Fimmtudagur 18.04.2013 - 08:31 - FB ummæli ()

Ójöfnuður og ríkidæmi fyrir hrun

Hægri menn gera jafnan lítið úr aukningu ójafnaðar á Íslandi á áratugnum fram að hruni. Eins og frjálshyggjumenn í Bandaríkjunum eru þeir almennt ekki andvígir ójöfnuði, enda stuðlar stefna þeirra iðulega að auknu ríkidæmi hátekjufólks, bæði með auknu frelsi á fjármálamarkaði og skattaívilnunum til hátekju- og stóreignafólks.

Það er eitt að megineinkennum frjálshyggjutímans á Íslandi frá 1995 til 2007 að ójöfnuður jókst stig af stigi, með ört vaxandi hraða eftir aldamótin. Ríkidæmi hátekjuhópanna varð fordæmalaust í íslenskri samfélagsþróun. Ríkidæmið var sérstaklega nátengt fjármagnstekjum, sem koma mest í hlut hátekjuhópa og báru umtalsvert lægri skatta en tekjur vinnandi fólks.

 

Ójafnaðarþróunin

Hér eru fjórar myndir sem sýna þróun ójafnaðarins og ríkidæmisins á Íslandi, bæði fyrir og eftir hrun. Þær koma úr rannsóknarverkum sem við Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur höfum unnið á síðustu misserum (sjá ítarlega umfjöllun hér).

Fyrsta myndin sýnir Gini-ójafnaðarstuðulinn, annars vegar fyrir allar skattskyldar tekjur (svörtu súlurnar) og hins vegar þegar söluhagnaði fjármagnstekna er sleppt. Því hærri sem Gini stuðullinn er þeim mun meiri er ójöfnuðurinn.

Slide1

Mynd 1: Þróun tekjuójafnaðar frá 1993 til 2010. Ráðstöfunartekjur fjölskyldna eftir skatta og bætur, með og án söluhagnaðarhlutar fjármagnstekna.

 

Þarna má sjá hvernig aukning ójafnaðarins er nær samfelld frá 1996 til 2007, með vaxandi hraða þó. Hámarki náði ójöfnuðurinn árið 2007 en lækkaði svo eftir hrun. Árið 2010 var tekjuójöfnuðurinn almennt orðinn svipaður og verið hafði rétt fyrir aldamótin 2000.

Gráu súlurnar eru án söluhagnaðarhluta fjármagnstekna (sem er sama tekjumæling og Hagstofan notar í úrtakskönnunum sínum). Söluhagnaður var mjög vaxandi í bóluhagkerfinu upp úr aldamótum, en hann er einkum afrakstur brasks og spákaupmennsku á fjármálamarkaði og hlutabréfamarkaði, sem er algengast í allra tekjuhæstu hópunum. Þegar þeim er sleppt mælist tekjuskiptingin ekki eins ójöfn, enda tekjur hátekjuhópa þá vantaldar. Þróunin er samt svipuð.

Munur svörtu og gráu súlnanna sýnir áhrif bóluhagkerfisins á ójöfnuð tekjuskiptingarinnar. Svörtu súlurnar gefa réttustu myndina af ójöfnuðinum, því þar eru allar skattskyldar tekjur meðtaldar (að frátöldu því fé sem rann í erlend skattaskjól, sem var umtalsvert).

Þessi aukning ójafnaðar er meiri en sést hefur í öðrum vestrænum löndum á síðustu 60 árum eða svo. Á hinum Norðurlöndunum jókst ójöfnuður tekna meira en í OECD-ríkjunum að meðaltali frá um 1995 til 2005. Ísland fylgdi þeirri þróun í fyrstu en með meiri hraða frá lokum tíunda áratugarins. Ísland fór framúr hinum norrænu þjóðunum í ójafnaðarþróun á árinu 2001 ef miðað er við allar skattskyldar tekjur en 2005 ef sleppt er helmingi fjármagnstekna (eins og er gert í könnunum Hagstofunnar) (sjá hér og hér).

Bóluhagkerfið var veisla hátekjuhópanna á Íslandi. Tekjuhlutdeild ríkasta eins prósents íbúanna fór úr um 4% af heildartekjum heimilanna í rúm 19% frá 1996 til 2007.

 

Ríkidæmið á Íslandi fyrir hrun

Næsta mynd sýnir prósentuaukningu ráðstöfunartekna fjölskyldna í ólíkum tekjuhópum á tímabilinu öllu frá 1995 til 2007, aðskilið fyrir þá allra ríkustu, efstu tíu prósentin, miðtekjufólk (þá sem eru í miðjum tekjustiganum) og fyrir lágtekjufólk. Það gefur gagnsærri mynd af aukningu ójafnaðarins en Gini-stuðullinn.

Slide2

Mynd 2: Raunaukning kaumáttar ráðstöfunartekna (fast verðlag) frá 1995 til 2007, eftir ólíkum tekjuhópum: hátekjufólk, miðtekjufólk og lágtekjufólk.

 

Hér verður aukning ójafnaðarins áþreifanlegri. Hún kom fram í því að ráðstöfunartekjur tekjuhæsta eins prósents fjölskyldna á Íslandi jukust um alls 1048 % (eitt þúsund fjörutíu og átta prósent) á tímabilinu öllu á meðan ráðstöfunartekjur miðtekjufólks jukust um 79% alls. Aukning tekna lágtekjufólks var hins vegar aðeins um 64% á sama tíma.

Aukning tekna ríkasta eins prósentsins var um sextán sinnum meiri en hjá lágtekjufólkinu. Ekki tvöföld, ekki þreföld, ekki tíföld – heldur sextánföld.

Þegar menn segja að tekjur allra hafi aukist eitthvað á tímabilinu þá er það rétt, en tekjur hátekjufólksins jukust margfalt á við tekjur hinna sem voru neðar í tekjustiganum. Allra tekjulægsta fólkið sat eftir.

 

Rauntekjur á mánuði

Á næstu mynd má svo sjá hvernig raunverulegar mánaðartekjur fjölskyldna í þessum ólíku tekjuhópum þróuðust frá 1993 til 2010.

Þar sjást yfirburðir tekjuhæsta eins prósentsins enn skýrar. Tekjuaukningin þar var svo miklu meiri en hjá lægri tekjuhópunum að varla má greina neina breytingu hjá miðtekjuhópnum á myndinni (neðsta línan), munur breytinganna er svo mikill.

Slide3

Mynd 3: Heildartekjur fjölskyldna í ólíkum tekjuhópum á mánuði, frá 1993 til 2010. Fast verðlag ársins 2010.

 

Mynd 3 sýnir þannig þann mikla mun sem varð milli tekjuhópa, með því að hátekjufólk hækkaði langt umfram alla aðra. Þetta var fordæmalaus gróðatími fyrir hátekju- og stóreignafólk á Íslandi, raunar alveg frá um 1998 er nýi fjármagnstekjuskatturinn var innleiddur og þegar áhrifa af auknu frelsi og veltu á hlutabréfamarkaði fór að gæta með vaxandi þunga.

Bóluhagkerfið var þannig gríðarlega ábatasamur tími fyrir hátekjufólk. Það er auðvitað meginástæðan fyrir því að það gekk jafn langt og raun bar vitni. Ekki einungis naut hátekjufólkið fordæmalausrar tekjuaukningar, heldur bættu stjórnvöld í og veittum þeim einnig skattfríðindi á sama tíma, sem voru einstaklega mikil miðað við OECD-ríkin. Skattbyrði lágtekjufólks jókst hins vegar á sama tíma.

Þrátt fyrir að tekjuskiptingin hafi snúist aftur í átt til þess sem var fyrir mestu þensluárin, þá hefur ekki öll aukning ójafnaðarins sem varð eftir 1995 gengið til baka á árinu 2010. Rauntekjur ríkustu hópanna voru á árinu 2010 svipaðar og verið hafði árið 2000.

Þó má ætla að ójöfnuðurinn á Íslandi sé nú kominn á svipað ról og á hinum Norðurlöndunum á árinu 2012.

 

Tekjuhlutdeild ríkasta eins prósentsins: Ísland og BNA samanborin

Að lokum sýni ég hér mynd af tekjuhlutdeild þeirra allra ríkustu á Íslandi í samanburði við Bandaríkin. Miðað er við allar skattskyldar tekjur fyrir skatt. Línurnar sýna hlutdeild ríkasta eins prósentsins af heildartekjum fjölskyldna í hvoru landi.

Slide3

Mynd 4: Tekjur ríkasta eins prósentsins sem hlutfall heildartekna heimilanna. Allar skattskyldar tekjur fyrir skatt.

 

Hér má sjá að aukning tekna ríkasta eins prósentsins á Íslandi var mun örari en sambærilegs hóps í Bandaríkjunum. Þar hafði aukning ójafnaðarins hafist um 1980 og tengdist það frjálshyggjustefnu Reagan-stjórnarinnar. Sambærilegra áhrifa gætti í Bretlandi á Thatcher-tímanum. Hér byrjaði sambærileg þróun seinna, en fór fram með mun meiri hraða.

 

Einstök þróun

Saga ójafnaðarþróunarinnar á Íslandi frá 1995 til 2007 er þannig einstök, rétt eins og bóluhagkerfið íslenska sem gat af sér hrunið.

Aukning ójafnaðar var nátengd bóluhagkerfinu og stjórnarstefnu ríkisstjórna þessa tíma. Bóluhagkerfið, afskiptaleysis- og skattastefnan sem hér ríkti skapaði skilyrði fyrir hátekjufólk til að braska með lánsfé sér til mikils ábata. Það var nýtt til hins ýtrasta, mun meira en sést hefur í öðrum vestrænum samfélögum.

Afleiðingin varð verulega mikil aukning ójafnaðar og fordæmalaust ríkidæmi þeirra ríku á Íslandi.

Umskiptin til meiri jafnaðar eftir hrun urðu bæði vegna hruns bóluhagkerfisins (fjármagnstekjur ríka fólksins lækkuðu verulega) og vegna aukinna jöfnunaráhrifa stjórnarstefnunnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar