Þriðjudagur 09.09.2014 - 15:34 - Lokað fyrir ummæli

Fórnarlömb getuleysis yfirvalda

Í byrjun september fóru af stað uppboð á eignum fólks í skuldavanda þrátt fyrir loforð ráðherra um að gripið yrði til aðgerða svo fresta mætti uppboðum fram í mars á næsta ári. Enn er beðið eftir því að ráðherra leggi fram frumvarpið svo hægt verði að fara í það að fresta þeim uppboðum sem fyrirhuguð eru í þessum mánuði.

Í umfjöllun um málið hefur komið fram óánægja um það að ekki hafi verið gripið til aðgerða fyrr þar sem ljóst mátti vera að úrræði ríkisstjórnarinnar vegna leiðréttinga á húsnæðislánum einstaklinga tækju lengri tíma að fara í gegn. Ekki getur það talist sanngjarnt að þeir sem t.d. hafa fengið boðun um að fasteignir þeirra eigi að bjóða upp í septembermánuði fara á mis við frestun á uppboðum meðan þeir sem t.d. hafa fengið boðun um uppboð í októbermánuði fá þá frestun. Mér er spurn hvort embættismenn ráðuneytisins og embætta sýslumanns séu t.d. ekki meðvitaðir um jafnræðisregluna, er virkilega hægt að mismuna fólki á Íslandi með þessum hætti? Eiga þeir sem t.d. fá á sig uppboð í september ekki jafnan rétt á frestun og þeir sem eiga á hættu að eignir þeirra fari á uppboð mánuðina þar á eftir?

Grundvallarreglan í þessu hlýtur að vera sú að gæta þurfi að jafnræði í þessu og að réttindi fólks fari ekki forgörðum vegna slælegra vinnubragða embættismanna og skammsýni þeirra sem taka ákvarðanir. Ljóst er að fyrir mörgum mánuðum síðan var hægt að sjá það fyrir að fresta hafi þurft uppboðum mun lengur en gert var. Skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar taka einfaldlega mun lengri tíma í úrvinnslu eins og fréttir sl. daga hafa staðfest.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur