Fimmtudagur 08.09.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Alþingiskosningar (39. gr.)

Í 39. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er að finna eitt lengsta og tæknilegasta ákvæði þess; ég gat þó – og get – ekki tekið undir efasemdir innan ráðsins og e.t.v. utan um að of langt hafi verið gengið í útfærslu á tæknilegum atriðum í því ákvæði.

Í stjórnarskrá eru f.o.f. meginreglur og markmið…

Flest vorum við – og oftast – sammála í stjórnlagaráði um að leitast við að halda því góða jafnvægi að mæla fyrir um skýrar og mikilvægar meginreglur eða markmið – sem löggjafanum og eftir atvikum öðrum handhöfum ríkisvalds er falið að útfæra nánar. Ég tel að okkur hafi tekist það að mestu leyti – þó að skiptar skoðanir séu um það í einstökum atriðum eins og geta má nærri um sáttmála með yfir 100 greinum sem leysir af yfirlýsingu sem er 137 ára gömul og með um 80 greinum.

… en þó einnig nánari reglur um skipan þess aðila, sem útfærir markmiðin

Meginfrávikið að þessu leyti á við um 39. gr. frumvarpsins sem kveður á um hvernig Alþingi sjálft er skipað – bæði hvað varðar tölu þingmanna og val þeirra, svo og kjörtímabil; stjórnlagaráði þótti nærtækt að takmarka sjálfdæmi Alþingis um sína eigin skipan – rétt eins og starfsmenn eiga sjaldnast einir ákvörðunarvald um ráðningu sína, starfslýsingu eða starfskjör. Sambærileg frávik geta átt við varðandi reglur um valdsvið Alþingis eða önnur atriði þar sem sérstök ástæða er til þess að veita handhafa löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitsvalds ekki sjálfdæmi – eins og ég mun væntanlega skýra eftir atvikum í síðari pistlum.

Lengd 39. gr. og flækjustig er því ekki undantekning frá framangreindri aðalreglu um að stjórnarskráin geymi f.o.f. markmið og meginreglur – heldur réttmætt frávik af þessum ástæðum. Þá má í skýringum lesa um nokkur atriði sem Alþingi hefur þó nokkurt svigrúm til þess að ákveða innan rammans.

Kynjajafnrétti, valddreifing og persónukjör

Að þessu sögðu vil ég aðeins fara örfáum orðum um inntak 39. gr. – enda er hún, sem sagt, löng, tiltölulega flókin frá mínum sjónarhóli og þar að auki eru reglur hennar hvorki mitt sérsvið né mesta áhugasvið enda sat ég ekki í þeirri nefnd (C) stjórnlagaráðs sem fjallað mest um málið; aðalstefnumál mín að þessu leyti náðust ágætlega fram, þ.e.a.s. að

 • landshlutatenging héldist – eða „kjördæmavarið landskjör“ eins og það er nefnt í skýringum – enda hagsmunir landsbyggðar eitt meginstefnumið mitt;
 • persónukjör kæmi ekki um of niður á stefnumótun og starfsemi stjórnmálaflokka sem ég tel lykilatriði í lýðræðisríki:
 • kynjajafnrétti væri tryggt enda er ég yfirlýstur feministi;
 • að líkleg jöfnun atkvæðisréttar, sem raunin varð, yrði bætt með valddreifingu í staðinn, t.d. með auknu hlutverki sveitarstjórna á kostnað miðstjórnarvaldsins, sem einnig varð niðurstaðan eins og ég kem nánar að síðar, og
 • þingmönnum yrði ekki fækkað nema e.t.v. lítilsháttar í ljósi stóraukins hlutverks þeirra og vægis sem ég vildi vinna að í þeirri nefnd (B) sem ég starfaði í, sem einnig tókst.

Allt að 8 kjördæmi en jafnt atkvæðavægi

Markmiðin náðust að mínu mati að mestu leyti – með þessum meginatriðum:

 • Þingmenn verða áfram 63.
 • Atkvæðavægi verður jafnt.
 • Heimilt verður að skipta landinu í kjördæmi, allt að 8 talsins.
 • Binda má nærri helming þingmanna, allt að 30, við kjördæmi.
 • Persónukjör er skylda.
 • Meginreglan er persónukjör þvert á flokka – en Alþingi er heimilt að takmarka það við persónukjör innan flokks sem kjósandi kýs.
 • Kosningalög skulu stuðla „að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.“

Þessi góðu markmið, sem flestir voru sammála um að mestu, sýna að mínu mati að þeir átta stjórnarráðsfulltrúar, sem unnu þetta verk mestmegnis í góðu samstarfi við aðra ráðsliða og frábært starfsfólk, hafa lagt sig alla fram og unnu mjög gott starf; þar voru ekki aðeins gerðar málamiðlanir heldur fundnar lausnir á markmiðum sem flestra – innan sem utan stjórnlagaráðs.

Nánar um inntak ákvæðisins og skýringu þess

Um tillögur stjórnlagaráðs um kosningar til Alþingis má nánar lesa í 39. gr. og ítarlegum skýringum með henni en ákvæðið er svohljóðandi (hér með númeraröðun á málsgreinum vegna lengdar):

 1. Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.
 2. Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.
 3. Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Þau skulu flest vera átta.
 4. Samtök frambjóðenda bjóða fram lista, kjördæmislista eða landslista eða hvort tveggja. Frambjóðendur mega bjóða sig fram samtímis á landslista og einum kjördæmislista sömu samtaka.
 5. Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum, eða hvort tveggja. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmislista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt. Heimilt er að mæla fyrir um í lögum að valið sé einskorðað við kjördæmislista eða landslista sömu samtaka.
 6. Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hver þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu.
 7. Í lögum skal mælt fyrir um hvernig þingsætum skuli úthlutað til frambjóðenda út frá atkvæðastyrk þeirra.
 8. Í lögum má mæla fyrir um að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn einstökum kjördæmum, þó ekki fleiri en 30 alls. Tala kjósenda á kjörskrá að baki hverju bundnu sæti skal ekki vera lægri en meðaltalið miðað við öll 63 þingsætin.
 9. Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.
 10. Breytingar á kjördæmamörkum, tilhögun á úthlutun þingsæta og reglum um framboð, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 hluta atkvæða á Alþingi. Slíkar breytingar má ekki gera ef minna en sex mánuðir eru til kosninga, og gildistaka þeirra skal frestast ef boðað er til kosninga innan sex mánaða frá staðfestingu þeirra.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur