Mánudagur 29.12.2014 - 10:13 - Lokað fyrir ummæli

2014 og þjóðarsáttin

Nú er árið 2014 senn á enda og þá er venja að fara yfir farinn veg. Það verður ekki hjá því komist að fara yfir ástandið í þjóðfélaginu okkar á þessum tímamótum. Hver sem metur stöðuna í dag kemst í reynd ekki að annarri niðurstöðu en þeirri að þjóð okkar er í vanda og hér ríkir algjört stefnuleysi. Vandinn sem upp hefur komið t.d í heilbrigðiskerfinu endurspeglar vanda á fleiri sviðum innan kerfisins. Ekki virðist nóg að vandinn sé bundinn við að fjármagna heilbrigðiskerfið heldur er einnig sama vanda að finna t.d. í menntamálum, löggæslu og í að bæta kjör ellilífeyrisþega og þeirra sem nauðsynlega þurfa á aðstoð að halda frá hinu opinbera.

Hvar sem stigið er niður fæti verður ekki fram hjá því litið að ríkisstjórn þessa lands hefur því miður ekki mótað heilstæða stefnu til að taka á þeim vanda sem nauðsynlegt er að vinna á. Ber forgangsröðun verkefna í fjárlögum stefnuleysinu vitni. Svo virðist sem haldreipi þessarar ríkisstjórnar til að halda velli sé skuldaleiðréttingin sem hún setti af stað fyrir heimilin í landinu. Er allt undir hana hlaðið í þeirri vona að dugi til að framfleyta stjórnarheimilinu út þetta kjörtímabil. Þá skal ekki heldur gleyma þeim skattalækkunum sem ríkisstjórnin á heiðurinn af. Þótt skattalækanir séu í reynd gott mál þá verður samt að velta fyrir sér tímasetningunni. Er skynsamlegt að lækka skatta þegar það reynist okkur ofviða að fjármagna grunnstoðir samfélagsins? Þá má ekki gleyma því að svo virðist sem hin gamalgróna séríslenska spilling sé aftur farin að gera vart við sig í kerfinu, vinapólitíkin er farin af stað og allt gert til að byggja undir vildarvini og flokksgæðinga.

Hvað sem þessu líður þá er sorglegt að ekki hafi tekist betur til, að hér sé ekki reynt að tryggja betur grunnstoðir samfélagsins, byggja upp kerfi þar sem bæði heilbrigðiskerfið, mennta- og samtryggingarkerfið sé tryggt og byggt upp þannig að sé þjóð vorri til sóma. Eins og staðan er í dag er mikilvægt að stjórnvöld byggi upp traust á stjórnkerfið og um leið sameini þjóðina í því markmiði að byggja upp þjóðfélag sem þjóni hagsmunum sem flestrar. Það er orðið forgangsverkefni að búa svo í haginn að hér vilji fólk byggja upp framtíð sína. Eflaust er ekki hægt að ætlast til þess að pólitískir leiðtogar sem alist hafi upp með silfurskeið í munni sér get t.d. sett sig í spor almúgans eða þeirra sem þurfa að berjast við kerfið. Mikið vantar upp á að leiðtogar séu til staðar sem hafi skilning á aðstæðum fólksins en einmitt slíka leiðtoga þarf til að sameina þjóð vora.

Það er deginum ljósara að eitthvað þarf að breytast og marka þarf nýja stefnu til að vinna gegn þeirri þróun sem því miður hefur átt sér stað undanfarin ár. Hér þarf að forgangsraða í reynd og ætti árið 2015 að vera það ár sem ný stefna verður tekin í stjórnun landsins. Þessu verður ekki áorkað nema með þjóðarsátt en henni verður aldrei hægt að ná fram nema að stjórnmálamenn þessa lands hafi skilning á þörfum fólksins. Það er ekki hægt að tala um þjóðarsátt á sama tíma og fjallað er um gælustyrki til sérhagsmunahópa, eða kaup á bifreiðum ráðherra eða byggingu höfuðstöðva fyrir ríkisbanka og um leið gera kröfu um það að hin almenni launamaður sætti sig við enn frekari skerðinu lífskjara sinna.

Að sama skapi verður framtíðarlausn ekki fenginn á vanda heilbrigðiskerfisins nema fyrir þjóðarsátt. Framtíð þjóðar vorrar er jú bundinn við það hversu vel okkur tekst t.d. að halda uppi nútíma heilbirgðisþjónustu, að við getum tryggt öldruðum sæmandi ævikvöld, að við hlúum að okkar minnstu bræðrum og systrum og að grunnstoðir samfélagsins haldist.

Íslendingar eru upp til hópa harðduglegt fólk sem hefur tekist í gegnum mikla erfiðleika og fórnir að byggja upp nútíma samfélag sem stenst samanburð við stærri þjóðir heimsins. Það er jú í reynd ótrúlegt að 300 þúsund manna samfélagi hafi tekist að byggja upp þetta nútímaþjóðfélag en það hefur tekist með fórnum almennings þessa lands. Það er hverju okkar brýnt forgangsverk að gæta hagsmuna þjóðarinnar og tryggja framgang og velgengni hennar sem heildar. Í því sambandi verður að brýna fyrir ráðamönnum að ekki er hægt að hunsa það sem hefur skilgreint þessa litlu þjóð í gegnum aldirnar, í gegnum hörmungar sultar, fátækar og náttúaflanna. Í gegnum öróf aldanna höfum við verið menningarþjóð, ljósviti við ystu sker, og aflað okkur virðingar og hróðurs fyrir þær sakir. Okkar velgengni og velmegun verður aldrei reist á efnahagslegir hagsæld einnri saman. Því skulum við ekki og megum ekki gleyma.

[…] því hvað er auður og afl og hús

ef eingin jurt vex í þinni krús.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur