Í 41. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Kosningarétt við kosningar til Alþingis hafa allir sem eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt. Lögheimili á Íslandi, þegar kosning fer fram, er einnig skilyrði kosningaréttar, nema undantekningar frá þeirri reglu verði ákveðnar í lögum um kosningar til Alþingis.
Nánari reglur um alþingiskosningar skulu settar í lögum.
Hér er (kannski fullsjaldgæft) dæmi um gildandi stjórnarskrárákvæði sem stjórnlagaráð stillti sig um að leggja til breytingar á – a.m.k. efnislega; við gátum ekki stillt okkur um að samræma lokaorðið öðrum ákvæðum í gildandi stjórnarskrá og í stjórnarskrárfrumvarpinu þar sem rætt er um „lög“ í stað þess að nefna þau „kosningalög.“
Beinum lagaáskilnaðarreglum stjórnarskrárinnar fjölgað í um 80
Hér er Alþingi annars vegar veitt sértæk heimild til þess að víkja frá lögheimilisskilyrðinu og hins vegar er lögð almenn skylda á löggjafann til þess að útfæra kosningareglur nánar í lögum. Þetta dæmi er eitt af á fjórða tug tilvika í gildandi stjórnarskrá þar sem sú skylda er lögð á löggjafann að útfæra eitthvað með lögum eða að Alþingi er veitt heimild til þess að víkja frá einhverrri meginreglu með lögum.
Við lauslega talningu á sambærilegum ákvæðum í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs virðist mér í fljótu bragði að slík lagaáskilnaðarákvæði séu ríflega tvöfölduð – og séu því um eða jafnvel yfir 80 talsins; er það vel því að það
- skerpir hlutverkaskiptinguna,
- eykur að jafnaði réttaröryggi borgaranna,
- styrkir Alþingi og hlut þess í stjórnskipan landsins og
- styður við svonefnda lögmætisreglu
- auk þess að stuðla að þeirri aðalreglu að stjórnarskráin mæli fyrir um markmið og mikilvægar meginreglur en útfæri ekki í smáatriðum eða tæknilega.
Lítið rætt hér um aldursskilyrðið
Þess má geta að lítið var hér rætt um breytingu á kosningaaldri – sem lengi hefur verið 18 ár – en var löngum hærri (og þar áður bundinn við karla og enn áður tiltekna „mikilvæga“ karla); einhver minntist þó í þessu sambandi á 16 ár en breyting í þá veru var lítið sem ekkert rædd.
Meira var rætt um kjörgengisaldur forseta (35 ár) eins og síðar verður vikið að.
- Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs (sjá um þetta ákvæði á bls. xx-xx).