Sunnudagur 10.08.2014 - 20:40 - Lokað fyrir ummæli

Aðgengi að náttúru Íslands

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum umræðan í þjóðfélaginu um gjaldtöku fyrir aðgengi að sumum náttúruperlum Íslands. Hafa sumir landeigendur gípið til þess ráðs að taka gjald fyrir aðgengi með þeim rökum að þeir þurfi að kosta til aðgengi að þjónstu og viðhaldi mannvirkja á umræddum stöðum. Þetta er að vissu leyti skiljanlegt enda hefur fjöldi ferðamanna aukist til muna og dylst engum að það hefur aukið á ýmis vandamál.

Hvað varðar lögfræðilega nálgun málsins þá er ljóst að hér skarast á almannaréttur og eignarréttur. Almannarétturinn tryggir aðgengi almennings að nátturunni þrátt fyrir eignarrétt landeigenda sem er þó stjórnarskrárvarinn. Eins og núverandi regluverki er háttað er með engu móti hægt að fullyrða að gjaldtaka við umræddar náttúruperlur sé lögleg. Það er þó til staðar heimild til gjaldtöku en hún er háð því að sérstakar aðstæður kalli á gjaldtökuna og hún sé framkvæmd t.d. í samvinnu við Umhverfisstofnun.

Hættan er sú að farið verði í það að rýra almannaréttinn með lagasetingu til þess að heimila framangreinda gjaldtöku. Almannarétturinn er mjög mikilvægur þegar horft er til aðstæðna á Íslandi enda náttúran samofin þjóðarsálinni. Hins vegar verður að viðurkenna að landeigendur hafa eitthvað til síns máls og er staðreyndin sú að þeir sem fara með ferðamenn í stórum stíl á umrædda staði gera það í atvinnu- og gróðaskyni. Því vaknar sú spurning hvort umræddir ferðaþjónustuaðilar þurfi í reynd ekki að greiða þann kostnað sem til fellur við viðhald og þjónustu við ferðamenn á umræddum svæðum. Hvaða rök eru fyrir því að náttúruperlur landsins séu fótumtroðnar af ferðafólki og sá sem á því græðir mest er sá sem flytur fólkið á staðinn. Hins vegar eru auðvitað margir sem fara líka á eigin vegum.

Við getum eflaust verið öll sammála því að sátt verður að nást um málið og hafa umræður um náttúrupassa og skattlagningu verið háværar. Hins vegar tel ég ekki farsælt að treysta hinu opinbera að taka nefskatt sem síðan á að nota til uppbyggingar á ferðaþjónstu því slíkt hefur því miður ekki gefið góðan árangur. Menn geta heldur ekki ætlast til þess að ríkið veiti skattfé til uppbyggingar á tilteknum landsvæðum á sama tíma og þeir standa fastir á stjórnarskrárvörðum eignarrétti sínum yfir því landsvæði. Það er ekki bæði hægt að éta kökuna og eiga hana.

Líklega þurfa landeigendur og þeir sem starfa í ferðaþjónstu að ná saman um lausn sem hentar báðum aðilum. Gæti samkomulagið falist í því að ferðaþjónustuaðilar leigji aðstöðu af landeigendum en leiga er í reynd heimild skv. lögum og ætti að vera einfaldari í framkvæmd en sjálf gjaldtakan. Samtök ferðaþjónstuaðila gætu haft milligöngu um þetta gjald og haft umsjón með hvernig því yrði ráðstafað. Þessi deila verður í reynd ekki leyst nema á milli þeirra sem hafa mestu hagsmunina hvað ferðaþjónustuna sjálfa varðar.  Ekkert af þessu er einfalt en mikilvægt er hins vegar að þingmenn og almenningur standi vörð um hinn forna almannarétt enda væri það mikil synd og óheillaspor að fórna almannaréttinum á altari eignarréttarins.

Flokkar: Lögfræði · Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur