Mánudagur 9.5.2011 - 22:50 - FB ummæli ()

„Hvenær heldurðu að kosningar verði?“

Rétt í þessu svaraði ég netkönnun á dönskum netmiðli um hvenær ég héldi að þingkosningar yrðu í Danmörku.

Er ég svaraði kom í ljós að „liðin“ voru nokkuð jöfn – um 45% svöruðu „í vor“ og um 45% merktu við „í haust“ og svo voru um 10% sem ekki sögðust vita það (eins og við hin vitum það).

Efnisskilyrði eða geðþótti?

Dönsk stjórnskipun er nokkuð rúm með það að sitjandi forsætisráðherra getur rofið þing með atbeina drottningar (sem hefur ekkert stjórnskipulega um það að segja) þegar hann telur ástæðu til – áður en 4ra ára kjörtímabil þjóðþingsins er úti. Einhver efnisskilyrði eru talin gilda – en ég fjölyrði ekki um þau hér.

Í Bretlandi er gengið lengra því að (þótt ég sé ekki sérfróður um breskan stjórnskipunarrétt) þar er víst talið að forsætisráðherra geti beinlínis látið geðþótta (les: stundarhagsmuni eigin flokks) ráða úrslitum.

Vandmeðfarið vald

Hérlendis eru talin nokkur efnisskilyrði – sem ég get rakið ef áhugi er á – en eins og saga okkar sýnir (einkum 1931 og 1974) er þetta mikilvægt og vandmeðfarið vald; síðan voru gerðar réttarbætur 1991 um að þrátt fyrir þingrof héldu þingmenn umboði sínu til kjördags. Kjarnaspurningin nú er þó að mínu mati:

Hver á framvegis að geta rofið þing – ef einhver?

Enginn, þingið eða líka forsetinn?

Í Noregi er ekki hægt að rjúfa þing; þar verða þingmenn til 4ra ára að mynda ríkisstjórn hvað sem tautar og raular. Það gengur að mínu mati ekki að fenginni reynslu okkar Íslendinga – m.a. af ónefndum sveitarstjórnum (m.a. á mölinni). Ég tel ljóst að ágæt tillaga stjórnlaganefndar (sjá www.stjornlagarad.is) um að Alþingi geti ráðið þingrofi sé mikilvæg viðbót við réttarbætur frá 1991 í þessu efni.

Á annar að geta rofið Alþingi?

Spurningin – sem brennur á okkur í viðeigandi nefnd stjórnlagaráðs – er hvort fleiri en Alþingi eigi að geta ákveðið þingrof; margir eru fullir efasemda vegna „polariseringar“ og prinsipp-atriða. Ég skil þau rök.

Sjálfur hallast ég að því að forseti – verði hann enn við lýði – eigi við sérstakar skilgreindar aðstæður að vera bær til þess að rjúfa óstarfhæft Alþingi og boða til kosninga.

Hvað finnst þér? Láttu skoðun þína endilega í ljós.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Föstudagur 6.5.2011 - 23:55 - FB ummæli ()

Lex rex

Þessi danska frétt vakti áhuga minn í vikunni – þó að ég hafi ekki fylgst með aðdragandanum. Málavextir virðast í fljótu bragði vera að dönsk þingkona, sem nýverið ákvað að hætta á þjóðþinginu við kosningar í vor, tekur með sér feitan biðlaunapakka – heils árs laun án vinnuskyldu – um leið og hún tók við vel launuðu starfi í einkageiranum!

Til stóð að afnema tvöföld laun…

Hvað sem fólki finnst um biðlaun eru reglurnar hérlendis – a.m.k. að því er varðar ríkisstarfsmenn – að þau lækka eða falla niður ef biðlaunaþegi tekur við jafn vel eða hærra launuðu starfi á biðlaunatíma. Álitaefnið i Danmörku var hvort svo ætti að vera – þ.e. hvort reglunum ætti að breyta eins og hér fyrir 15 árum þannig að biðlaunaþegi úr opinberri þjónustu væri ekki á tvöföldum launum. Það stóð greinilega til hjá Dönum – eftir mikinn þrýsing í málinu; væntanleg lög voru kennd við þingkonuna:

Lex Malou.

… en hætt var við

En svo var skyndilega hætt við – og danskir fjölmiðlar segja vitaskuld frá því:

Reglerne, for hvor mange penge politikere, der stopper i Folketinget kan få med sig, bliver alligevel ikke ændret.

Skýringin er sögð gamall samningur milli stjórnmálaflokka; hvað sem líður réttmæti (góðra) kjara þingmanna sýnir dæmið að mínu mati nauðsyn og réttlætingu stjórnlagaþings – helst bindandi eins og ég lagði fyrst til í árslok 2008 – eða til vara ráðgefandi, nú stjórnlagaráðs.

Enginn er dómari í eigin sök

Þó að ég geri ekki ráð fyrir að við í stjórnlagaráði förum að setja efnisreglur eða jafnvel formreglur um kjör þingmanna er ein aðalástæða þess að sjálfstæður aðili þarf að leggja til eða eiga frumkvæði að stjórnlagaumbótum að mínu mati sú að þingmönnum er ekki – frekar en öðrum – treystandi til þess að ákveða eigið hlutverk, starfsumgjörð, kjör og valdskiptingu milli sín og annarra.

Einveldið afnumið

Þingmenn mega eins og aðrir gjarnan hafa skoðun á ráðningarsamning sinn og jafnvel áhrif á erindisbréf sitt frá almenningi – en fáir hafa sjálfdæmi um það. Sú var tíðin að einvaldskonungur var einmitt það, einvaldur – einnig um eigin stöðu; það er liðin tíð – þó að kóngunum hafi fjölgað síðan.

Þess vegna þurfum við ekki bara sjálfstæðan, bindandi stjórnlagadómstól – heldur líka regluleg, þjóðkjörin stjórnlagaþing.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

Fimmtudagur 5.5.2011 - 23:53 - FB ummæli ()

Stjórnlagadómstóll

Allt síðdegið í dag voru nokkuð efnismiklar umræður í stjórnlagaráði – um tillögur úr nefnd um tilhögun dómsvalds ásamt fleiru – svo að fresta varð til morguns (kl. 9:30) kynningu og umræðu um fyrstu tillögur um breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Auk umræðu um skipan óháðra dómstóla sem tryggi auk þess fjölbreytileika og sjálfstæði dómara var rætt um ráðgefandi álitsgjafa, Lögréttu, sem fjalla skyldi um hvort frumvarp, fyrir eða eftir samþykki þess á Alþingi, stæðist stjórnarskrá.

Góð tillaga…

Slík stofnun væri að mínu mati mikil réttarbót og framför eins og dæmin sanna. Í umræðum í stjórnlagaráði í dag um tillögu nefndarinnar fagnaði ég hugmyndinni og lét þess getið að í landi með ríkari réttar- og lýðræðishefð og betri valddreifingu kynni slík lausn að duga. Sagðist ég telja nafnið Lögrétta og það hverjir gætu borið álitamál undir hana góðar tillögur.

… en þarf að vera bindandi…

Stærsta álitaefnið er hins vegar að mínu mati hvort nægilegt er að slík stofnun sé ráðgefandi og gefi álit; ég tel að hún eigi að senda frá sér bindandi niðurstöður, þ.e. dæma í málum.

Eins og rætt var í stjórnlagaráði í dag þarf þá að finna leið til að takmarka kostnað, hindra ósamræmi milli Lögréttu og Hæstaréttar og fyrirbyggja réttarspjöll sem gætu falist í því að hagsmunaaðili gæti ekki gætt réttar síns í máli sem yrði þó dæmt með bindandi hætti í Lögréttu. Ég tel mig hafa fundið hugsanlega lausn á þessu eins og ég skrifaði um hér í október; þar sagði:

Ég held að hæpið verði að telja samkvæmt öllu framangreindu að þörf sé á sérstökum stjórnlagadómstól – eða jafnvel skynsamlegt að stofna slíkan dómstól […] –

Ég hefði því talið að réttast væri að bæta við – helst í stjórnarskrá – heimild til þess að skjóta slíkum og sambærilegum, e.t.v. tilteknum, málum beint til annað hvort

  • Hæstaréttar, t.d. fullskipaðs (9 dómarar), eða
  • sérstaks afbrigðis af útvíkkuðum Hæstarétti að viðbættum einhverjum sérfræðingum á sviði stjórnlagafræði (svipað og Landsdómur er samsettur af hæstaréttardómurum, dómsforseta, prófessor og þingkjörnum “sérhæfðum” dómurum).

… og aukið hlutverk

Þó vildi ég bæta við álitaefnum sem slík stofnun fjallar um, svo sem um hvort athafnir handhafa framkvæmdarvalds standast stjórnarskrá og hvort Alþingi er réttkjörið – eins og Þorvaldur Gylfason ráðsfulltrúi hefur á síðustu tveimur ráðsfundum bent á að fram komi í grein um málið eftir prófessor Eirík Tómasson, nú nýskipaðan hæstaréttardómara. Við það mætti e.t.v. bæta hlutverki Landsdóms – að dæma um ráðherraábyrgð – sem er, sem sagt, skipaður á svipaðan hátt og ég legg til.

Formleg tillaga á morgun

Eins og ég boðaði munnlega í stjórnlagaráði í dag mun ég leitast við að leggja fram á framhaldsráðsfundi á morgun skriflega tillögu um skipan Hæstaréttar er hann gegnir hlutverki stjórnlagadómstóls.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Miðvikudagur 4.5.2011 - 23:58 - FB ummæli ()

Mannréttindakaflinn

Á morgun, fimmtudag, er mikilvægur fundur í stjórnlagaráði – kl. 13 að vanda; eins og aðrir ráðsfundir er hann opinn og sendur út beint og upptakan aðgengileg á vefnum. Þar verða afgreiddar í áfangaskjal fyrstu tillögur nefndar sem fjallar m.a um dómstólaskipan – en á því hef ég mikinn áhuga eins og hér má hlýða á og m.a.lesa um hér, sbr. einnig færslu mína í gær um nýskipan 25% Hæstaréttar.

Ný upphafsgrein í stjórnarskrá um sameiginleg gildi

Þá verða á morgun afgreiddar fyrstu tillögur nefndar um mannréttindi – annars vegar um inntak nýs upphafsákvæðis í 1. gr. stjórnarskrárinnar um sameiginleg gildi til grundvallar stjórnskipun landsins og hins vegar um að mannréttindakaflinn færist fremst í stjórnarskrána eins og margir telja eðlilegt.

Fleiri atriði í jafnræðisregluna

Einnig verða þar kynntar fyrstu tillögur nefndarinnar um efnislegar breytingar á öðrum ákvæðum í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar – svo sem fleiri atriði í jafnræðisregluna sem bannar mismunun á grundvelli tiltekinna ástæðna. Mér virðist t.d. töluverð sátt í stjórnlagaráði um að bæta við orðunum fötlun og kynhneigð – sem dæmi um atriði sem ekki mega leiða til mismununar. Sömuleiðis eru þar fjölmargar tillögur – bæði meiriháttar en fleiri líklega minniháttar – um úrbætur á þessum kafla sem raunar er sá sem margir telja síst ástæðu til þess að hrófla mikið við í ljósi þess að hann var endurskoðaður vel 1995.

Áhugi og áhrif almennings

Spennandi verður að sjá viðbrögð við áfangaskjalinu – eins og fróðlegt er að fylgjast með umræðum á vef ráðsins um innsend erindi. Ég verð var við mikinn og vaxandi áhuga almennings á störfum stjórnlagaráðs og hvet alla áhugasama til þess að fylgjast með og hafa áhrif.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Þriðjudagur 3.5.2011 - 21:40 - Lokað fyrir ummæli

25% Hæstaréttar skipaður

Samkvæmt fréttum síðdegis í dag hefur forseti Íslands fallist á tillögu innanríkisráðherra um skipan 3ja nýrra hæstaréttardómara – daginn eftir að mat dómnefndar var birt á vef innanríkisráðuneytisins. Þvert á það, sem sumir gætu lesið út úr fréttum, er skipun dómaranna – eins og vera ber – ótímabundin.

Ekki skal hins vegar skipa nýja dómara í Hæstarétti fyrr en tala þeirra nær aftur reglulegri tölu, 9, lögum samkvæmt. Tímabundið verða hæstaréttardómarar því 12 vegna anna í kjölfar hrunsins.

Fátíð fjölgun dómara í æðsta dómstóli

Að því er ég best veit er þetta í fyrsta skipti (væntanlega frá því að Hæstiréttur tók til starfa 1920, án þess að ég hafi kannað það) að fleiri en einn og fleiri en tveir dómarar í Hæstarétti eru skipaðir samtímis; þar er mikið vald falið núverandi valdhöfum enda sitja dómarar lengi – til sjötugs ef þeir vilja. Löngum voru hæstaréttardómarar reyndar aðeins fimm, að ég hygg. Hafa ber í huga að sagan sýnir að hætta er á að handhafar annarra valdþátta (löggjafar- og framkvæmdarvalds) misbeiti skipunarvaldi sínu til þess að raska valdahlutföllum í æðsta dómstóli ríkis og hafa áhrif á beitingu dómsvalds.

Þetta fyrirkomulag er raunar aðeins tímabundið og ákveðið í þetta eina skipti og gefur vissulega færi á að huga betur en endranær að fjölbreytilegum bakgrunni dómaranna – eins og ég tel afar brýnt og vil jafnvel tryggja í stjórnarskrá.

Mikil og langvarandi völd falin núverandi valdhöfum

Á hinn bóginn eru þeir þrír dómarar, sem matsnefndin taldi hæfasta (2 dómaraefni) og innanríkisráðherra valdi meðal hinna (1 dómaraefni), sem sagt, skipaðir ótímabundið; þeir eru fæddir 1950, 1052 og 1954; að meðaltali eru þeir sem sagt 59 ára á skipunarárinu og sitja því að líkindum að meðaltali hið skemmsta í um 6 (samtals 18) ár enda hefur sú óheppilega venja skapast – sem ég tel raunar spillta – að hæstaréttardómarar nýta sér afsagnarheimild í öryggisskyni til þess að halda kjörum sínum án vinnuskyldu og hætta á fullum launum 65 ára og halda þeim (en undarlegt væri að þau héldust lengur en til sjötugs, sem er almennur lífeyris- eða starfslokaaldur hjá ríkisstarfsmönnum).

Að hámarki sitja þessir þrír dómarar til sjötugs eða að meðaltali í 11 (samtals 33) ár. Með þessu vil ég ekki efast um val dómnefndar, ákvörðun innanríkisráðherra eða atbeina forseta – enda hef ég mikið traust á þeim og álit á þeim hæstaréttardómurum sem skipaðir voru. Ég vil þó árétta að löggjafinn hefur falið fáum einstaklingum (og þar af aðeins einni konu) að velja 3 til viðbótar 9 sitjandi hæstaréttardómurum sem tímabundið munu vera 25% Hæstaréttar – og þriðjungur, 33%, Hæstaréttar þegar nægilega margir hæstaréttardómarar hafa látið af störfum sökum aldurs.

Stjórnlagaumbætur að gefnu tilefni

Þessi skipun 3ja hæstaréttardómara í eitt skipti og ekki síður sú tímabundna skipan sem nýverið var ákveðin af Alþingi og ekki síst tilefni þessara breytinga – þ.e. hrunið, ofgnótt dómsmála í kjölfarið og umdeild og gagnrýniverð skipan hæstaréttardómara síðustu 90 ár – gefur tilefni til að huga vel að skipan handhafa dómsvalds í stjórnarskrá.

Þetta er einmitt það verkefni stjórnlagaráðs sem lengst er komið í drögum að tillögum hlutaðeigandi nefnda eins og fylgjast mátti með á 6. ráðsfundi sl. fimmtudag og hugsanlega verður afgreidd inn í áfangaskjal næsta fimmtudag.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

Mánudagur 2.5.2011 - 23:13 - Lokað fyrir ummæli

Stjórnskipulegur neyðarréttur

Spennandi umræður eru að skapast um erindi til stjórnlagaráðs á vef þess fyrir opnum tjöldum.

Eftir hádegi á fimmtudögum eru svo reglulegir fundir sem fylgjast má með  á vefnum – og næsta fimmtudag má búast við að fyrstu tillögurnar verði samþyktar inn í áfangaskjal sem smám saman mun spinnast við.

Fram að því eru sjónarmið og tillögur vitaskuld á ábyrgð fulltrúanna sjálfr; hér má t.a.m. lesa lífleg andmæli Pawels Bartoszek um róttæka hugmynd Andrésar Magnússonar á ráðsfundi um afturvirka eignaupptöku gagnvart hrunkvöðlum! Raunar er unnt að mati okkar vildarréttarsinna að setja í stjórnarskrá ákvæði á borð við það sem Andrés lagði til – en ekki er þar með sagt að það sé skynsamlegt eða að um það sé samstaða í stjórnlagaráði eða meðal þjóðarinnar.

Stjórnskipulegur neyðarréttur fyrr og nú

Í þessu sambandi má minna á að til er fyrirbæri sem heitir stjórnskipulegur neyðarréttur. Á hann hefur reynt bæði fyrr og síðar hér á landi – t.d. 10. apríl 1940 þegar Alþingi fól ríkisstjórninni að fara með konungsvald í ljósi þess að daginn áður hafði samband við danska konunginn rofnað með því að Þjóðverjar höfðu ráðist inn í Danmörku daginn áður og hernumið hana. Konungsvald varð aldrei aftur virkt á Íslandi.

Í athyglisverðum dómi fjölskipaðs héraðsdóms í síðustu viku var stjórnskipulegum neyðarrétti borið við af hálfu þeirra, sem vildu að staðfest yrði gildi svonefndra neyðarlaga um afturvirka breytingu á kröfuröð réttarfarslaga í þágu forgangs innistæðueigenda. Ríkið átti raunar ekki aðild að því máli en stjórnskipulegt gildi laganna var staðfest með þeim röksemdum að þau brytu ekki í bága við eignarréttar- eða jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar. Reyndi því ekki á óskráða reglu um stjórnskipulegan neyðarrétt – eða eins og sagði í dóminum:

Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða dómsins að ákvæði laga um forgang innstæðna, sbr. nú 3. mgr. 102 gr. laga nr. 161/2002, brjóti hvorki gegn ákvæðum 72. gr. eða 65. gr. stjórnarskrárinnar né mannréttindasáttmála Evrópu eða samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Að þeirri niðurstöðu fenginni er ekki ástæða til að fjalla um málsástæður sóknaraðila sem lúta að stjórnskipulegum neyðarrétti.

Ég er raunar hallur undir að málsástæða um stjórnskipulegan neyðarrétt sé nærtæk röksemd í því máli en spennandi verður að sjá hvort Hæstiréttur staðfestir niðurstöðuna – eins og ég tel líklegt – og með hvaða röksemdum.

Er þörf á sérstökum stjórnarskrárákvæðum um neyðarrétt?

Við í stjórnlagaráði þurfum hins vegar að íhuga hvort ástæða sé til þess að setja í stjórnarskrá sérstakt ákvæði um stjórnskipulegan neyðarrétt eða hvort búa á áfram við óskráðar – og að mörgu leyti óljósar – reglur um það efni; í ljósi þess að þess virðist ekki hafa verið þörf hingað til og að hætta er á misnotkun skráðra ákvæða um stjórnskipulegan neyðarrétt hallast ég að hinu síðarnefnda.

Ég tel hins vegar brýna þörf á að Hæstiréttur fái nýtt og aukið hlutverk sem stjórnlagadómstóll og þannig sé aðhald að handhöfum ríkisvalds virkara og skjótari úrlausn á stjórnskipulegum álitamálum möguleg.

Á vef ráðsins, www.stjornlagarad.is, er unnt að fylgjast með útsendingum frá fundum og horfa á upptökur – auk fleiri möguleika til áhrifa.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Föstudagur 29.4.2011 - 23:33 - Lokað fyrir ummæli

Stjórnarskrárbreytingar ekki einkamál

Í kvöld þáði ég ásamt fleiri fulltrúum í stjórnlagaráði heimboð Samtaka hernaðarandstæðinga þar sem færi gafst á að ræða í góðu tómi yfir afbragðsmálsverði málefni sem samtökunum finnast skipta máli í sambandi við stjórnlagaumbætur. Um þau mál ritaði ég raunar sérstakan pistil í aðdraganda þjóðkjörs til stjórnlagaþings.

Samráð mikilvægt – bæði við hugsjónasamtök og hagsmunaaðila

Þetta var fyrsti fundurinn af þessu tagi – en vonandi ekki sá síðasti; ég hef sérstaklega gert að umtalsefni – bæði innan stjórnlagaráðs og utan – að þegar stjórnarskrá er breytt er enn ríkari ástæða en endranær að gæta jafnræðis og veita öllum hugsjónasamtökum færi á að hafa áhrif á umbótastarfið og sömuleiðis þarf að mínu mati að gæta andmælaréttar hagsmunaaðila.

Hvet ég því alla sem áhuga hafa og hagsmuni að hafa samband við stjórnlagaráð eða fulltrúa þar til að ræða málin.

Fyrir opnum tjöldum

Raunar brá mér að heyra að færri vita en ég hugði að starfið fer að mestu fram fyrir opnum tjöldum. Vil ég því árétta að á vefnum www.stjornlagarad.is er unnt að fylgjast með útsendingum frá fundum og horfa á upptökur – auk fleiri möguleika til áhrifa. Í gær var t.d. á ráðsfundi fjallað um gildi sem setja mætti inn í upphafsgrein stjórnarskrárinnar og var vel viðeigandi að minna á fundi með hernaðarandstæðingum í kvöld að eitt þeirra er:

friður

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Fimmtudagur 28.4.2011 - 22:59 - Lokað fyrir ummæli

Jómfrúarræðan – róttækar umbótahugmyndir til valddreifingar

Í dag hélt ég eiginlega jómfrúarræðu mína í stjórnlagaráði.

Róttækar umbótahugmyndir

Ég hef að vísu áður tekið til máls úr sæti mínu um formsatriði og skipulag starfsins en í dag fékk ég ásamt tveimur öðrum Akureyringum tækifæri til þess að halda stefnuræðu í stjórnlagaráði. Fyrir þá sem fylgst hafa með skrifum mínum var þar fátt um nýmæli – en gagnvart öðrum birtust væntanlega nokkuð róttækar umbótahugmyndir.

Í anda ráðsfundarins og stjórnlagaumbóta ætla ég að reyna að hafa þennan útdrátt á mannamáli; þó að mér sé tamt að tala og skrifa lagamál hef ég um 20 ára reynslu af að skrifa um lögfræðileg málefni fyrir almenning. Þeir sem vilja hlýða á ræðuna sjálfa – og spennandi umræður um efnisatriði í stjórnlagaráði í dag – geta hlustað hér.

Stjórnlagadómstóll – tengdur Hæstarétti

Fyrst vék ég að því að nauðsyn væri á stjórnlagadómstóli – og rökstuddi að hann ætti að vera tengdur Hæstarétti; í raun er um að ræða útvíkkaðan Hæstarétt – svipað og Landsdómur í því skyni að úrlausn um stjórnarskrána sé ekki einungis á valdi löglærða embættisdómara.

Rökstuddi ég þessa skipan miðað við fimm markmið um aðhald gagnvart valdhöfum, tímanlega og skjóta úrlausn álitaefna, samræmi í stjórnarskrártúlkun og takmarkaðan kostnaðarauka. Um rökin fyrir þessu og skipan Hæstaréttar sem stjórnlagadómstóls má lesa hér.

Í kjölfarið nefndi ég sex dæmi af handahófi um þörf á stjórnlagadómstóli.

Jafnræði milli atvinnurekenda og annarra

Í öðru lagi vék ég stuttlega að röksemdum fyrir því að þörf væri á að kveða í stjórnarskrá á um að ekki skyldi fyrst og fremst haft samráð við atvinnurekendur – heldur jafnt við launafólk og neytendur – þegar handhafar opinbers valds undirbúa, setja og framkvæma reglur; byggi ég þessa tillögu – sem ég á eftir að útfæra nánar – á um 13 ára reynslu minni af hagsmunagæslu í þágu þessara hópa. Nánar má lesa um þessa hugmynd hér.

Jafnræði milli héraða og miðstjórnarvalds í Reykjavík

Síðast en ekki síst rökstuddi ég að nú væri komið nóg af tyllidagatali um mikilvægi nærþjónustu og að stjórnarskrárákvæði um sjálfstjórn sveitarfélaga væri innantómt að óbreyttu. Sterkari staða stórra sveitarfélaga væri að mínu mati réttlætis- og jafnræðismál – og forsenda þess að sátt yrði um jafnan kosningarétt sem lengi hefði verið eina tækið til að sækja til baka til héraða hluta af því (auð)valdi sem færi til Reykjavíkur.

Lagði ég til að hluti af valdi Alþingis til að leggja á skatt og ákveða fjárveitingar – saman nefnt fjárstjórnarvald – yrði flutt til sveitarfélaga, svo fremi að þau yrðu stór eða sterk þannig að þau hefðu burði til þess að bera þann rétt og þær skyldur sem því fylgdu. Vitnaði ég til Hagtíðinda og sagði að nú væri skiptingin um 30/70 en væri víða í Skandinavíu hin sama – en með öfugum formerkjum, þ.e.a.s. að ríkið sér þar um að ráðstafa 30% af samneyslunni og sveitarfélögin 70%.

Að lokum sagði ég eftirspurn eftir raunverulegri valddreifingu og að hér væri ein leið til þess.

***

Hér má hlýða á um 10 mínútna ræðu mína (á 160. mínútu í lok 6. ráðsfundar) um þessi atriði.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

Miðvikudagur 27.4.2011 - 17:30 - Lokað fyrir ummæli

Forsetaræði eða þingræði

Nefndir stjórnlagaráðs eru komnar á fullt; þær eru þrjár og mætti miðað við megin viðfangsefni þeirra e.t.v. nefna þær  mannréttindanefnd (A), valdþáttanefnd (B) og lýðræðisnefnd (C).

 

Verkefni „valdþáttanefndar“

Ég sit í nefnd B ásamt sjö öðrum ráðsfulltrúum en hún hefur þessi viðfangsefni:

Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar, hlutverk og staða forseta Íslands, hlutverk og störf Alþingis, ríkisstjórn, störf forseta og ráðherra og verkefni framkvæmdarvaldsins, staða sveitarfélaga.

 

Undir „hlutverk og störf Alþingis“  og tengt stöðu sveitarfélaga að mínu mati heyrir m.a. svonefnt fjárstjórnarvald – þ.e. valdið til þess að skattleggja og ákveða fjárveitingar – eins og ég geri nánar grein fyrir í stefnuræðu minni á morgun.

 

Þróun eða bylting!

Í þessari nefnd verður eitt fyrsta verkefnið væntanlega að ákveða í megindráttum hvort lagt verður til svipað stjórnarfyrirkomulag og við höfum búið við – með úrbótum – eða gjörbreyting. Lengi hallaðist ég að því sem nefna má forsetaræði – þ.e. að forseti sé líkt og í Bandaríkjum Norður-Ameríku, Frakklandi og víðar kjörinn sem aðalhandhafi framkvæmdarvalds sem velur sína ráðherra án atbeina þjóðþingsins.

 

Hin síðari ár hef ég fremur hallast að því að við Íslendingar höldum okkur við þingræði – þ.e.a.s. að ríkisstjórn sé óbeint valin af þjóðþinginu þar sem hún þarf að njóta stuðnings eða a.m.k. hlutleysis Alþingis enda þótt forsætisráðherra sé formlega tilnefndur af forseta og allir ráðherrar skipaðir af forseta. Er þetta í samræmi við þá afstöðu mína að betra sé að þróa stjórnarskrá og aðrar þjóðfélagsbreytingar smám saman með hliðsjón af orðnum atburðum og fyrirliggjandi vandamálum í stað skyndilegra umbyltinga.

 

Miklar umbætur forsenda

Forsenda þessarar afstöðu minnar – bæði almennt og vals míns á þingræðinu – er þó að fram nái að ganga miklar breytingar á núverandi grunnstoðum þannig að þeir gallar, sem taldir eru á kerfinu og hafa jafnvel sýnt sig með áþreifanlegum hætti, séu sniðnir af.

 

Gildi til grundvallar

Áður en valið er á milli fyrirliggjandi valkosta – svo sem forsetaræðis eða lagfærðs þingræðis – þarf þó að sammælast um markmiðin sem ætlunin er að ná fram með væntanlegum breytingum; í valdþáttanefndinni í gær ræddi ég ásamt fleirum um þrjú atriði sem breytt kerfi þarf að stuðla betur að:

  • Aukin valddreifing.
  • Ríkari ábyrgð valdhafa.
  • Meiri lýðræðisleg stefnumótun.

Því gladdi það mig mikið er ég sá nú síðdegis að önnur nefnd, A, leggur fram til kynningar á ráðsfundi á morgun tillögu um að í 1. gr. nýrrar stjórnarskrár verði lýst þeim gildum sem lýðveldið Ísland grundvallast á – og þar eru þessi þrjú atriði meðal sex atriða sem gert er ráð fyrir. Góður samhljómur virðist því þegar um mörg grundvallaratriði í stjórnlagaráði.

 

Fundur stjórnlagaráðs á morgun er sem endranær sendur út beint á vef ráðsins og er auk þess opinn almenningi. Hvet ég alla áhugasama til þess að fylgjast með fundunum og störfum stjórnlagaráðs eftir föngum.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , ,

Þriðjudagur 26.4.2011 - 18:29 - Lokað fyrir ummæli

Hvar eru íslenskir fjölmiðlar?

Eins og ég vék að í fyrri viku var eitt fyrsta verk mitt sem ráðsmanns að svara ítölskum blaðamanni nokkrum spurningum um stjórnlagaráð og aðdraganda þess – m.a. um atburði í kjölfarið hrunsins. Nú er ég svo nýkominn úr löngu viðtali við tvo franska blaðamenn.

 

Lærum af öðrum

Ég lærði ekki síður af þeim og þeirra reynslu og spurningum – m.a. um sambærilegt ferli í öðrum ríkjum, svo sem Túnis þar sem harðstjóra var nýverið velt úr sessi. Túnisbúar munu hefja stjórnlagaumbætur með kjöri til stjórnlagaþings í júlí. Minnir þetta á þörfina á að veita upplýsingar á ensku um stjórnlagaumbótaferlið hérlendis – svo og að læra af reynslu annarra þjóða af sambærilegu starfi sem Frakkarnir höfðu haft mikið af að segja.

 

Virkir fjölmiðlar forsenda lýðræðis

Mér brá við að heyra upplifun þeirra af því að erfitt virðist að fá upplýsingar um yfirstandandi ferli til stjórnarskrárbreytinga – og afstöðu almennings til stjórnlagaráðs – hvað þá á ensku; bentu þeir réttilega á að upplýsingafrelsi og virk fjölmiðlun væri forsenda lýðræðis. Tómt mál er að tala um þjóðaratkvæði og fleiri tegundir beins lýðræðis og aðhald að stjórnvöldum ef fjömiðlar sofa á vaktinni.

 

Viðurkenndi ég að áhugi erlendra fjölmiðla virtist meiri en íslenskra nú þegar starf stjórnlagaráðs væri að hefjast – a.m.k. ef dæma má af minni reynslu en ég hef, sem sagt, aðeins fengið beiðni um viðtöl frá útlendum fjölmiðlum. Ég hef áður gagnrýnt þögn ríkisfjölmiðilsins í aðdraganda stjórnlagaþingskjörs. Vonandi eykst áhugi fjölmiðla og almennings þegar starf stjórnlagaráðs fer á fullt nú eftir páskana.

 

Vert er hins vegar að íhuga hvort ekki sé brýn þörf á að auka við tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar að erlendri fyrirmynd og hafa þar jákvæð ákvæði um upplýsingafrelsi og virka fjölmiðlun.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur