Mánudagur 27.10.2014 - 10:18 - Lokað fyrir ummæli

Skattar og stjórnsýsla

Fyrir nokkru tók ég að mér mál fyrir umbjóðanda sem sneri að samskiptum við skattyfirvöld. Umbjóðandinn hafði átt félag sem hann hafði selt en honum hafði verið ráðlagt af fagfólki að skipta upp félaginu og selja svo. Fór hann að þeim ráðum og þremur árum eftir sölu félagsins fékk hann fyrirspurnarbréf frá Ríkisskattstjóra þar sem hann var beðinn um að upplýsa um vexti málsins. Var bréfinu svarað og heyrðist ekkert í Ríkisskattstjóra fyrr en tveimur árum seinna eða fimm árum eftir að umrædd sala hafði átt sér stað. Var þá aftur spurst fyrir um sölu félagsins og umbjóðanda mínum gert að gera grein fyrir ákveðnum atriðum í tengslum við söluna. Eftir að því bréfi var svarað var farið í það að afla upplýsinga um afstöðu Ríkisskattstjóra og hvers vegna málið væri í þeim farvegi sem það var. Í samskiptum við Ríkisskattstjóra var reynt að benda á ýmis atriði varðandi formhlið málsins og leitað svara við því af hverju embættið væri að spyrja sömu spurninga og það gerði þremur árum áður. Málið endaði með þeim hætti að Ríkisskattstjóri gerði breytingar á framtölum umbjóðandans og færði hann úr 10% skatthlutfalli í nærri 40%. Við málsmeðferðina var reynt með góðum rökum að fá málið fellt niður. Umbjóðandinn stóð eftir með skattbreytingu og mikinn kostnað þegar upp var staðið. Málið var kært til yfirskattanefndar sem nærri tveim árum seinna komast að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið rétt staðið að málinu af hendi Ríkisskattjóra og felldi úr gildi umrædda breytingu. Umbjóðandinn fékk nærri 70 milljónir endurgreiddar ásamt nærri 7 milljónum í vexti. Í reynd hefði málið aldrei átt að fara af stað þar sem málsgrundvöllur var veikur.

Svo er það Seðlabankinn en til mín kom umbjóðandi með bréf frá seðlabankanum þar sem hann var spurður út í gjaldeyrisfærslur sem bankinn taldi vera ólöglegar. Umræddar færslur áttu sér eðlilegar skýringar sem í reynd voru að mati undirritaðs heimilar samkvæmt því regluverki sem gilti um slíkar gjaldeyrisfærslur. Fóru af stað bréfaskrif og gagnaöflun sem tók bæði tíma og kostaði fjármuni fyrir umbjóðandan. Sex mánuðir liðu frá síðustu samskiptum þegar einblöðungur barst frá bankanum til umbjóðanda míns. Á bréfinu, sem var með virðulegum blæ með merki seðlabankans og á fínum pappír, var ein setning sem sagði: „Þar sem lögin eru ólögleg þá er málið fellt niður.“ Þessi setning er auðvitað að mörgu leiti kómísk þar sem fyrir það fyrsta það er ekki á valdi stjórnvalds að kveða á um það hvort lög séu ólögleg eða ekki. Í reynd hefði bakinn frekar átt að segja að málið væri fellt niður og ekki orði meira.

Hvað er það í okkar kerfi sem veldur því að hinn almenni borgari þarf að vera í hlutverki aðilans sem berst við vindmyllur þegar kemur að því að eiga í samskiptum við hið opinbera. Er það ekki reynd þannig að hið opinbera á að þjóna almenningi en ekki öfugt? Er ekki eðlilegt að kerfið sé skilvirkara og að mál séu ekki að taka of langan tíma og að ekki sé verið að fara af stað með mál sem skila litlu sem engu þegar upp er staðið. Er ekki í lagi að endurskoða þetta kerfi. Það er vel hægt að spara t.d. fjármuni með því að vera ekki með kerfi sem reynir að halda dauðadæmdum málum gangandi og getur svo ekki brotið odd af oflæti sínu og fellt mál niður þegar þeim er bent á villur í  málatilbúnaði. Þarf þetta litla samfélag að vera með svona kerfi?

Flokkar: Dægurmál · Lögfræði · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur