Miðvikudagur 07.11.2012 - 21:25 - FB ummæli ()

Ameríkanar hafna auðmannapólitík

Eftir óvenju harða baráttu tapaði Mitt Romney fyrir Barak Obama í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í gær. Það gerðist þrátt fyrir að atvinnuleysi sé enn óvenju mikið. Raunar hafa sitjandi forsetar yfirleitt ekki fyrr náð endurkjöri í svo miklu atvinnuleysi.

Flokkur Mitt Romneys, Repúblikanar, færðist lengra til hægri í stjórnartíð Ronald Reagans, upp úr 1980, meðal annars með róttækri frjálshyggjustefnu, en einnig gætti þar vaxandi menningarróttækni trúarhópa.

Vaxandi róttækni og minnkandi umburðarlyndi hefur einkennt Repúblikana frá þeim tíma.

Í efnahagspólitík hafa Repúblikanar lagt höfuð áherslu á minna hlutverk ríkisins, skattalækkanir til fjárfesta og hátekjufólks, aukna markaðsvæðingu, fjármálavæðingu, afskiptaleysisstefnu og niðurskurð opinbera velferðarkefisins.

Í menningarpólitík hefur verið einkennandi andstaða við fóstureyðingar og samkynhneigða, rík trúrækni og almenn íhaldssemi í lífsháttum. Í utanríkismálum hefur gætt aukinnar þjónkunar við sérhagsmuni, eins og olíuiðnaðinn.

Á tímabilinu frá 1980 hefur ójöfnuður aukist mikið í Bandaríkjunum, raunar svo mikið að hagvöxturinn hefur að stærstum hluta runnið til yfirstéttarinnar, en millistéttin og fólk í tekjulægri hópum hefur setið eftir.

Bandaríkin breyttust úr því að vera samfélag millistéttarfólks í samfélag þar sem yfirstétt auðmanna hefur haft allan forgang eftir 1980, í krafti kenninga frjálshyggjunnar.

Þeir fátæku telja yfirleitt ekki með í Bandaríkjunum, enda voru þeir til dæmis ekki nefndir á nafn í kosningabaráttunni núna.

Stefna Mitt Romneys og Ron Pauls einkenndist af þessari arfleifð Repúblikanaflokksins. Róttækur niðurskurður opinbera velferðarkerfisins og skattalækkanir til auðmanna sögðu þeir leiða til aukins hagvaxtar, sem myndi svo skapa fleiri störf. Síðan bættist við menningaríhaldssemi, til að þóknast hægri róttæklingum í teboðshreyfingunni og réttrúnaðarsöfnuðum ýmsum.

Þetta er auðmannapólitík í bland við menningaríhaldssemi. Sjálfur er Mitt Romney auðmaður er efnaðist á fyrirtækjabraski, sem sagt er að hafi leitt til taps á bandarískum störfum, m.a. til Kína.

Þessari stefnu var sem sagt hafnað í gær – og einnig auðmanninum Mitt Romney sjálfum. Samt rak hann öfluga kosningabaráttu.

Barak Obama er alþýðumaður úr minnihlutahópi sem vann sig upp með góðri frammistöðu í menntun. Hann er holdgervingur ameríska draumsins, sem þó hefur látið á sjá eftir 1980 (sjá hér).

Það er auðvitað merkilegt að Obama skuli hafa náð endurkjöri, þrátt fyrir hið mikla peningaafl sem býr í Repúblikanaflokknum og djúpstæða fordóma sumra hvítra kjósenda í hans garð.

Þó Bandaríkjamenn hafi hafnað Repúblikönum núna er auðmannapólitíkin fjarri því að vera dauð í landi þeirra. Munur flokkanna er lítill og vald auðmanna er áfram mjög mikið í USA. Síðan er rétt að hafa í huga að Demókratar myndu teljast hægri flokkur í Evrópu um leið og Repúblikanar eru hægri róttæklingar á evrópskan mælikvarða. Miðjan er mjög langt til hægri í Bandaríkjunum.

Á Íslandi er það Sjálfstæðisflokkurinn sem stendur næst Repúblikanaflokknum, þó munur sé á (sjá hér). Sjálfstæðismenn hafa sjálfir færst mjög langt til hægri á síðustu tveimur áratugum og einmitt sótt mikið af fyrirmyndum í frjálshyggju hægri manna í Bandaríkjunum, þó ekki gæti hér amerískrar menningaríhaldssemi. Harðsvíruð hagsmunagæsla í þágu auðmanna, fjárfesta og atvinnurekenda hefur verið þeim mun sterkari í stefnu Sjálfstæðismanna.

Þó tengja megi frjálshyggju Sjálfstæðisflokksins við bóluhagkerfið og hrunið skelfilega sér þess engin merki að þeir ætli að breyta helstu stefnumálum sínum. Frjálshyggjuróttæknin og hagsmunagæsla fyrir yfirstéttarhópa blífur – eins og ekkert hafi í skorist.

Þeir boða nú að auki róttæka niðurskurðarstefnu, sem gæti rústað velferðarkerfinu og aukið ójöfnuð á ný.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig íslenskir kjósendur bregðast við í kosningum að vori.

Munu þeir fylgja fordæmi Bandaríkjamanna eða gefa tilraunamönnum frjálshyggjunnar annað tækifæri til að leggja fjöregg þjóðarinnar undir, í spilavíti hins óhefta kapítalisma?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar