Föstudagur 28.03.2014 - 15:13 - Lokað fyrir ummæli

Ráðstöfun eigna

Á Íslandi gildir sú regla í erfðarétti að arfsalinn hefur mjög takmarkaðan rétt til að ráðstafa eigum sínum til annarra en skylduerfingja. Hér er þá átt við börn arfsala og maka. Í reynd getur arfsalinn eingöngu ráðstafað 1/3 af eigum sínum til annarra en skylduerfingja. Stundum koma upp tilvik þar sem arfsalinn vill að einhver annar en skylduerfingi taki arf eftir sig en það getur reynst erfitt, sérstaklega ef viðkomandi á börn eða maka. Í sjálfu sér er þetta ekki vandamál þegar arfsalinn á hvorki börn né maka. Undirritaður telur að réttur til að ráðstafa arfi eigi að vera frjáls og að arfsalinn eigi að geta ráðstafað eignum sínum að vild óháð því hvort hann eigi börn eða maka. Það hlýtur að teljast sjálfsagður réttur hvers og eins að hann geti ráðstafað eignum sínum eftir geðþótta.

Það að viðkomandi eigi börn eða maka eru ekki gild rök fyrir því að takmarka svo afgerandi ráðstöfunarrétt einstaklingsins. Að sama skapi ættu það ekki að vera rök til þess að takmarka ráðstöfunarrétt einstaklings sem situr í óskiptu búi, viðkomandi á ekki að þurfa að þola það þurfa að hlíta óbeinum fyrirmælum skylduerfingja um hvernig hann hagi sínum fjármálum. Hér er ég vitaskuld eingöngu að tala um ráðstöfunarrétt viðkomandi yfir sínum eigin eignum en ekki óskiptum eignum látins maka. Hér verður að eiga sér stað viðhorfsbreyting og að réttur fólk til ráðstöfunar eigna sinna sé alfarið í þeirra höndum óháð því hverjir munu svo erfa viðkomandi í framtíðinni.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Mjög athyglisvert.

    Hef tilhneigingu til að vera sammála höfundi.

    Kærar þakkir.
    RG

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur