Sunnudagur 01.03.2015 - 13:21 - Lokað fyrir ummæli

Að fylgja sannfæringu sinni

Oft er sagt að fólk eigi að fylgja sannfæringu sinni og standa á sínu. Hlutirnir eru aftur á móti ekki alltaf svo einfaldir og hagsmunir geta verið misjafnir og stangast á. Lögmenn standa oft í svona aðstæðum, til dæmis þegar kemur að því að veita umbjóðendum ráðgjöf um næstu skref í málum. Það getur reynst erfitt að vinna úr málum sem snúa að prinsipum, þar sem umbjóðandinn vill fara í málarekstur sama hvað það kostar og þrátt fyrir að ekki sé um mikla fjárhagslega hagsmuni um að ræða. Það er jú prinsipið. Hér þurfa lömenn oft að meta mál út frá ýmsum viðmiðum eins og t.d.  hvort það sé hreinlega forsvaranlegt að fara í málarekstur byggt á prinsipforsendum einum. Þrátt fyrir vilja umbjóðandans þá er mikilvægt að átta sig á því að ábyrgð sérfræðingsins, það er að segja lögmannsins, á framvindu máls er mikil. Lögmenn verða að meta það sjálfstætt hvort og þá með hvað hætti hagsmunir umbjóðanda þeirra er best tryggðir óháð vilja umbjóðandans. Á þessu sjálfstæða mati þarf lögmaðurinn svo að byggja ráðgjöf sína.

Staða lögmanna hefur breyst mikið á undanförnum árum þegar litið er til dæmis til þeirra verkefna sem þeir hafa þurft að takast á við, ég tala nú ekki um eftir bankahrunið. Fjöldi lögmanna hefur einnig aukist mikið en það hefur m.a. leitt til þess að fleiri lögmenn eru um þau verkefni sem lögmenn sinna á hverjum tíma. Ein birtingarmynd þess er sú staðreynd að hinar ýmsu málaflækjur eru farna að gera vart við sig í réttarvörslukerfinu, mál sem í reynd eiga ekkert erindi þangað. Mál sem sum hver eru í þess eðlis að geta með tiltölulega einföldum hætti verið leyst inni á kontor lögmannsins en ekki fyrir dómi. Þar spilar ráðgjöf lögmannsins stóra rullu. Þeir sem vinna sem lögmenn og hafa gert lengi taka eftir þessu. Því má velta fyrir sér hvort í einhverjum tilvikum helgist málareksturinn ef til vill meira af tekjuvon lögmannsins en sannfæringu umbjóðandans um mikilvægi þess að standa á sínum prinsippum.

Dæmi um þetta er t.d. mál sem ég kom að þar sem farið var af stað í dómsmál á grundvelli skaðabóta sem málsaðili fór fram á vegna tjóns sem umbjóðandi minn var sagður hafa valdið. Í gögnum málsins var aftur á móti engin sönnun fyrir því að umbjóðandi minn hafi valdið umræddu tjóni né heldur var þar að finna tilvísun í þann lagagrundvöll sem ábyrgð umbjóðandans átti að byggja á. Enginn grunnur fyrir málarekstri var til staðar. Eftir nærri eins og hálfs árs málarekstur tapaðist málið fyrir viðkomandi og umbjóðandi minn var sýknaður af öllum kröfum. Eftir stóð hár málskostnaður sem gagnaðilinn þurfti að greiða. Hér er ekki um einstakt tilvik um að ræða. Samkeppni milli lögmanna er orðin það mikil að svo virðist sem farið sé að gæta meiri tilhneigingar en áður til að setja mál af stað en ella þrátt fyrir lítið tilefni. Tjónið af slíkum málum er alltaf umbjóðandans. Með þessu er ég ekki að mælast gegn því að fólk standi á sínum prinsippum heldur vil ég brýna lögmenn til þess að vera vandir að virðingu sinni og hafa fagleg vinnubrögð í heiðri. Lögmaðurinn má vitaskuld aldrei í störfum sínum láta stýrast af öðrum hagsmunum en umbjóðandans og sérstaklega þegar kemur að því að meta forsendur fyrir rekstri dómsmála.

Það er ef til vill ekki úr vegi að með aukinni framleiðslu lögmanna þá sé hugað að því að ekki sé slakað á gæðakröfunum. Aukin framleiðsla á kostnað gæðanna er engum til hagsbóta á þessum vettvangi. Lögmenn gæta mikilla hagsmuna og þurfa því umfram allt að vera starfinu vaxnir.

 

Flokkar: Lögfræði

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur