Föstudagur 03.06.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Rétti fylgi skyldur

Af mörgum gagnmerkum tillögum mannréttindanefndar (A), þar sem ég sit ekki sjálfur, er kynntar voru sl. föstudag í stjórnlagaráði, er ég hvað ánægðastur með þær, sem ég hef ljáð stuðning í orði og verki, og lúta að því að árétta að rétti fylgja skyldur – líka samkvæmt stjórnarskrá.

Almannaréttur

Sem dæmi má nefna er þetta ákvæði:

Almenningi er frjálst að fara um landið eins og lög leyfa.

Þarna segir að vísu ekki að almenningr eigi þá að ganga vel um landið – en það felst samkvæmt ákvæðinu í löggjöf og í öðru væntanlegu stjórnarskrárákvæði um að náttúra landsins sé friðhelg. Í þessum rétti almennings felst hins vegar skylda á eigendum lands – bæði opinberum sem einkaaðilum. Það er mikilvæg árétting og að mínu mati nýtur hún auk þess víðtæks stuðnings.

Þetta gildir vitaskuld ekki aðeins um hálendið okkar eða ósnortin víðerni – heldur einnig þéttbýli þar sem við á, sbr. athyglisverða grein á bls. 18 í Fréttablaðinu miðvikudaginn 25. maí sl.; í þéttbýli og á markverðum stöðum nærri samgöngum þarf almannavaldið að tryggja þeim, sem eiga erfitt um gang, raunverulegt aðgengi en það er önnur saga.

Eignarrétti fylgi skyldur

Annað merkilegt ákvæði er tillaga um að áréttað sé í stjórnarskrá, líkt og gert er í Þýskalandi, að rétti til eignar – sem hér hefur sögulega, pólitískt og lagalega verið afar sterkur – fylgi, eðli málsins samkvæmt, einnig skyldur. Í fyrstu tillögum nefndarinnar hljóðar þetta svo:

Eignarrétti fylgja lögbundnar takmarkanir og skyldur.

Sjálfur hef ég lagt til við formann nefndarinnar að þetta ákvæði verði umorðað svo – í samræmi við umræður í nefndinni og á fundi í stjórnlagaráði:

Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög.

Í þessu felst að eignarrétti – a.m.k. verulegum eða mikilvægum eignum – fylgi alltaf skyldu; þar sem þær séu eðli málsins samkvæmt þurfi ekki sérstaka löggjöf til að koma þeim á (en kannski útfæra). Nefndi ég dæmi úr veruleika okkar Íslendinga þessu til stuðnings í stjórnlagaráði. Sem almennt og óumdeilt dæmi um þetta má einnig nefna svonefndan nábýlisrétt – sem að miklu leyti er ólögfestur, hér sem víða erlendis.

Því til viðbótar má samkvæmt niðurlagsákvæðinu, á eftir kommu – hér eftir sem hingað til – ákveða takmörk eignarréttar með almennum lögum, svo sem um umhverfismál, skattamál, upptöku eigna eða annað.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur