Miðvikudagur 26.11.2014 - 16:39 - Lokað fyrir ummæli

Er Dróma ósómi að verða að Arion ósómi

Fyrir meira en ári síðan birtist grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Drómi ósómi. Í þeirri grein var farið yfir vinnbrögð fjármálafyrirtækisins eða innheimtufyrirtækisins Dróma.  Eins og svo margir eflaust þekkja var umrætt fyrirtæki þekkt fyrir ótrúlega óbilgirni í garð skuldara sinna.  Það sem einkenndi þetta ágæta fyrirtæki líka var getuleysi þess til að taka á málum og framfylgja hinum einföldustu vinnureglum eins og t.d. að halda utan um skjöl og gögn sem tengdust málum sem þar voru í vinnslu. Þetta er þó liðin tíð sem betur fer þar sem Arion-banki hefur nú tekið við flestum þessara krafna og sér nú um að vinna úr þeim vanda og í raun vitleysu sem myndaðist hjá Dróma.

Við yfirtöku Arion-banka á kröfum Dróma vonaðist t.d. undirritaður til þess að unnið yrði betur úr málum og að skuldarar fengju betri úrlausnir sinna mála, úrlausnir sem t.d. tækju meira mið af því sem önnur fjármálafyrirtæki voru að gera fyrir þá skuldara sína sem áttu í skuldavanda.

Í fyrstu má segja að Arion-banki hafi tekið vel á málum og ekki verður hægt að bera þessi tvö fjármálafyrirtæki saman enda ljóst að mati undirritaðs að Drómi fór lengra en önnur fjármálafyrirtæki í óbilgirni ekki nema vera skyldi tiltekið bílafjármögnunarfyrirtæki sem hefur því miður verið annálað fyrir mikla ósvífni í garð skuldara. En það sem sætir furðu minni er hversu erfilega Arion-banki virðist eiga með að loka og vinna úr mörgum þeirra mála sem bankinn tók yfir af Dróma þrátt fyrir að öðrum og sanngjarnari aðferðum sé beitt við úrvinnslu þeirra. Oftar en ekki virðast vanta gögn bakvið kröfur, illa gengur að átta sig á aðferðafræði eða ákvörðunum sem fulltrúar Dróma virðast hafa tekið við úrvinnslu sumra mála. Virðist því miður sem erfiðlega gangi fyrir Arion að vinda ofan af þeim ósóma sem tilhafður var hjá Dróma í mörgum mála og því sé bankinn komin í öngstræti með þessi mál eða getur verið að Arion-banki hafi leyst umræddar kröfur til sín á svo háu verði að það sé í reynd erfitt að gefa nokkuð eftir þrátt fyrir að umræddar kröfur séu vonlausar.

Erfitt er að segja til um þetta. Það sem er aftur móti brýnt og má ekki missa sjónar á er það að margir skuldarar sem áttu því miður í viðskiptum við Dróma hafa ekki enn fengið lausn á sínum skuldavanda nú sex árum eftir hrun. Það ætti að vera forgangsmál úr því sem komið er að þessir aðilar fái úrslausn sinna mál sem fyrst.

Flokkar: Dægurmál · Lögfræði · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur