Þriðjudagur 20.09.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Styrkir til frambjóðenda og samtaka þeirra (51. gr. )

Í 51. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er eitt merkasta nýmælið að finna:

Í lögum skal kveðið á um starfsemi stjórnmálasamtaka, svo og um fjármál frambjóðenda í því skyni að halda kostnaði í hófi, tryggja gegnsæi og takmarka auglýsingar í kosningabaráttu.

Upplýsingar um framlög yfir ákveðinni lágmarksupphæð skulu birtar jafnóðum samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum.

Ekkert er að finna um þetta í gildandi stjórnarskrá.

Regluleysi býður upp á spillingu

Lengi voru einu lögin um fjármál stjórnmálaflokka lög um bann við erlendum styrkjum til stjórnmálastarfsemi. Auk þess setti Alþingi reglur um styrki til stjórnmálaflokka af opinberu fé – en engar reglur giltu um styrki og önnur framlög annarra til stjórnmálaflokka.

Slíkt ástand býður upp á spillingu – eins og ótal dæmi sanna.

Fyrir 5 árum voru loks sett heildstæð lög um þetta efni en þau ganga að mínu mati heldur skammt auk þess sem telja verður óeðlilegt að löggjafinn hafi sjálfdæmi um atriði sem tengist Alþingi og skipan þess og starfsemi stjórnmálaflokka svo náið.

Úrbætur til almannaheilla

Skyldan sem stjórnarskráin leggur löggjafanum á herðar er samkvæmt þessu ákvæði að kveða á um:

  1. starfsemi stjórnmálasamtaka,
  2. fjármál frambjóðenda og
  3. tiltekna upphæð en skylt er að birta framlög yfir þeirri upphæð „jafnóðum samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum.“

Lögin verða að vera til þess fallin að

  • halda kostnaði í hófi,
  • tryggja gegnsæi og
  • takmarka auglýsingar í kosningabaráttu.

Stjórnmálaauglýsingar í sjónvarpi víða takmarkaðar

Í skýringum með frumvarpinu segir m.a.:

Almenna reglan í mörgum ríkjum Evrópu er að auglýsingar stjórnmálaflokka í ljósvakamiðl­um eru bannaðar, að öllu leyti eða að hluta. Svo er ekki á Íslandi. Á fundum starfshóps þess sem stendur að tillögunni var rætt um hvort banna ætti auglýsingar frá stjórnmálasamtökum. Að loknum samræðum um ýmsar hliðar þessu tengdu, og með tilliti til yfirlýsinga álitsgefandi sérfræðinga var ákveðið að heimila löggjafanum að útfæra með hvaða hætti skyldi leitast við að takmarka auglýsingar.

Vonandi stuðlar þetta ákvæði að heilbrigðara stjórnmálalífi en undanfarna áratugi. Væntanlega sjá það líka flestir.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur