Þriðjudagur 02.09.2014 - 21:39 - Lokað fyrir ummæli

Getur sá sótt rétt sinn fyrir dómi sem skráður er á vanskilaskrá?

Eins og staðan í þjóðfélaginu okkar er í dag þá hafa margir farið illa út úr efnahagshruninu og hefur fjöldi þeirra sem eru skráðir á vanskilaskrá aukist nokkuð frá hruni. Erfitt getur reynst að hreinsa sig af skránni enda eru fjármálastofnanir iðnar við að halda öllum skráningum um vanskil einstaklinga til haga. Ég er einn af þeim sem telja að breyta þurfi regluverkinu varðandi slíkar skráningar og að þeim sé eytt út fyrr en gert er og að færri mál séu skráð í umræddan grunn.

Með vísan til þessa má benda t.d. á þá staðreynd að í lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 er að finna ákvæði sem gefur t.d. málsaðila heimild til að krefja stefnanda í máli um svokallaða málskostnaðartryggingu. Er í ákvæðinu vísað til þess að ef ætla megi að aðili sé t.d. ekki fær um að greiða kostnað vegna málsins þá sé hægt að fara fram á umrædda tryggingu. Geti viðkomandi ekki framvísað umræddri tryggingu þá ber að vísa málinu frá.  Skiljanlega er verið að tryggja að aðilar sem eiga t.d. ekki eignir eða standa illa séu í reynd ekki að hefja málarekstur af litlu eða engu tilefni og kostnaður málsins lendir allur á mótaðilanum. Skýrt er fjallað um tilgang umrædds ákvæði í greinargerð með lögunum.

Hvað sem því líður þá er staðreynd málsins hins vegar sú að lögmenn nota umrætt ákvæði í auknu mæli og til þess eins að fá mál felld niður. Er þá oftar en ekki vísað til þess að málsaðili hafi komist á vanskilaskrá eða að fjárhagur hans hafi verið gerður opinber með skráningur í grunni eins og t.d. hjá Creditinfo. Þessu fylgir auðvitað ákveðin ábyrgð en það sem meira máli skiptir er að þeir sem þurfa að sækja rétt sinn fyrir dómstólum og geta staðið undir kostnaði lögmanns síns og mótaðila geta átt á hættu að mál þeirra séu felld niður t.d. vegna þess að þeir hafa komist inn á vanskilaská og vegna þess að þeir eru krafðir um málskostnaðartryggingu. Slík trygging getur vel farið yfir það sem er í reynd hin raunverulegur kostnaður málsins enda er fjárhæð tryggingar matsatriði dómara hverju sinni. Hér er fín lína sem þarf að skoða betur enda ólíkir en gildir hagsmunir sem vegast á. Auðvitað þarf að gæta þess að ekki sé hægt að valda mönnum skaða t.d. með tilhæfulausum málarekstri. Hins vegar geta komið upp tilvik þar sem einstaklingar hafa gott mál í höndum en þurfa frá að hverfa þar sem þeir geta ekki sett fram tryggingar fyrir málskostnaði  í málinu. Heppilegra hefði verið að mínu mati ef lagaákvæði þetta hefði kveðið skýrar á um þau tilvik sem réttlæta kröfu um málskostnaðartryggingu.

Flokkar: Lögfræði

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur