Laugardagur 13.04.2013 - 22:52 - FB ummæli ()

Reiknivillan í kosningastefnu Sjálfstæðisflokks

Kjarninn í kosningastefnu Sjálfstæðisflokksins er mikil lækkun skatta.

Loforð þeirra um skattalækkanirnar nema um 100 milljörðum eða meira, skv. lauslegu mati.

Svo segja þeir að skattalækkanir þeirra muni skapa stórauknar tekjur ríkissjóðs – eins og hendi verði veifað! Þær auknu tekjur muni duga til að greiða fyrir önnur kosningaloforð og einnig til að greiða niður skuldir ríkissjóðs!

Þessa speki byggir Sjálfstæðisflokkurinn á línuriti sem Hannes Hólmsteinn lét teikna fyrir sig og átti að sýna, að þegar skattaálagning á fyrirtæki var lækkuð úr 50% í 30% þá hafi skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum nærri tvöfaldast (sjá hér bls. 2 og hér).

Það væri auðvitað galdur ef hægt væri í reynd að lækkað skatta um helming en samt nærri tvöfalda skatttekjur ríkisins! Þeir sem það gætu færu létt með að byggja eilífðarvél – ja eða að láta vatn renna uppímóti!

 

Reiknivilla Hannesar Hólmsteins

Sú niðurstaða að skattalækkun myndi stórauka skatttekjur ríkisins fékkst hins vegar með alvarlegri reiknivillu Hannesar Hólmsteins. Hann reiknaði einungis álagningarhlutfallið en gleymdi að taka frádráttarliðina inn í dæmið. Það breytir öllu um raunverulega skattbyrði.

Vita ekki allir aðrir en Hannes Hólmsteinn og félagar að það sem einstaklingar og fyrirtæki greiða í skatta ræðst bæði af álagningu og frádráttarliðum? Menn sjá þetta auðvitað á skattframtali sínu…

Eins og Samtök atvinnulífsins (SA) hafa sýnt þá var þrengt mjög að frádráttarliðum í tekjuskatti fyrirtækja um leið og álagningarhlutfallið var lækkað úr 50% í 30% á tímabilinu 1990 til 2000 (sjá hér). Vegna minnkunar frádráttarliða jókst raunveruleg skattbyrði í reynd úr 24% í 27% af hagnaði, í stað þess að lækka.

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir tölur Samtaka atvinnulífsins (SA) um raunverulega skattbyrði og álagningarhlutfall í tekjuskatti fyrirtækja.

Tekjuskattur fyrirtækja 1990-2000

Skattalækkunin sem í reynd var skattahækkun! Tekjuskattbyrði fyrirtækja frá 1990 til 2000, skv. mati Samtaka atvinnulífsins (sjá hér).

 

Þegar tekið er tillit til frádráttarliðanna þá kemur í ljós að skattalækkunin sem Hannes Hólmsteinn og félagar flögguðu var í reynd skattahækkun, eins og útreikningar SA sýna.

Þegar álagningarhlutfall tekjuskattsins var 50% árið 1990 greiddu fyrirtæki í reynd um 24% af hagnaði sínum í tekjuskatt, að teknu tilliti til frádráttarheimilda, en þegar álagningin var komin niður í 30% var raunveruleg skattbyrði um 27%.

Yfirsjón Hannesar Hólmsteins og félaga snéri útkomunni á haus! “Skattalækkunin” var í reynd skattahækkun.

Þess vegna jukust tekjur ríkissjóðs og einnig vegna hagsveiflunnar, með auknum hagvexti frá 1995 (sjá nánar hér). Engin vúdú-áhrif Laffers komu þar við sögu.

Það sama gerðist í tekjuskatti einstaklinga. Álagningin þar var lækkuð en persónufrádrátturinn/skattleysismörkin rýrð verulega svo fólk greiddi skatt af sífellt stærri hluta teknanna. Þannig jukust tekjur ríkissjóðs – ekki vegna neinna vúdú-áhrifa heldur með beinni stækkun skattstofnsins (sjá hér og hér).

Línurit Hannesar var ekki bara sett fram á villandi hátt og með skökkum tölum (sjá hér). Það var einnig byggt á risastórri reiknivillu. Hannes gleymdi að taka frádráttarliðina inn í dæmið og snéri niðurstöðunni á haus!

 

Frjálshyggjumenn plata Sjálfstæðisflokkinn – einu sinni enn!

Og nú hefur sjálfur Sjálfstæðisflokkurinn byggt kosningastefnu sína á þessari reiknivillu frjálshyggjumanna. Sjálfstæðismenn halda að stórlækkun skatta muni leiða til stóraukinna skatttekna ríkissjóðs! Kanski er það stærsta blekking íslenskrar stjórnmálasögu.

Niðurstaðan verður sú, ef þessi stefna verður framkvæmd, að halli á ríkissjóði mun verða gríðarlegur og leiða til aukinnar skuldasöfnunar eða mikils niðurskurðar á velferðarkerfinu.

Ég efast um að nokkur hægri flokkur í Evrópu myndi byggja kosningastefnu sína á svo villtri útfærslu á vúdú-hagfræði Arthurs Laffers. Repúblikanar í Bandaríkjunum gera það hins vegar, en þó á mun hóflegri hátt en er í þessari hlægilegu íslensku vúdú-hagfræði.

Frægar skattalækkanir Bush-stjórnarinnar í USA skiluðu einungis um 10% örvunaráhrifum í efnahagslífinu en 90% þeirra bættust við hallann á ríkisbúskapnum – þær misheppnuðust með öllu og juku skuldir ríkisins (sjá hér).  Hátekjufólk fékk hins vegar kjarabætur af þessum skattalækkunum – á kostnað ríkissjóðs og velferðarkerfisins.

Sjálfstæðisflokkurinn lét Hannes Hólmstein plata sig upp úr skónum! Enginn annar flokkur mun semja við þá um slíkt prógram að loknum kosningum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar