Þriðjudagur 28.10.2014 - 14:31 - Lokað fyrir ummæli

NOH8

Fyrir nokkru kynnist ég samtökum sem standa að baki NOH8 herferðinni en um er að ræða líknarfélag í Bandaríkjunum Norður-Ameríku sem hefur það að markmiði að efla jafnrétti almennt, milli kynjanna og jafnan rétt til hjúskapar. Markmiðum sínum reyna samtökin að ná í gegnum menntun og fræðslu, með almennri málafærslu eða advocacy, í gegnum netmiðla og með mótmælum.

Herferðin byrjaði sem þögul mótmæli í formi ljósmyndagjörnings ljósmyndarans Adam Bouska og lífsförunautar hans Jeff Parshley í kjölfar þess að fylgisþing Kaliforníufylkis samþykkti lagabreytingu sem bannaði hjónaband milli einstaklinga af sama kyni árið 2008, svokallaða Proposition 8. Í gjörningnum voru ljósmyndir af einstaklingum með límband fyrir munninum til að tákna þöggun þeirra og skammstöfunin NOH8 rituð á annan vangan. Fjöldi einstaklinga tóku þátt í gjörningnum og ekki aðeins sam- og tvíkynhneigðir heldur gagnkynhneigðir líka.

Það sem vakti athygli mína var að mörgum af fylgismönnum þessara samtaka þótti ekki endilega þörf á því að fá íslenska aðila til liðs við sig þar sem Íslendingar hefðu náð tiltölulega langt á þessum vettvangi. Mér þótti það sérstök afstaða enda að mínu mati skylda Íslendinga sem þjóðar í fararbroddi á þessu sviði til að vekja athygli á því hversu vel okkur hefur miðað áfram í að auka mannréttindi hér á landi og að við ættum um leið að vera talsmenn fyrir slíkri þróun annars staðar í hinum stóra heimi.

Mér þykir umrædd samtök margt áhugaverð og tel að bæði almenningur og stjórnmálamenn ættu ekki að láta sitt eftir liggja og birta af sér mynd með umræddum letrunum og límbandi fyrir munni sér enda er ljóst að við megum aldrei sofna á verðinum í barráttunni fyrir auknum mannréttindum og jafnrétti. Eins og Kennedy sagði; „One person can make a difference, and everyone should try“.

Ég get samhliða þessu upplýst um það hér að til stendur að láta reyna á lögmæti þess að samkynhneigðum á Íslandi sé meinað að gefa blóð. Þrátt fyrir góðan tilgang bannsins í upphafi verður að draga tilvist þess í efa nú á dögum, einkum þegar litið er til þess að allt blóð í dag er skimað. Þá verður líka að hafa í huga að samkvæmt því sem við heyrum í fréttum og upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum þá virðist mesta smithættan vera hjá sprautufíklum, jafnt konum sem körlum.

Flokkar: Dægurmál · Lífstíll · Lögfræði · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur