Fimmtudagur 31.10.2013 - 13:59 - Lokað fyrir ummæli

Ábyrgð stjórnarmanna

Lengi vel hefur það tíðkast að framkvæmdastjórar og stjórnarformenn einkahlutafélaga séu látnir sæta ábyrgð ef félögin standa ekki skil á vörslusköttum. Þessi ábyrgð nær lengra en svo að gera þá ábyrga sem stjórnarmenn því þeir þurfa persónulega að bera fjárhagslega ábyrgð fyrir umræddum vanskilum. Það getur þýtt að þeir þurfa sjálfir að standa skil á vanskilum og sektum tengdum þeim með sínum persónulegu eignum.

Í seinni tíð hafa eftirlitsaðilar og lögregluyfirvöld gengið lengra og látið alla stjórnina bera þessa ábyrgð. Það er gott að blessað að aðilar séu látnir sæta ábyrgð á að skila ekki vörslusköttum og það er mikilvægt að hið opinbera sé tryggt með það sem því ber að fá en þegar við erum að fjalla um tilvik þar sem fjármunir félagsins eru notaðir til að greiða laun og til að halda rekstri gangandi þá er ekki hægt að segja um stjórnendur þeirra félaga að þeir hafi persónulega hagnast á því að ekki hafi verið staðið skil á vörslusköttum.

Þessi tilvik hafa aukist í seinni tíð eftir hið illræmda efnahagshrun enda voru rekstraraðilar í vandræðum með að fá greitt fyrir sína þjónustu eða vinnu og lentu því í hrakningum með greiðslur til  hins opinbera. Reyndu þessir sömu aðilar að halda fyrirtækjum sínum gangandi með því að láta laun, leigu og kaup á efnum til rekstrar ganga fyrir. Er réttlætanlegt að þessir aðilar eigi svo að missa æru og sínar persónulegu eignir vegna þessa?  Að mínu mati þarf að breyta núgildandi regluverki og afstöðu eftirlitsaðila þannig að það sé meira tekið tillit til þessa þáttar í þeim tilvikum þegar félög hafa ekki staðið skil á vörslusköttum. Í flestum tilvikum er um góða rekstraraðila að ræða en eins og svo margir hafa þeir því miður lent í vandræðum vegna keðjuverkandi áhrifa efnahagshrunsins.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur