Föstudagur 06.06.2014 - 08:50 - Lokað fyrir ummæli

Innheimta á villigötum

Eftir efnahagshrun var farið út í ýmsar lagabreytingar með því markmiði t.d. að auka rétt neytenda á lánamarkaði. Má nefna sem dæmi breytingar á regluverki varðandi ábyrgðarmenn og svo reglur um neytendalán. Jafnframt var farið í að breyta leikreglum er varða innheimtuaðferðir. Að mati undirritaðs var alls ekki gengið nógu langt í því að bæta úr kerfisvillum er varða t.d. innheimtu á hendur einstaklingum. Í dag eru starfrækt innheimtufyrirtæki sem taka að sér að innheimta kröfur á hendur einstaklingum sem hafa ekki getað af einhverjum ástæðu staðið í skilum með sínar skuldbindingar. Í þessu samhengi þarf að hafa hugfast að þrátt fyrir að nærri 6 ár séu nú liðin frá efnahagshruninu þá eru fjölmargir enn fastir í fjárhagserfiðleikum sem má rekja til hrunsins.

Verður t.d. að segjast eins og er að illa hefur gengið að fá innheimtuaðila til að vinna úr þessum vanda með skuldurum. Er staðreynd málsins sú að innheimtufyrirtækin hafa oftar en ekki tekið allt forræði á þeim kröfum sem þau innheimta fyrir kröfueiganda en kröfueigandi lýsir gjarna svo yfir að forræði innheimtunnar sé alfarið í höndum þess félags sem sér um innheimtuna. Afleiðingar þessa fyrir þann sem skuldar geta verið skelfilegar enda er innheimtufyrirtækið að bæta ofan á kröfu kröfueigandans kostnað sem getur orðið til þess að illa og jafnvel vonlaust sé fyrir skuldarann að vinda ofan af þeim skuldavanda sem hann er í. Eru til mörg dæmi þess að skuldari hafi haft t.d. getu til að greiða mánaðarlega af skuldum með t.d. einfaldri aðferð eins og að skuldbreyta og lengja í lánum en til að svo geti gengið þurft að gangast við því að staðgreiða háar fjárhæðir í innheimtukostnað sem á endanum hafa leitt til forsendubrests af hendi skuldara. Dæmi um þetta er mál sem undirritaður þekkir til þar sem aðili var með 7 milljóna króna skuld við kröfueiganda. Hafði skuldarinn getu til að greiða af umræddri kröfu mánaðarlega fjárhæð ef lengt yrði í láni viðkomandi. Hins vegar þurfti að greiða kostnað vegna innheimtu sem var kominn í nokkur hundruði þúsunda en umræddan kostnað þurfti að staðgreiða. Viðkomandi gat með engu móti staðið undir því og var því málinu sjálfhætt.

Það er alveg ljóst af mínu mati að kröfuhafar verða að gæta þess að auka ekki óhóflega eða að ósekju við vanda skuldara með því að fela 3ja aðila innheimtu kröfu þeirra. Það getur vart þjónað hagsmunum kröfueiganda að setja skuldarann í svo vonlausa stöðu að ómögulegt sé fyrir hann að endursemja um afborganir sökum þess að álögur innheimtuaðila standi því í vegi. Bæta þarf stöðu skuldara enn frekar einkum gagnvart innheimtufyrirtækjum. Það er með engu móti ásættanlegt að vandi þeirra sem skulda sé aukinn með álögum innheimtuaðila en markmið kröfueiganda á að vera til lengri tíma litið að skuldarinn efni sínar skuldbindingar. Það er skammsýni að ætla að það þjóni hagsmunum kröfueigandans að horfa á stöðu skuldara út frá því hvort hann geti greitt álögur til innheimtuaðila.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur