Föstudagur 18.10.2013 - 16:06 - Lokað fyrir ummæli

Skuldatímasprengja bankanna

Á þriðja þúsund fyrirtækja glímir við tifandi tímasprengju í boði bankanna. Þetta eru fyrirtækin sem fengu hluta af skuldum frestað vegna þess að þau réðu ekki við afborganir af þeim að fullu eftir efnahagshrunið. Meinið er að stór hluti þessara fyrirtækja getur ekkert frekar ráðið við að greiða biðlánin þegar kemur að gjalddögum á þessu ári og því næsta.

Ástæðan er einföld. Fyrirtækin standa ekkert betur en þau gerðu þegar gálgafresturinn var veittur. Útgjöld hafa stóraukist vegna hækkunar opinberra gjalda og veikari krónu. Tekjur aukast lítið, standa í stað eða dragast saman.

Um 700 lítil og meðalstór fyrirtæki fengu skuldafrest til þriggja ára í gegnum „Beinu brautina.“ Nokkur þúsund til viðbótar fengu mismunandi útgáfur af svipaðri fyrirgreiðslu í bönkunum. Flest eiga þessi fyrirtæki sameiginlegt að skulda meira af stökkbreyttum skuldum en þau ráða við.

 

Fallöxi biðlánanna

Biðlánin hanga yfir fyrirtækjunum eins og fallöxi. Þetta leiðir til stöðnunar, því forráðamenn fyrirtækjanna treysta sér ekki í uppbyggingu eða annan vöxt. Þeir vita ekkert hvað tekur við þegar kemur að gjalddögum á lánum sem þeir geta ekki borgað. Fyrirtækin eru heldur ekki söluvænleg með ósjálfbæran skuldaklafa.

Án uppskiptingar á lánastaflanum og frestun hluta þeirra hefðu fyrirtækin vissulega ekki getað staðið í skilum við bankana. En gera þarf skýran greinarmun á biðlánunum og lánum sem verið er að greiða af. Hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja segir að almennt séu lítil vanskil rekstrarlána fyrirtækja sem hafa gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Slíkt sé vísbending um að getan til að greiða biðlánin sé almennt góð. Engin innistæða er fyrir þessari ályktun. Höfundur þessarar greinar hefur starfað með fjölmörgum fyrirtækjum að endurskipulagningu fjármála eftir hrun. Alls staðar er sama sagan, bankarnir gera ítrustu kröfur um afborganir lána. Þeir mergsjúga fyrirtækin, sem reyna af bestu getu að standa undir greiðslum. En þau geta ekki meir.

 

Bankarnir stöðva hagvöxt

Bankarnir hafa eignfært kröfur á litlu og meðalstóru fyrirtækin sem þeir vita fyrirfram að þeir geta aldrei innheimt að fullu. Samt ætla þeir að halda þessu ferli til streitu. Staðan er ekki aðeins slæm fyrir viðkomandi fyrirtæki, heldur ekkert síður fyrir þjóðarbúið í heild sinni. Alkunna er að fjölgun starfa er mest hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þar er gróskan, hreyfanleikinn og sveigjanleikinn. Öll stórfyrirtæki byrjuðu sem lítil fyrirtæki.

Ef fjármálastofnanir ætla að halda fjórðungi íslenskra fyrirtækja í spennitreyju ósjálfbærra skulda, þá mun seint bóla á þeim hagvexti sem allir telja nauðsynlegan fyrir viðreisn eftir hrunið.

 

Flokkar: Lögfræði

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur