Föstudagur 08.11.2013 - 14:21 - Lokað fyrir ummæli

Skilningsleysi í garð skuldara

Nú eru liðin fimm ár frá hruninu og fjögur ár frá því við sáum fyrsta aðgerðapakkann fyrir heimilin og þrjú ár frá því að aðgerðapakki fyrir fyrirtæki leit dagsins ljós. Hvað hefur áorkast á þeim tíma. Við höfum fengið 110% leiðina sem varð svo að 140 eða 150% leiðinni. Svo fengum við beinu brautina svokölluðu sem gerði því miður lítið annað en að sökkva fyrirtækjum landsins enn dýpra í skuldasúpuna.  Nú svo var það umboðsmaður skuldara sem átti að hjálpa heimilum þessa lands en hafnaði svo röggsömum og duglegum einstaklingum á þeim rökum að viðkomandi hafi verið í eigin rekstri eða hafi ekki getað greitt af skuldum sínum, jafn spánskt og það kemur fyrir sjónir þegar þau dæmi eru skoðuð.  Á sumum var hamast svo mikið að það varð ekkert eftir til að berjast fyrir.

Þá má vera að undirritaður sé kannski einum of svartsýnn þegar kemur að þessum málefum en því veldur töluverð reynsla og miður góð. Undirritaður þekkir vel hvað það þýðir að þurfa berjast við þessar stofnanir sem vilja gleypa allt sem hægt er að gleypa og gott betur. Þeir fáu sem hafa svigrúm til að fá sér lögmann geta með miklum látum fengið í gegn það sem er þeim nauðsynlegt en eftir standa þeir sem eru veikari fyrir eða þeir sem allar bjargir virðast bannaðar. Hver stendur með þeim? Umboðsmaður skuldara? Ríkisstjórnin? Alþingi?

Málið er í raun sáraeinfalt. Það verður ekki hægt að rukka þar sem ekki eru til peningar og kröfuhafar verða að horfast í augu við þessa staðreynd hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Lítið samfélag eins og Ísland hefur ekki efni á að gera stóran hluta þjóðarinnar eignalausan eða gjaldþrota. Það er ekki hægt að kreista blóð úr steini.

 

Flokkar: Lögfræði

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur