Þriðjudagur 16.04.2013 - 08:50 - FB ummæli ()

Brynjari svarað: Gagnrýni er ekki hatur.

Brynjar Níelsson ber sig illa undan gagnrýni minni á Sjálfstæðisflokkinn og segir hana bera vott um djúpstætt hatur mitt á flokknum.

Ég hef vissulega gagnrýnt flokkinn harkalega. En það er af málefnalegum ástæðum sem hafa ekkert með hatur að gera. Ég hef raunar kosið Sjálfstæðisflokkinn, en ekki eftir 1995. Eftir það fannst mér hann fara verulega afvega, vegna ofuráherslu á harða bandaríska frjálshyggju.

Eftir 1995 stýrðu Sjálfstæðismenn efnahags- og fjármálum þjóðarinnar inn í stærsta bóluhagkerfi heimssögunnar og þaðan í stærsta fjármálahrun sömu sögu. Tjón almennings af hruninu er gríðarlegt og mun taka þjóðina langan tíma að vinna bug á því.

Er þetta ekki gagnrýniverð framvinda?

Á þessari vegferð bjuggu Sjálfstæðismenn hátekju- og stóreignafólki fordæmalaus fríðindi sem leiddi til stóraukins ójafnaðar um leið og lágtekjufólk var skilið eftir. Má ekki gagnrýna það?

Lögð voru peningafæribönd frá Íslandi til erlendra skattaskjóla, þangað sem auður þjóðarinnar streymdi skattfrjáls. Margir sómakærir Sjálfstæðismenn af gamla skólanum voru ekki sáttir við þetta.

Nú er staðan sú, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki gert upp við mistök sín, eins og Styrmir Gunnarsson, Vilhjálmur Egilsson og Benedikt Jóhannesson hafa ítrekað, nú síðast fyrir fáum dögum. Sama frjálshyggjutrúboðið ræður ferðinni í flokknum og ætlar engu að breyta – bara gefa í á frjálshyggjutrukknum, ef eitthvað er.

Fyrir komandi kosningar býður Sjálfstæðisflokkurinn svo uppá vúdú-hagfræði sem keyrir um þverbak. Flokkurinn boðar miklar skattalækkanir sem hann segir að muni stórauka skatttekjur ríkissjóðs – með töfrabrögðum sem hvergi hafa verið framkvæmd.

Það er í fínu lagi að boða skattalækkanir, en þá eiga menn að segja hvað verður skorið niður í opinberum útgjöldum, hvar í velferðarkerfinu verður dregið saman. Staða ríkisfjármálanna er viðkvæm eftir hrunadansinn og ekki á skuldirnar bætandi.

Um 90% af skattalækkunum Bush-stjórnarinnar í BNA fóru beint á hallareikning ríkisins og eiga sinn þátt í viðvarandi fjárlagahalla og skuldavanda þar á bæ. Einungis um 10% af þessum skattalækkunum skiluðu sér í örvun hagkerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn gerir ekki bara ráð fyrir að allar skatttekjur ríkisins haldi sér (100%) heldur aukist tekjurnar um allt að helming til viðbótar (með 200% örvunaráhrifum)!

Frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum halda að helmings lækkun skatta geti skilað sér í tvöföldum skatttekna! Þetta er fordæmalaust fleipur – jafnvel í heimi vúdú-hagfræðinnar!

Til viðbótar er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hugsar skattalækkanir sínar þannig að þær nýtist hátekjuhópum best. Aflagning auðlegðarskattsins er þeim efst í huga (sjá t.d athyglisverða umræðu um skattamál í þættinum Stóru málin: Skattarnir á Stöð 2, sem ég tók þátt í).

Svo boða áhrifamenn í flokknum „hreinsanir“ hjá RÚV og í opinberu stjórnsýslunni!

Er það virkilega undrunarefni að Sjálfstæðisflokkurinn sæti gagnrýni?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar