Föstudagur 14.03.2014 - 14:49 - Lokað fyrir ummæli

Gjafir eru skattskyldar

Í umræðunni hefur verið fjallað um gjafir til handa opinberum starfsmönnum og þá sérstaklega greiðslur vegna dómsmáls seðlabankastjóra en eins og margir vita þá greiddi seðlabankinn kostnað bankastjórans af rekstri dómsmáls hans gegn bankanum. Því hefur verið haldið fram að umrætt dómsmál hafi verið svo mikilvægt mál og að nauðsynlegt hafi verið, ekki síst fyrir bankann sjálfan, að fá úr því skorið fyrir dómi. Á þetta að réttlæta það að seðlabankinn hafi greitt kostnaðinn fyrir seðlabankastjóra. Hver svo sem réttlæting stjórnar seðlabankans kann að vera fyrir því að hafa greitt þennan kostnað þá er alveg ljóst að þegar lög um tekjuskatt eru skoðuð þá kemur á daginn að umrædd greiðsla er í reynd gjafagerningur sem er skattskyldur sem tekjuskattur. Þetta er ekki sambærilegt því að fá dæmdan málskostnað eins og fjallað hefur verið um vegna mála er tengjast Fjámálaeftirlitinu. Það ber að hafa í huga að umrædd kjör sem seðalabankastjóri naut frá seðlabankanum eru ekki almennt í boði fyrir almenning og því er mikilvægt að líkt og með aðra sem þurfa að greiða skatta vegna gjafa eða hlunninda að það sama eigi við um opinbera starfsmenn.

Annað mál sem einnig hefur viðgengist lengi eru dagpeningar sem sumar stéttir fá og í reynd greiða enga skatta af þrátt fyrir að umræddir dagpeningar séu ekki notaðir í þeim tilgangi sem þeir eiga að vera notaðir. Það hefur til dæmis tíðkast hjá sumum stéttum að fá greidda dagpeninga út samhliða því að fá allan kostnað við uppihald og fleira greiddan af vinnuveitanda. Af einhverjum undarlegum ástæðum telja vinnuveitendur í einhverjum tilvikum sér skylt að greiða starfsmanni bæði uppihald á ferðalögum og dagpeninga. Svo greiða þessir sömu starfsmenn enga skatta af umræddum greiðslum þar sem þær eru flokkaðar sem greiðslur upp í kostnað en sá kostnaður endar svo í raun og veru í bókhaldi vinnuveitandans. Eru kannski sumir rétthærri en aðrir þegar kemur að greiðslu skatta?

Flokkar: Lögfræði

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur