Fimmtudagur 08.11.2012 - 22:36 - FB ummæli ()

Skattbyrði íslenskra fyrirtækja er lítil

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð koman reglulega fram með boðskap sinn um skattbyrði atvinnulífsins. Á morgun (föstudag) er von á nýrri skýrslu frá SA. Ég spái því að þeir muni syngja sama lagið og síðast!

Þeir munu segja að mikill fjöldi skattahækkana hafi dunið á þeim og að verið sé að skattleggja fyrirtækin út úr heiminum. Svo koma þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og taka undir – í barlómskór.

En hvað segja staðreyndirnar um málið?

Staðreyndirnar segja, að tekjuskattbyrði fyrirtækja á Íslandi sé með því minnsta sem þekkist í vestrænum samfélögum. Hún hefur að auki lækkað eftir 2007, en ekki hækkað.

Hér eru þrjár myndir með nýjum gögnum frá OECD. Fyrst er sýnt hversu stóran hluta af landsframleiðslu fyrirtæki raunverulega greiddu í tekjuskatta fyrir árið 2010.

Mynd 1: Raunveruleg skattbyrði fyrirtækja í OECD-ríkjunum 2010 (% af landsframleiðslu).

Eins og sjá má af myndinni var Ísland með lægstu tekjuskattbyrði af öllum OECD-ríkjunum. Ástæður þess eru þær, að álagning á íslensk fyrirtæki er almennt lág, frádráttarmöguleikar nokkuð rúmir og svo var árið 2010 botn kreppunnar. Þá var afkoma fyrirtækja lök, sem þýðir að þau greiddu að jafnaði lægri skatta en ella.

Á mynd 2 má sjá álagningarhlutfall í tekjuskatti fyrirtækja, fyrir árið 2011. Þar er sama sagan.

Mynd 2: Álagningarhlutfall í tekjuskatti fyrirtækja í OECD-ríkjum, árið 2011

Einungis fimm OECD-ríki eru með lægri tekjuskattsálagningu en Ísland. Önnur fjögur eru með sömu álagningu.

Þær þjóðir sem við berum okkur saman við eru allar með hærri álagningu á hagnað fyrirtækja, bæði norrænar þjóðir og helstu vestrænu hagsældarríkin – nema Írland.

Að lokum er svo sýnt hvernig raunveruleg tekjuskattbyrði fyrirtækja hefur þróast á Íslandi frá 1990 til 2010, í samanburði við meðaltal OEC D-ríkjanna.

Mynd 3: Þróun á tekjuskattbyrði fyrirtækja á Íslandi og í OECD-ríkjum, 1990 til 2010.

Tekjuskattbyrði fyrirtækja á Íslandi hefur verið talsvert lægri en meðaltal OECD-ríkjanna allan þennan tíma. Skattbyrðin jókst á Íslandi frá árinu 2000 til 2007, eða úr 1,2% af landsframleiðslu í 2,5%, með aukinni veltu fyrirtækja, ekki síst fjármálafyrirtækja.

Frá hámarkinu á toppi bóluhagkerfisins árið 2007 hefur skattheimtan af fyrirtækjum lækkað aftur úr 2,5% niður í 1% árið 2010. Skattbyrði fyrirtækja árið 2010 er svipuð og verið hafði árið 1995.

Önnur gjöld á fyrirtæki eru alls ekki sérlega há á Íslandi í samanburði við vestræn samfélög, til dæmis almannatryggingagjöld.

Það er því enginn fótur fyrir þeim síendurtekna málflutningi að skattbyrði fyrirtækja sé mikil á Íslandi. Þrátt fyrir að álagning hafi hækkað nokkuð eftir hrun er hún samt enn með allra lægsta móti.

Spyrja má hvort íslenskir atvinnurekendur séu óbilgjarnari í hagsmunabaráttu sinni en atvinnurekendur grannríkjanna? Svo virðist vera.

Hið opinbera tekur um og yfir 40% af landsframleiðslu í skatttekjur á ári hverju. Hlutur fyrirtækjanna í því var um 1% árið 2010. Það er því almenningur sem greiðir megnið af sköttunum sem renna til ríkis og sveitarfélaga, ekki fyrirtækin.

Miðað við barlóminn sem frá atvinnurekendum kemur mætti almenningur heldur betur láta í sér heyra!

Samt er þetta smápeningur sem fyrirtækin eru að greiða í tekjuskatta.

Kanski það væri þó ráð að fella alveg niður tekjuskattheimtu af fyrirtækjum og ná í staðinn inn sömu upphæð með skatti á eignir og tekjur stóreigna- og hátekjufólks. Það fólk er ekki með jafn mikla skattbyrði hér á landi og samsvarandi hópar á hinum Norðurlöndunum.

Þá myndum við kanski losna við leiðinlegan síbylju-barlóm fyrirtækjamanna!

Fyrirtækjamenn gætu þá líka sparað sér allan tímann og orkuna sem fer í áróður um skattbyrði og haft meiri tíma til að reka fyrirtækin.

Kanski reksturinn og framleiðnin gæti þá batnað…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar