Sunnudagur 04.11.2012 - 21:39 - FB ummæli ()

Margrét Thatcher jók fátækt og ójöfnuð

Frjálshyggjumenn – og hægri menn almennt – hafa glímt við ímyndavanda eftir hrun. Hrunið var jú hrun frjálshyggjustefnunnar.

Félag frjálshyggjumanna er á fullu að endurskilgreina sig, meðal annars sem hálfgerða hippa (sjá hér). Þeir kasta sauðagæru yfir gráðuga fjárglæfrafólið sem í þeim býr!

Margrét Thatcher hefur lengi verið ein helsta stjórnmálastjarna frjálshyggjumanna, ásamt Ronald Reagan. Þau voru bæði hafin til skýjanna af innvígðum hægri mönnum. Ríkisstjórnir þeirra þóttu bera af öðrum.

Þegar ég sá að Jón Magnússon, lögfræðingur í Sjálfstæðisflokknum, var búinn að skrifa grein í dag sem hann kallar “Umhyggjusama járnfrúin”, datt mér í hug að þarna væri kominn enn einn tilraunin til að tengja frjálshyggjuna við hugmyndafræði hippanna, með áherslu á frið, ást og umhyggju.

Svo var að vísu ekki alveg – en þó í áttina! Dregin var upp mynd af hinni “umhyggjusömu” frú Margréti Thatcher.

Í því samhengi er fróðlegt að skoða afleiðingar stjórnmálastefnu Thatchers. Endurspeglar frjálshyggja Thatchers mikla umhyggju gagnvart þeim sem minna mega sín í samfélaginu?

Frjálshyggjumenn eru almennt þekktir fyrir að hygla hátekju- og stóreignafólki, en láta lágtekjufólk sitja á hakanum.

Þannig vilja frjálshyggjumenn gjarnan lækka bætur og þrengja hag fátækra – telja að þá vilji þeir frekar vinna fyrir sér sjálfir. Ekki er þó alltaf spurt að því hvort störf sé að fá.

Lekakenning frjálshyggjunar (trickle-down theory) gengur svo út frá því, að mikilvægast sé að bæta hag hátekjufólks. Þaðan geti svo seytlað eitthvert fé niður til fátækra – ef auðmönnum þóknast.

En hvað segja staðreyndirnar um þróun fátæktar og ójafnaðar í stjórnartíð Margrétar Thatchers í Bretlandi, frá 1979 til 1990. Það má sjá á myndinni hér að neðan.

Myndin sýnir annars vegar hlutfall barna sem búa í fjölskyldum undir fátæktarmörkum (súlurnar) og hins vegar Gini ójafnaðarstuðul tekna (línan), frá 1961 til 2010.

Þróun barnafátæktar og ójafnaðar í Bretlandi, frá 1961 til 2010. (Heimild: Institute for Fiscal Studies). 

 

Bláu súlurnar eru stjórnartími Margrétar Thatchers.

Eins og sjá má stórjókst barnafátækt á stjórnartíma Thatchers úr um 13% í um 28%, eða meira en tvöfaldaðist. Fyrir tíma Thatchers hafði barnafátækt lítið breyst í um 20 ár.

Línan sýnir að ójöfnuður tekna jókst einnig á sama tíma. Gini stuðullinn fór úr um 0,24 upp í um 0,34 – sem er mikil aukning.

Stefna Margrétar Thatchers jók bæði ójöfnuð og barnafátækt – svo um munaði.

Á stjórnartíma John Majors, sem tók við af Thatcher, var barnafátækt áfram svipuð, en tók síðan að minnka umtalsvert í stjórnartíð verkamannaflokks Tony Blairs og Gordon Browns, eins og sjá má. Árið 2010 var barnafátæktin komin niður í tæp 18%. Ójöfnuður tekna breyttist hins vegar lítið eftir tíma Thatchers.

Frá 1979 til um 1983 lækkuðu lægstu tekjur að raungildi og hlutur launa af landsframleiðslu lækkaði umtalsvert á stjórnartíma Margrétar Thatchers, eða úr um 60% í um 54%, samkvæmt mati bresku launþegahreyfingarinnar (TUC). Lágtekjufólk dróst ekki bara aftur úr hátekjufólki, heldur fékk hluti þess raunlækkun ráðstöfunartekna eftir að Thatcher komst til valda.

Nú berast fregnir af því, að eftir að út í kreppuna kom hafi barnafátækt aftur tekið að aukast, þ.e. frá 2010. Hægri ríkisstjórn David Camerons komst til valda á árinu 2010 og beitir nú miklum niðurskurði opinberra útgjalda.

Frjálshyggjumenn tala oft um að ríkisstjórnir Thatchers hafi aukið hagsæld í Bretlandi og komið landinu á meiri hreyfingu. Hagsældaraukningin var hins vegar einkum í ranni hátekjufólksins. Þróunin var svipuð í Bandaríkjum Ronald Reagans.

Arfleifð Margrétar Thatchers er þannig aukin barnafátækt og aukinn ójöfnuður.

Ef það kallast umhyggjusöm stjórnmál, þá er ljóst að umhyggjan beindist einkum að hátekjufólki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar