Fimmtudagur 26.06.2014 - 15:26 - Lokað fyrir ummæli

Orðræða þjóðar

Með efnahagshruninu voru ekki bara fjárhagsleg áföll sem dundu yfir þjóð vora heldur fylgdu annars konar áföll í kjölfarið sem minna hefur verið rætt um. Leiddu þau til þess að ýmsar breytinga urðu á persónu þjóðar vorar sem t.d. endurspeglast í þeirri orðræðu sem er ríkjandi í íslensku samfélagi. Umræðan í þjóðfélaginu er orðin svo neikvæð og illkvittinn að maður undrast stundum hversu slæmt ástandið er í reynd. Reiði sú sem varð til í kjölfar efnahagshrunsins átti rétt á sér enda eru margir einstaklingar og fyrirtæki í landinu í skuldafjötrum sem erfitt hefur reynst að vinna úr.

Sú uppbygging sem leiðtogar þessarar þjóðar tala fyrir hefur því miður ekki breytt líðan fólks í landinu eða breytt viðhorfi þeirra til lands og þjóðar. Í umræðunni heyrast oftar en ekki neikvæð ummæli um land og þjóð, hvað lífsskilyrðin eru slæm og hvað erfitt sé að lifa í landinu. Við erum vör við tíð verkföll og umræðu er varðar stjórnun landsins og fleira í þeim dúr. Sú blogg menning sem hefur tekið sér bólfestu á netmiðlum er heldur ekkert til að hrópa húrra yfir þar sem persónur eru oft svívirtar án nokkurra raka eða rökstuðnings og mannorðsmorð virðast vera daglegur viðburður. Er ekki komið nóg? Er ekki tími til kominn að við skoðum hvert við stefnum sem þjóð?

Þrátt fyrir allt er landið Íslands ekki svo slæmt að búa á. Hér er engin óöld og hér geysa hvorki drepsóttir né stríð. Ég get tekið undir að laun í landinu þurfa að taka mið af því hvað það kostar að lifa, jöfnuður þarf að vera meiri og meiri skilningur þarf að vera í garð skuldara. Passa þarf betur upp á fjölskyldufólk og eldri borgara. Við verðum samt sem áður að gæta velsæmis í garð hvers annars og um leið að sjá hvað í reynd gerir þjóð og land að sérstökum stað og hvað það er í reynd mikil forréttindi að fá að fæðast og búa á landi voru. Atriði sem um er hægt að kvarta yfir eru eitthvað sem við getum breytt og stjórnað.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur