Sunnudagur 27.04.2014 - 17:27 - Lokað fyrir ummæli

Ætternisstapi

Í störfum mínum sem lögmaður hef ég þurft að takast á við ýmis verkefni sem eru mjög sorleg. Ég hef sinnt störfum sem lögráðamaður fyrir einstaklinga sem eiga við andleg veikinda að stríða og einnig hef ég þurft að hjálpa aðstandendum einstaklinga sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Í tveimur tilvikum hef ég komið að máli þar sem einstaklingar hafa reynt að svipta sig lífi og verið vistaðir á geðdeild Landspítalans eftir þær tilraunir. Báðir þessir einstaklingar áttu sögu um að hafa reynt áður að svipta sig lífi. Í báðum þessum tilvikum voru þessir einstaklingar vistaðir í mjög skamman tíma á geðdeild spítalans áður en þeir voru sendir aftur heim án þess að aðstandendur þeirra væru látnir vita.  Báðir sviptu þeir sig lífi innan tveggja sólarhringa frá því að vera útskrifaðir af geðdeildinni. Í báðum tilvikum er um mikla sorgarsögu að ræða.

Það sem mér þykir ámælisvert er að ekki hafi verið fylgt eftir verklagsreglum sem ég tel að eigi ávallt að fylgja eftir í svona tilvikum. Að leyfa einstaklingum að útskrifast tiltölulega fljótt eftir að þeir eru vistaðir og eftir að hafa reynt að svipta sig lífi getur ekki talist eðlileg vinnubrögð hvað þá þegar aðstandendur þeirra eru ekki látnir vita og geta ekki gert ráðstafanir til þess að taka á móti þeim með einum eða öðrum hætti. Ég ætla ekki að setja mig í það dómarasæti að segja að ekki sé verið að vinna faglega á geðdeild Landspítalans en ég tel samt af reynslu minni af þessum málaflokki að það þurfi að taka umræðu um þetta og hvernig við erum að hlúa að fólkinu okkar sem á við andleg veikindi að stríða. Það þarf að gera betur til þess að mæta þörfum þessara einstaklinga og um leið auka rétt aðstandenda til að koma að ferlinu sérstaklega þegar einstaklingar sem eiga við þennan vanda að stríða eru enn sjálfráða. Þegar um ósjálfráða einstakling er að ræða, eða einstakling sem hefur verið sviptur sjálfræði, þá er alltaf fólk til staðar til að taka á móti viðkomandi. Það þarf að tryggja að sjálfráða einstaklingur hafi líka eitthvað öryggisnet til þess að detta á þegar honum er sleppt út. Hér tel ég brýnt að nýta aðstandendur og veita þeim aukinn rétt til þess að mega koma að gagni en ekki hundsa þá eins og dæmin virðast því miður stundum bera með sér. Ég er líka þeirra skoðunar að samfélagið í heild sinni þurfi að taka sig meira á í að fjalla um þetta vandamál sem er alltof algengt og spyrja sig þeirrar spurningar hvað getum við sem samfélag gert til að vinna gegn þessu meini sem sjálfsvíg svo sannarlega er.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur