Mánudagur 04.05.2015 - 13:48 - Lokað fyrir ummæli

Stór dagur í réttindabaráttu samkynhneigðra

Fyrir nokkru var ég beðinn um að taka að mér mál þar sem samkynhneigðum einstaklingi var bannað að gefa blóð vegna kynhneigðar sinnar. Að mínu mati var um brot á mannréttindum viðkomandi að ræða og var farið af stað með að kanna möguleika á málsókn gegn hinu opinbera. Við vinnslu málsins kom í ljós að mikið vantaði upp á að nægileg rök lægju að baki því að banna samkynhneigðum að gefa blóð. Tækni í læknisfræði hefur fleygt það mikið fram að auðvelt er að koma í veg fyrir að sýkt blóð verði notað í læknismeðferð. Samhliða því hefur þekking á sjúkdóminum sjálfum fleygt mikið fram.

Nú nýlega var kveðinn upp sá dómur í Evrópu þar sem bann við blóðgjöf samkynhneigðra var talið brjóta í bága við mannréttindi viðkomandi. Staðfestir dómurinn niðurstöðu mína á sínum tíma um að bann við blóðgjöf samkynhneigðra bryti í bága við mannréttindi þeirra. Ég varð þess áskynja eftir samtöl mín við þá sem starfa innan þess hluta heilbrigðisþjónustunnar sem sér um þennan málaflokk að þar gætir fordóma og misskilnings. Til dæmis var við mig sagt að það væri líka réttur fólks að hafna blóði úr hommum. Slík rök eiga auðvitað ekki að vera til staðar árið 2015 og hvað varðar löggjöf um blóðgjafir þá er það alveg skýrt að ekki verður hægt að mismuna fólki nema að gild og góð rök liggi að baki. Þau rök að banna blóðgjafir samkynhneigðra til þess að tryggja öryggi blóðþega eiga bara ekki við árið 2015 þar sem allt blóð er skimað og þar af leiðandi er hægt að tryggja að ekkert sýkt blóð fari í umferð. Nú verða stjórnvöld á Íslandi að taka þetta til sín og tryggja réttindi samkynhneigðra til að gefa blóð.

Flokkar: Dægurmál · Lögfræði

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur