Fimmtudagur 24.10.2013 - 16:32 - Lokað fyrir ummæli

Ábyrgðir

Eins og flestir vita þá hefur ýmislegt komið í ljós eftir efnahagshrunið og er þá sérstaklega vísað til starfsemi fjármálafyrirtækja. Við vitum í dag að bankarnir voru að lána ólögleg lán, snuðuðu viðskiptavini sína í verðbréfaviðskiptum og útbjuggu ábyrgðarbréf sem stóðust ekki skoðun. Ég hef sem lögmaður fyrir einstaklinga og fyrirtæki rekið mig ítrekað á það að fjármálafyrirtækin hafa ekki staðið rétt að því að ganga frá lánaskjölum t.d. hvað ábyrgðarmenn varðar. Ítrekað hef ég rekið mig á það að lánaskjöl eru það illa unnin að ábyrgðarmenn hafa losnað undan skyldu sinni sem slíkir.

Fyrir hrun var í gildi samkomulag Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja fyrir hönd aðildarfélaga sinna, Sambands íslenskra sparisjóða fyrir hönd sparisjóða, Neytendasamtakanna og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda er tók gildi 1. nóvember 2001 (hér á eftir ,,samkomulagið“). Samkomulagið fjallaði m.a. um sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfalánum og voru allar lánastofnanir aðilar að því.

Í 3. gr. samkomulagsins kemur fram að fjármálafyrirtæki sé skylt að meta greiðslugetu greiðanda nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Í greininni kemur jafnframt fram sú meginregla að fjármálafyrirtæki sé þó ávallt skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemi hærri fjárhæð en kr. 1.000.000. Sú undantekning er gerð frá þessari reglu að hjónum eða fólki í óvígðri sambúð er heimilt að undanskilja fjármálafyrirtæki frá skyldu til greiðslumats vegna ábyrgðar á skuldum hvors annars. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins skal jafnframt tryggt að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Bendi niðurstaða greiðslumats til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óskar eftir að lán verði veitt engu að síður skal hann staðfesta það skriflega.

Það er mín reynsla að ofangreindum reglum var í fjölmörgum tilvikum ekki fylgt. Þegar svo háttar til er alls óvíst hvort ábyrgðin bindi hendur ábyrgðarmanns. Því er ljóst að margir telja sig e.t.v. vera ábyrga fyrir skuldbindingum sem við nánari skoðun þeir eru kannski ekki, t.d. vegna lélegs frágangs fjármálastofnunar á lánaskjölum eða lausfylgni við fyrrnefndar reglur.

 

Flokkar: Lögfræði

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur