Laugardagur 10.11.2012 - 18:19 - FB ummæli ()

Spiegel: Hnignun Bandaríkjanna

Bandaríkin voru lengst af land tækifæranna og öflugt nýsköpunarsamfélag, með góð og ört batnandi lífskjör fyrir almenning. Þau voru samfélag þar sem alþýðan gat flutt sig í vaxandi mæli upp í millistétt og komist til ágætra bjargálna. Ameríski draumurinn var raunverulegur fyrir marga.

Bandaríkin voru þannig að mörgu leyti leiðarljós framþróunar.

Á þessu hefur orðið breyting á síðustu þremur áratugum.

Ameríski draumurinn á nú meiri möguleika á að rætast í norrænu velferðarríkjunum, Kanada, eða í sumum hagsælli ríkjunum á meginlandi Evrópu, samkvæmt nýjum rannsóknum.

Hagur bandarísku millistéttarinnar hefur staðið því sem næst í stað frá um 1980 um leið og hagur ofurríkrar yfirstéttar hefur blómstrað sem aldrei fyrr. Fátækir hafa dregist afturúr, þrátt fyrir ágætan hagvöxt á tímabilinu.

Ójöfnuður hefur stóraukist á þessum tíma, með því að hagvöxturinn hefur að mestu leyti runnið til yfirstéttarinnar. Þetta er meðal annars boðskapur nýrrar bókar eftir Nóbelsverðlaunahagfræðinginn Joseph E. Stiglitz, The Prize of Inequality.

Kunningi minn sem lærði í Bandaríkjunum fyrir um 20 árum snéri aftur á slóðir skólaáranna fyrir skömmu. Hann var sleginn yfir því hve mikil afturför hafði orðið þar á mörgum sviðum. Sérstaklega nefndi hann hversu samgöngumannvirki og opinber rými ýmis konar höfðu látið á sjá.

Tímaritið Spiegel gerði hnignun Bandaríkjanna að umtalsefni nýlega í ítarlegri grein (sjá hér og hér og hér).

Sérstaklega fjallar tímaritið um veika stöðu ríkisvaldsins í Bandaríkjum nútímans.

Stormurinn Sandy sem skall á New York svæðið fyrir skömmu dró þennan veikleika að mörgu leyti upp á yfirborðið, líkt og gerðist þegar Katarína skall á New Orleans fyrir um 7 árum. Geta ríkisins til að verja borgarana gegn slíkri náttúruvá var ótrúlega lítilfjörleg.

Grunngerð samfélagsins í New York, New Jersey og á Nýja Englandi var reyndar orðin afar veikt löngu áður en stormurinn skall á. Enda var lítið um fyrirbyggjandi varnir, þó vitað væri af ógninni nokkrum dögum fyrr og að hætta væri mikil á svæðinu, vegna lítillar hæðar sumra þéttbýlissvæða yfir sjávarmáli.

Staða dreifikerfis rafmagns í þessu einu af stærstu þéttbýlissvæðum heimsins er til dæmis sambærileg við það sem er víða í þróunarlöndum, segir Spiegel, með rafmagnslínur hangandi á veikburða staurum en ekki grafnar í jörðu, eins og er algengast í þróaðri löndum. Slíkt dreifikerfi verður fyrir miklum áföllum í ofviðri.

Nú segja opinberar skýrslur í Bandaríkjunum að ein af hverjum fjórum brúm í þessu ríka landi sé ófullnægjandi eða úr sér gengin. Verja þurfi um 60% meiri fjármunum í brúaviðgerðir á hverju ári allt til 2050 til að koma þessu í lag!

Samanburðartölfræði ýmis konar sýnir einnig ítrekað að Bandaríkin eru ekki lengur með bestu lífskjör fyrir almenning eða bestu skilyrði í umhverfi samfélagsins (sjá hér). Meðaltekjur eru háar í Bandaríkjunum, meðal annars vegna þess hversu gríðarlega háar hæstu tekjur eru. Annað kemur mun lakar út í alþjóðlegum samanburði, ekki síst vegna mikils ójafnaðar í skiptingu lífsgæðanna.

En hvers vegna er svona komið fyrir þessu áður glæsta ríki, spyr Spiegel?

Helsta svarið sem þeir gefa er að hatur stórs hluta íbúa á ríkisvaldinu sé komið í slíkar öfgar að tilvist og farsæld þjóðarinnar stafi ógn af.

Fyrirvarar gagnvart of valdamiklu ríki hafa fylgt Bandaríkjunum frá öndverðu. Það er hins vegar vöxtur nýfrjálshyggjuáhrifa eftir um 1980 sem hefur fært þetta sjónarmið í algerlega nýjar hæðir.

Bandaríkjamenn áttu áður talsmenn öflugs ríkisvalds og lýðræðis í þágu almannahagsmuna. Franklín D. Roosevelt boðaði að með New Deal aðgerðum ríkisvaldsins í kreppunni miklu, sem byggðu öðru fremur á auknu hlutverki ríkisvaldsins við að bæta hag almennings, myndi frelsi almennings aukast. Frjálshyggjumenn nú til dags kalla slíkar aðgerðir hins vegar hættulegan sósíalisma og tilheyrandi skattheimtu kalla þeir eignaupptöku og ofbeldi!

Þeir vilja frekar afskiptaleysisstefnu hins opinbera og umfram allt lítið ríkisvald. Óheftur kapítalismi er þeirra draumur.

Dwight D. Eisenhover forseti Repúblikana lét ríkið gangast fyrir byggingu hins viðamikla þjóðvegakerfis milli fylkja á sjötta áratugnum (interstate highways). Það þótti mikið framfaraskref. Nú eru hraðbrautirnar að grotna niður því ríkið má ekki lengur sinna slíkum verkefnum, samkvæmt kokkabókum nýfrjálshyggjumanna. Bandaríkin hafa einnig dregist afturúr öðrum hagsælum þjóðum hvað snertir aðra þætti samgöngukerfa, svo sem í þróun hraðlesta.

Boðskiptakerfi síma og upplýsingatækni, sem að stórum hluta voru fundin upp í Bandaríkjunum, eru nú langt á eftir slíkum kerfum annars staðar á Vesturlöndum.

Menntakerfið hefur einnig dregist stórlega afturúr. Brottfall úr framhaldsskólum hefur aukist og námsárangur er ekki nógu góður. Bandaríkin höfðu lengi á 20. öld forskot á þessu sviði, en það er nú tapað. Hinir öflugu háskólar sem enn eru víða í Bandaríkjunum eru í vaxandi mæli að lokast nemendum úr tekjulægri hópum, vegna ofurhárra skólagjalda. Háskólarnir verða þannig í of miklum mæli vettvangur fyrir forréttindastéttina.

Lyndon B. Johnson lýsti yfir stríði ríkisvaldsins gegn fátækt í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum og innleiddi nýmæli í opinbera velferðarkerfið, sem aðrar vestrænar þjóðir höfðu reyndar löngu fyrr komið á hjá sér. Á fáum árum tókst með því að fækka fólki undir fátæktarmörkum um helming.

Nú lýsa frjálshyggjumenn, eins og Mitt Romney og Ron Paul, yfir stríði gegn fátækum og vilja rýra lök kjör þeirra stórlega. Nú segja þeir að þjóðin hafi ekki efni á hinu hófsama velferðarkerfi, þó hún sé orðið helmingi ríkari að jafnaði en var þegar Johnson innleiddi Medicaid og Medicare fyrir lágtekjufólk og aldraða.

Repúblikanar og frjálshyggjuróttæklingar hafa löngum viljað hafa herafla Bandaríkjanna sterkan til að tryggja vald þeirra í heiminum. Nú hafa Bandaríkjamenn varla efni á þeim styrjöldum sem þeir illu heilli komu sér í á Bush-tímanum. Enda vilja Repúblikanar ekki greiða skatta fyrir það, frekar en annað. Bandaríkin eru þó enn öflugasta herveldið.

Auðvitað hafa Bandaríkjamenn samt efni á að reka þokkalegt velferðarkerfi fyrir lágtekjufólk og almennt að hafa grunngrerð samfélagsins í góðu lagi, ef þeir einfaldlega vilja. Það sem er hins vegar nýtt er að yfirstéttin í Bandaríkjunum, sem nú er orðin miklu ríkari en nokkru sinnum fyrr, sættir sig ekki lengur við að greiða skatta eins og tíðkuðust fyrir 30-40 árum! Þar liggur vandinn. Þetta viðhorf berst svo niður til efri millistéttarinnar.

Skattalækkanapólitík fyrir fólk í hærri tekjuhópum er þannig að grafa undan ríkisvaldinu, hinu lýðkjörna valdi í Bandaríkjunum, um leið og vald auðmanna hefur aukist. Með því veikist getan til að sinna sameiginlegum þörfum þjóðarinnar.

Vítahringur vaxandi ójafnaðar og valdasamþjöppunar er þannig að draga Bandaríkin niður í svaðið. Með þeim sívaxandi klofningi sem einkennir stjórnmálin þar í landi er erfitt að sjá að skilyrði verði á næstunni til að snúa þessari þróun við.

Lexían af þessari þróun er hins vegar sú, að til að tryggja farsæld almennings í nútímasamfélögum þarf bæði öflugt lýðræðislegt ríkisvald og öflugan markað.

Óheftur kapítalismi með veiku ríkisvaldi grefur undan samfélaginu og fórnar hag almennings. Auðræði fámennrar yfirstéttar er afleiðing slíkrar skipanar.

Það er núverandi leið Bandaríkjanna og afleiðingar hennar koma sífellt betur í ljós.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar