Fimmtudagur 28.11.2013 - 20:20 - Lokað fyrir ummæli

Er draumaráðningabók frádráttarbær rekstrarkostnaður?

Sú meginregla gildir í skattarétti að greiða skal skatta af öllum tekjum þar með talið tekjum lögaðila. Undantekningin frá þeirri reglu er að frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri má draga rekstrarkostnað, þ.e. þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Það getur verið mjög matskennt hvað sé viðurkenndur rekstrarkostnaður og hvað ekki. Þegar undirritaður starfaði innan skattkerfisins á sínum tíma kom upp skemmtilegt álitamál er varðaði það hvort draumaráðningabók gæti talist rekstrarkostnaður eða ekki. Höfðu skattyfirvöld gert athugasemd við gjaldfærslu slíkrar bókar í bókhaldi útgerðarfélags. Stjórnandi fyrirtækisins sem var gamalreyndur sjómaður taldi mikilvægt að hafa draumaráðningabók í rekstri útgerðarfélagsins þar sem það væri alvita að margir skipstjórar væru bergdreymnir og þyrftu oftar en ekki að ráða í drauma til að finna hvenær og hvar væri best að fiska. Ekki fylgir sögunni hvort skattyfirvöld samþykktu skýringu útgerðamannsins en rétt er að nefna það að ýmis rekstrarkostnaður á fyllilega rétt á sér sé hægt að tengja hann beint við tekjuöflun. Hins vegar ber að hafa í hug að heimildarreglan sem fellst í 31. gr. tekjuskattslaga er undatekningarregla og því þarf að vera gild og góð rök fyrir gjaldfærslu kostnaðar sem á að tengjast tekjuöflun rekstursins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur