Fimmtudagur 30.6.2011 - 22:12 - FB ummæli ()

Bráðabirgðalög?

Í stjórnlagaráði liggur fyrir óformleg tillaga um að afnema heimild í stjórnarskrá til þess að setja bráðabirgðalög.

Áður en ég lýsi skoðun minni – og rökstyð hana – þætti mér vænt um að lesa (eða heyra í GSM 897 33 14) skoðanir lesenda á því hvort slík heimild eigi að vera fyrir hendi áfram í stjórnarskrá.

Í rökstuðningi mínum mun ég m.a. líta til þeirra bráðabirgðalaga sem sett hafa verið síðan stjórnarskránni var breytt 1991 í þessu sambandi.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

Mánudagur 27.6.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Forseti, af eða á?

Í stjórnlagaráði höfum við undanfarið rætt ítarlegar – en málefnalega að vanda – um hvort hér skuli vera forsetaræði eða þingræði. Enn eigum við eftir að komast að niðurstöðu um tillögugerð okkar til þjóðarinnar í þessu efni. Stærsti annmarkinn á umræðunni finnst mér vera hvað hún er svart/hvít. Eins og félagi minn í stjórnlagaráði, Þorvaldur Gylfason, hefur lýst í ræðu og riti er um að ræða falskar andstæður – m.a. í ljósi þess að tugir ríkja búa við sambland þessara kerfa.

Lítið breytt eða stóraukið?

Margir í stjórnlagaráði eru eins og í þjóðfélaginu almennt á því að halda forsetaembættinu lítið breyttu eða jafnvel halda embættinu en draga heldur úr hlutverki þess; fáir eru þeirrar skoðunar að alveg eigi að afnema embætti forseta. Ég hef skilning á fyrrnefndri afstöðu, sem styðst við hefð, en hallast gegn þeim eins og ég rökstyð á eftir.

Þá eru nokkrir málsvarar þess að taka upp forsetaræði, þ.e. að kjósa forseta eða forsætisráðherra – sem tilnefni ríkisstjórn sína óháð vilja Alþingis eins og t.d. í Bandaríkjunum. Ég var lengi þeirrar skoðunar eins og hef rakið – en held að við séum ekki tilbúin í svo mikla breytingu á íslensku þjóðfélagskerfi.

Millileiðin og misskilningurinn

Það sem ég  undrast er hve lítið fylgi millieiðin, málamiðlunin, virðist hafa – a.m.k. innan þeirrar nefnar sem ég sit í, valdþáttanefndar (B) stjórnlagaráðs. Hún byggist á því að forseti haldi þjóðhöfðingjastöðu sinni en verði áfram í hlutverki hemils til valdtemprunar á löggjafarþing og ríkisstjórn – sem annars eru nokkuð alráð í núverandi kerfi og samkvæmt okkar umbótahugmyndum. M.a. vilja sum okkar að forseti hafi hönd í bagga við að skipa og vernda stofnanir sem eiga að vera sjálfstæðar gagnvart flokkspólitískri ríkisstjórn.

Formalismi og fræðimennska

Að mínu mati virðist andstaðan gegn einhvers konar millikerfi byggjast að nokkru á því að „óhreint“ sé að blanda saman þingræði og forsetaræði. Það styðst þó ekki við efnisleg rök að mínum dómi en minnir á það sem í lögfræðinni er nefnt „Begriffsjurisprudenz“ – hugtakalögfræði – þ.e. að hugtakasmíð fræðimanna skuli ráða úrslitum um pólitík og skipulag frekar en félagsleg markmið og skynsamleg efnisrök.

Þá ber nokkuð á þeim misskilningi andstæðinga þess að auka heldur hlutverk forseta Íslands að með því séu fylgismenn þess meðvitað að reyna að finna eitthvert hlutverk handa forseta til að réttlæta tilvist embættisins – án efnisástæðna.

Verst finnast mér þau mót“rök“ að tillögur okkar, sem viljum auka hlutverk forseta til aðhalds, séu andfeminískar og byggist á sókn eftir hinum sterka leiðtoga, föðurímyndini. Þau standast engan veginn – og særa mig sem feminista og valddreifingarsinna.

Raunverulegu rökin

Rökin eru einföld og byggjast á markmiðum um valddreifingu og mótvægi við flokksræði. Ef Alþingi nær stöðu sinni sem aðalhandhafi löggjafarvalds – sem þingið hefur alls ekki haft í ráðherraræðinu sem ríkt hefur á lýðveldistímanum en tillögur okkar ganga út á – þarf að veita honum eitthvert mótvægi. Þá er Alþingi samkvæmt tillögum okkar í valdþáttanefnd (B) meginhandhafi eftirlitsvalds (eins og nú á raunar að vera).

Við leggjum hins vegar (vonandi) ekki til að Alþingi sé eini valdhafinn í landinu – þótt fjölskipaður sé; vonandi vill enginn stefna að einræði þingsins hérlendis.

Að þessu sögðu er það vitaskuld útfærsluatriði hvernig á að tengja vald og ábyrgð forseta – sem verður að fara saman, sem endranær.

Um þetta hafa menn skrifað fyrr og síðar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

Fimmtudagur 23.6.2011 - 23:27 - FB ummæli ()

Ráðherra sé ekki þingmaður – og hvað svo?

Eitt af því sem við í stjórnlagaráði ræðum um þessar mundir er hvort ráðherrar skuli vera utanþingsmenn eður ei; ekki virðist raunar ágreiningur um að á meðan ráðherrar gegni því embætti skuli ráðherrar ekki sitja á Alþingi sem alþingismenn – sem hingað til.

Sem ráðherrar eigi þeir þá samkvæmt nýju stjórnarskránni að mæta á fund Alþingis eða þingnefnda eftir þingskaparreglum – en án atkvæðisréttar og án almennra þingmannsréttinda.

Um það erum við, sem sagt, sammála, að ég held, enda víðtækur stuðningur við þann aðskilnað handhafa framkvæmdarvalds og löggjafarvalds í þjóðfélaginu að mínu mati.

Utanþingsráðherrar – eður ei?

Álitamálið lýtur hins vegar að því hvort ganga eigi lengra – og hvaða eftirfarandi valkostir verði ofan á:

  • Þingmenn, sem verða ráðherrar, eiga að víkja sæti á meðan þeir eru ráðherrar; þingsæti þeirra á meðan taka þá varamenn.
  • Þingmenn, sem verða ráðherrar, eiga að segja af sér þingmennsku – ekki bara á meðan þeir eru ráðherrar, heldur til frambúðar.
  • Stefnt skuli að því að ráðherrar séu að einhverju leyti, jafnvel að meginstefnu til eða helst eingöngu menn sem ekki hafa verið kjörnir til þings.

Áður en ég lýsi minni afstöðu og rökstyð einstaka kosti væri gaman að heyra viðhorf lesenda – kjósenda!

Hvað finnst þér?

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , ,

Miðvikudagur 22.6.2011 - 23:56 - FB ummæli ()

Stærsta málið í stjórnlagaráði

Að mínu mati er stærsta málið í stjórnlagaráði – mál sem sumir andstæðinga stjórnlagaumbóta hafa í raun viðurkennt, þar sem sagt er að f.o.f. þurfi að fara eftir stjórnarskránni.

Þetta er í raun valddreifingarmál eða meginatriði í að veita valdhöfum aðhald.

Stjórnlagadómstóll

Málið er þörfin á stjórnlagadómstóli – sem ég hef rökstutt ítarlega í ráðinu og í færslum hér á Eyjunni. Þetta var fyrsta og stærsta baráttumál mitt í stjórnlagaráði og er enn. Fyrir þessu hafa verið færð ítarleg rök, sem fleiri hafa tekið undir eða rætt á sömu lund.

Tilefnin hafa verið rakin í ótal færslum, svo sem hér.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Þriðjudagur 21.6.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Óska eftir samtali

Nú eru innan við sex vikur þar til stjórnlagaráð á að hafa lokið störfum; nú nálgumst við í ráðinu lokafasann þar sem í ríkari mæli er leitað utanaðkomandi álits frá slíkum aðilum.

Margir möguleikar eru á áhrifum – eins og ég hef áður skrifað um. Samræðan er þó mikilvæg.

Ég hef – með takmörkuðum árangri – leitast við að efna til funda stjórnlagaráðs eða fulltrúa úr ráðinu með hagsmunaaðilum, hugsjónasamtökum og utanaðkomandi sérfræðingum – en betur má ef duga skal.

Til í að heyra þitt viðhorf

Ég vil árétta þann vilja minn að hitta sem flesta sem  skoðun hafa á störfum stjórnlagaráðs og vilja hitta mig eða aðra ráðsfulltrúa eða ræða við mig í síma (GSM 897 33 14).

Annars er möguleiki til áhrifa margþættur – eins og fram er komið:

Margþættar leiðir fyrir áhrif almennings

Mér til ánægju sá ég við yfirferð yfir umgjörð ráðsins samkvæmt þingsályktun og umræddum starfsreglum að almenningur getur fylgst með störfum stjórnlagaráðs, tekið þátt í stjórnlagaumbótum og haft áhrif á sex vegu, þ.e. með því að:

  1. senda stjórnlagaráði skrifleg erindi og umsagnir;
  2. hlusta á upptökur af fundum stjórnlagaráðs og eftir atvikum verkefnanefnda – hvort sem er með því að mæta á opna fundi, hlusta á þá á netinu í beinni eða upptökur síðar;
  3. tjá sig undir nafni á opinberum vef stjórnlagaráðs um drög og tillögur að nýjum stjórnarskrárákvæðum;
  4. óskað eftir fundi með stjórnlagaráði, nefndum eða starfshópum;
  5. með því að taka þátt í þjóðaratkvæði sem gert var ráð fyrir við meðferð þingsályktunarum skipun stjórnlagaráðs að gæti átt sér stað áður en Alþingi tekur tillögu stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár til afgreiðslu.

Væntanlega getur rödd almennings í sjötta lagi einnig heyrst áður en stjórnlagaráð lýkur störfum með því að gerð verði skoðanakönnun á viðhorfum kjósenda til meginatriða í væntanlegum tillögum ráðsins til þjóðar og þings.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Mánudagur 20.6.2011 - 21:54 - FB ummæli ()

Hver ræður?

Um daginn hitti ég alþingismann á förnum vegi á hátíðarstundu. Eftir kurteislegar kveðjur á báða bóga spurði þingmaðurinn hvernig okkur í stjórnlagaráði gengi – og svo hvort fyrir lægju hugmyndir um málsmeðferð tillagna okkar og hverjar þær væru.

Ég svaraði því til, eins og ég hef jafnan gert, að ég teldi víst – eins og meginþorri stjórnlagaráðsfulltrúa hefði lagt áherslu á – að stjórnlagaráð myndi einhuga leggja til að þjóðin fengi tillögur okkar fyrst til umfjöllunar, áður en Alþingi fengi tillögur að nýrri stjórnarskrá til afgreiðslu; þetta var forsenda þátttöku minnar frá upphafi.

… þingið ræður…

Áður en athygli þingmannsins beindist að öðrum hátíðargesti náði hann að segja við mig – löglærðan manninn:

Já, en þingið ræður…

Enginn lögfræðingur á að velkjast í vafa um að formlega er stjórnskipulega staðan sú að tvær samþykktir Alþingis – með alþingiskosningum á milli – þurfi til þess að samþykkja stjórnarskrárbreytingar. Það vekur alltaf athygli þegar hið sjálfsagða er sagt. Árétting þingmannsins er því að mínu mati vitni um annars vegar óöryggi og tilraun til að halda í völd. Hins vegar eru ummæli þingmannsins dæmi um að valdhafar skynji ekki vitjunatíma sinn og kröfur um óháða endurskoðun á starfsumhverfi Alþingis og annarra æðstu handhafa ríkisvalds.

Ekki hægt að neita þjóðaratkvæðagreiðslu

Verði stjórnlagaráð sammála um megindrætti í nýrri stjórnskipan og þá málsmeðferðartillögu, sem ég vænti, að spyrja skuli þjóðina álits á undan Alþingi, væri það afar varhugaverð meðferð valds að neita stjórnlagaráði og þjóðinni um þá málsmeðferð.

Allt vald þarf að tempra – einnig vald þjóðþingsins.

Alþingi samsinnti – hví ætti að hætta við?

Þessu var allsherjarnefnd sammála á fyrri stigum málsins; undarlegt væri að bakka nú. Þegar Alþingi bauð mér sæti í stjórnlagaráði skrifaði ég – er ég þáði boðið:

Allsherjarnefnd Alþingis hefur auk þess fallist afdráttarlaust á það sem valkost að niðurstöður stjórnlagaráðs megi bera undir þjóðina sjálfa áður en Alþingi tekur þær til efnislegrar afgreiðslu (sjá þskj. 1028 á 139. löggj.þ.) eins og einnig var ráðgert um stjórnlagaþing (sjá þskj. 1354 á 138. löggj.þ.). Stjórnlagaráði er falið að gera tillögu í þessu efni – og tek ég undir með allsherjarnefnd Alþingis að rétt sé að bera mismunandi kosti undir þjóðina. Um þá forsendu af minni hálfu sagði í formlegri kynningu við framboð til stjórnlagaþings, dags. 17. október 2010, að fyrst þyrfti “að bera niðurstöðu stjórnlagaþings undir þjóðina” – áður en Alþingi fengi hana til afgreiðslu. Sjálfstæði stjórnlagaráðs út á við er því fyrir hendi enda verður þessi afstaða ekki dregin til baka er tillögur stjórnlagaráðs hafa litið dagsins ljós. Lít ég einnig til þess að þjóðin er í réttarvitund almennings, í stjórnlagafræði og í huga forseta Íslands talin æðsti handhafi ríkisvalds – ekki síst er öðrum handhöfum eru settar reglur og mörk til þess að starfa eftir í umboði þjóðarinnar.

Auðvitað ræður þjóðin!

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

Fimmtudagur 16.6.2011 - 23:50 - FB ummæli ()

Sjálfdæmi Alþingis afnumið

Um leið og ég óska landsmönnum öllum til hamingju með 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar forseta vil ég upplýsa að á afar efnismiklum og góðum fundi í stjórnlagaráði í dag lagði ég ásamt nokkrum félögum fram breytingartillögu við eftirfarandi tillögu úr nefnd stjórnlagaráðs (C) sem fer með lýðræðismál o.fl.:

Stjórnarskrárbreytingar

Til þess að frumvarp til breytinga á stjórnarskrá nái fram að ganga á Alþingi þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Hljóti það samþykkt skal það borið undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.

Þjóðin breyti stjórnarskránni framvegis

Tillaga okkar Freyju Haraldsdóttur, Katrínar Oddsdóttur, Silju Báru Ómarsdóttur og Vilhjálms Þorsteinssonar um reglulegt stjórnlagaþing – í stað tilvitnaðrar 3. gr. í tillögum nefndarinnar – hljóðar svo:

Stjórnarskrá þessari skal aðeins breytt að tillögu stjórnlagaþings sem þjóðkjörið skal með persónukjöri þar sem hlutur kynja og fulltrúa landshluta skal tryggður með sama hætti og við kjör til Alþingis.

Forseti Íslands boðar til stjórnlagaþings á 25 ára fresti eða oftar ef Alþingi óskar eða 10% kjósenda óska þess. Um fjölda stjórnlagaþingmanna, starfsemi stjórnlagaþings og nánari reglur um kjör þess skal mælt í lögum. Tillaga að nýrri stjórnarskrá skal borin undir alla kosningabæra í landinu í leynilegri þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.

Rökin

Um rök fyrir þessari tillögu, sem meðflytjendur mínir bera vitaskuld enga ábyrgð á, hef ég áður skrifað um í Eyjupistlum hér og hér; í síðarnefndri færslu sagði:

Einveldið afnumið

Þingmenn mega eins og aðrir gjarnan hafa skoðun á ráðningarsamningi sínum og jafnvel áhrif á erindisbréf sitt frá almenningi – en fáir hafa sjálfdæmi um það. Sú var tíðin að einvaldskonungur var einmitt það, einvaldur – einnig um eigin stöðu; það er liðin tíð – þó að kóngunum hafi fjölgað síðan.

Þess vegna þurfum við ekki bara sjálfstæðan, bindandi stjórnlagadómstól – heldur líka regluleg, þjóðkjörin stjórnlagaþing.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

Miðvikudagur 15.6.2011 - 23:56 - FB ummæli ()

Her-lög

Þessar dagana erum við í stjórnlagaráði að nálgast lokakaflann í að semja grunnlög eða stjórnlög – nýja stjórnarskrá – fyrir Ísland.

Herskylda bönnuð

Eitt nýmælið í áfangaskjali er að leggja bann við herskyldu.

Í því felst – eins og mörgu öðru sem við erum að ná sátt um þessar vikurnar – tiltekin lausn (eða málamiðlun sem hefur á sér meiri hrossakaupsbrag) á mismunandi sjónarmiðum; sumir vilja m.ö.o. ganga lengra og kveða á um það í stjórnarskrá, sem raunar var ákveðið og yfirlýst við stofnun íslenska ríkisins 1918, að landið skyldi hlutlaust (og herlaust) um aldur og ævi. Aðrir andmæltu og sögðu að ef svo ólíklega og óheppilega færi að á ríkið yrði ráðist yrði að vera mögulegt að stofna hér sjálfboðaliðaher þótt vanmegnugur yrði væntanlega ef litið er til aðstæðna og sögu, m.a. Danmerkur og jafnvel Noregs 1940; ekki væri hægt að ætlast til þess að aðrir verðu landið fyrir okkur – hvað sem liði aðild okkar að varnarbandalaginu, NATÓ.

Alþingi staðfesti alla hernaðaraðild

Þá er – í ljósi nýorðinna atburða – sem ég hélt satt að segja ekki að myndu endurtaka sig eftir málsmeðferð við ákvörðun um aðild að Íraksstríði 2003 – gott að á morgun verður kynnt ákvæði frá nefnd (C) stjórnlagaráðs, sem fjallar um utanríkismál, að þar er áskilið samþykki Alþingis við aðild ríkisins að hernaðaraðgerðum; auk þess að áskilja fyrirfram samráð við þá nefnd Alþingis sem fjallar um utanríkismál, er gengið lengra að þessu leyti. Nýlegt og umdeilt mál um óbeina aðild okkar sem NATÓ-ríkis að hernaðaraðgerðum í Líbíu sýnir þörf á þessu.

Mér sýnist stefna í góða lausn á þessu máli sem öðrum sem við höfum hingað til fjallað um í stjórnlagaráði, sbr. nýlegan pistil um mínar áherslur í þessu efni og annan eldri.

Greinilega ekki úrelt mál

Fréttir í dag og í gær um að norska ríkið hafi beint eða óbeint leitast við að ráða „menn innan íslenska ríkisins til erlendrar herþjónustu“ – sem virðist geta farið í bága við almenn hegningarlög – ýtir undir að slík stefnumarkandi ákvæði í stjórnarskrá séu síður en svo fráleit.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Þriðjudagur 14.6.2011 - 22:20 - FB ummæli ()

Vörn – og sókn – fræða og fjölmiðla

Þessa dagana er enn og aftur tekist á um mörk fræða og stjórnmála í fjölmiðlum – í Danmörku (sem víðar); þar dregur að þingkosningum – í haust – og stjórnmálamenn (í ríkisstjórnarliðinu) eru sakaðir um að hafa undanfarið ráðist harkalega að tjáningarfrelsi fræðimanna sem leyfa sér að gagnrýna stjórnarstefnu þeirra – sem fræðimenn – en oft með frjálslegu orðavali.

Við þekkjum þetta alltof vel, Íslendingar.

Bæði veit og held og skil?

Áður en ég held lengra vil ég bæta því við að besta lausnin sem ég hef heyrt er að fræðasamfélagið setji sér siðareglur um hvenær það tjái hvort fræðimenn

  • vita eitthvað,
  • halda sumt og
  • hvað þeim finnst um það.

Rétt hjá báðum

Að mínu mati er hvort tveggja rétt – árásir stjórnmálamanna eru staðreynd og órétmætar í þessu tilviki (og raunar flestum tilvikum) að mínum dómi. Orðaval fræðimanna í nýlegum tilvikum í Danmörku er hins vegar stundum frjálslegra en ég myndi velja í opinberu samhengi; aðrir segja að tjáningarformið sé frjálst og fjölmiðlar vilji óformlegt orðaval.

In dubio pro sciense

Hvað sem því líður vil ég að tjáningarfrelsi fræðimanna – og vitaskuld annarra – njóti vafans til að við spornum við því að fræðimenn taki upp svonefnda sjálfsritskoðun og forðumst samfélag sem einn fræðimaðurinn danski líkti í dag við Sovétríkin og Ítalíu undir Berlusconi.

Umbótahugmyndir stjórnlagaráðs

Þess vegna líst mér vel á stjórnlagaumbætur úr mannréttindanefnd (A) stjórnlagaráðs sem hljóða nú svo og eiga að tryggja frelsi til skoðana og tjáningar:

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

Hver maður á rétt á að tjá hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum til verndar öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Hér eru engar breytingar frá gildandi stjórnarskrá nema smávægilegar orðalagsbreytingar í 3. mgr.

Upplýsingafrelsi

Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

Stjórnsýsla skal vera gegnsæ, halda til haga fundargerðum sínum og gögnum, auk þess að skrásetja og skjalfesta öll erindi sem henni berast, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða.

Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera öllum tiltæk án undandráttar, nema brýnar og rökstuddar ástæður knýi á um leynd þeirra samkvæmt lögum, svo sem við á um sjúkraskýrslur.

Afhendingu gagna og birtingu þeirra má aðeins setja skorður með lögum, svo sem vegna friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.

Þetta ákvæði er algert nýmæli – að sænskri fyrirmynd; allar ábendingar eru vitaskuld vel þegnar sem endranær á: www.stjornlagarad.is

Frelsi fjölmiðla

Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum.

Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.

Þetta brýna ákvæði er einnig nýmæli – að gefnu tilefni.

Fræðafrelsi

Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða, lista og menntunar.

Þetta ákvæði er eitt uppáhaldið mitt – eins og fram er komið.

Andsvar

Hér er svo glænýtt andsvar eins ráðherranna dönsku sem sagðir eru andmæla fræðimönnum of harkalega og draga þar með úr tjáningarfrelsi þeirra.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Föstudagur 10.6.2011 - 21:10 - FB ummæli ()

Fimmskipting ríkisvaldsins

Furðu margir eru enn fastir í þeirri yfir 200 ára gömlu hugmynd Montesquieu að ríkisvaldið sé þríþætt:

  • löggjafarvald
  • dómsvald
  • framkvæmdarvald.

Tveir valdþættir mega ekki gleymast

Þetta er í sjálfu sér rétt – svo langt sem það nær; a.m.k. tveir valdþættir gleymast hins vegar – og þá á ég ekki við það sem stundum er kallað fjórða valdið – fjölmiðlana – því þeir eru að jafnaði ekki (og a.m.k. ekki í eðli sínu) ríkisvald (þó að við séum eins og fleiri með ríkisútvarp); ég er aðeins að ræða um ríkisvald eða opinbert vald – en t.d. ekki „auðvald“ heldur.

  • Annars vegar er  um að ræða svonefnt fjárstjórnarvald – sem felst í skattlagningarvaldi og fjárveitingarvaldi; þó að það sé víða falið löggjafarþingi og skattar séu oft ákveðnir með lögum þá eru svonefnd „fjárlög“ í eðli sínu ekki lög – í skilningnum réttarreglur – heldur fjárhagsáætlun; fyrir þessu færði ég ítarleg rök í nýjum kafla um fjárlög sem ég samdi fyrir um 15 árum í ritinu Stjórnskipunaréttur eftir prófessor Ólaf Jóhannesson í ritstjórn dr. Gunnars G. Schram prófessors og læriföður míns. Þetta vald hef ég raunar í stjórnlagaráði lagt til að skiptist milli Alþingis og sveitarstjórna.
  • Hins vegar er aðhaldshlutverk eða eftirlitsvaldið sem gjarnan er einnig falið löggjafarþingi – en gæti verið annars staðar og ætti e.t.v. að vera það að einhverju leyti samkvæmt hugmyndum sumra stjórnlagaráðsfulltrúa, m.a. í ljósi þeirrar styrkingar á þingræðinu sem tillögur okkar í valdþáttanefnd (B) gera ráð fyrir. Þetta eftirlitshlutverk er ekki löggjafarvald. Þessu valdi er ég hlynntur að sé skipt milli Alþingis og forseta sem óháðs aðila sem geti að sumu leyti betur en flokkspólitískt þing veitt framkvæmdarvaldinu aðhald.

Þessu má ekki gleyma – og að mínu mati væri réttast að telja alla þessa fimm valdþætti upp í stjórnarskránni en ekki aðeins hins sígildu þrjá valdþætti.

Dreifing eða temprun valds

Hvað sem því líður er mikilvægt að íhuga hvort valddreifingu eða valdtemprun verði ekki náð betur með því að löggjafarþingið hafi ekki alla þessa þrjá mikilvægu valdþætti á hendi:

  • löggjafarvald,
  • eftirlitsvald og
  • fjárstjórnarvald.

Svo er það önnur saga að málið snýst – eins og fyrirsögnin bendir til – um skiptingu valds en ekki aðeins aðgreiningu þó að tillögur okkar í stjórnlagaráði endurspegli það e.t.v. enn ekki nógu vel.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur