Laugardagur 20.04.2013 - 13:50 - FB ummæli ()

Tap Samfylkingar og VG til Framsóknar

Það er alltaf álitamál hvernig haga skuli kosningabaráttu. Áherslumál og yfirbragð kynningarstarfsins skipta máli.

Mér sýnist að stjórnarflokkunum báðum hafi yfirsést að þeir hafa hvor um sig tapað nærri einum af hverjum fimm sem kusu þá 2009 yfir til Framsóknar, skv. nýjustu könnunum (sbr. Fréttablaðið í gær). Stærsti straumurinn er þangað. Smáflokkarnir taka þó líka umtalsvert.

Einn af hverjum fimm fer til Framsóknar.

Ljóst má vera að þeir sem um ræðir vilja taka hinu ágæta tilboði Framsóknar um viðamikla skuldaniðurfellingu til heimila, í boði erlendra kröfuhafa.

Þó það hafi verið mikilvæg og að mörgu leyti árangursrík stefna stjórnarflokkanna að létta skuldabyrðum af heimilum með lægri og milli tekjur þá vill fólk enn meiri stuðning.

Greinilegt er að um fimmtungur af fyrra fylgi stjórnarflokkanna er á þeirri skoðun og telur stjórnarflokkana ekki sýna nógu mikla ákveðni í að halda áfram þessari velferðarstefnu þeirra í þágu heimilanna.

Í því samhengi finnst mér það vera misráðið í kosningabaráttu Samfylkingar og VG að leggja ekki meiri áherslu á vilja sinn til að leita allra leiða til að styðja heimilin enn frekar.

Í staðinn ráðast sumir talsmenn, einkum úr röðum Samfylkingarinnar, á Framsókn með óþarfa gífuryrðum og úrtölum. Vissulega er óvissa um hversu fær leið Framsóknar er, en hana má reyna, m.a. í bland við skattaleiðina sem Össur Skarphéðinsson hefur reifað í þessu samhengi.

Í gær kvartaði varaformaður Framsóknar yfir því að aðrir flokkar hafi ekki tekið undir þessi áform Framsóknar um að leita leiða til frekari úrbóta í skuldamálunum. Hann sagði það skipta öllu um með hverjum Framsókn vilji vinna eftir kosningar og útilokaði ekkert (ólíkt því sem sagt er í fyrirsögn fréttarinnar).

Er ekki sóknarfæri fyrir stjórnarflokkana einmitt í því falið að taka betur undir með Framsókn, eða kynna kröftugri eigin vilja til að leita frekari skuldaúrræða?

Með því auka stjórnarflokkarnir möguleika á að endurheimta eitthvað af fyrra fylgi sínu og auka í leiðinni möguleika á að Framsókn vilji starfa með þeim í nýrri stjórn. Svo semja menn um útfærslur þegar á hólminn er komið (t.d. flata eða hallandi niðurfellingu o.s.frv.).

Það er varla góð strategía hjá stjórnarflokkunum að stuðla sérstaklega að samstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks – eða hvað?

 

 

Síðasti pistill: Atvinnuleysi – Írland og Ísland samanborin

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar