Sunnudagur 28.09.2014 - 14:57 - Lokað fyrir ummæli

Sex hundruð sumur

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með skrifum mínum að ég hef haft ýmislegt að segja um hvernig unnið er að málum skuldugra heimila og fyrirtækja innan bankakerfisins. Margt hefur gengið á og sumt hefur verið lyginni líkast enda reynt að ganga eins nærri þessum aðilum og hægt er þegar kemur að innheimtu krafna bankanna. Þrátt fyrir að vera löglærður og ýmsu vanur þá er ótrúlegt að horfa upp á hvernig þetta kerfi virkar. Að það sé í reynd hægt að hundsa dóma og nota til þess lögskýringar og túlkanir sem fara gegn betri vitund bara af því að það hentar fjármálafyrirtækjunum er ótrúlegt að horfa upp á. Virðist sem það sé allt reynt til að ganga á rétt skuldarans eins og ekkert annað væri eðlilegra. Er þetta ótrúlegt þegar litið er til þess að nú eru sex ár liðin frá hruni og það virðist lítið hafa breyst. Fyrir okkur sem höfum verið að reyna að vinna í þessum málum og moka flórinn má með sanni segja að þessi tími hefur verið eins og sex hundruð sumur en ekki bara sex.

Staðreyndin er sú að margt er óuppgert í skuldamálum einstaklinga og fyritækja og enn er verið að berjast við fjandsamlegt kerfi sem gengur harðar fram en áður. Í þessu samhengi vil ég benda á nauðungasölur sem fara nú fram en oftar en ekki er verið að fara fram á sölu eigna sem vitað er að ná ekki að dekka kröfur þeirra sem fara fram á uppboðin. Oftar virðist hér um að ræða aðgerðir til að knýja fram efndir sem fyrirfram er vitað að nái því markmiði ekki. Þá er spurningin hvers vegna er verið að fara fram á uppboðið ef ekki til að fá kröfuna greidda með andvirði eignarinnar?

Svo eru það kröfurnar sem eru vegna tækjakaupa. Mörg dæmi eru um það að litlir atvinnurekendur standa uppi með tugmilljóna kröfur á sér vegna tækjakaupa þegar ljóst má vera að umrædd tæki sem standa eiga undir fjármögnunni gera það alls ekki. Dæmi um þetta er einstaklingur sem rekur flutningaþjónustu á sínu nafni og er með þrjá átta ára gamla sendlabíla. Lánin á þeim standa í dag í nærri 18 milljónum en ljóst er að umrædd tæki ná ekki að dekka þá fjárhæð ef til uppboðs kæmi eða sölu þeirra. Eigandinn getur ekki með góðu móti endurnýjað tækin eða komið þeim í verð svo hann geti leyst sig undan þessum fjárskuldbindingum. Hann þarf því að horfa upp á að annað hvort reyna hvað hann getur að reka þetta áfram í óbreyttu ástandi eða fara í þrot. Á sama tíma fer kröfuhafinn fram á hærri greiðslur upp í kröfuna. Hér er ekki verið að taka tillit til aðstæðna. Það að kröfuhafanum þyki réttlátt að krafan sé hækkuð um meira en helming og að skuldarinn eigi að gangast við því og greiða sýnir í hnotskurn villuna í þessu kerfi og að kröfuhafarnir ætli sér ekki að taka neina ábyrgð á aðstæðum sem orðið hafa í þjóðfélaginu við hrunið.

Einnig ber að nefna ótrúlegt ástand sem orðið hefur þegar kemur að leiðréttingum á gengislánum innan bankanna. Mörg dæmi erum um það að þegar kemur að því að semja um skuldbindingar fólks og farið í afskriftir, hvort sem það er vegna gengislána eða annarra fjárskuldbindinga, að gengið sé á ábyrgðarmenn með eftirstöðvar þrátt fyrir að samið hafi verið um kröfurnar við aðalskuldara. Dæmi um þetta er mál konu nokkurar sem gerði samning við bankan um fjárskuldbindingar sínar og fékk hluta af þeim afskrifaðar. Hún þurfti að greiða af eftirstöðvum næstu þrjú árin en eftir þann tíma átti krafan að vera að fullu greidd. Á sama tíma hafði ábyrgðarmaður á kröfum konunnar fengið leiðréttingu á bílaláni sem ábyrgðarmaðurinn hafði verið með og var í erlendri mynt. Var viðkomandi að fá í gegn endurútreikning númer tvö. Þegar ábyrgðarmaðurinn spurðist fyrir um endurgreiðsluna vegna leiðréttingarinnar var honum tjáð að þeirri fjárhæð, sem var upp á nærri 1 milljón, hefði verið skuldajafnað við skuldir fyrrgreindrar konu sem viðkomandi var í ábyrgð fyrir. Þetta gerði bankinn þrátt fyrir að aðalskuldarinn væri að greiða af skuldum sínum og væri búinn  að semja við bankan. Hér tók bankinn einhliða ákvörðun um skuldajöfnum og án þess að leggja það fyrir aðalskuldarann eða ábyrgðaraðilann. Hverjum hefði dottið það í hug að þegar samið væri um skuldir aðila líkt og gert var í þessu tilviki að bankinn færi að ganga lengra í því að fá meira upp í kröfu sína. Hvers virði eru svona samningar við bankana eiginlega? Það mætti halda að svo lengi sem fyrirtæki er kallað banki þá megi það taka peninga af fólki án nokkurs samráðs eða samnings sem undir öðrum kringumstæðum væri ekki kallað annað en þjófnaður. Hafa menn ekki lært neitt síðastliðin sex ár eða erum við kannski kominn aftur á upphafsreit?

Hvað er þá orðið okkar starf

í sex hundruð sumur?

Höfum við gengið til góðs

götuna fram eftir veg?

Flokkar: Lögfræði · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur