Laugardagur 09.02.2013 - 11:40 - FB ummæli ()

Skattbyrði: Frjálshyggjumenn leiðréttir

Birgir Runólfsson, samstarfsmaður Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, fór með staðlausa stafi um skrif mín um skattbyrði á árunum 1991 til 2007, í nýlegum pistli á Eyjunni. Hann fullyrti eftirfarandi:

“Skattar voru sem kunnugt er lækkaðir verulega hér á landi árin 1991–2007. Stefán Ólafsson prófessor hélt því hins vegar fram í grein í Morgunblaðinu 18. janúar 2006 undir heitinu „Stóra skattalækkunarbrellan“, að þessar skattalækkanir væru blekkingar. Mestu réði um það að sögn hans, að skattleysismörk hefðu ekki verið hækkuð með verðlagi, svo að hærra hlutfall fólks en áður lenti ofan skattleysismarka. En Stefán gleymdi að taka með í reikninginn, að á tímabilinu var lífeyrissparnaður gerður skattfrjáls (eða skattgreiðslum af honum frestað fram á lífeyrisaldur). Þegar það var gert, kom í ljós, að skattleysismörk voru svipuð allt tímabilið 1993 til 2007.” (undirstrikun mín)

“Ályktunin er einföld: Það stóðst ekki, að skattar hefðu 1991–2007 verið hækkaðir í laumi með því að lækka skattleysismörk. Lækkun þeirra var óveruleg.”

Skemmst er frá því að segja, að þetta er kolrangt hjá Birgi Runólfssyni. Í tölum mínum og meðhöfundar míns um skattbyrði er allur leyfilegur frádráttur meðtalinn, t.d. barnabætur, vaxtabætur, persónuafsláttur (sem myndar skattleysismörkin) og líka lífeyrisiðgjöld.

Tölur okkar eru þannig rauntölur um skattbyrði fólks í ólíkum tekjuhópum, í reynd það sem kom upp úr kössunum hjá Ríkisskattstjóra. Þetta er það sem á ensku er kallað “net effective tax burden”, þ.e. það sem fólk greiddi í reynd í beina skatta, að teknu tilliti til álagningar og allra frádrátta skv. skattalögum.

Birgir Runólfsson er að tyggja þessar rangfærslur upp eftir Hannesi Hólmsteini (sjá t.d. hér). Allt sem Hannes hefur sagt um meintar “reiknivillur” mínar varðandi skattbyrði, bæði um lífeyrisiðgjöld og annað, er alveg jafn rangt og hjá Birgi.

Annað hvort skilja þeir félagar ekki gögn Ríkisskattstjóra og Hagstofunnar um skattgreiðslur fólks eða þeir segja vísvitandi ósatt um verk mín og meðhöfundar míns.

Skrif mín og samstarfsmanns míns um tekjuskiptingu og skatta á fræðavettvangi eru empirísk skrif. Þau eru lýsingar og fræðilegar greiningar á þróun tekjuskiptingarinnar og skattbyrðarinnar. Við höfum ekki tekið afstöðu til niðurstaðna né kveðið upp gildisdóma um þróunina, einungis lýst henni.

Í nálægum löndum telst það til brota á siðareglum fræðasamfélagsins að segja ranglega frá verkum og niðurstöðum annarra og villa þannig um fyrir almenningi. Hvað þá ef rangfærslurnar eru að auki notaðar til að ófrægja mannorð viðkomandi.

Ef ofangreind skrif þessara frjálshyggjumanna eru ekki vísvitandi blekkingar þá eru þau ótrúlegt fúsk.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar