Föstudagur 26.11.2010 - 18:40 - FB ummæli ()

Láttu þjóðkirkjumálið ekki ráða afstöðu þinni

Sjá má að margir frambjóðendur til stjórnlagaþings – og jafnvel kjósendur og einstaka fjölmiðlar – telja að staða þjóðkirkjunnar verði meginefni stjórnlagaþings – sem við kjósum til nk. laugardag, 27. nóvember. Ég tel hvorki nauðsynlegt né skynsamlegt að ráða þjóðkirkjumálinu til lykta á stjórnlagaþingi. Að mínu mati er réttara að fulltrúar á stjórnlagaþingi einbeiti sér að því, sem aðeins er unnt að breyta með endurskoðun á stjórnarskránni – svo sem því hvort og hvernig völd skiptist milli æðstu handhafa ríkisvalds: Alþingis, dómstóla, forseta og ríkisstjórnar – svo og sveitarfélaga sem ég vil gjarnan efla, sbr. daglega Eyjupistla mína.

Engin þörf er á að eyða tíma stjórnlagaþings í deilur um þjóðkirkjuna þar eð leysa má úr ágreiningi um stöðu hennar á einfaldan hátt, þ.e. með lögum frá Alþingi – sem kjósendur þurfa svo að staðfesta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um þá málsmeðferð er skýrt kveðið á í 2. mgr. 62. gr. og 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar. Með þessari afstöðu til málsmeðferðar tek ég hvorki undir málstað stuðningsmanna óbreytts ástands né kröfur þeirra sem vilja nota stjórnlagaþing til þess að skilja fljótt á milli ríkis og kirkju.

Um tillögu mína – og persónulega afstöðu – má lesa í ítarlegra máli á Eyjunni: http://blog.eyjan.is/gislit/2010/11/02/adskilnadur-rikis-og-kirkju/

Báðir hóparnir eru á villigötum að mínu mati þar eð stjórnarskráin leysir á lýðræðislegan hátt úr málinu með skýrri og lýðræðislegri málsmeðferð. Ég hvet kjósendur því til þess að láta afstöðu sína eða frambjóðenda til þjóðkirkjunnar ekki ráða atkvæði sínu nk. laugardag – enda höfum við um nóg annað að deila nú um stundir – svo sem ESB, Icesave, skuldavanda heimilanna, efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og sjálft stjórnlagaþingið.

Gísli Tryggvason,

frambjóðandi 3249 til stjórnlagaþings.

(grein mín í Morgunblaðinu í dag)

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur