Fimmtudagur 14.11.2013 - 19:32 - Lokað fyrir ummæli

Eiga börn ekki að njóta vafans í kynferðisbrotamálum?

Umræðan um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hefur ekki farið fram hjá neinum. Miðað við það sem að undan er gengið hefði maður haldið að dómsstólar og ekki síst ákæruvaldið væru betur í stakk búin til að taka á þessum málaflokki. Fyrir nokkru síðan tók ég að mér mál þar sem grunur lék á því að ungur drengur hefði verið beittur kynferðislegu ofbeldi af hendi frænda síns sem var rétt innan við tvítugt. Tildrög málsins voru þau að móðir unga drengsins varð vitni að atviki sem vakti upp grunsemdir hjá henni um að sonur hennar hefði verið beittur kynferðislegu ofbeldi. Kærði hún málið til lögreglu. Barnið var sent til sálfræðings og í Barnahús og töldu þessir sérfræðingar að drengurinn sýndi einkenni þess að hafa verið beittur kynferðisofbeldi.

Eftir mikla vinnu við að koma málinu í ferli var það fellt niður af ákæruvaldinu þar sem talið var að framburður barnsins væri óskýr eða ótrúverðugur. Samhliða því var talið að hinn grunaði gerandi í málinu væri farinn úr landi. Það verður að teljast ótrúlegt að mjög ungt barn geti farið að ljúga um að það hafi verið beitt kynferðisofbeldi. Í þessum málum verður að vera ljóst að barnið eigi að njóta vafans og málið ekki kæft með einföldum hætti í rannsókn eða af ákæruvaldi án þess að komi til kasta dómstóla. Ég er ekki með þessu að segja að sakarmatið eigi ekki að vera strangt fyrir dómi í svona málum. Aftur á móti verður að taka tillit til aðstæðna og hvað aðrir sérfræðingar eins og t.d. sálfræðingar og þeir sem vinna með börn segja. Rannsóknin verður að vera yfir alla gagnrýni hafin.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur