað í stjórnlagaráði, einkum frá félaga mínum Pawel, að þjóðin væri hreinlega ekki til. Þess vegna var engin þjóðaratkvæðagreiðsla; því getur enginn talað fyrir hönd þjóðarinnar.

Það er hins vegar til flokkur. Þeir eiga flokkinn. Flokkurinn á völdin og ef hann samþykkir ekki leikreglurnar eru þær einskis virði.

Árið 2004 var almenningur ósáttur við að fá ekki sína þjóðaratkvæðagreiðslu; margir vildu fá að fella lögin úr gildi í stað þess að þingið afturkallaði lög sín. Nú krefjast kjósendur, almenningur, heimilin – já “þjóðin” – þess að fá atkvæðagreiðslu um nýju stjórnarskrána – á Alþingi; meirihlutinn er fyrir hendi, meirihluti er nægur.

Þingforseti má því ekki feta frekar í fótspor Trampe greifa og stöðva stjórnarumbætur eins og gerðist á Þjóðfundinum 1851. Þá þurftu Íslendingar að bíða í a.m.k. aldarfjórðung eftir réttarbótum. Það má ekki gerast aftur. Ég mótmæli í nafni þjóðarinnr þessari aðferð íhaldsaflanna. Við mótmælum öll.

Eiga þeir kannski líka þingforsetann?

Nú er alvarlegra valdarán í gangi en valdaránstilraunin 2004. Það er alvarlegra í fyrsta lagi af því að nú er ekki um almenn lög að ræða heldur grundvallarlög, starfslýsingu þjóna almennings; málið snýst um sjálfa stjórnarskrána. Vandinn er sá að í þessu tilviki getum við ekki kært þingmenn fyrir að svíkja kosningaloforð og hunsa niðurstöðu þjóðaratkvæðis.

Við getum hins vegar dæmt þá, í komandi þingkosningum.

***

Um hagsmuni verða alltaf átök – um auðlindirnar og um völdin. Þeir vilja ekki auðlindir í þjóðareigu; þeir vilja þjóðlindir í auðareigu – eða ætti ég að segja “þjóflindir”?

Um mikla hagsmuni – hvað þá sjálfa stjórnarskrána – verða mikil átök; stjórnarskrám er reyndar iðulega breytt á umbrotatímum eða þær settar í kjölfar þjóðfélagsátaka eða -hruns. En hér varð auðvitað ekkert hrun!

Ef undan málþófi er látið sigrar íhald og afturhald sem vill ekki umbætur.

Þeir vilja ekki umbætur; þeir eiga kerfið.

Við viljum opna atkvæðagreiðslu, á Alþingi.

Eins og 2004 koma fjölmiðlar við sögu.

En þeir eiga fjölmiðlana, bæði ríkisrekna og einkarekna.

Þeir eiga fræðimenn.

Nú koma þingmenn einnig við sögu.

Þeir eiga málþófið. Þeir eiga því þingið.

Auðvitað eiga þeir lagatæknana.

Þeir eiga líka Hæstarétt. Hæstaréttardómarar njóta áratugasamsæris við dómsmálaráðherra um að reka þá í 65 ára afmælisgjöf svo að þeir fái full laun til æviloka. Þessu breytir nýja stjórnarskráin líka.

Hina nýju stjórnarskrá – sem við höfum samþykkt í löglegri þjóðaratkvæðagreiðslu – undirbjuggu þingkjörnir sérfræðingar í hálft ár, á grundvelli áratugavinnu stjórnarskrárnefnda Alþingis og vinnu 1000 manna slembivalins þjóðfundar. Frumvarp að stjórnarskrá sömdu svo 25 fulltrúar í stjórnlagaráði sem þjóð og þing kusu til verksins – vegna þess að Alþingi hafði reynst óhæft til heildarendurskoðunar í 70 ár. Auk þess eru alþingismenn auðvitað vanhæfir til þess að leggja til eigin starfslýsingu og valdmörk gagnvart öðrum handhöfum ríkisvalds.

Allir gátu tekið þátt 2011; margir tóku þátt. Allir – þingmenn, fræðimenn, lögspekingar og kjósendur – hafa haft nær tvö ár til þess að kynna sér tillögurnar; margir hafa gert það – jafnvel sumir formenn stjórnmálaflokkanna. Þingmenn hafa fjallað um málið á tveimur þingum, mánuðum saman, bæði í þingsal og í öllum nefndum þingsins. Málið er tilbúið.

***

•     Þeir eiga flokkinn.

•     Eiga þeir forseta Alþingis?

•     Þeir eiga kerfið.

•     Þeir eiga fjölmiðlana.

•     Þeir eiga fræðimenn.

•     Þeir eiga verðtryggðu eignirnar.

•     Þeir eiga innistæðurnar.

•     Þeir eiga þingið.

•     Þeir eiga lagatæknana.

•     Þeir telja sig eiga auðlindirnar.

•     Þeir eiga meira að segja Hæstarétt.

 

Nú vilja þeir líka eiga sáttina: um lægsta samnefnara, útvatnaðan bakherbergjabræðing um eigin hagsmuni – eins og í eftirlaunamálinu.

En við eigum stjórnarskrána.

Við viljum atkvæðagreiðslu á Alþingi. Við eigum rétt á afgreiðslu þingsins, samþykkt eða synjun! Við eigum rétt á að vita afstöðu þingmanna til þess máls sem kjósendur  – vinnuveitendur þeirra – hafa samþykkt eftir 70 ára bið til þess að skipta út 140 ára gamalli stjórnarskrá.

Opinn tékki í frumvarpi 3ja flokksformanna kemur ekki í stað frumvarps stjórnlagaráðs.

Við gefumst ekki upp. Þjóðaratkvæðagreiðsla verður aldrei virt að vettugi á Íslandi.

Ræða GT á útifundi á Ingólfstorgi 9. mars 2013

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.3.2013 - 21:59 - FB ummæli ()

Burt með bænaskrár! eða: hvers vegna er betra að L-listinn véli um málin en að Kristján Þór Júlíusson sé sendur bónarveg suður

Landsbyggðarmálin hafa verið kjarninn í pólitískum áhuga mínum í nær 30 ár. Í þingkosningum í lok næsta mánaðar býð ég mig fram í 1. sæti Norðausturkjördæmis fyrir Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði – m.a. til þess að landsbyggðin þurfi ekki að senda bænaskrár suður – eins og til kóngsins forðum.

Tækifæri til umbóta

Nú gefst færi til umbóta, einstakt tækifæri.

Dögun (xT.is) leggur áherslu á þrjú umbótamál:

 • umbætur í lánamálum og afnám verðtryggingar,
 • umbætur í auðlindamálum og
 • umbætur á stjórnarskrá – ekki síst í þágu íbúa landsbyggðarinnar.

Valdajafnvægi fyrir landsbyggðina

Andstæðingar nýrrar stjórnarskrár vinna gegn

 • valdajafnvægi sem veitir heimilunum aukið vægi gagnvart kerfinu,
 • þjóðareign á auðlindum og
 • flutningi valds frá höfuðborginni.

Ekki er rétt að stjórnarskráin hafi oft verið endurskoðuð. Fyrir utan ágæta uppfærslu mannréttindakaflans fyrir 18 árum hafa meginbreytingar á stjórnarskránni alla síðustu öld tengst valda(ó)jafnvægi milli sístækkandi þéttbýlis í kringum höfuðborgina annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar.

Hverju hafa átök um ójafnan atkvæðisrétt í þingkosningum skilað? Litlu.

Valdið kom bara hálfa leið…

Þörf er nýrra leiða.

Þegar heimastjórn komst á 1904 varð vald hins danska kóngs í raun eftir í höfuðborginni – og er þar enn – hjá þingmönnum og í alltof ríkum mæli hjá ráðherrum og embættismönnum. Auk þess er peningavaldinu að mestu miðstýrt þaðan; því vill Dögun einnig breyta með sameiningu og lýðræðisvæðingu lífeyrissjóða.

… en þarf að flytjast í hérað

Alþingis bíður nú það brýna verkefni að samþykkja fyrra sinni nýja stjórnarskrá í aðdraganda þingkosninga – eftir 70 ára bið eftir heildstæðri stjórnarskrá sjálfstæðs lýðveldis og áratuga vinnu ótal stjórnarskrárnefnda Alþingis. Nú er að ljúka rúmlega 4ra ára stjórnarskrárferli með búsáhaldabyltingu, þingkosningum, þjóðfundi, stjórnlaganefnd, stjórnlagaþingskosningum, stjórnlagaráði og ítarlegri skoðun á Alþingi og í öllum fastanefndum þingsins undanfarin ár – ekki síst í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að teknu tilliti til ábendinga innlendra sem erlendra sérfræðinga.

Af fjölda umbótamála sem nýja stjórnarskráin færir okkur má nefna

 • betra valdajafnvægi,
 • aukið aðhald gagnvart stjórnmálaöflum með persónukjöri og reglum um fjármál flokka og
 • meiri áhrif kjósenda með þjóðaratkvæðagreiðslum og frumkvæðisrétti.

Völd og tekjur hjá heimamönnum

Auk þeirra eru þrjú atriði í nýrri stjórnarskrá sem varða landsbyggðina sérstaklega.

 1. Tekjuflutningur (2. mgr. 105. gr.). Nægar tekjur fylgi lögbundnum verkefnum sveitarfélaga.
 2. Nálægðarregla (106. gr.). Opinberri þjónustu sé sinnt og stýrt í heimabyggð nema þau eigi sannanlega betur heima í höfuðborginni.
 3. Samráðsskylda (108. gr.). Stjórnarskráin skyldi Alþingi og ráðherra til þess að hafa samráð við sveitarfélög.

Í kjölfarið munu fulltrúar fólksins í héraði – svo sem Geir Kristinn Aðalsteinsson, oddviti L-lista á Akureyri, og Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri frá J-lista Dalvíkurbyggðar – sjálf finna lausnir og tækifæri í stað þess að senda þingmenn kjördæmisins eins og Kristján Þór Júlísson (D) eða Kristján Möller (S) suður í því skyni að ná til baka fé í framkvæmdir og opinbera þjónustu sem skattborgarar og fyrirtæki á Norðurlandi hafa lagt ríkinu til.

Burt með bænaskrár til miðstjórnarvaldsins í Reykjavík.

Gísli Tryggvason,

í 1. sæti T-lista Dögunar í NA-kjördæmi

.

Fyrst birt í Akureyri – vikublaði 7. mars 2013.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.3.2013 - 23:59 - FB ummæli ()

Spilingin í Hæstarétti og stjórnarskráin

Blaðamaður Fréttablaðsins sneiðir að mér í þættinum Frá Degi til dags í gær – undir nafni þó. Verra er að blaðamaðurinn, Stígur Helgason, blandar embættisheiti mínu í málið.

Stóryrði

Blaðamaðurinn finnur að orðum mínum um að ógilding Hæstaréttar á stjórnlagaþingskosningunum hefði verið “hluti af spillingunni.” Þetta séu stór orð frá löglærðum manni sem vilji láta kjósa sig á þing.

Kannski hann ætti að skýra betur hvað hann hefur fyrir sér þegar hann segir svona. Ef það er þá nokkuð.

Í tilefni lokaorðanna þigg ég auðvitað boð Fréttablaðsins um að skýra málið betur en ég gat á þeim mínútum sem mér buðust í Silfri Egils.

Þríþætt spilling

Ógilding stjórnlagaþingskosninganna er einsdæmi enda var þar á einu stigi tekin ákvörðun án möguleika á endurskoðun. Ákvörðun um gildi kosninga til sveitarstjórnar fær t.a.m. meðferð á fjórum stigum. Hæstiréttur braut með ákvörðun sinni gegn tveimur skýrum hæstaréttardómafordæmum um hvað þurfi til svo að kosning sé ógilt vegna formgalla; frá 1982 um að misferli þurfi til og frá 1994 um orsakartengsl.

Nú er rekið fyrir dómi mál gegn fyrrverandi stjórnlagaráðsfulltrúa um þann orðróm að hæstaréttardómari hafi sjálfur samið kæruna í stjórnlagaþingsmálinu. Þar sem Hæstiréttur neitaði að rökstyðja synjun endurupptöku verður ákvörðun hans helst skýrð með annarri spillingu – skipun í Hæstarétt og spilltum ofurkjörum hæstaréttardómara.

Sami hópurinn

Lengst af frá stofnun Hæstiréttar 1920 hefur sami stjórnmálaflokkurinn ákveðið skipun hæstaréttardómara – oft nátengda flokknum – sem flestir hafa komið úr æðstu lögum þjóðfélagsins, gjarnan úr sama menntaskólanum. Einstaka framsóknarmenn og kratar hafa fengið að fljóta með, varla vinstrimenn, sjaldan landsbyggðarfólk en nýverið konur.

Spillt ofurkjör

Þessi hópur, sem til skamms tíma var aðalumsagnaraðili um nýja hæstaréttardómara, hefur í áratugi með fáum undantekningum, skammtað sér full laun til æviloka með því að biðja ráðherra dómsmála um 65 ára afmælisgjöf: brottrekstur; þá þjóðargjöf hafa ráðherrar gefið.

Nýja stjórnarskráin tekur á þessu öllu; valdastéttin er vanhæf til að semja eigin starfslýsingu.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu og á Vísi í dag, þó án millifyrirsagna.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.3.2013 - 15:40 - FB ummæli ()

Tækifæri – fyrir alla landshluta

Tveir mánuðir eru til alþingiskosninga. Ég býð mig fram í 1. sæti í Norðausturkjördæmi fyrir Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, lýðræði og sanngirni. Dögun (xT.is) vil umbætur í lánamálum, umbætur á fiskveiðistjórn og umbætur á stjórnskipan – m.a. aukinn hlut landsbyggðarinnar. Fyrstu pólitísku afskipti mín voru í landsbyggðarfélaginu Stólpa í Menntaskólanum á Akureyri þar sem ég er alinn upp. Enn eru landsbyggðarmálin mér hugleikin en Dögun hefur mótað Íslandsbyggðastefnu sem tekur mið af heildarhagsmunum landsmanna.

Íslandsbyggð er umbótamál

Ekki má láta markaðsöflum eftir að móta mannlífið og byggðaþróun eða leyfa miðstjórnarvaldinu að auka á aðstöðumun milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis sem þegar hefur tekið of mikið til sín af tækifærum. Þetta hefur gerst með æ miðstýrðara Ríkisútvarpi og niðurlagningu svæðisútvarpa, með áformum um æ stærra hátæknisjúkrahús í miðborginni og sífelldum niðurskurði á svæðissjúkrahúsum og með  höfuðborgarmiðuðum samgöngum.

Ríkisvaldið á að styðja við landið allt

Með ríkisvaldi – sem stýrt er að mestu frá Reykjavík samkvæmt stjórnarskrá – má stuðla að grósku og góðu mannlífi um land allt. Þetta má gera á tvennan hátt – með tækifærum og með opinberri þjónustu.

Tækifæri til atvinnusköpunar

Stjórnarskráin kveður á um atvinnufrelsi. Atvinnufrelsi má aðeins skerða með lögum í þágu almannahagsmuna. Atvinnufrelsi er ekki raunverulegt ef fiskveiðiréttindi eru flutt að geðþótta handhafa þeirra. Almannahagsmunir réttlæta ekki óheft framsal óveidds fiskjar án tilltis til hagsmuna sjávarbyggða og þeirra sem við greinina starfa. Þvert á móti á að tengja fiskveiðiréttindi sjávarbyggðum og sjá til þess að arður af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar renni til héraðanna. Dögun styður því nýja stjórnarskrá sem kveður á um að þjóðin öll njóti arðs af auðlindinni og að tekjur fylgi lögbundnum verkefnum sem sinna á í auknum mæli í héraði.

Aðeins ef atvinnutækifæri gefast í héraði þrífst þjónusta í nærsamfélaginu – hvort sem er banki, pósthús eða opinber þjónusta.

Opinber þjónusta í héraði

Opinberri þjónustu hefur verið hagrætt um of yfir á suðvesturhorn landsins með tilheyrandi þjónustuskerðingu og meiri fólksflutningum en landið þolir. Ég vil flytja fleiri opinber verkefni til sýslumanna um land allt – en betur má ef duga skal.

Erfitt er að flytja rótgrónar stofnanir frá höfuðborginni með tilheyrandi raski fyrir starfsfólk og þjónustu. Þess í stað er rétt að nýjum stofnunum sé fundinn staður utan höfuðborgarsvæðisins þar sem aðstæður leyfa eða krefjast. Sem dæmi um það má nefna nýtt millidómstig sem lögfræðingasamfélagið er einhuga um að tímabært sé. Nýr áfrýjunardómstóll á að hafa höfuðstöðvar á Akureyri og ég vil vinna að því á Alþingi.

Gísli Tryggvason,

frambjóðandi til Alþingis í 1. sæti

NA-kjördæmis fyrir Dögun

Fyrst birt í Vikudegi 28. febrúar 2013.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.1.2013 - 06:59 - FB ummæli ()

Opinber yfirlýsing

Að gefnu tilefni vil ég, Gísli Tryggvason, lögfræðingur að mennt með meiru, taka fram að hvað sem aðrir segja – opinberlega, í einrúmi eða í heita pottinum – að ég hef hvergi látið að því liggja eða á annan hátt gefið í skyn að ekki megi breyta kommu, staf, orði eða ákvæði í frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Þetta segi ég þrátt fyrir þátttöku mína í stjórnlagaráði og baráttu allt frá 28. nóvember 2008 fyrir stjórnlagaþingi og nýrri stjórnarskrá. Aðalmálið er að verkið er vel undirbúið, löngu tímabært, vel unnið að eigin mati og mun betra en gildandi stjórnarskrá eins og ég hef áður vikið að – með samanburði – í 115 Eyjupistlum.

Aldrei of seint…

Ég vil, sem sagt, gjarnan – eins og væntanlega flestir – heyra gagnrýni á frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þá tek ég þátt í rökræðum um hvað megi betur fara í þessu mannanna verki – eins og ég hef verið óþreytandi við á þessum vettvangi, svo og á öðrum opinberum vettvangi, svo sem ráðstefnum, fundum – opnum og lokuðum.

Það sem meira er; Alþingi vill gjarnan fá umsagnir og hefur – eins og stjórnlagaráð fyrir hálfu öðru ári – boðið upp á það lengi og nú undanfarið hjá u.þ.b. öllum nefndum þingsins.

Ég hef oftar en einu sinni – t.d. á fundi með þingnefnd og á ráðstefnu í liðnum mánuði – tekið fram í vitna viðurvist að tiltekin atriði megi betur fara og tekið undir breytingarhugmyndir og þakkað fyrir tillögur til bóta; þær hafa að vísu verið furðu fáar miðað við orðagjálfrið um að „sumt“ sé ágætt í frumvarpinu en „margt“ megi betur fara og „ýmsu“ sé ofaukið!

… bara svolítið misheppnað…

Jafnvel þótt íhaldið – í Kvosinni, á Melunum og annars staðar – hafi að miklu leyti afskrifað sjálft sig til áhrifa á væntanlegar stjórnlagaumbætur með tómlæti sínu, seinagangi og ábyrgðarleysi geta bæði afturhaldsmenn, íhaldsfólk og umbótasinnar auðvitað ennþá komið með málefnalegar, rökstuddar tillögur til að bæta nýju stjórnarskrána. Nú getur Alþingi nefnilega helgað sig málinu að miklu leyti næstu 2-3 mánuði fram að kosningum til þess að fullkomna það verk sem unnið hefur verið að í fjögur ár í umboði þings og þjóðar og beðið eftir í 70 ár til þess að leysa af 140 ára gamla stjórnarskrá frá dönskum erfðakonungi.

Skiptir þá ekki – öllu – máli þótt bráðum sé liðið 1 1/2 ár (18 mánuðir) frá því að stjórnlagaráð skilaði af sér og sömuleiðis einn og hálfur þingvetur, rúmlega. Því segi ég:

Drífa sig!

Það eru síðustu forvöð.

… og æ erfiðara að breyta – því lestin er, loks, að fara

Hitt er annað að sjálfur hef ég eins og aðrir – úr stjórnlagaráði eða á Alþingi – takmarkað umboð til þess að semja frá þjóðinni þá tillögu stjórnlagaráðs að stjórnarskrá sem kjósendur samþykktu með miklum meirihluta fyrir tæpum þremur mánuðum. Allar verulegar efnisbreytingar þurfa að styðjast við sömu heimild og röksemdir og tillögur stjórnlagaráðs – því að ég segi, í anda Abrahams Lincolns:

Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn; þjóðin lét semja nýju stjórnarskrána – fyrir sína fulltrúa og í sína þágu og hún hefur samþykkt hana.

Kjarni málsins er að íhaldsfólk í flokkum og fræðasamfélagi tók málið ekki alvarlega – hélt að það væri ekki á dagskrá – fyrr en þjóðin var búin að samþykkja það!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur