Miðvikudagur 29.04.2015 - 09:33 - Lokað fyrir ummæli

Vanskilaskrá í boði bankana

Færst hefur í vöxt að bankar séu að innheimta kröfur sem eiga í reynd ekki rétt á sér. Dæmi eru um að bankar innheimti kröfur og um leið skrái einstaklinga á vanskilaskrá vegna þeirra þegar ekkert er á bak við kröfurnar, t.d. engin skuldaskjöl sem standast regluverk og lög. Ég hef komið að mörgum málum þar sem t.d. skuldaskjöl vantar og kröfur eru jafnvel fyrndar. Við þessar aðstæður er ótrúlegt að horfa upp á það að fyrirtæki eins og Creditinfo skuli viðhalda skráningu á slíkum einstaklingum inni á vanskilaskrá. Creditinfo hefur að vísu vísað á ábyrgð bankanna í þessum efnum en ég tel ekki hægt að líta fram hjá því að félög sem halda uppi opinberri skráningu í skjóli opinberra leyfa hljóta að bera ábyrgð fyrir sitt leyti enga að síður.

Samkvæmt starfsleyfi Creditinfo skal eyða upplýsingum um einstakar skuldir sé vitað til þess að þeim hafi verið t.d. komið í skil eða þær eigi í reynd ekki rétt á sér. Það er skiljanlegt að félög eins og Creditinfo leiti til kröfueigandans eða að þeir leggi ábyrgð á þá að þeir séu að upplýsa rétt um atvik máls. Hins vegar þegar ábendingar koma frá skuldara sjálfum þurfa félög eins og Creditinfo að kanna til hlítar grundvöll fyrir skráningu á vanskilum og hvað liggur þar að baki. Það að það sé banki sem eigi kröfuna og fari fram á skráninguna er ekki nægileg ástæða til þess að réttmæti skráningar sé hafið yfir allan vafa.

Viðurlög geta legið fyrir því ef ekki er rétt staðið að skráningum sem þessum og ef verið er að viðhalda skráningu sem eiga ekki rétt á sér. Ef atvik eru t.d. með þeim hætti að skuldaskjöl finnist ekki hjá kröfuhafa þá sé í reynd ekki heimilt að viðhalda kröfunni né heldur þá skráningu um vanskil. Mörg mál hafa t.d. komið upp eftir að bankar hafa verið yfirteknir af öðrum bönkum og ekki hafi verið haldið nægilega vel utan um gögn og önnur skjöl sem tilheyra kröfum bankanna. Mikilvægt er að þessu sé vel fylgt eftir og að fyrirtæki sem halda utan um skráningu vanskila og skulda einstaklinga spyrji líka spurninga og gangi ekki að því sem vísu bara af því það eru bankar sem eiga í hlut að skráningar eigi rétt á sér.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur