Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, var að gefa út nýja bók, The Price of Inequality. Þar fjallar hann um hvernig aukinn ójöfnuður í Bandaríkjunum er að grafa undan efnahagslífinu, stjórnmálunum og samfélaginu. Ójöfnuðurinn er að eyðileggja samfélagið, segir hann.
Í bókinni gerir hann grein fyrir aukningu ójafnaðar í skiptingu tekna og eigna frá um 1980, eftir að frjálshyggjuáhrifa tók að gæta í mjög auknum mæli, m.a. með ríkisstjórnum Ronalds Reagan og Bush-feðganna.
Stiglitz sýnir hvernig hagvöxturinn í Bandaríkjunum á síðustu þremur áratugum rann að mestu leyti til ríkustu aðilanna, ríkustu 5% til 10% heimilanna.
Fólk með meðaltekjur er í dag með lægri rauntekjur en það hafði fyrir um 15 árum. Lágtekjufólk í Bandaríkjunum hafði í mörgum tilvikum lægri rauntekjur fyrir kreppu en það hafði um 1980.
En Stiglitz talar líka um það sem rannsóknir hafa verið að sýna í auknum mæli, nefnilega að verulega hefur fjarað undan ameríska draumnum á sama tíma.
Ameríski draumurinn er eins konar óformleg stjórnarskrá Bandríkjanna og stendur fyrir það, að Bandaríkin eigi að vera land tækifæranna. Fólk geti komist til bjargálna og velsældar með dugnaði í vinnu og útsjónarsemi.
Þeir fátæku eigi líka möguleika á að vinna sig upp í efri stéttir samfélagsins. Um þetta eru til miklar bókmenntir í Bandaríkjunum, t.d. dæmisögur Horatio Alger af ungum drengjum sem komust áfram í lífinu af eigin rammleika. Þetta eru allt að því trúarbragðalegar dæmisögur sem hafa haft áhrif á margar kynslóðir Bandaríkjamanna – og fleiri þjóða.
Ekki má heldur gleyma að nefna ævisögu Benjamíns Franklín, uppfindingamannsins kunna og hollráð hans til ungra manna. Þetta eru eins konar helgirit ameríska draumsins.
Rannsóknir bæði í félagsfræði og hagfræði hafa nú sýnt að á síðustu þremur áratugunum hefur mikið tapast í þessu í Bandaríkjunum, einmitt vegna aukins ójafnaðar í skiptingu lífskjaranna.
Margar Evrópuþjóðanna eru nú í meiri mæli “lönd tækifæranna” en sjálf Ameríka. Þar er nú auðveldara að vinna sig upp í samfélaginu en í Bandaríkjunum. Jafnvel í „hinni gömlu Evrópu“ (þó ekki Bretland, sem fylgir að mörgu leyti svipaðri stefnu og Bandaríkin). Skandinavísku samfélögin eru á toppnum í þessu efni.
Bandaríkjamenn þurfa í reynd að flytja til hinna skandinavísku velferðarríkja, á vit ríkisafskipta, jafnaðarstefnu og barnaheimila, til að njóta alvöru tækifæra!
Það er umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga að á árunum fram að hruni vorum við á bandarísku leiðinni. Við vorum hætt að leita til norrænu frændþjóðanna að fyrirmyndum – eins og Viðskiptaráð boðaði.
Óheftur fjármálakapítalismi var okkar framtíðarsýn, í boði frjálshyggjuróttæklinga og braskara. Ójöfnuður jókst sem aldrei fyrr. Og svo hrundi spilaborgin!
Nú erum við í meiri mæli á leið norrænu velferðarríkjanna. Það eru umskipti.
Stiglitz myndi segja að það væri okkur fyrir bestu, – bæði fyrir efnahagslífið, stjórnmálin og samfélagið.
Fyrri pistlar