Þriðjudagur 10.12.2013 - 18:22 - Lokað fyrir ummæli

Stöðvum nauðungarsölur

Eins og flestum ætti að vera ljóst þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að grípa til aðgerða í þágu skuldugra heimila í landinu. Eflaust eru skiptar skoðanir á þessum aðgerðum eins og öðru en undirritaður telur þetta mikið þarfaverk enda ljóst að grípa þarf til frekari aðgerða í þágu heimila í þessu landi. Ég tel reyndar að það þurfi einnig að taka á verðtryggingunni enda mæla öll rök fyrir því að fasteignalán til neytenda séu þess eðlis að þau eigi ekki í reynd að vera verðtryggð, hvernig sem lítið er á það þá gengur slíkt reikningsdæmi ekki upp hvað skuldarann varðar. Leikur mikill vafi á um lögmæti verðtryggingarinnar sem enn er ekki búið að leysa úr fyrir dómstólum.

Í tilefni af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að koma til móts við skuldug heimili landsins er vert að hafa í huga að mörg heimili í landinu eru undir hamri sýslumanna sem ganga að þessu leyti erinda kröfuhafa um uppboð eigna. Ríkisstjórnin virðist ætla að sjá við þessu og setja lög um að hægt sé að stoppa uppboð meðan verið er að vinna í þessum nýju úrræðum í þágu skuldugra heimila. Það er afar brýnt að þessar aðgerðir til að stöðva uppboð séu skilvirkar og þá sértaklega í þá veru að skuldarinn geti með lítilli fyrirhöfn fengið uppboði frestað.  Í reynd ætti þessi aðgerðapakki að vera þannig útbúinn að öllum uppboðum, er varða heimili skuldara, væri slegið á frest meðan verið er að vinna úr aðgerðapakkanum. Aftur á móti vaknar einnig spurning hvernig fer með þá sem hafa nú þegar misst eignir sínar hvort sem það var vegna hækkunar af völdum verðtryggingar eða vegna gengistryggðra lána. Þessir aðilar eiga sinn rétt og þarf að skoða vel hvort þeir hafi getað haldið í eignir sínar hefðu þeir notið þeirra úrræða sem ríkisstjórnin ætlar nú að bjóða upp á. Þetta getur verið erfitt að segja til um. Svo er það lögmæti verðtryggingarinnar. Verði hún dæmd ólögmæt, sem undirritaður telur miklar líkur á, þá verður leiðréttingin enn meiri og er vert að velta því fyrir sér hvort að sú óvissa sem um þetta atriði ríkir kalli ekki einnig á að uppboð á eignum skuldara verðir frestað mun lengur meðan úr því verður skorið fyrir dómstólum. Sanngirnissjónarmið mæla með því að skuldarar fái að njóta vafans að þessu leyti, svo ekki sé minnst á rök tengd því að takmarka tjón þeirra.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur