Þriðjudagur 9.3.2010 - 22:05 - FB ummæli ()

Bönnum Hells Angels – áður en skaðinn er skeður

Gamalt máltæki kveður á um að byrgja skuli brunninn áður en barnið er dottið ofan í. Síðdegis í dag birtist frétt um að Dönum þætti ekki fært út frá sinni stjórnskipan að banna starfsemi félagasamtakanna Hells Angels. Ég óttast að lögfræðingar hérlendis dragi sömu ályktun um íslensk lög og aðstæður að því er varðar íslenskt samfélag; ég er m.ö.o. hræddur um að það gleymist að þótt lögin séu lík – þá eru aðstæður ólíkar.

Skýrslan að baki er þó ekki auðfundin á netinu.

 

Stjórnarskráin hér eins og þar heimilar bann

Lögfræðingar eiga að læra í lagaskólum að tengja lagareglur  (jus) við atvik (faktum). Það meginatriði gleymist oft. Hérlendis – eins og reyndar í skandinavísku ríkjunum, þaðan sem Hells Angels reynir að ná fótfestu hér – gildir eftirfarandi stjórnarskrárákvæði, lítt breytt í yfir 135 ár (áhersla GT):

Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

Ég tel að hlutaðeigandi ráðherra eigi þegar að undirbúa slíkt bráðabirgðabann samhliða því að undirbúa málsókn til staðfestingar því banni með dómi. Rök mín – í stuttu máli – er að finna hér að neðan.

 

Lögin lík – aðstæður ekki

Dönsk stjórnskipan er vissulega ekki aðeins lík okkar eigin – heldur er danska stjórnarskráin frá 1848-9 beinlínis fyrirmynd okkar stjórnarskrár sem sameiginlegur konungur okkar og Dana færði okkur einhliða 1874; síðan hefur hún lítið breyst.

Í fyrsta lagi er ekki víst að þessi niðurstaða stjórnskipaðra nefnda sé rétt (jus); á það reynir ekki nema fyrir dómi. Ég tel það skyldu íslenskra stjórnvalda að láta reyna á heimildir í þessu efni; annars gerist það ekki – nema hjá fjölmiðlum, í fræðibókum og svo á fjölskyldum.

Í öðru lagi er þetta ólíkt að því er varðar staðreyndir (faktum) – og rétt að hafa í huga – að hér hafa samtökin Hells Angels sem betur fer enn ekki fest rætur. Í Danmörku hafa þessi samtök fest rætur sem glæpasamtök undir yfirskyni annarrar og e.t.v. að hluta til lögmætrar starfsemi. Oft má þó sjá af erlendum miðlum að meginstarfsemi slíkra samtaka er eitthvað sem við viljum – og getum – spornað við, t.d. mansal.

Þá verður að hafa í huga að hægt er að banna félög samkvæmt stjórnarskrá en ekki hópamyndun eftir þjóðerni eða öðrum atriðum sem njóta ríkrar stjórnarskrárverndar. Í gær féll hérlendis héraðsdómur í mansalsmáli sem var tengt einum þjóðernishópi frekar en öðrum.

 

Aðal- og aukatilgangur

Eitt af ákvæðunum sem í stjórnarskrá, áðurgreint, lítið breytt vissulega, kveður á um nær algert félagafrelsi en bann við félögum með ólöglegan tilgang. Þegar metið er hvort félag hefur ólöglegan tilgang (í skilningi 150 ára gamallar stjórnarskrárhefðar) hljóta að koma til álita

  • málamyndaröksemdir,
  • sniðgöngusjónarmið og a.m.k. aldarlöng reynsla af því að meta hvað sé
  • aðaltilgangur og aukaatriði í starfsemi félaga.

 

Frelsi án ábyrgðar?

Ofangreind stjórnarskrárregla er mótvægi við nánast algert frelsi til stofnunar félaga. Hugsun stjórnarskrárgjafans – eða Founding Fathers eins og Ameríkanar orða það – er að félög eru nánast alltaf til góðs; þau efla

  • almannahag (t.d. Rauði Krossinn),
  • vinna að hugsjónum (t.d. Feministafélagið),
  • verja hagsmuni (t.d. stéttarfélög),
  • stjórna þjóðfélaginu (t.d. stjórnmálaflokkar) eða
  • koma frumkvæði í framkvæmd (t.d. hlutafélög, m.ö.o. fyrirtæki).

 

Bönnum samtökin áður en það er of seint

Ég hef hallast frekar „til vinstri“ í mannréttinda- og félagmálum en hér eru skýr lagarök og staðreyndir til grundvallar því að fyrirbyggja frekari skaða af glæpastarfsemi á sviði mansals og fíkniefnasölu og banna starfsemi samtaka sem sannarlega hafa slíkt að meginmarkmiði. Skoðum niðurstöðu væntanlegs dóms Hæstaréttar um brottvísun þekkts leiðtoga samtakanna í leit að vísbendingum um hvort og hvernig megi takmarka starfsemi og tilvist Hells Angels hérlendis – áður en skaðinn er skeður.

***

Af fyrstu viðbrögðum að dæma eru hlutaðeigandi stjórnmálaleiðtogar sammála.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.3.2010 - 21:58 - FB ummæli ()

Stríð gegn stúlkubörnum

Á þessum viðurkennda alþjóðabaráttudegi fyrir réttindum kvenna er umfjöllunarefni þessarar greinar í The Economist áhyggjuefni – jafnt fyrir konur og aðra sem bera hag þeirra fyrir brjósti.

 

Yfir 20% fleiri drengir en stúlkur

Eigum við aðeins að huga að þeim konum sem lifa – eða einnig að hugsa um ófædd stúlkubörn og samfélagið allt? Sem dæmi úr greininni má nefna að meira en 20% fleiri drengir fæðast en stúlkubörn í Kína og norðurhluta Indlands. Fyrir þá sem telja – eins og Bill Clinton – að fóstureyðing eigi að vera

örugg, lögleg og sjaldgæf

hlýtur efni greinarinnar í Economist að teljast sérstakt áhyggjuefni. Ástæður þess að færri stúlkubörn fæðast eða komast af eru að vísu skýrðar í greininni – en afleiðingin er óásættanleg, ekki sjálfbær til lengdar og skapar ýmis þjóðfélagsvandamál sem þar eru rakin í stuttu og skýru máli.

 

Aldagömul óvenja og nútíma óskir og hátækni

Í stuttu máli eru orsakirnar þrjár:

In fact the destruction of baby girls is a product of three forces: the ancient preference for sons; a modern desire for smaller families; and ultrasound scanning and other technologies that identify the sex of a fetus.

Það sem mér finnst merkilegra er að nútíma feminismi virðist skýringin á því að einu Asíuríki – Suður-Kóreu – hefur ómeðvitað tekist að leiðrétta þetta kynjamisvægi. Sem tveggja dætra faðir og feministi hvet ég ykkur til þess að lesa þessa grein í heild.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.3.2010 - 23:35 - FB ummæli ()

„Your country needs you“

Finnst þér allt í lagi hvernig íslenskt samfélag er og hefur verið – eða vilt þú breyta einhverju?

Eftir hálfan annan sólahring göngum við, íslenska þjóðin, til atkvæðagreiðslu – fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í fullvalda og sjálfstæðu ríki, í heilan mannsaldur. Um leið og ég hvet alla atkvæðisbæra borgara til þess að mæta og greiða atkvæði – með, á móti eða sitja hjá – vil ég rifja upp hvernig unnt er að taka þátt í að breyta samfélaginu og bæta það. Þannig vil ég auka líkur á því að íslenskir borgarar taki þátt í að breyta þjóðfélaginu til batnaðar.

 

Frumkvæði eða viðbrögð

Skipta má áhrifum (eða valdi) í tvær tegundir eftir því hvort um er að ræða

  • frumkvæði /jákvætt vald) eða
  • viðbrögð (neikvætt vald).

Sem dæmi má nefna hefur forseti Íslands einkum formlegt vald til þess að bregðast við löggjöf frá Alþingi eftirá þar eð hann getur synjað lögum staðfestingar eins og nú hefur gerst í tvígang, 2004 og 2010. Sjálfur getur hann hins vegar ekki haft formlegt frumkvæði að löggjöf með því að leggja fram lagafrumvörp; það geta einungis ráðherrar í nafni forseta auk alþingismanna.

 

Lausn eða gagnrýni

Einnig er hægt að líta á áhrif og afskipti eftir því hvort um er að ræða

  • tillögu að lausn eða
  • gagnrýni á það sem fyrir liggur eða lagt er til.

Til dæmis vil ég nefna að stjórnarandstaða á Íslandi hefur lengi legið undir ámæli um að gagnrýna frekar en að leggja til lausnir; að vísu er þetta að mínu mati að breytast án þess að ég hafi rannsakað það vísindalega. Þar sem borgaralegt lýðræði á sér lengri sögu er hins vegar frekari fyrirmyndir að sækja til þess að bæta úr; ég nefni Danmörku þar sem ég hef kynnst dönsku þingræði og lýðræði í framkvæmd. Benda má á að þessi málsgrein er frekar lausnarmiðuð en gagnrýnin!

 

Hvað getur þú gert?

Nóg um fræðilega greiningu; hvað getur þú gert? Það er engin tilviljun að á 18. og 19. öld tryggðu borgararnir eftirfarandi réttindi í misfriðsamlegum byltingum – ekki aðeins með lögum heldur með varanlegri stjórnarskrám sem misvitrir stjórnmálamenn ættu ekki auðvelt með að breyta að geðþótta og einræðisherrar gætu ekki löglega vanvirt:

  • félagafrelsi yrði tryggt þannig að þú getir stofnað stjórnmálaflokk eða tekið þátt í starfi flokks sem fyrir er;
  • fundafrelsi væri stjórnarskrárvarið í því skyni að þú getir mætt óátalið á Austurvöll eða annars staðar til þess að ræða málin, hlýða á ræður eða hvetja forystufólk til dáða;
  • að prent- og síðar almennt tjáningarfrelsi væri lögvarið svo að þú getir tjáð hug þinn allan – annað hvort opinberlega á bloggsíðum, í blaðagreinum eða í útvarpi eða í smærri hópum – enda ábyrgistu orð þín fyrir dómi þannig að enginn bíði tjón af.

 

Til hvers eru réttindin?

Víð Íslendingar stærum okkur með nokkrum rétti af því að hafa verið friðsöm þjóð að mestu síðan á Sturlungaöld. Á hinn bóginn gleymum við stundum að óíkt flestum öðrum vestrænum ríkjum hefur Ísland hvorki þurft að verja franangreind réttindi – né önnur verðmætari á borð við líf og limi – með blóði.

Ég er friðsamur maður og hef lengi verið félagi í Félagi herstöðvarandstæðinga/hernaðarandstæðinga; mér rennur þó blóðið til skyldunnar að minna samborgara mína á að nýta sér hin friðsömu úrræði til þess að bæta samfélagið og breyta því svo að ekki hljótist ófriður af óbreyttu ástandi.

 

Upp úr pottunum?

Sjálfur reyni ég að fara í heita pottinn daglega og heyri þar fjölda góðra skýringa á ástandi mála og tillögur um breytingar. Þar er oft samhljómur óháð flokkslínum og flestir virðast óflokksbundnir. Hvers vegna gerist þá ekki nóg til batnaðar eða nógu fljótt?

Ein skýringin er að allir stjórnmálamenn séu ómögulegir ef ekki spilltir og fjórflokkarnir séu samtryggðir eða hugsi bara um sjálfa sig; ég þykist vita betur.

Ég held m.ö.o. að málið snúist um að þú hafir þig upp úr heita pottinum eða sófanum, af golfvellinum eða hliðarlínunni; þú þarft að hætta að bregðast bara við og gagnrýna og fara að sýna frumkvæði og finna lausnir. Þú getur nýtt þér stjórnarskrárvarið félaga-, funda- eða tjáningarfrelsi til þess; á endanum leysir enginn málin fyrir þig og breytir heiminum fyrir þig og börnin þín.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Þriðjudagur 2.3.2010 - 22:00 - FB ummæli ()

„örlítið meiri diskant“

Fullveldi er stjórnskipulegt, lögfræðilegt hugtak. Sjálfstæði er pólitískt fyrirbæri. Ég veit að þetta er ekki vinsæl skoðun nú þegar Icesave-deilan stendur enn yfir – en ég hef lengi haft þessa skoðun:

Afsölum okkur aðeins meira fullveldi – í því skyni að fá mun meira sjálfstæði.

Við höfum verið auka-aðilar að Evrópusambandinu (ESB) í 15 ár; ég vil að við gerumst alvöru aðilar og höfum raunveruleg áhrif á okkar eigin hagsmuni.

Nýendurkjörinn formaður Bændasamtakanna (ríkisstuddra hagsmunasamtaka) segir eins og fleiri hagsmunaaðilar: nei – aðild er ekki góð fyrir „Íslendinga.“ Svo kaffærir hann okkur í tæknitali. Sama gerir grátkór LÍÚ.

Svona er staðan:

Efnislega:

  • Stór hluti þjóðarinnar telur að ESB ásælist auðlindir „þjóðarinnar“ – sem kvótahafar stjórna þó, ef ekki eiga. Það er röng spá hjá þessum hluta þjóðarinnar að mínu mati. Til þess að sýna fram á þetta má nefna dæmi af Finnum – sem eiga enn og njóta sinna skógarauðlinda – og Norðmönnum – sem sömdu ekki af sér olíuauðinn. Fjölmörg dæmi geta sannað þetta frekar ef þörf er á.
  • Að mínu mati geta bændur varla haft það verra í ESB – og að öllum líkindum betra. 
  • Ljóst er að neytendur og launafólk hafa fengið flestar sínar réttarbætur frá Brussel undanfarin 15 ár vegna aukaaðildar okkar að ESB í gegnum EES. Neytendur, launafólk o.fl. hópar hafa mun betri kjör eftir Evrópureglum en án þeirra.
  • Gleymi ég einhverjum meiriháttar eða mikilvægum hagsmunum? Velkomið er þá að ræða það í athugasemdakerfinu.

Formlega:

  • Sterk ríkisstyrkt og einokunarvörð samtök og fleiri sterkir aðilar berjast gegn aðild að ESB.
  • Fáir og veikir aðilar standa að þeirri stefnu að í alvöru sé athugað hvaða kostir standa til boða.

 

Viljið þið meira lýðræði?

Ofangreind mál eru þó aðeins aukaatriði; aðalatriðin eru þessi: Ef þið skoðið söguna (eins og fræðimenn á borð við Úlfar Hauksson og dr. Baldur Þórhallsson prófessor hafa rakið) og nýja skýrslu framkvæmdarstjórnar ESB um stöðuna hér sjáið þið að þetta snýst ekki bara um fullveldi íslenska ríkisins eða sjálfstæði þjóðarinnar.

 

Aukið lýðræði og virkara sjálfstæði innan ESB

Álitaefnið lýtur að auknu lýðræði, meiri velsæld og sterkara réttarríki; ég hvet ykkur til þess að lesa skýrsluna. Ég tel rétt að lýðræðissinnar styðji aðildarviðræður og bíði niðurstöðu samninga og taki svo afstöðu – með auknu sjálfstæði íslensku þjóðarinnar en gegn áframhaldi íslensks höfðingjaræðis.

Er ég þá ekkert farinn að ræða þá fallegu friðarhugsjón sem felst í ESB; eins og ég sagði í ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar í fyrra þegar yfir 90% flokksþingsfulltrúa samþykktu með ströngum skilyrðum að Ísland skyldi ganga til aðildarviðræðna:

ESB er eins og gott samvinnufélag – eins og grunnhugsun Framsóknarflokksins: Evrópusambandið tekur það besta frá vinstrafólki (t.d. aukna og raunverulega vernd launafólks og neytenda) og það skásta frá hægriöflunum (t.d. frjáls viðskipti og sem samræmdastar kröfur til atvinnulífsins).

Ég segi því eins og Ingimar heitinn Eydal í Sjallanum forðum – í von um meira sjálfstæði, aukið lýðræði og sterkara réttarríki með aðeins meira framsali fullveldis:

Getum við fengið örlítið meiri „diskant“?

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: ,

Mánudagur 1.3.2010 - 23:59 - FB ummæli ()

Enginn verður óbarinn…

Ég geng ósár frá leik.

Eftir innanflokksprófkjör Framsóknarflokksins hér í Kópavogi um helgina á ég fleiri vini og samherja en áður – og enga óvini svo ég viti. Auk þess er ég reynslunni ríkari. Ég þakka ykkur kærlega fyrir mig – bæði vinum, frábæru stuðningsfólki, góðum ráðgjöfum, fjölmörgum kjósendum og ýmsum öðrum.

 

Drengileg barátta

Ég vona að millifyrirsögnin feli ekki í sér karlrembu. Fyrir utan frábæra hjálp (og sæmilegan árangur með um 27% hlut hvors okkar tveggja áskorenda gegn sitjandi oddvita sem hlaut um 40%) er ég ánægðastur með þetta: Ég var varla kominn upp úr heita pottinum í Kópavogslauginni eftir fyrstu tölur snemma á laugardagskvöld og rétt búinn að fá lokatölur í hendur þegar mótframbjóðendur mínir hringdu að fyrra bragði í mig. Þeir þökkuðu mér fyrir drengilega baráttu – og ég þeim enda varð ég ekki var við neitt skítkast í minn garð. Einhver benti á það á fasbókinni að ég væri fyrsti „pólitíkusinn“ sem fékk jákvæða umsögn um sig á www.dv.is.

Oddviti okkar Framsóknarfólks í Kópavogi, Ómar Stefánsson, sem varði stöðu sína örugglega og endurnýjaði umboð sitt glæsilega með um 40% atkvæða gegn tveimur nokkuð jöfnum áskorendum, bauð mér í sínar herbúðir – sem ég þáði vitaskuld ásamt mínum helstu ráðgjöfum og stuðningsfólki og óskaði Ómari hamingju.

 

Í sama liði

Ég má til með að segja að þegar ég heilsaði einum stórsigurvegaranum heyrðist hváð:

Þú hér?

Ég svaraði:

Já; erum við ekki í sama flokki?

Samfögnuðum við oddvitanum og hans traustu liðsforingjum og keppnismönnum auk fjölda framsóknarfólks enda er nú þörf á – og tækifæri til þess – að treysta böndin með það sameiginlega markmið að vinna Kópavogsbúum gagn næstu fjögur árin með traust, samvinnu og heilindi að leiðarljósi.

 

Sannanlega feministi í framkvæmd

Hvað stoltastur er ég eiginlega af því að hafa fyrir um tveimur mánuðum sem formaður laganefndar Framsóknarflokksins tryggt jafnrétti kynja í efstu sætum listans. Samkvæmt fordæmisgefandi úrskurði okkar þurfa 3 (en ekki aðeins 2) af 6 efstu sætum á lista að vera skipuð hvoru kyni og fell ég því alveg út af listanum eins og frægt er orðið. Ég er sáttur við það enda að eigin mati ekki bara feministi í orði heldur á borði.

 

Æðruleysi á ögurstundu

En hvaða aðra lærdóma dreg ég af þátttöku minni í þessari viðureign (fyrir utan að fallast á með ráðgjöfum mínum að ég skrifa stundum of langa pistla eins og þennan)?

Ýmsir hafa undrast hvað ég tek þessum úrslitum af mikilli „karlmennsku“ – en sú afstaða felur nú eiginlega í sér svolitla karlrembu því að ég held að almennt sýni konur frekar af sér æðruleysi á ögurstundu en við karlmenn sem erum sumir full miklir keppnismenn fyrir minn feminska smekk.

Ég árétta bara; ég vann vini, hélt heiðri og eignaðist enga óvini.

I played by the rules.

 

Áskoranir

Eins og ljóst má vera af ofangreindu er ég ekki tapsár; ég dreg hins vegar tvennan lærdóm – bæði hvað mig varðar og Framsóknarflokkinn almennt – fyrir utan skipulag baráttu sem auðvelt er að laga sjálfur í sínum ranni.

  1. Fjölmiðlar. Ritstjórnir fjölmiðla ákváðu – þrátt fyrir fjölmargar tilraunir til að kynna málstað minn og framlag til þess að fylgja eftir áframhaldandi breytingarkröfu innan Framsóknar og í þjóðfélaginu almennt – að sitja hjá. Ég er hissa á því. Alveg mistókst að fá viðtal við mig. Einnig fór fyrir ofan garð og neðan hvatning til þess að gerð yrði fréttaskýring um menn og málefni eða þvíumlíkt um prófkjörið eða oddvitaáskorunina. Vísuðum við þó til þess í samtölum við fulltrúa fjórða valdsins að öðrum prófkjörum hefði verið sinnt, jafnvel þótt þar væri ekki leiðtogakjör; einkum var nefnt oddvitaprófkjör Framsóknarfólks í borginni sem fékk ágæta athygli hjá bæði Fréttablaðinu og Morgunblaðinu – þannig að ekki er það Framsókn sem er ástæða þagnarinnar. Er Kópavogur ekki nógu spennandi hjá fjölmiðlum? Ég reyndi allar eðlilegar leiðir til þess að fá umfjöllun og er hvorki óþekktur né sambandslaus og get því helst skýrt þetta með hefðbundinni klisju um að það, sem gerist í póstnúmerum 200 og hærra, sitji á hakanum. Fyrsta símtalið sem ég fékk var frá Pressunni – rétt eftir úrslitin. Annað símtalið var í gær frá Morgunblaðinu sem vildi heyra hvort það væri ekki „afhroð“ að stefna að 1. sæti en lenda í því 5. Ég sagði að þeir sem þekktu oddvitaviðureignir teldu ekki svo vera enda hrinur sá sem lendir – og einkum þeir sem lenda – ekki í oddvitasæti gjarnan niður listann því að hann er ekki samkeppnisfær um neðri sæti við þá sem stefna að þeim eingöngu og sigla að því leyti lygnari sjó. Blaðamaður hafði ekki rými fyrir þessa skýringu en við skulum sjá hvort hún birtist í hnyttnu svari við spurningu dagsins í Fréttablaðinu í fyrramálið.
  2. Fólkið. Þá er það fólkið; að óbreyttum prófkjörs- eða forvalsreglum verða kjósendur sjálfir að taka þátt í breytingum ef þeir vilja í alvöru að þær verði. Hvorki er nóg að lítast vel á Gísla, Eirík og Helga eða aðra kandidata né að ræða málin í heita pottinum eða fermingarveislum; fólk þarf að taka þátt – innan flokka eða stofna nýja meðan stjórnskipanin er óbreytt. Breytingar eru ákveðnar í bæjarstjórn og á Alþingi (auk hagsmunasamtaka og víðar) – þó að þrýstingur frá Austurvelli og bloggheimum skipti vissulega máli.

 

Þakkargjörð

Fyrir þá sem hafa nennt að lesa allan þennan pistil vil ég nefna að ég held þakkargjörð fyrir stuðningsfólk og ráðgjafa kl. 17 nk. fimmtudag; staður auglýstur síðar. Takk aftur kæru vinir, vandamenn, stuðningsfólk og ráðgjafar hvaðanæva að.

Ég tek nú aftur til við að sinna mínu starfi að fullu eftir að hafa aðeins sinnt því undanfarnar vikur í „kyrrþey“ – á fundum, í fjarvinnu og með því að svara fyrirspurnum neytenda og fjölmiðlamanna. Sú tilhögun var gerð með opinberri tilkynningu og í samráði við tvær deildir Stjórnarráðsins – og kemur vonandi ekki að sök þar sem tímabilið var ekki lengra en sumarleyfi frá þessu eins manns embætti og þar eð auðvelt var eftir sem áður að ná af mér tali eftir þörfum (sími 510 11 21, gsm 897 33 14 og gt@talsmadur.is).

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Föstudagur 26.2.2010 - 16:40 - FB ummæli ()

Er Álftanes í raun Kanarífugla-nes?

Í morgun hitti ég óflokksbundinn Kópavogsbúa í hverfisbakaríinu. Kom hann að máli við mig og sagði að ekkert væri talað um aðalmálið – fjármálin; allir væru að tala um gæluverkefni sem þeir hefðu áhuga á eða teldu að myndu höfða til kjósenda. Enginn hefði áhuga á að setja fjárhagsstöðu bæjarins á oddinn – eins og þyrfti.

Þetta er brjálæðisleg skuldsetning,

 

sagði hann og vísaði m.a. til þess að hann væri í íbúðarleit og skynsamlegast væri líklega að leita í Garðabæ.

 

Er Álftanes kanarífuglinn í námugöngunum?

Ég var með þennan pistil í smíðum og var því ágætlega undir ábendinguna búinn. Skömmu eftir hrun kom fram sú samlíking að Ísland væri eins og kanarífuglinn í námugöngunum. Líkingin stafar frá þeirri varúðarráðstöfun að senda kanarífugl inn í göng á undan námumönnum til þess að ganga úr skugga um hvort súrefnisskortur eða eiturefni séu þar sem geti orðið mönnum að aldurtila; detti fuglinn dauður niður eru gerðar ráðstafanir.

 

Skilyrði góð í Kópavogi – ef…

Nú vaknar sú spurning hvort Álftanes sé kanarífugl sveitarfélaganna; fyrir liggur að þetta litla sveitarfélag er komið í gjörgæslu á vegum ríkisins – en stefna önnur sveitarfélög í sömu átt eins og fréttir vikunnar benda til? Ég vona ekki og vænti þess ekki hvað Kópavog varðar.

Hér í Kópavogi eru aðstæður þessar. Hröð og mikil uppbygging hefur átt sér stað síðustu ár. Fyrir vikið eru í bænum tilbúnir innviðir, t.d. götur og lagnir – en skuldir á móti. Um leið og fólk og fyrirtæki hafa skilyrði til þess að nýta sér þessa innviði – og flytja inn og skapa atvinnu mun Kópavogur blómstra að nýju.

 

… ekki verður almennur landflótti – og…

Í Kópavogi búum við svo vel að við getum áfram haft ágætt tekjustreymi fyrir bæjarsjóð og þar með haldið í hátt þjónustustig fyrir Kópavogsbúa – einkum ef samstarf við önnur sveitarfélög og samþætting þjónustuþátta eykur skilvirkni. Það er þó háð því að ekki bresti á almennur landflótti – í boði ríkisstjórnar vinstriflokkanna. Ekki má gera lítið úr þessum kostum og tækifærum Kópavogsbæjar.

Þessi góða spá mín er hins vegar skilyrt; við höfum ekki efni á fleiri mistökum í fjárhagsstjórn og stjórnsýslu bæjarins.

 

… ekki verða gerð frekari mistök

Eins og Íslendingar flestir veðjaði fyrri og fráfarandi bæjarstjórn á að hér yrði áframhaldandi (endalaus) veisla; það veðmál brást. Stjórnendum og kjörnum fulltrúum Kópavogsbæjar verður ekki kennt frekar en okkur hinum um þá (ofur)bjartsýni. Ein helsta ástæða þess að skuldastaða bæjarsjóðs þrefaldaðist milli ára er nefnilega aukin lóðaskil, sem borgararnir eiga lögvarinn rétt á. Núverandi efnahagur og rekstrargrunnur Kópavogs er því að miklu leyti afleiðing efnahagskreppu í kjölfar bankahruns. 

 

Höfum ekki efni á öðrum Glaðheimamistökum

Ekki er staðan þó að öllu leyti kreppunni að kenna. Fráfarandi og fyrri bæjarstjórnir bera vissulega ábyrgð á því sem réttnefnt er Glaðheimamistökin; vitaskuld ber að standa við gerða samninga við hestamenn. Bæjarstjórn ber ábyrgð á ákvörðun fyrrverandi bæjarstjóra og samþykkt þáverandi meirihluta bæjarstjórnar. Þar á meðal var þáverandi oddviti 3ja manna bæjarstjórnarflokks Framsóknarflokksins – sem eftir kosningarnar í kjölfarið 2006 varð eini bæjarfulltrúi míns flokks! Á hinn bóginn mun minnihlutinn hafa gert fyrirvara þegar málið kom til lokaafgreiðslu og ýmsir vikið sæti sem tengdust hagsmunum á svæðinu.

Í ákvörðun um uppkaup á Glaðheimalandi fólst gríðarleg sprenging á land- og lóðaverði í kjölfar áhættukaupa vafasamra aðila á skipulögðu og rótgrónu hesthúsalandi – sem var í sátt við byggðina og starfsemina í kring. Þeir sitja með gróðann sem keyptu hestamenn út af Glaðheimalandinu og prönguðu því svo inn á bæjarstjórn – sem ákvað skyndilega að láta bæjarsjóð ganga inn í samningana. Hinir, sem keyptu landið svo aftur af Kópavogsbæ, til þess að skipuleggja það hafa ýmist þegar samið um skil á því til bæjarins og endurgreiðslur – á verðbótum – eða óskað eftir að skila því; stefnir í málaferli um það.

Eftir sitja íbúar – skattgreiðendur – Kópavogs með ofgnótt vannýtts lands og margfaldar skuldir.

 

Ég hef spurt ráðherra um stöðu Kópavogs

Í fréttum í vikunni var gefið til kynna að fleiri sveitarfélög væru í athugun eins og þeirri sem var undanfari gjörgæslu Álftaness. Skyldi Kópavogur vera þar á meðal? Af því tilefni hef ég sem Kópavogsbúi og oddvitaefni nýrrar Framsóknar með vísan til upplýsingalaga óskað skriflega eftir gögnum frá ráðuneyti sveitarstjórnarmála, samgönguráðuneytinu, sem geta upplýst mig um

hvort fyrir liggi ákvörðun um stöðu Kópavogsbæjar gagnvart eftirlitsaðilum ríkisins vegna fjármála bæjarins og hver sú staða sé.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.2.2010 - 23:59 - FB ummæli ()

Að vera eða vera ekki – í bæjarstjórn

Í nýlegum pistli gagnrýndi ég hagsmunaárekstra í Kópavogi – en benti á lausnir – og nefndi sem dæmi að háttsettir stjórnendur hjá bænum sætu í bæjarstjórn og væru þannig í vinnu hjá sjálfum sér. Í gær lagði ég svo til hámark á setu í bæjarstjórn – annað hvort með lögum eða sjálfskipað. En ef sumir eiga ekki að sitja í bæjarstjórn að mínu mati og enginn of lengi – hverjir eiga þá (ekki) að sitja þar og hve lengi að mínum dómi?

 

Hverjir koma til álita?

Ekki ætla ég að fara að leika félagsfræðing og skipta fólki í stéttir enda höfum við notið þess á Íslandi að hafa ekki mikla stéttskiptingu lengi vel þó að ég telji að aðstöðumunur fólks hafi stundum verið vanmetinn með tali um stéttleysi og samstöðu stétta. Ég hef orðið var við að sumir telja að forstöðumenn eða (milli)stjórnendur stofnana og fyrirtækja eigi ekki erindi sem kjörnir fulltrúar. Þá eru eftir:

  • aðrir starfsmenn hjá hinu opinbera og á einkamarkaði,
  • námsmenn,
  • fólk í atvinnuleit,
  • öryrkjar,
  • eldri borgarar,
  • heimavinnandi og
  • eigendur fyrirtækja.

Ég er ekki viss um að ég sé sammála að útiloka eigi einhvern hóp almennt frá því að sækjast eftir og fá stöðu sem kjörinn fulltrúi, t.d. í sveitarstjórn eða á þingi, enda eru bara forseti Íslands og hæstaréttardómarar útilokaðir frá setu á Alþingi samkvæmt stjórnarskrá. Allir eru kjörgengir til sveitarstjórnar. Ef fyrstnefndi hópurinn, æðstu stjórnendur, er útilokaður getur verið að þeir útiloki óbeint aðra starfsmenn svo að úrvalið verði úr færri hópum. Varla viljum að landinu verði stjórnað eingöngu af fyrirtækjaeigendum og tilgreindum hópum sem ekki hafa reglulegar launatekjur.

 M.ö.o. held ég að hér sem fyrr sé fjölbreytni af hinu góða, sbr. fyrri pistil minn um kynjakvóta.

 

Tillaga að lausn 

Hvað Alþingi varðar er svarið í stjórnarskránni eins og fram er komið; því má breyta á stjórnlagaþingi. Að því er varðar sveitarstjórnir kann að vera rétt að hafa mismunandi reglur eftir stærð sveitarfélaga en ég vænti þess að örsmá sveitarfélög heyri brátt sögunni til. Ég held að lausnin felist í því sem ég hef áður gefið í skyn; allir séu kjörgengir til sveitarstjórnar

  1. nema háttsettir stjórnendur hjá sama sveitarfélagi og aðeins
  2. í tiltekinn tíma.

 

Er þriðjungur starfsævinnar ekki bara ágætt?

En hve lengi má fólk sitja í bæjarstjórn? Ef ég miða við að virkasti hluti starfsævi flestra (þegar staða kynjanna hefur jafnast frekar eins og stefnt var að með jöfnu fæðingarorlofi fyrir um 10 árum) sé um 40 ár er varla til of mikils mælst að hámarkslengd óslitinnar setu í sveitarstjórn sé þrjú kjörtímabil eða 12 ár sem er tæpur þriðjungur meðalstarfsævi samkvæmt ofangreindu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.2.2010 - 23:59 - FB ummæli ()

Ég lofa…

Í sinni frægustu af mörgum frábærum ræðum, Gettysburg-ávarpinu þegar borgarastyrjöldin bandaríska stóð sem hæst 1863, mælti Abraham Lincoln forseti þau fleygu orð að stjórnvöld ættu að vera

of the people, by the people, for the people

Það þýðir væntanlega í stuttu og einfölduðu máli að handhafar opinbers valds séu úr hópi borgaranna en ekki úr sérstökum stéttum (fulltrúalýðræði), að fulltrúar séu kjörnir af almenningi (lýðræði) og að stjórnvöld starfi í þágu borgaranna (réttarríki). Vonandi náum við Íslendingar fljótlega þessu marki betur en við höfum gert síðan formlegt lýðræði komst hér á í byrjun 20. aldar. En er það nóg?

 

Traust, samvinna og heilindi?

Nei; ég held að eftirspurn sé eftir meiru nú þegar framboðið er ágengara og e.t.v. óvinsælla en oft áður; hvernig á fólk t.a.m. að trúa mér þegar ég segi að ég vilji endurreisa traust á stjórn Kópavogsbæjar, að Framsókn muni á ný bjóða samvinnu og að ég standi fyrir heilindi?

Í því skyni að endurvekja traust kjósenda vil ég setja fram stutt og einfalt loforð – í líkingu við það sem forseti Íslands gaf í skyn er hann var spurður í aðdraganda forsetakjörs 1996 (en hefur reyndar ekki staðið við); ég hef að vísu ekki verið spurður – en ég varð hugsi um daginn þegar fram kom að kunnur og að mörgu leyti farsæll sveitarstjórnarmaður fyrir austan hefði gegnt sveitarstjórnarstörfum í hartnær þrjá áratugi, ef ég tók rétt eftir. Ég held að það sé of langur tími. Ég held að eitt af okkar vandamálum sé þaulseta kjörinna fulltrúa – þangað til þeim er nánast kastað út í stað þess að hætta „á toppnum“ eins og sagt er.

Stjórnmálamenn verða að hafa eitthvað meira til að bera en að koma sér í mjúkinn hjá kjósendum og sitja svo sem lengst og fastast; kjörnir fulltrúar verða að hafa að einhverju öðru að hverfa að loknum stjórnmálaferli auk þess sem oft er hægt að gera ráð fyrir öðrum störfum samhliða, a.m.k. á sveitarstjórnarstiginu.

 

Hvorki tilviljun að hámark er sett á embættissetu…

Síðan ég fór að fylgjast með stjórnmálum fyrir um aldarfjórðungi og hóf skömmu síðar að nema lög hef ég hugsað þetta mikið; ég held að það sé engin tilviljun að stjórnarskrár merkra lýðræðisríkja á borð við Bandaríki Norður-Ameríku og ýmissa yngri lýðræðisríkja setja í stjórnarskrá hámarkstíma á setu í valdamiklum embættum, svo sem forsetaembætti. Sama á við um ýmis samtök; t.a.m. var ýmist sex eða átta ára hámark sett á kjörgengi fulltrúa í stjórnum Bandalags háskólamanna og sjóða sem BHM sér um rekstur á en þar starfaði ég sem framkvæmdarstjóri um sjö ára skeið. Stjórnarformennska er að vísu talin sérstaklega í þeim samtökum.

 

… né að reynt er að komast hjá hámarkinu

Þá er það ekki tilviljun að í yngri og minna þróuðum (lýðræðis)ríkjum á borð við Rússland og einhverjum S-Ameríkuríkjum hafa valdamenn á borð við forseta reynt að komast hjá slíkum hámarksreglur; valdastólarnir eru mjúkir. Ýmist hafa þeir reynt að breyta stjórnarskrám eftir á eða fengið leppa til að sitja fyrir sig í eitt kjörtímabil þar til þeir geta fengið besta sætið aftur.

 

… að reyna ekki að sitja endalaust

Ég vil því ekki aðeins stinga upp á – heldur beinlínis lofa – að ef ekki verða sett lög um hámarkslengd (óslitinnar) setu kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn muni ég fyrirfram setja fram slíkt loforð sjálfur; til að auka spennuna og fá fyrst ráð frá lesendum og væntanlegum kjósendum ætla ég að leita ráða hjá ykkur um nánari útfærslu. Í athugasemdum við þessa færslu á morgun, fimmtudag, eða á öðrum tiltækum vettvangi getið þið lagt til lausn á því hvernig er heppilegast að útfæra þetta sjálfskipaða hámark á setu mína í bæjarstjórn Kópavogs nái ég kjöri þar. Þar er t.d. hægt að skiptast á skoðunum um hvort hámarkið á að vera 1, 2 eða 3 kjörtímabil; telji einhver að „hámarkið“ eigi að vera 0 kjörtímabil er málið auðleyst:

Þá kjósið þið mig ekki.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.2.2010 - 23:58 - FB ummæli ()

Stjórnlagaþing fyrir sveitarfélögin

Eftir ræðu mína á frambjóðendafundi Framsóknarfélaganna í Kópavogi sl. fimmtudag komu nokkrar spurningar til okkar. Ein þeirra varð mér tilefni til þess að minna á aðstöðumun ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að því að flytja verkefni til sveitarfélaga og ákveða tekjustofna til þess að sinna þeim. Um leið benti ég á að ég hefði um 15 ára reynslu af því að semja fyrir eða verja aðila sem standa veikar að vígi en gagnaðilinn – þ.e. stúdenta, launafólk og neytendur.

 

Einhliða vald ríkisins

Iðulega ákveður ríkið einhliða – formlega séð en þó oft að undangengnu einhverju, misgóðu og mismiklu, samráði – að fela sveitarfélögum ný eða breytt verkefni. Þegar kemur að því að semja um eða ákveða fé til þess að sinna þessum verkefnum eru sveitarfélögin oft í síðri stöðu en ríkið – sem á endanum hefur bæði löggjafarvaldið (til þess að flytja verkefni til eða frá) og fjárstjórnarvaldið. Eina reglan sem styður rétt sveitarfélaga er sjálfstæði sveitarfélaga sem er stjórnarskrárvarið eins og fjárstjórnarvald ríkisins; sjálfstæði sveitarfélaga er hins vegar að því leyti „tómt“ að það skal nánar skilgreint í lögum – frá Alþingi.

 

Í fjárstjórnarvaldi felst vald til þess

  • skattleggja til að afla tekna til opinberra verkefna (skattlagningarvald) og
  • veita fé til verkefna (fjárveitingarvald).

 

Stjórnlagaþing – m.a. til að jafna stöðuna

Til þess að jafna stöðuna hef ég innan Framsóknarflokksins stungið upp á að nýta væntanlegt stjórnlagaþing – sem Framsókn átti frumkvæði að því að leggja til og reyna að koma á – til þess að jafna þessa stöðu. Róttækasta leiðin væri að flytja fjárstjórnarvaldið í ríkari mæli til sveitarfélaga – sem síðan myndu skammta ríkinu fé til sameiginlegra verkefna. Sjálfur hef ég frekar aðhyllst eftirfarandi sem æskilega niðurstöðu:

Ef ríki og sveitarfélög ná ekki sáttum um hvernig skipta á tekjum eða deila skattlagningarvaldi tekur gildi einhver sjálfgefin regla um skiptingu tekna – og þarafleiðandi útgjalda til fjárveitinga.

Þetta þarf að ræða frekar og þróa – en þetta er mitt fyrsta opinbera upplegg.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.2.2010 - 23:05 - FB ummæli ()

Kópavogsleiðin við persónukjör

Við Kópavogsbúar kunnum víst að kjósa; við höfum aðeins gleymt bestu leiðinni við að velja á lista – sem þó gafst vel fyrir margt löngu. Ég ætla að minna á hana – til samanburðar við hinar þrjár helstu sem reyndar hafa verið eða kynntar.

 

Prófkjörsleiðin

Sumir benda á að ofsmölun, misnotkun félagalista og margskráning í fleiri flokka í aðdraganda prófkjörs beri lýðræði ófagurt vitni og komi niður á málefnastarfi hinna mörgu sem hafa lengi verið í flokkunum.

 

Raðleiðin

Vinstriflokkarnir tveir hafa undanfarið í Kópavogi valið aðra og að sumu leyti skaplegri leið; sú leið er reyndar kennd við Framsóknarflokkinn sem notast hefur við hana undanfarin ár í aðdraganda alþingis- og sveitarstjórnarkosninga. Hún felst í að allir félagsmenn eða helstu trúnaðarmenn velji á fundi fyrst í forystusætið, svo í 2. sæti og svo koll af kolli. Þannig  er komist hjá óheppilegri samsetningu lista; einkum er með henni unnt að ná betra kynjajafnvægi en í Garðabæ um daginn er íhaldið valdi fjóra miðaldra eða eldri karla í fjögur efstu sætin. Þessa leið má nefna raðleiðina.

 

Persónukjör samhliða kosningum

Sú leið til persónukjörs, sem lagafrumvarp vinstristjórnarinnar frá í fyrra fól í sér, hafði þann ókost að samtímis skyldi kjósa fólk á lista og velja lista til þings eða sveitarstjórnar; kjósandi gæti því ekki á kosningadag vitað hver yrði í forystu eða í öðrum (efstu) sætum á listanum. Af því leiðir annan ókost, þ.e. að óljóst væri hverjir skyldu tala máli flokksins í kosningabaráttunni. Þriðji ókosturinn er misklíð sem af því gæti hlotist. Þessa leið má e.t.v. kalla kosningakjör.

Aðrir flokkar studdu markmiðið um persónukjör og því var illt að ekki skyldi lokið við slíka lagasetningu í tæka tíð fyrir sveitarstjórnarkosningar. Þá hefði mátt laga þessa helstu vankanta frumvarpsins.

 

Kópavogsleiðin – gamla

En til er betri leið sem ég heyrði nýverið af. Heimildarmaður minn er Jón Guðlaugur Magnússon, fyrrverandi bæjarritari í Kópavogi. Hann var einn helsti hvatamaður þess að Sigurður Geirdal valdist til forystu í Framsóknarflokknum hér í Kópavogi 1990 er farsælt uppbyggingarstarf með samstarfsflokknum hófst. Að sögn Jóns Guðlaugs fóru flokkarnir fjórir í Kópavogi þá leið 1970 og 1982 að allir kjósendur á kjörskrá gátu mætt á sama stað á sama degi til að velja á lista í þeim flokki sem þeir völdu sér.

Framsóknarflokkurinn vildi endurtaka þessa leið síðar en ekki náðist samstaða með öðrum flokkum um það.

 

Kostir Kópavogsleiðarinnar

Kópavogsleiðin gamla hefur að mínum dómi og minna heimildarmanna ýmsa kosti umfram ofangreinda leið sem íhaldið fór um nýliðna helgi og við Framsóknarfólk ljúkum nk. laugardag, 27. febrúar. Hún er líka að ýmsu leyti betri en ofangreint kosningakjör.

Helstu kostir Kópavogsleiðarinnar eru að allir, sem vilja og geta, mæta á (próf)kjörstað á sama degi á einum stað og enginn raðar á lista í fleiri en einum flokki – eins og ég hef heimildir um að hafi tíðkast töluvert undanfarið víða; að sögn líta sumir kjósendur á það sem mannréttindi sín að skrá sig í fleiri en einn flokk og jafnvel marga flokka í því skyni að hafa áhrif á mannval á listum.  Um leið er væntanlega komist hjá stærstu göllunum sem margir telja felast í prófkjöri (jafnvel lokuðu). Þeir gallar eru annars vegar að fólki er „smalað“ inn í flokk sem það aðhyllist jafnvel ekki beinlínis og dvelur stundum ekki lengi í (og gengur jafnvel strax aftur úr). Hins vegar er það galli að mati sumra „eldri“ flokksmanna að fólk velji á lista en taki ekki þátt í málefnastarfi og öðru starfi flokkanna.

Orðlengi ég þá ekki um galopin prófkjör sem ég tel hafa þann augljósa galla að fjöldi kjósenda mætir á prófkjörstað til þess að velja fólk á lista sem þeir kjósa svo ekki í kosningum. Engum flokki er greiði gerður með því – nema þeim sem kunna að senda sína liðsmenn til að skipta sér af öðrum flokkum.

 

Rétt aðferð við persónukjör er framtíðin

Þótt margir fárist nú yfir aðferðum okkar Kópavogsbúa við að ákveða mannval á listum (a.m.k. meirihlutaflokkanna tveggja) fyrir bæjarstjórnarkosningar er betri leið til; hún hefur bara gleymst um sinn – enda var hún síðast notuð 1982 og þar áður 1970. Vona ég að Kópavogur taki forystu í að koma Kópavogsleiðinni gömlu í framkvæmd og helst í lög í tæka tíð fyrir næstu kosningar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur