Þriðjudagur 19.11.2013 - 20:13 - Lokað fyrir ummæli

Gerviverktaka

Það hefur færst í vöxt að fyrirtæki reyni að takmarka kostnað sem til verður við starfsmannahald. Ein leið í því er að ráða til sín verktaka sem sjá um tiltekin verk. Með því getur vinnuveitandinn nýtt sér svokallaðan innskatt og losnað við öll launatengd gjöld og um leið að þurfa að gæta réttar eins og t.d. uppsagnarfrests sem allir launþegar eiga rétt á. Með verktökum er hægt að stýra með auðveldari hætti flæði vinnuafls og losa sig við vinnuafl með mun minni fyrirhöfn en þegar um hefðbundna launþega er að ræða.

Aftur á móti er það ekki mat verktakans og þess sem kaupir þjónustu hans hvort um launþegasamband eða verktakasamband sé að ræða. Uppfylla þarf ströng skilyrði svo hægt sé að tala um verktakasamband og er oft talað um 12 skilyrði sem þarf að uppfylla. Til eru mörg fordæmi þess í skattarétti að langvarandi verktakasambandi milli aðila er breytt í launþegasamband með inngripi skattyfirvalda. Þegar það gerist þá þurfa þeir sem hafa keypt þjónustu af verktaka sem síðan er skilgreindur sem launamaður hjá verkkaupa oft að endurgreiða háar upphæðir virðisaukaskatts og oftar en ekki taka á sig staðgreiðslu sem greiða átti af þeim tekjum sem verktakinn fékk í formi vertakagreiðslna frá viðkomandi. Þetta hefur oftar en ekki þýtt að mörg fyrirtæki hafa þurft að fara í þrot enda erfitt að taka á sig fjárskuldbindingar fyrir ógreidda skatta langt aftur í tíman. Til að gefa dæmi um það sem skiptir máli við ákvörðun þess hvort um gerviverktöku sé að ræða eður ei má nefna atriði eins og það hvort verktakinn nýti starfsstöð verkkaupa, hvort verkkaupi sé eini aðilinn sem verktakinn þjónusti, hvort verktakinn notast við stimpilklukku hjá verkkaupa eða fær verkfæri hjá verkkaupa. Ef t.d. svarið væri já við þessum atriðum sem ég nefni hér þá eru miklar líkur á því að um gerviverkstöku sé að ræða.

Það sem ef til vill er varasamast við gerviverktöku er ábyrgð verkkaupans. Hafi verktaki til dæmis ekki staðið skil á staðgreiðslu virðisaukaskatts eða öðrum opinberum gjöldum er hætt við því að skattyfirvöld geri verkkaupan ábyrgan fyrir þessum greiðslum verði á annað borð hægt að sanna að um gerviverktöku hafi verið að ræða. Það er mjög mikilvægt fyrir fyrirtæki og einstaklinga í rekstri að gera sér grein fyrir þessu en besta leiðin er að gera samninga til skamms tíma og tilgreina með skýrum hætti hvað fellst í samningssambandi aðila. Of mörg fyrirtæki flaska á þessu með þeim afleiðingum að þau þurfa að taka á sig himinnháar greiðslur opinberra gjalda. Verktakinn, gerviverktakinn, í reynd losnar alveg þar sem það er launagreiðandinn sem ber ábyrgð á skilum á opinberum gjöldum samkvæmt reglum skattaréttarins.

Flokkar: Lögfræði

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur