Íslensk verslun hefur undanfarin misseri barist hart fyrir að dregið verði úr tollvernd á innlendan landbúnað – ekki síst hvíta kjötið svokallaða sem á lítið skylt við landbúnaðarframleiðslu að flestra mati.
Þessi barátta hefur skilað því að umræða um breytingar á fyrirkomulagi styrkja til íslensks landbúnaðar er nú mjög hávær. Er það vel því orð eru til alls fyrst. Án efa er hægt að komast að niðurstöðu um breytt kerfi sem styður vel við hinn hefðbundna íslenska landbúnað s.s.sauðfjárræktina en á sama tíma fái aðilar sem notið hafa gríðarlegrar tollverndar t.d. í hvíta kjötinu aukna samkeppni þ.a. íslensk heimili njóti kaupmáttaraukningar í gegnum verðlækkanir á þeim vörum. Sérhagsmunagæsla um óbreytt landbúnaðarkerfi er ekki í boði að okkar mati og þeirri skoðun vex hratt fylgi og verður fylgt eftir m.a. af aðilum vinnumarkaðarins.
Undanfarnar vikur hafa þeir aðilar sem standa vörð um sérhagsmuni núverandi landbúnaðakerfis fullyrt að þetta sé undarleg barátta hjá versluninni sem sjálf biður um tollvernd þegar henni hentar. Þessi fullyrðing er alröng – enda nýtur verslunin engrar tollverndar, hefur aldrei gert og mun aldrei fara fram á. Þvert á móti býr verslunin hér við ofurálögur í formi tolla og vörugjalda sem hvergi er lögð á þessa atvinnugrein í þeim löndum sem við helst viljum bera okkur saman við. Á verslunina hér á landi eru sem sagt lagðir tollar sem ekki eru lagðir á verslun erlendis.
Þennan útúrsnúning sérhagsmunanna má líklega rekja til athugasemda sem verslunin gerði við fyrirhugaðar breytingar á póstverslun við útlönd. Þar var verslunin hins vegar ekki að fara fram á tollvernd heldur eingöngu að fá að sitja við sama borð og aðrir sem flytja inn vörur hingað til lands. Enda felst engin sanngirni í því að fella niður opinber gjöld við innflutning hjá einstaklingum en krefja verslunin áfram um himinhá opinber gjöld á sömu vöru? Ef þessar álögur verða hins vegar felldar niður af versluninni á sama tíma þ.a. allir sitji við sama borð gerir verslunin engar athugasemdir við breytt fyrirkomulag póstverslunar.