Miðvikudagur 08.06.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Millimetraréttlæti?

Danir hafa hugtakið „millimeterretfærdighed“ sem ég þýði svona; það merkir – í heldur neikvæðri merkingu – réttlæti sem er svo nákvæmt og jafnaðarlegt að niðurstaðan kemur niður á rökréttu skipulagi og fyrirbyggir oft skynsamlega málamiðlun.

Til þessa vitna ég stundum þessa dagana þegar við í stjórnlagaráði – að vísu í annarri nefnd (C) en þeirri, sem ég sit í – ræðum (ekki hvort heldur) hvernig við jöfnum atkvæðavægi og þar með kosningarétt. Hvort sem það telst mannréttindamál eða ekki er ég hlynntur jöfnun atkvæðavægis – einkum ef það markmið næst án þess að koma á einu kjördæmi, sem ég er andvígur.

Mér sýnist raunar að í ásættanlega málamiðlun stefni í þessu efni; um málið verður fjallað á sameiginlegum nefndarfundi á morgun – og á fimmtudag fjallar stjórnlagaráð um tillögur nefndarinnar á opnum fundi.

Jafnt er ekki sama og jöfnun

Hitt er annað að jafnt atkvæðavægi er ekki endilega skynsamlegt markmið – þó að ég telji að flestir ef ekki allir stjórnlagaráðsliðar og meginþorri þjóðarinnar aðhyllist jöfnun atkvæðavægis; a.m.k. er nákvæmlega jafnt atkvæðavægi ekki raunhæft eða rétt markmið.

M.ö.o. tel ég að ekki megi draga úr möguleikum á að ná markmiðum (mínum a.m.k.) um bundin lágmarksáhrif landshluta með einhvers konar  kjördæmum (og tryggingu fyrir að nokkurt jafnræði sé með kynjunum á fulltrúasamkundum þjóðarinnar) með því að ríghalda í að atkvæðavægi skuli alltaf og alls staðar vera nákvæmlega jafnt – 1:1; ég tel markmiðið mikilvægara en millimetraréttlæti. Í dæmaskyni kasta ég því fram til tölfróðra og rökfastra lesenda að atkvæðamisvægi eftir jöfnun atkvæðavægis mætti vera allt að 1:1,2 ef það er nauðsynlegt í því skyni að ná framangreindum markmiðum um áhrif landshluta (og hlutdeild kynja).

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur